Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      Chicago 2022

      júní 26, 2022

      Daglegt líf

      Íþróttaferilsskrá Halldóru Proppé

      júní 20, 2022

      Daglegt líf

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Daglegt líf

      Snæfellsjökull #2 2022

      maí 29, 2022

      Daglegt líf

      Fyrsta útilega ársins 2022

      maí 29, 2022

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      Halldóra óstöðvandi

      apríl 11, 2022

      Fjallahlaup

      TOR ferðasagan í heild sinni

      október 26, 2021

      Fjallahlaup

      Mesta afrek Halldóru

      október 25, 2021

      Fjallahlaup

      Halldóra hljóp 350 km nær stanslaust í rúma…

      október 17, 2021

      Fjallahlaup

      #7 Tor dés Geants, Rey (Ollomont) – Courmayeur

      september 17, 2021

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Keppnissaga

      Stjörnuhlaupið 2022

      maí 22, 2022

      Keppnissaga

      ÍR hlaupið á Sumardaginn fyrsta

      apríl 21, 2022

      Keppnissaga

      Vasaloppet 90 – sunnudagur 06.03.2022

      mars 6, 2022

      Keppnissaga

      Nattvasan 90 – föstudagskvöld 04.03.2022

      mars 4, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

      Þríþraut

      ITU Grand Final ólympísk þríþraut

      september 1, 2019

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      Chicago 2022

      júní 26, 2022

      Daglegt líf

      Íþróttaferilsskrá Halldóru Proppé

      júní 20, 2022

      Daglegt líf

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Daglegt líf

      Snæfellsjökull #2 2022

      maí 29, 2022

      Daglegt líf

      Fyrsta útilega ársins 2022

      maí 29, 2022

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      Halldóra óstöðvandi

      apríl 11, 2022

      Fjallahlaup

      TOR ferðasagan í heild sinni

      október 26, 2021

      Fjallahlaup

      Mesta afrek Halldóru

      október 25, 2021

      Fjallahlaup

      Halldóra hljóp 350 km nær stanslaust í rúma…

      október 17, 2021

      Fjallahlaup

      #7 Tor dés Geants, Rey (Ollomont) – Courmayeur

      september 17, 2021

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Keppnissaga

      Stjörnuhlaupið 2022

      maí 22, 2022

      Keppnissaga

      ÍR hlaupið á Sumardaginn fyrsta

      apríl 21, 2022

      Keppnissaga

      Vasaloppet 90 – sunnudagur 06.03.2022

      mars 6, 2022

      Keppnissaga

      Nattvasan 90 – föstudagskvöld 04.03.2022

      mars 4, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

      Þríþraut

      ITU Grand Final ólympísk þríþraut

      september 1, 2019

Author

Halldóra

Halldóra

FjallahlaupKeppnisKeppnissaga

KEPPNISSAGA – Trail De Sierra De Las Nieves

by Halldóra nóvember 17, 2014

Hlaupið: 102 km fjallahlaup – 2800 m hækkun – 8. nóvember 2014.
Staðsetning: Hlaupið hófst í Benehavis, sem er í Malaga héraði í Andalúsíu á Spáni. Síðan var farið upp í snjófjöllin, þ.e. Sierra de Las Nieves og endað á að hlaupa fram hjá fjallaþorpinu Istán.
Ferðafélagar: Guðmundur Smári Ólafsson og Viggó Ingason.

Vekjaraklukkan hringdi klukkan sex að morgni keppnisdagsins. Viggó og Guðmundur hituðu sér hafragraut en ég lét kornflex og kaffibolla duga. Við vorum búin að græja allt í bakpokann nema vatnið svo eftir sturtu var fyllt á með vatni og aðeins kíkt í tölvuna. Þá kom í ljós að búið var að fresta ræsingu um eina klukkustund, þ.e. til klukkan 10 í stað klukkan 9 vegna þoku. Þá var ekkert annað að gera en að skríða aftur upp í. Ég notaði tækifærið og plástraði allar tærnar með silkiplástri og smurði vel með vaselíni áður en ég fór í sokkana. Ég náði ekki að sofna aftur þótt ég hafi ekki sofið vel nóttina á undan, eins og gerist reyndar oft fyrir keppni, en það var ágætt að ná að hvíla sig aðeins.

Við komum okkur út úr íbúðinni í tíma, eftir að hafa borðað aðeins meira, þ.e. eitt ristað brauð með osti og sultu og meira kaffi. Við vorum búin deginum á undan að finna rásstaðinn, sem betur fer, því það tók sinn tíma, samt var hann einungis í um fjögurra km fjarlægð frá íbúðinni okkar. Þegar við komum á staðinn um klukkan níu var ennþá frekar mikill þoka upp í fjallinu en það átti að ræsa fjallahjólin stundvíslega klukkan 10:00 og okkur fimm mínútum síðar.

Ég náði að fara síðustu ferðina á salernið í golfhúsinu fyrir ræsingu (var örugglega búin að fara þrisvar til fjórum sinnum heima um morguninn ha ha ha 😉 Svo var komið að því. Fyrst voru hjólin ræst, þ.e. fjallahjólin, þau sem voru að fara 102 km og 39 km öll á sama tíma. Ég viðurkenni það alveg að hafa hugsað á þessum punkti: Af hverju var ég ekki að fara að keppa á fjallahjóli frekar en á tveim jafnfljótum? Ég á þetta fína TREK SUPERFLY FS fulldempað hjól heima sem hefði hentað súpervel í þessum aðstæðum 😉 En það var ekki í boði.

Rétt áður en við fórum af stað komst ég að því að nýja spænska SIM símakortið sem ég hafði keypt deginum á undan virkaði ekki. En Viggó fór í málið og fékk það til að virka rétt áður en við fórum af stað. Ég ætlaði nefnilega að vera svo dugleg að láta vita af mér á leiðinni, en svo var símasamband og 3G samband mjög lélegt og takmarkað allan hringinn. Rétt fyrir ræsingu fékk ég skilaboð frá Rúnari þar sem hann óskaði mér góðs gengis og minnti mig á að ég væri eingöngu að keppa við sjálfa mig og komast heil í mark, það væri númer eitt, tvö og þrjú. –Frábær skilaboð á réttum tíma og það var frábært að fá alla hvatninguna og kveðjurnar að heiman.

Við vorum ræst klukkan 10:05. Við gátum hlaupið nokkra metra, áður en klifrið tók við en við höfðum ekið upp eftir fyrstu 5 km deginum á undan svo ég vissi hvað beið mín, alla vega fyrstu 5 km og það var mjög góð tilfinning.

Eftir um 45 mínútur var ég búin að ná þessum fyrstu 5 km og 400 m hækkun, þar voru nokkrar vatnsflöskur sem lágu út í kanti og tómar flöskur allt í kring. Ég lagði af stað með rúman einn líter af vatni í bakpokanum og einn lítra af orkugeli, þrjú súkkulaðistykki, nokkrar gráfíkjur, fimm poka af GU gúmmí orkugelum og saltpillum, svo ég var vel birg ennþá á þessum tíma, svo ég hélt bara áfram, stoppaði samt til að taka myndir.

Eftir um 2 klst og 12 mín (16 km og 809 m hækkun) kom ég að nokkurs konar brunni. Vatnið í brunninn kom niður foss úr fjallinu. Þá voru vatnsbirgðir mínar orðnar af skornum skammti, svo ég ákvað að taka af mér bakpokann og fylla vatnspokann af vatni, tók 1 ½ lítra.

Það var mjög góð ákvörðun því 10 mínútum síðar (18 km og 944 m hækkun), kom ég að vatnstöð #2 sem var eins og árás hefði verið gerð á hana, og hún var algjörlega ,,tóm“, þ.e. hafði greinilega verið vatn og ávextir á þessari drykkjarstöð, en þegar við hlaupararnir komu að höfðu hjólreiðamenn klárað allt sem þar var til og kannski fyrstu hlauparar fengið eitthvað.  Þarna voru brjálaðir Spánverjar sem voru mjög fúlir þar sem þeir voru búnir með sitt vatn og höfðu kannski treyst á að fá orkugel og ávexti, eins og lofað hafði verið á drykkjarstöðvum í hlaupinu.

Ég hélt bara áfram, mér leið vel og ég gekk bara áfram rösklega með stafina mína og hljóp þegar það kom sléttur kafli, hljóp og gekk til skiptis. Það var sól og frekar heitt þennan dag, var alla vega heitasti dagur frá því við komum til Spánar, upp undir 20 stiga hiti. Ég lagði því af stað í hlýrabol með vel úttroðinn bakpoka. Fyrir utan næringu var í honum langermabolur, regnheldur jakki, regnheldar buxur (Viggó lánaði mér sínar, þar sem þær voru um 100 grömmum léttari en mínar), svo var í pokanum ljós, aukarafhlaða í ljósið, aukarafhlaða í símann minn og vettlingar og buff. Ég held pokinn hafi vegið um 5 kg. En Guðmundar bakpoki var næstum helmingi léttari.

Klukkan 13:12, eftir 3 klst og 7 mín kom ég að vatnsstoppistöð #3, þá komin 22 km og í 1.223 m hækkun. Það var ekki falleg sjón sem beið okkar þar, aftur allt tómt, bara tómir vatnsbrúsar og appelsínubörkur en á þessum tímapunkti skildu leiðir. Þeir sem voru að fara 39 km tóku vinstri beygju en við sem vorum að fara 102 km héldum áfram upp eftir fjallinu. Ég var samt í ágætis málum þar sem ég var ennþá með vatn í bakpokanum eftir að hafa fyllt á bakpokann í brunninum úr fjallinu. Hugsaði samt hvað ég var heppin að hafa gert það, reynslan frá ferðinni á Jakobsstígnum sumarið á undan nýttist mér þar.

Fjallið var svo toppað í um 1.274 m hæð, eftir 23 km og 3 klst og 22 mín. Þá kom rúmlega 5 km kafli sem var niður á móti og inn eftir dal. Þar var mikill mótvindur og frekar kalt. Þá stoppaði ég aðeins til að fara í peysu. Reyndi ég svo eftir fremsta megni að ,,drafta“, hanga í öðrum hlaupurum, í mesta mótvindinum.

Síðan tók aftur við klifur í 1.263 m hæð þá komin í 33 km og tíminn 4 klst og 40 mín. Ég var mjög ánægð að hafa kvöldið áður farið yfir leiðina í Garmin Connect og vissi að ég myndi toppa tvisvar, þ.e. eftir 23 km og svo aftur eftir 33 km. Það var mjög góð tilfinning að vita alltaf hvenær toppnum væri náð.

Eftir þetta seinna klifur tók við um 12 km kafli allur meira og minna niður á við. Fór yfir ,,mottu“ (sem mælir flögutímann) eftir 37 km, þá var flögutíminn 5:03:38. Þar var loksins vatnsstoppistöðin sem bauð uppá vatn og pepsi en þar var enginn starfsmaður og engir ávextir. Gosið kom sér samt mjög vel þar sem ég var orðin smá skrítin í maganum, enda búin að innbyrða mjög mikið af geli á þessum tímapunkti. Áætlunin hjá mér var að innbyrða u.þ.b. eitt gel á 45 mín fresti þannig að á þessum tíma var ég búin að innbyrða um 5 gel sem ég tók eins og klukka og drekka bara vatn, svo Pepsi var mjög kærkomið.

Það var önnur motta eftir um 46 km leið sem ég náði samkvæmt flögutíma  6:07:13 í um 690 m hæð. Þetta var síðasta mottan á leiðinni og þarna var drykkjastöð sem bauð upp á epli sem ég fékk mér sem var mjög gott og stemmandi í magann.  Ég stoppaði ekkert á þessari drykkjastöð frekar en öðrum heldur hélt bara áfram, sótti eplið og hélt mína leið, fannst bara fínt að borða það á hlaupunum.

Mér fannst Spánverjarnir og aðrir hlauparar stoppa ótrúlega lengi á þessum drykkjarstöðvum  því ég hafði verið að sækja á mjög marga hlaupara sem voru mun hraðari en ég, sérstaklega niður brekkurnar, þar sem ég fór „MJÖG“ varlega. Ég vissi að ég átti ennþá um 50 km leið eftir og ætlaði ekki að bræða úr lærunum á mér á þessari niðurleið. Guðmundur Smári, Ásgeir, Sigga og Sjana voru öll búin að vara mig við þessu, svo ég hugsaði stöðugt SKYNSÖM, SKYNSÖM og SKYNSÖM og fór mjög varlega á meðan mér fannst ansi margir fara mjög hratt og stoppa líka mjög lengi á stöðvunum. Þannig að minn ávinningur var að halda stöðugt áfram, stoppa ekki neitt, leið líka það vel að ég þurfti ekkert að stoppa til að hvíla mig. Ef ég þurfti að pissa þá gerði ég það bara á leiðinni.

Þegar ég var að hlaupa fram hjá þessum drykkjarstöðvum, án þess að stöðva, fór ég að hugsa um góða ráðið sem Friðleifur gaf mér nokkrum dögum áður en ég fór út. Hann sagði mér að nýta vatnsstöðvarnar vel. Ég spurði hann ekki hvað hann meinti með því. Hvað átti hann við? Átti ég að stoppa lengur? Var ég að gera mistök að stoppa ekki neitt? Hefði ég átt að hvíla mig, setjast niður? Ég velti þessu mikið fyrir mér á þessum tímapunkti enda hafði ég nægan tíma til að hugsa, þar sem ég var búin að vera að mestu ein þessar rúmar 6 klst sem voru liðnar, bara Spánverjar nálægt mér sem töluðu enga ensku. En mér leið vel, var ekki þreytt og af hverju ætti ég þá að stoppa eða hvíla mig, tók bara T1 og T2 hugsunina úr Ironman í þetta og stoppaði ekki neitt, enda var Guðmundur búinn að segja mér að ég ætti fyrirfram að vera búin að ákveð hvað ég ætlaði að gera í hverju stoppi svo ég kláraði þetta bara. Það var svo sem heldur engin íburður á þessum drykkjarstöðvum, engin tjöld eða sæti eða súpa, svo þetta var mjög einfalt 😉 Halda stöðugt áfram var málið.

Eftir 6 klst og 40 mín var 50 km markinu náð og ég þá rétt tæplega hálfnuð. Ég var búin að lofa mér því að þá myndi ég kveikja á IPODinum, en ég var með hljóðbók á honum. Sigga Sig var búin að segja mér að spara hann fram að myrkri, en mér fannst ég eiga hann orðið skilið enda búin að vera meira og minna ein og ekki í neinum samskiptum við neinn svo sagan í hljóðbókinni var kærkomin á þessum tíma.

Gleymdi að nefna það þegar ég var búin að hlaupa langa kalda dalinn, þ.e á milli 23 og 33 km þá mætti ég hjólreiðamanni sem sagði mér að ég væri kona númer 3 í hlaupinu.   Ég fann það pirraði mig smá, þar ég var ekki í neinni keppni og ætlaði bara að sigra sjálfan mig en að sjálfsögðu hafði þetta ákveðin áhrif á mig. Eiginlega svo mikil áhrif að ég var næstum því búin að villast, hélt áfram þegar ég átti að taka stóra U-beygju, og var mjög heppin að tveir hlauparar kölluðu á mig, frekar utan við mig en lánsöm þar.

Svo þegar ég er komin þarna um 50 km þá segir annar hlaupari við mig að það væri ekki langt í næstu konu.   Þetta var spænskur hlaupari, einn af þeim sem hljóp hratt og stoppaði lengi á drykkjarstöðvunum, svo þess vegna vissi hann að hún væri ekki langt undan. Aftur fann ég þetta pirra mig því ég var ekki í neinni keppni, vissi samt að ég væri í 3. sæti og konan í 2. sæti ekki langt undan svo auðvitað kveikti þetta í keppnisskapinu, sem það átti samt ekki að gera, því ég ætlaði bara að klára, sigra sjálfa mig og koma heil í mark, eins og við Rúnar vorum sammála um.  Mér leið samt vel komin með söguna í eyrað svo ég hélt bara áfram.  Stoppaði ekkert í næstu drykkjarstöð frekar en við hinar, fékk mér bara pepsí og appelsínusneið og hélt áfram.

Þegar ég var komin um 55 – 60 km leið náði ég konunni sem var í 2. sæti en það var norska konan Sissel Sannæs Smaller. Ég heilsaði henni og kynnti mig um leið og ég náði henni og við fórum að spjalla saman. Þarna komst ég að því að ég var að hlaupa með Vilborgu Örnu þeirra Norðmanna en Sissel er búin að ganga á „The Seven Summits“ eða 7 tindana, það eru hæstu fjöll í hverri heimsálfu.  Hún hefur einnig tekið þátt í „Racing the planet“ í Sahara, Nepal og Chile, en hlaupið er um 250 km hlaup sem varir í 6 daga.  Hún er mikil fjallageit og fyrrum skíðadrottning, keppti á skíðum þegar hún var ung. Sissel er hjúkrunarfræðingur að mennt en er hætt að vinna og er bara að njóta lífsins, þ.e. ganga og hlaupa á fjöll. Sissel var að taka þátt í þessu hlaupi ásamt fleiri Norðmönnum en ástæðan fyrir því að hún tók þátt var að fá þessi þrjú stig sem hana vantaði til að sækja um í UTMB hlaupinu í Ultra Trail du Mont Blanc 2015 sem er 166 km hlaup, (sjá nánari upplýsingar um Sissel á heimasíðunni hennar hér).

Það var yndislegt að spjalla við Sissel svo tíminn leið mjög hratt (var fljót að slökkva á Ipodinum eftir að við hittumst). Við bara hlupum og spjölluðum saman í myrkrinu en það var komið niðamyrkur klukkan sjö, svo þá hlupum við með höfuðljós. Þessi tími var algjörlega yndislegur og okkur leið báðum mjög vel. Ég var reyndar í betra hlaupaformi en Sissel þar sem hún hafði verið að ganga á eitthvað stórt fjall tveimur dögum fyrir keppni, hafði ekki alveg verið að „tapera“ eins og ég. Hún hvatti mig því stöðugt til að fara á undan sér þar sem hún hægði á mér en ég var svo glöð að fá þennan frábæra félagsskap og tala nú ekki um konu sem hefur upplifað svona margt og mikið og skemmtilegt svo ég vildi frekar hægja á mér og hlaupa með henni, heldur en að fara á undan og vera ein einhvers staðar rétt á undan henni.

Við hlupum því saman og rétt áður en við komum að 76 km stöðinni, þ.e. við sveitabæ í Istán, þá hringdi kærasti Sissel í hana og sagði henni að við yrðum að fylla á alla brúsa því þetta væri síðasta vatnsstöðin. Það átti að vera ein þegar um 7 km væru eftir af hlaupinu en hún var tóm svo við urðum að fylla vel á. Á þessum tímapunkti vorum við búnar að vera á hlaupum í u.þ.b. 10 klst og komnar niður í 238 m hæð.

Okkar beið því þó nokkur hækkun aftur, eða um fimm sinnum upp í 500 m hæð og niður aftur. Þessir síðustu kaflar voru að mínu mati erfiðastir í hlaupinu. Eins og Rúna Rut vinkona mín sagði réttilega þá byrjar hlaupið ekki fyrr en það eru 20 km eftir. Við vorum því með mikið af vökva á okkur og á þessari drykkjarstöð fékk ég mér annað epli. Þá eru upptaldar þær veitingar sem ég fékk í föstu formi frá mótshöldurum, þ.e. fyrir utan vatn og Pepsi.

Ég hafði ekki verið í neinu netsambandi frá því ég hitti Sissel og hafði ekki tekið neinar myndir enda við komnar í myrkrið og því þurfti maður að fara mun varlegar og horfa fram fyrir sig. Stuttu eftir þessa síðustu drykkjarstöð hringdi Viggó í mig en þá hafði hann heyrt í Guðmundi sem var ekki langt á undan okkur. Viggó var búin að heyra að það væri lítið af vatni og gosi í þessari síðustu drykkjarstöð svo hann ákvað að ganga á móti okkur með vatn og Pepsi.

Hann náði okkur þegar um 15 km voru eftir, en þá var hann búin að hitta á Guðmund sem hélt bara áfram. Viggó var með vatn og Pepsi en ég var svo sem með fullt af vatni í bakpokanum ennþá en Pepsi-sopinn var kærkominn og gaman að hitta Viggó.

Viggó var skráður með okkur í hlaupið. Á æfingu fimm vikum fyrir hlaup þá missteig hann sig illa í Esjunni og lenti í meiðslum svo hann gat ekkert æft eftir það. Hann ákvað samt að fara með okkur út og upplifa stemninguna. Var reyndar á báðum áttum deginum fyrir keppni hvort hann ætti að taka þátt, en ákvað að fylgja hjartanu og skynseminni og skráði sig úr keppni um morguninn. En hann gekk samt um 47 km þennan dag og talaði við marga keppendur og hafði gaman af.

Á þessum tímapunkti vorum við Sissel líka búnar að ná Daniel Larsson sem er Svíi og vinnur hjá North Face í Swiss. Hann hafði hlaupið með Sissel fyrr í keppninni og farið á undan henni. Hann var með mikla verki í hné en náði samt að halda í við okkur og við hvöttum hann vel og mikið áfram og spjölluðum mikið við hann, sem dreifði huganum. Sissel hafði líka gefið einhverjum öðrum hlaupara, sem við hlupum fram hjá og hún hafði spjallað við fyrr í hlaupinu, verkjatöflu á leiðinni en sá var líka mjög kvalinn.

Mér leið hins vegar alveg ágætlega en ég var samt aðeins farin að finna fyrir þreytu framan á lærunum; fannst erfitt að sjá ekki og vita ekki nákvæmlega hvernig leiðin var framundan, hafði ekki skoðað þennan hluta leiðarinnar nógu vel kvöldið áður. Eina sem við sáum voru höfuðljós hlaupara langt á undan okkur og það var mikið um hækkanir og lækkanir. Á endanum komum við svo að 5 km staðnum, þar sem fyrsta vatnsstöðin var. Þar var kominn bíll með meira af vatni og gosi, en við vorum ágætlega stödd, fengum okkur smá gossopa og svo var bara að hlaupa niður brekkuna, þ.e. síðustu 5 km. Ég man ég hugsaði þarna, iss, þetta er bara hálfur Garðabæjarhringur, maður hefur farið þá nokkra og bara rúmlega Ásahringur, þetta er ekki mikið mál.

Þannig hafði ég í raun farið þetta hlaup “á hausnum” með jákvæðu hugarfari allan tímann. Þegar 20 km voru búnir hugsaði ég: En frábært ég er búin með 1/5 eða 20% af hlaupinu. Þegar 25 km voru búnir var ég búin með fjórðung, sem mér fannst frábært. Eftir 34 km var ég búin með 1/3. Svo var ég bara allt í einu hálfnuð eða komin í 50 km. Eftir að ég hitti svo Sissel spáði ég ekkert í hvað ég væri búin með mikið eða hvað væri mikið eftir, fyrr en við komum að þessari vatnsstöð þar sem 25 km voru eftir og svo aftur þegar ég heyrði í Viggó. Þar sem það var svo gaman hjá okkur allan tímann.

Ég spurði Sissel þegar við vorum að hlaupa þessa síðustu 5 km hvort við ættum ekki að fara saman yfir marklínuna, þ.e. koma saman í mark. Hún sagði að ég væri pottþétt hraðari en hún á lokasprettinum og því ætti ég bara að fara á undan en ef ég vildi vera samferða henni þá var hún alveg til í það. Mér fannst það ekki spurning. Við vorum búnar að hlaupa saman þessa 50 km og spjalla svo mikið saman, ég eignaðist yndislega vinkonu á þessum fáu klukkustundum sem við hlupum saman.

Það var einstök tilfinning að hlaupa saman yfir marklínuna þó ekki væru neinir áhorfendur eða hvatningalið eða ljósmyndarar að taka á móti okkur. Guðmundur Smári og kærasti Sissel hann Petter Kragsett voru reyndar komnir í markið til að taka á móti okkur en við vorum saman önnur og þriðja konan í mark og tíminn okkar var 14 klst 11 mínútur og 37 sek. Við vorum í heildina í 43.-44. sæti af 80 þátttakendum sem luku keppni.

Guðmundur Smári náði sínu markmiði að vera undir 14 klst, en hann kláraði á 13:36:40 og Petter kærasti Sissel varð í 2. sæti karla. (Sissel vildi að ég fengi viðurkenninguna fyrir 2 sætið þar sem þetta var mitt fyrsta 100 km  hlaup og hún tók verðlaunin fyrir 3 sætið, en að sjálfsögðu vorum við jafnar í mark). Yndisleg vinkona mín hún Sissel Smaller.

Þessi árangur í mínu fyrsta 100 km fjallahlaupi var langt umfram væntingar. Ég byrjaði að æfa fjallahlaup tveim vikum eftir Ironman Kalmar í sumar, þ.e. 30. ágúst, þegar ég tók þátt í sjö tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, það var reyndar lengst hlaupið sem ég hljóp á æfingatímanum, 37 km. Æfingatímabilið var því rétt rúmir tveir mánuðir svo væntingarnar sem ég gerði mér voru að klára hlaupið innan tímamarka sem voru 24 klst. Allt undir það var bara plús.

Þetta hlaup var mjög skemmtilegt, umhverfið var virkilega fallegt, skipulagið hefði mátt vera betra. Skipuleggjendur voru samt mjög yndislegir og allir að vilja gerðir. Svona lagað getur gerst þegar verið er að halda svona mót í fyrsta skipti. Mótshaldarar hafa beðist formlega afsökunar og virði ég það mikils. Ég veit að aðstandendur okkar sem voru að fylgjast með frá Íslandi höfðu áhyggjur af okkur, ráfandi um í myrkrinu á Spáni vatnslaus og næringarlaus, því fréttirnar um þetta fóru strax á Fésbókarsíðu hlaupsins sem var mjög slæmt.

Mig langar að þakka samferðamönnum mínum, þeim Guðmundi Smára og Viggó, innilega fyrir frábæra ferð og góðar æfingar fyrir keppni. Við áttum góðan hvíldardag á Spáni daginn eftir keppni og reynsluboltinn Guðmundur Smári gaf mér ótrúlega mörg góð og dýrmæt ráð. Það var líka frábært að hafa Viggó á staðnum og hann gat t.d. upplýst Óla heima hver staðan var hjá mér, þegar ég var ekki í netsambandi og það var virkilega ánægjulegt að sjá hann þegar hann kom á móti okkur.

Ásgeir og Ívar hlaupaþjálfarar takk fyrir ykkar frábæru plön og ráðleggingar í aðdraganda hlaupsins, algjörlega ómetanlegt að eiga svona góða þjálfara.

Sigga Sig og Sjana eru þvílíkir reynsluboltar sem gáfu mér stöðugt góð ráð. Fékk líka ómetanlega aðstoð og kennslu við að pakka niður fyrir fjallahlaup, enda mjög mikilvægt eins og í Ironman og þetta er mitt fyrsta ultramaraþon fyrir utan Laugavegshlaupið 2011. Takk elsku vinkonur fyrir allt.

Til þess að skrokkurinn komist í gegnum svona æfingatímabil, þá þarf að gera góðar styrktaræfingar og halda skrokknum í gangi. Þeir Hilmar Björn Harðarson (Bjössi) einkaþjálfari í World Class og Halldór Jónsson sjúkraþjálfari hafa séð til þess að líkaminn minn hefur þolað allt þetta álag. Frábærir fagmenn þar á ferð – takk fyrir ykkar framlag.

Það er ekki hægt að fara í svona ferðlag nema maður eigi óendanlega þolinmóðan eiginmann og son, Óli og Kristó takk fyrir óendanlega þolinmæði og hvatningu, LUV JU GUYS.

Bíddu aðeins og Þríkó æfingafélagar eru bestu æfingafélagar í heimi, takk mín kæru.

—————————————————————————————
FATNAÐUR

Ég hljóp í Brooks Cascadia 8 gömlu skónum mínum og var með salomon legghlífar. Var í  CEP hnésokkum, í CWX litaglöðu buxunum sem voru rétt fyrir neðan hné. Var í Under Armour IM Cozumel hlírabolnum, CWX toppnum, með Ronhill derhúfu og sólgleraugu. Að sjálfsögðu með garmin púlsband og 910 úrið og rafhlaðan entist allan tímann.

—————————————————————————————
BAKPOKI

Var með Salomon S-LAB 12 lítra bakpokann. Ég var með 1 1/2 lítra vatnsblöðru inn í honum. Var með 2 * 500 ml soft-flask brúsa sem ég var búin að setja í 20 gel, 10 high-five gel með koffíni og 10 high-five gel án koffíns. Svo var ég með 6 GU aukagel. Ég var með 5 poka af GU orku gúmmíi. Með gráfíkjur og þrjú súkkulaðistykki, eitt snickers, eitt bananahreysti og eitt prótein bar frá Hreysti, var með extra tyggjó, og slatta af saltpillum.

Var með CWX langermabolinn, Ronhill regnjakkann, Ronhill regnbuxur frá Viggó, Ronhill buff og fingravetlinga, með nýja Petzl NAO2 ljósið mitt og auka rafhlöðu. Var með Ipod shuffle og auka rafhlöðu í Iphone símann, sem ég var með framan á mér í frábæra Ronhill keppnisbeltinu sem var með góðum vasa fyrir símann.  Var að auki með verkjatöflur, plástra, magnesíum töflur, fullt af salttöflum, hælsærisplástra og gerviskinn og einnota sótthreinsandi klúta í first-aid kiti.

Ég hljóp með léttu Black Diamond stafina mína, sem voru alveg frábærir. Ég hélt ég myndi henda þeim í pokann þegar ég væri búin að toppa tvisvar, en mér fannst mjög gott að hafa þá líka á niðurleiðinni, svo stafirnir fóru aldrei í bakpokann, voru við hendurnar á mér allan tímann.

—————————————————————————————
HORFT UM ÖXL

HVAÐ HEFÐI ÉG GERT ÖÐRUVÍSI ?
Ef ég væri að fara í þessa ferð aftur, þá hefði ég klárlega farið af stað með léttari bakpoka. Hefði t.d. skilið eftir 4 poka af GU geli og eitthvað af súkkulaðinu, því ég borðaði ekki neitt af því, hefði verið til í að vera með banana á mér, en ég átti svo sem von á að fá þá á drykkjarstöðvunum. Guðmundur Smári var reyndar búin að benda mér á að bakpokinn minn væri ansi þungur og honum fannst ég með ansi mikið með mér, en ég hélt ég yrði svo lengi og þyrfti því alla þessa orku.

Ég hefði líka skilið vind/regnbuxurnar eftir, því það var ekki spáð svo mikilli úrkomu. Ég myndi vilja prófa að vera frekar í Compression legghlífunum mínum, sem ég nota í Ironman keppnum í staðinn fyrir CEP sokkana, sem voru frekar heitir í hitanum á Spáni.
Annars er ég bara nokkuð sátt við ákvarðanir mínar og árangurinn og hefði svo sem ekki breytt neinu öðru, ef ég væri að fara aftur í þessa ferð í dag.

Hefði kannski viljað æfa aðeins lengur og meira en ég gerði, náði 10 vikum samtals og lengsta æfingin var fyrsta æfingin, þ.e. 7 tinda hlaupið. En hver vill ekki æfa meira og lengra fyrir svona keppnir? Held þetta sé eðlileg tilfinning.

—————————————————————————————
ÁHUGAVERÐ TÖLFRÆÐI
Sigurvegarinn í 102 km hlaupinu var hollensk kona, Irene Kinnegim og kláraði hún hlaupið á 9:35:21 sem er tæplega klukkustund betri tími en fyrsti karlmaður sem var á 10:34:24.

Irene er fædd 8. janúar 1975, Hún er mikill þríþrautarkappi.  Hún hefur þrisvar tekið þátt í Ironman í Hawai  2005, 2006 og 2008.  Sjá nánari upplýsingar um Irene hér:

Við hittum Irene við skráninguna degi fyrir keppni og spjallaði ég aðeins við hana, en náði því miður ekki að komast að því hversu mikil þríþrautarkona hún er þá, þar sem við spjölluðum bara um fjallahlaup, en erum núna vinkonur á fésbókinni.

Óska henni innilega til hamingju með GLÆSILEGAN og EINSTAKAN árangur, en þetta var hennar fyrsta 100 km hlaup, hún sagði mér að hún hafði hlaupið lengst 80 km fyrir þetta hlaup.

—————————————————————————————

80 hlauparar klára 102 km – 4 konur = 25 sem eru DNS
(Besti tími er 9:35:21 Irene Kinnegim – síðasti hlaupari á 23:32:45)

60 hlauparar klára 39 km – 10 konur = 65 sem eru DNS (ekki rétt því Viggó var skráður líka þar) (Besti tími er 3:26:28 – síðasti hlaupari á 7:34:28 )

225 hjólreiðamenn klára 102 km – engin kona = 34 sem eru DNS
(Besti tími er 4:17:03 – síðasti hjólreiðamaður er á 13:35:19)

37 hjólreiðamenn klára 39 km – 2 konur = 11 sem eru DNS
(Besti tími er 2:17:14 – síðasti hjólreiðamaður er á 6:10:37)

—————————————————————————————
FLÖGUTÍMAR HM
31 km = 4:16:41
37 km = 5:03:38
46 km = 6:07:13
102 km =14:11:38
—————————————————————————————

nóvember 17, 2014 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnisÞríþraut

KEPPNISSAGA – Ironman Kalmar 2014

by Halldóra ágúst 16, 2014

Þetta er í þriðja skipti sem Ironmankeppni er haldin í Kalmar í Svíþjóð.  Það voru 2700 þátttakendur skráðir þar af 13 Íslendingar.

Ég, Ásgeir og Sjana mættum á skiptisvæðið klukkan rúmlega sex, „just-in-time“. Þar þurfti að  pumpa í dekkin og setja drykki og næringu á hjólin, fara í biðröðina á klósettin, „body glida“ okkur og klæða í sundgallana. Síðan þurftum við að ganga um 10 mínútna leið af skiptisvæðinu (T1 og T2), sem var í norðurhluta miðbæjarins í Kalmar, að suður svæðinu þar sem sundræsingin fór fram.  Þar skiluðum við af okkur hvítu pokunum, með fötunum sem við komum í og myndum þá fara í eftir keppnina.

Næring um morguninn: Kaffi á fastandi maga og ristað brauð með osti (átti ekki sultu) og einn banani.

SUND (Tími 1:17:45)
Í Kalmar er synt í Eystrasaltinu, ræsingin er svokölluð „self-seed“ ræsing, þ.e. keppandi valdi sjálfur, miðað við áætlaðan sundtíma, allt frá einni klukkustund upp í rúmar tvær klukkustundir, hvenær hann fór út í sjóinn. Flögutíminn er því eini rétti tíminn á þátttakendur og ræst var á nýjum sundstað. Sundleiðinni hafði líka verið breytt frá fyrra ári, var nú einn hringur í stað hefðbundinna tveggja.  Þessi nýja sundleið var lengri en í hefðbundnum Ironman (nokkrir sem mældu) eða um 4,1 km í stað 3,8 km.

Þegar ég var búin að fá aðstoð við að renna upp blautbúningnum, setja eyrnatappa í eyrun, sundhettuna og sundgleraugun á, var ekkert annað að gera en fara í röðina. Ég ákvað að skella mér með 1:15:00 hópnum.  Hitti Gulla í röðinni, við vorum frekar aftarlega og vorum bara að spjalla á leiðinni, ekkert stress.

Sundið var bara þægilegt og gekk vel. Ég braut samt eina reglu í þessari keppni sem ég hef aldrei brotið áður og það var að keppa í einhverju nýju, ég keppti í nýjum blautbúningi.  Ég hafði reyndar fengið alveg eins búning lánaðan heima á Íslandi, reyndar í annarri stærð og prófað hann í Nauthólsvík. Ég náði einnig að prófa hann daginn fyrir keppnina svo það gekk mjög vel.

Sundleiðin var mjög þröng á köflum og einnig voru miklar grynningar. Því var oft mikill troðningur, nokkrum sinnum var valtað gjörsamlega yfir mann á sundinu, en þá er annað hvort að sparka vel frá sér, eða bara hægja aðeins og láta viðkomandi fara fram úr. Það tók mig dágóða stund að komast upp úr sjónum þar sem raninn sem við urðum að fara upp var mjög mjór og fáir sem komust upp hann í einu.

NÆRING: 1 GU gel fyrir sundræsingu.

T1 (Tími 3:32)
T1 skiptingin gekk mjög vel.  Ég gat klætt mig úr ermunum á gallanum þegar ég hljóp að pokarekkanum, sótti bláa pokann, fór inn í skiptitjaldið, úr restinni af gallanum (það tekur reyndar alltaf tíma að taka úrið af), ég rétt þurrkaði af fótunum, henti mér í sokka og  skó. Síðan henti ég gallanum, sundgleraugum og sundhettu í bláa pokann og hljóp af stað. Setti á mig úrið og hjálminn á leiðinni að hjólinu, en ég var í C röð sem var nokkuð langt frá hvíta skiptitjaldinu.

HJÓL (Tími 6:03:29)
Það var einstök stemning í Svíþjóð þennan dag og áhorfendur í Kalmar algjörlega frábærir.  Mér leið ágætlega þegar ég byrjaði að hjóla, vissi að ég hafði verið skynsöm í sundinu. En stuttu eftir að ég lagði af stað uppgötvaði ég að einu hafði ég  gleymt. Það var annað hvort að fara á salernið í T1 eða pissa í sjóinn. Ég var rétt lögð af stað þegar ég fann að mér var mikið mál að pissa, hafði ekkert fundið fyrir því í T1, en nú var mér mikið mál. Ég reyndi heilmikið að pissa á mig, eins og Pro-arar gera og mjög margir karlmenn, en gekk það ekki vel. Prófaði þá að hella vatni yfir mig og syngja „Piss, piss og pelamál, púðursykur og króna, þegar mér er mikið mál þá pissa ég bara í …“  en allt án árangurs.  Þegar mér er mikið mál, þá hækkar púlsinn svo ég ákvað bara að fylgjast með wöttunum. En eftir um 73 km ferð á hjólinu gat ég ekki meir og ákvað að stoppa á einni drykkjarstöð og henda mér á salernið.  Þvílíkur léttir. Fyrir næsta Ironman mun ég æfa þetta heima, annað hvort í bílskúrnum á trainer eða úti, þ.e. að reyna að pissa á mig, lofa samt engu um árangur. Meðalhraði var um 32 km á klst.

Eftir 82 km tók við mjög erfið leið þ.e. þegar Öland er þverað frá austri til vesturs, þar fengum við allan vindinn í fangið.  „Drafting“ er algjörlega bannað í Ironman og það þurfa að vera tíu metrar á milli hjólreiðamanna. Ég var mjög samviskusöm og hægði jafnan á mér þegar einhver fór fram úr en á þessum erfiða kafla sá ég mjög marga Svía vinna saman og virða ekki reglurnar. Samt voru margir dómarar á mótorhjólum á leiðinni en mér fannst þeir ekki taka nógu hart á þessu. Meðalhraðinn hrapaði verulega niður hjá mér á þessum kafla, fór í um 22-23 km hraða á klst. á þessum kafla.

Það var góð tilfinning að fara aftur yfir brúna frá Öland yfir á meginlandið og inn í miðbæ Kalmar því þá voru að baki um 122 km.  Ég þurfti að stoppa tvisvar á meginlandinu til að laga aukaslöngu sem ég var með og hafði fest með teygju aftan á hjólið á milli brúsafestinga. Hún losnaði þegar um 150 km voru búnir og ég gat ekki fest hana nema stoppa alveg og fara af hjólinu. Ég var í raun heppin að sjá þetta strax þannig að hún flæktist ekki í afturgjörðinni. Ég festi hana samt greinilega ekki nógu vel því ég þurfti að stoppa aftur eftir um 5 km og fara alveg af hjólinu og festa hana á ný. Þetta var verulega svekkjandi því ég var í ágætis gír. Þegar hún fór svo að losna í þriðja skiptið þá ákvað ég að stoppa ekki neitt, togaði bara í hana og settist ofan á hana og hjólaði með hana vafða um brúsafestingar, hnakkinn og í klofinu.  Ég hafði samt smá áhyggjur af því að ég fengi núningssár á innanverð lærin við þessa fáránlegu aðferð mína.

Haddý að koma inn eftir hjólið, stutt myndbrot hér:

NÆRING: Kláraði næstum fullan brúsa af geli (var þynnt með vatni), tók með mér tvö niðurskorin Snickers og tvö niðurskorin Banana-kraft en borðaði bara tæplega helminginn af því. Ég var líka með saltpillur og Drakúlabrjóstsykur sem ég borðaði ekkert af en ég var mjög samviskusöm að taka inn salttöflur, eina á klukkustundarfresti og setti svo Zero-töflur í vatnið sem ég tók á drykkjarstöðunum. Ég tók enga orku þar, finnst Powerbar orkudrykkurinn og gelin ekki góð en ég borðaði reglulega hálfan banana sem ég greip á drykkjarstöðvunum.

T2 (Tími 3:30)
Ég ákvað að gera ekki sömu mistökin í T2 og í T1 svo ég hljóp með hjólið á sinn stað og fór svo beint á salernið áður en ég greip rauða pokann og fór í hvíta tjaldið að skipta. Úr hjólaskónum og í hlaupaskóna, greip GU gelin mín tók bara sex með mér af átta sem voru í pokunum, henti hjálminum og hjólaskónum í pokann og af stað.

HLAUP  (Tími 4:15:55)
Haddý að byrja að hlaupa stutt myndband hér:

Það var frábært að hlaupa af stað, mér leið mjög vel, fyrir utan smá magaverk (eftir allt gelið). Hvatningin á hlaupaleiðinni  í gegnum miðbæ Kalmar var algjörlega einstök. Þvílík orka sem maður fékk að hlaupa þarna í gegn.  Ég sá strax fullt af Íslendingum sem kölluðu á mig og ég var svo glöð og brosmild að ég fékk þvílíka hvatningu frá öllum Svíunum, eiginlega allan hringinn, leið þarna eins og ég væri bara að koma í mark, fólkið var algjörlega einstakt.  Ákvað að stoppa strax á fyrstu drykkjarstöð og fá mér kók (sem ég get ekki drukkið dagsdaglega) til að laga magaverkinn. Viti menn, kókið magnaði hann svo mikið að það kom mikill vindur í magann og ég fór að leysa vind út í eitt, en við það lagaðist magaverkurinn.

Þegar ég var langt komin með fyrsta hring sá ég hvar Leanda Cave (Ironman heimsmeistari 2012) hljóp fram úr mér svo létt á fæti en þá var hún að ljúka keppni með fuel belt merkt CAVE að aftan. Flott  þríþrautarkona sem sigraði í Kalmar og ætlar að vera með að ári. Ekki leiðinlegt að geta sagt að maður hafi hlaupið með Leöndu í Kalmar (sjá heimasíðuna hennar: http://www.leandacave.com/).

Var á um 5:37 pace í meðalhraða eftir fyrsta hringinn (14 km) og í góðum málum. Annar hringurinn var mjög fínn framan af. Eftir um 15 km stoppaði ég til að fara á salernið en við það missti ég bæði púlsinn niður og pace-ið og náði ekki sama góða hlaupagírnum eftir það.  En ég stoppaði eiginlega á öllum drykkjarstöðvum, labbaði í gegnum þær og fékk mér Coke og hélt svo bara áfram að leysa vind. Average pace eftir hring tvö var komið niður í 05:52.  Þegar ég var að byrja síðasta hring hljóp Pétur mig uppi og við hlupum síðasta hringinn saman, sem var mjög skemmtilegt. Hlupum á um sex pace, en stoppuðum og gengum allar drykkjarstöðvarnar sem voru á tveggja km fresti, svo average pace hrapaði stöðugt niður, average pace eftir allt maraþonið var 06:04.

Stutt myndband sem Óli tók sem sýnir stemninguna sem var í miðbænum, hér:

Við Pétur ákváðum að gefa okkur góðan tíma þegar við kæmum í mark, fengum íslenska fánann hjá Óla og Bibbu og hvöttum áhorfendur og fengum miklar og skemmtilegar undirtektir þegar við komum í mark. Kynnirinn gat upplýst þátttakendur um að Pétur hefði verið að taka sinn annan Ironman á sex vikum, sem er ótrúlegur árangur. Það var mjög gaman að koma í mark og mér leið mjög vel. Um leið og við komum í mark voru tveir bornir á börum í burtu svo ég var einstaklega þakklát hversu vel mér leið, þrátt fyrir allan vindganginn.

NÆRING: 3 ½ gel (ótrúlega lítið miðað við maraþon), drakk mjög mikið af kóki og vatni og svo RedBull í lokin. Borðaði ekki mikið, kannski 1-2  bita af banana.

VEÐUR:
Við fengum allar tegundir af veðri þennan fallega dag í Kalmar. Það var sól, skýjað, lítill vindur og mikill mótvindur, þurrt og rigning og þrumur og eldingar. Meðalhitastig í sundinu voru 13 gráður, á hjólinu 15 gráður en 21 gráða í hlaupinu, raki frá 60%- 94%.

HEILDARTÍMI 11:44:11
Ég náði að bæta tímann minn um 10 mín og 29 sek. frá því í Frankfurt í fyrra og er mjög ánægð með þá bætingu. Það er alls ekki sjálfsagt að komast að ráslínu og það voru nokkrar hraðahindranir á þessu ferðalagi mínu að ráslínu eins og fimm rifbeinsbrot, viðbeinsbrot, tvö handleggsbrot, auk annarra minniháttar kvilla.  Auk þess er alls ekki sjálfsagt að komast í endamark, það er svo margt tæknilegt, andlegt og líkamlegt sem getur stoppað mann á leiðinni.

RANK: 8.sæti í aldursflokki 45-49 ára
GENDER: 71 sæti allra kvenna
OVERALL RANK:  867. sæti í heildina af 2.350 þátttakendum.

ÞAKKIR:
Fjölskyldan: Það er ekki hægt að leggja stund á æfingar fyrir Ironman án þess að eiga einstaklega þolinmóðan og yndislegan maka og son, tala nú ekki um þegar maður er að gera þetta í þriðja skiptið (21 mánuður frá fyrsta Ironman) og er svo stöðugt í einhverjum spítalaheimsóknum þess á milli.

Óli minn er algjörlega einstakur, þolinmóður gagnvart öllum þessum æfingum og tekur líka virkan þátt í þríþrautinni með mér þangað til að æfingarnar fara að verða of langar. Kristófer er líka vanur því að mamma hans er yfirleitt farin á æfingar á morgnana þegar hann vaknar og oft ekki komin heim fyrr en eftir kvöldmat á kvöldin.  En hann ætlar að hlaupa með mér hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni næstu helgi. Takk elsku Óli og Kristó fyrir allar þolinmæðina og stuðninginn og hvatninguna, þið eruð algjörlega einstakir.

Þjálfarar:  Ég  þakka einnig öllum þjálfurunum okkar. Viðar sem var að setja nýtt Íslandsmet í Ironman  sendi okkur allar æfingaáætlanir og sá um allar hjólaæfingar. Takk fyrir öll plönin og öll góðu ráðin og enn og aftur til hamingju með metið, við erum stolt af þér. Ég hljóp með Ásgeiri og Bibbu í Bíddu aðeins og naut frábærrar leiðsagnar frá þeim. Það er algjörlega þeim að þakka að ég hef skráð mig og tekið þátt og klárað Ironman þrisvar sinnum. Þau hafa óbilandi trú á mér og hvetja mig áfram á jákvæðan hátt og hafa svo farið með mér í öll mótin. Takk elsku Bibba og Ásgeir, þið eruð algjörlega einstök og „ekki hægt“ eða „get ekki“ er ekki til í ykkar orðabók.   Kalli og Hákon sundþjálfarar hafa verið mjög duglegir að segja mér til í sundlauginni og góðir að koma mér af stað í lauginni, þótt ég hafi verið fatlafól.  Takk fyrir það. Svo er hann Hilmar Björn í World Class alveg frábær einkaþjálfari og tímarnir hjá honum algjörlega ómetanlegir og frábærir fyrir þríþrautarfólk. Hann er svo sveigjanlegur og duglegur að setja upp æfingar sem henta hverjum og einum og frábær að taka tillit til móta og allra þátta.  Takk Bjössi kærlega.   Halldór Jónsson sjúkraþjálfari er búin að vera mjög þolinmóður og duglegur að hamast á eymslum á vinstri mjöðm og vinstri öxl eftir hjólaslysið og það er frábært að hafa svona flottan íþróttamann sem sjúkraþjálfara, sem hefur fullan skilning á æfingunum og hefur hjálpað mér að ná góðum árangri með góðum æfingum. Takk nafni.

Æfingafélagar og samferðamenn:  Án frábærra æfingafélaga væri svona ferðaleg ekki sama upplifun og skemmtun og raun ber vitni. Kæru Þríkó æfingafélagar, Bíddu aðeins æfingafélagar og Hjólamenn. Takk kærlega fyrir yndislega tíma í æfingum allt síðasta ár og kæru Ironman Kalmar 2014 farar. Innilega til hamingju með glæsilegan árangur og skemmtilegan tíma.

Kæru samferðamenn, Kristjana og Atli og Bibba og Ásgeir. Takk kærlega fyrir yndislegan tíma á Öland og mikla skemmtun. Ég veit við vorum með besta Ironman „support crewið“  sem sá til þess að við fengum ávallt gott og mikið að borða, lambasteik, nautasteik og pasta með kjúklingi og svo hvíldumst við vel fyrir keppni. Það var mikið hlegið og spjallað á Öland og hlustað á frábæra stemnings tónlist. Til hamingju aftur elsku Sjana og Ásgeir með ykkar flottu PB tíma og takk elsku Bibba og Atli fyrir alla hvatninguna og stuðninginn.  Þið eruð frábær.

Örninn:  Langar að lokum að senda sérstakar kveðjur til Friðjóns fyrir frábært „bikefit“ og til Ragga, Jóns Þórs og allra hinna frábæru drengja í Erninum fyrir súperþjónustu.

SKEMMTILEGAR STAÐREYNDIR UM IM KALMAR 2014:

  • Þriðja skiptið sem keppnin Ironman Kalmar er haldin
  • Það voru um 50.000 áhorfendur sem hvöttu okkur áfram
  • 2700 þátttakendur sem voru skráðir til keppni – 2.350 sem luku keppni
  • 52% voru að taka þátt í fyrsta skiptið
  • 14% af þátttakendum voru konur
  • 1600 sjálfboðaliðar
  • Það voru 15 þátttakendur í fyrsta Ironman á Hawai árið 1978
  • Það voru 11 þátttakendur sem hafa tekið þátt í 25 eða fleiri Ironman mótum.
  • Elsti þátttakandinn var 75 ára Ítali
  • Yngsti þátttakandinn var 18 ára

MYNDIR Á GOOGLE PLUS 

  • Dagur 1
  • Dagur 2
  • Dagur 3
  • Dagur 4
  • Dagur 5
  • Dagur 6
  • Dagur 7
  • Dagur 8
ágúst 16, 2014 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt líf

Hjálmurinn bjargaði lífi mínu

by Halldóra október 27, 2013

Þegar VÍS hafði samband við mig til að kanna hvort ég væri til í að láta taka viðtal við mig í forvarnarskyni til að segja frá reiðhjólaslysinu þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um.

Eftir slysið hef ég verið alveg óþolandi og er stöðugt að minna fólk á að nota hjálm 🙂

Hér er að finna viðtalið sem birtist í Íslandi í dag, 23. október síðastliðinn.

Vona að allir þeir sem ekki hjóla með hjálm, breyti hegðun sinni til batnaðar, því ég er fullviss um að hjalmurinn minn bjargaði lífi mínu.

Hér er að finna myndir sem teknar voru á slysó sama kvöld og slysið varð.

 

 

október 27, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt líf

Lánsöm og full þakklætis

by Halldóra september 29, 2013

Í dag eru nákvæmlega sex vikur síðan ég datt á reiðhjóli, þegar ég átti rétt innan við 1 km í mark í Gullhringnum 2013.

Ég braut 5 rifbein og viðbein sem gert var að og ég fékk mar á lunga, loftlunga að hluta og mar á höfuðið eftir að hafa fengið heilahristing, þegar ég rotaðist. Ég lá á spítalanum í 11 daga og læknarnir sögðu að ég yrði að vera frá vinnu til 1. okt.  Ég varð að hætta við að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í þríþraut í London sem ég hafði ætlað að taka þátt í sem og maraþoni í Munchen sem ég ætlaði að hlaupa með Óla (hans fyrsta maraþon).

Nú sex vikum síðar er ég einstaklega þakklát, þakklát fyrir að ekki fór verr. Þakklát fyrir að lenda ekki í þessu slysi fyrr en í lok sumars. Þakklát fyrir að hafa getað klárað Ironman í sumar, hjólað Jakobsstíginn og klárað Landvættinn.

Ég er virkilega þakklát að hafa getað mætt í vinnu innan þriggja vikna frá slysinu. Þakklát að geta hjólað aftur og hlaupið, en ég hljóp í fyrsta skipti í gær 8 km með hlaupahópnum mínum Bíddu aðeins.  Fór ekki hratt, en Bibba, Sjana og Óli hlupu með mér.  Svo er ég búin að hjóla um 100 km um helgina, með Óla og Ásgeiri og það á racernum sem ég var á, þegar ég datt.  Auk þess er ég búin að fara í stutta göngutúra með hundana i þessu yndislega veðri.

Það eru forrréttindi að geta hreyft sig og notið náttúrunnar. Ég er líka búin að ganga á Hafnarfjall, alveg upp á topp eftir að ég datt og það var yndislegt.

Nú þarf ég bara að prófa að fara aftur á sundæfingu til að kanna hvort ég geti ekki farið að synda líka, því sundlaugarnar okkar eru þær bestu í heimi.

Lífið er yndislegt og ég var mjög heppin.

Munum öll að njóta hvers dags því lífið er fallvalt 🙂

september 29, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt líf

Takk LSH fyrir virkilega góða þjónustu

by Halldóra september 17, 2013
Tölvupóstur sendur til Björns, forstjóra LSH, mánudaginn 16.09.2013

Sæll Björn

Ég heiti Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé og var lögð inn á LSH við Hringbraut deild 12 E – eftir að hafa dottið illa á reiðhjóli þann 18. ágúst sl. og brotið fimm rifbein og viðbein og fengið áverka á lunga og höfuð.

Á spítalanum var ég undir handleiðslu læknanna, Tómasar Guðbjartssonar vegna lungna og höfuðáverka og Brynjólfs Jónssonar vegna viðbeinsbrots sem þurfti að lagfæra.

Þjónustan sem ég fékk á spítalanum var algjörlega einstök, hvort sem var á slysavarðsstofunni, sem ég kom fyrst á, eða á skurðdeild og vöknun á Borgarspítala eða á deildinni minni á Hringbraut.  Allt starfsfólkið sem sinnti mér, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og aðrir starfsmenn voru algjörlega í sérflokki, þar sem umhyggja og þarfir sjúklingsins (mínar) voru algjörlega númer eitt.

Þegar ég lá á deildinni var mér oft hugsað til Florence Nightingale, því mér fannst hún oft komin þarna ljóslifandi.  Það eru einstakir starfsmenn á spítalanum, sem sýna manni mikla alúð og umhyggju og ég var alltaf umvafinn slíku fólki á meðan ég lá þar.

Eftir útskrift fór ég í eftirskoðun hjá læknunum upp á spítala sem gekk mjög vel og þar fékk ég góðar móttökur. Báðir læknarnir hafa hringt í mig heim til að kanna líðan mína og nú síðast hringdi Tómas í mig í kvöld til að athuga hvernig ég hefði það og fara yfir verkjalyfin með mér.  Þetta fór sko langt fram úr mínum væntingum.

Mig langaði bara að deila þessari upplifun og reynslu með þér Björn, því mér finnst allt of mikið um neikvæða umfjöllun í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum um starfsemi LSH.  Mín upplifun er einstaklega jákvæð og þú mátt skila kærri kveðju og þakklæti til  Tómasar og Brynjólfs og allra hjúkrunarfræðinganna og sjúkraliðanna á deildinni (Florence Nightingale´s í fleirtölu)

Með kærri kveðju og miklu þakklæti.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
Kt: 200669-3209

p.s. ég var líka einstaklega ánægð með að hafa þráðlaust gestanet á spítalanum, takk fyrir það

september 17, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt líf

Sigga og gullið :-)

by Halldóra ágúst 18, 2013

Frábær póstur sem Einar Bárða skrifaði um Siggu vinkonu eftir Gullhringinn á FB síðu Gullhringsins.

Sigríður Sigurðardóttir er sannarlega Gullið í Gullhringnum í dag. Í lokaspretti með Halldóru Gyðu um fyrsta sætið í Gullhringnum í B flokki datt Halldóra mjög illa. Sigríður stoppaði og “afsalaði” sér þannig fyrsta sætinu en gætti vinkonu sinnar allan tímann þangað til að hún var kominn upp í sjúkrabíl. Slysin gera ekki boð á undan sér og koma sannarlega á versta tíma. Sigríður Sigurðardóttir er sannarlega kominn í Wall Of Fame í þessari keppni !

Hún Sigga mín er einstök og mér þykir ofboðslega vænt um hana.

ágúst 18, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
HjólHlaupKeppnisSkíðiSund

KEPPNISSAGA – Landvættur #8 2013

by Halldóra ágúst 10, 2013

Fyrirmyndarhúsmóðirin lauk í dag síðustu þrautinni sem þurfti að ljúka til að geta orðið löggiltur félagi í Fjölþrautafélaginu Landvættir og er hún félagi númer 8.

Til að geta orðið Landvættur þarf að afreka eftirfarandi á innan við 12 mánuðum.

Vesturhluti:
Fossavatnsgangan, 50 km skíðaganga á Ísafirði.

Norðurhluti:
Jökulsárhlaupið, 32.7 km hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis.

Austurhluti:
Urriðavatnssundið, 2.5 km sund í Urriðavatni nálægt Fellabæ.

Suðurhluti:
Blue Lagoon Challenge, 60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði.

Fyrirmyndarhúsmóðirin ákvað ásamt vinkonu sinni Kristjönu Bergsdóttur í lok síðasta árs að stefna að því að klára allar þessar þrautir og verða fyrstu félagsmenn Landvætta.

Fossavatnsgangan – 4. maí 2013
Fyrsta þrautin var Fossavatnsgangan. Fyrsta skref í þeirri þraut var að fjárfesta í gönguskíðum, en Fyrirmyndarhúsmóðirin hafði aldrei stigið á gönguskíði áður.  Síðan var að skella sér á námskeið. Gönguskíðafélagið Ullur bauð upp á námskeið á gönguskíðum fyrir byrjendur í samstarfi við Olís og skelltum við okkur á það. Við vorum svo heppnar að fá góða leiðsögn Óskars Jakobssonar hlaupa- og gönguskíðagarps og Hugrúnar Hannesdóttur fjallagarps.  Eftir að hafa stigið tvisvar á skíði skelltu vinkonurnar sér í Bláfjallagönguna sem gekk mjög vel og komu þær báðar heim með medalíur.

Ferðin vestur í maí gekk svo ágætlega.  Það var mikið rok fyrir vestan svo þeir urðu að færa Fossavatnsgönguna upp í Seljalandsdal, svo við gengum 3 * 15 km hringi í dalnum í stað þess að ganga Fossavatnið, en reyndir menn segja Seljalandsgönguna erfiðari en Fossavatnsgönguna og því var hún stytt um þessa km. Fyrirmyndarhúsmóðirin og Kristjana voru mjög anægðar með að hafa klárað þessa fyrstu þraut í Landvættunum. (Frekari frásögn um Fossavatnsgönguna er að finna hér)
45 km skíðaganga = 4 klst 15 mín 06 sek.

Bláalónsþrautin – 8. júní 2013
Önnur þrautin var Bláalónsþrautin sem haldin var 8. júní. Fyrirmyndarhúsmóðirin hafði ekki miklar áhyggjur af henni, enda hafði hún tekið tvisvar þátt áður, einu sinni í fullri lengd og einu sinni í styttri. Hins vegar var veður frekar leiðinlegt, mikil rigning og mikil drulla. Þegar komið var til Grindavíkur voru gírarnir á hjólinu allir fastir í drullu, svo það var nánast hjólað í einum gír frá Grindavík í Bláalónið, en þar sem markmiðið var bara að klára á aðeins betri tíma en í fyrra, var Fyrirmyndarhúsmóðirin bara ánægð með daginn.
60 km hjólreiðar = 2 klst 51 mín 12 sek.

Urriðavatnssundið – 27. júlí 2013
Urriðavatnssundið varð besta grein Fyrirmyndarhúsmóðurinnar, þar sem hún kom fyrst kvenna í mark. En mikið kom það henni á óvart en þetta var í fyrsta skipti sem hún keppti í “open water” sundkeppni á Íslandi og það var kalt (að hennar mati) þó vatnið hafi verið um 16 gráður. Hún lenti í vandræðum með hægri höndina, þar sem verkir eftir Jakobsstíginn sátu ennþá í henni. En ¾ af Landvættunum komnir í hús. Frekari umfjöllun hérna:
2.500 m sund= 51 mín 25 sek.

Jökulsárhlaupið – 10. ágúst 2013
Síðasta þrautin var svo Jökulsárhlaupið. Veðurspáin í samræmi við veðurfar sumarsins, frekar kalt og rigning, en sem betur fer ekki rok svo Pollýönnurnar þökkuðu bara fyrir það. Fyrirmyndarhúsmóðirin var nú ekki til fyrirmyndar, þar sem hún kom of seint í rútuna, hafði eitthvað misskilið brottfarartíma úr Ásbyrgi í Dettifoss. En hlaupið gekk vel þrátt fyrir mikla drullu og mikla rigningu, en Fyrirmyndarhúsmóðirin naut þess að hafa frábæran héra á undan sér – meistarann og þjálfarann Ásgeir Elíasson.

Það sem toppaði ánægju þessa hlaups var að betri helmingurinn hljóp sitt fyrsta fjallahlaup í Jökulsárhlaupinu og gekk mjög vel.  Helgin var yndisleg með Siggu og Pétri og Sprengju Kötu og Ásgeiri og Ívari (Ásgeir og Ívar voru bara fyrri nóttina).  Frábær helgi á einum fallegasta stað landsins.
32,7 km utanvega hlaup = 3 klst 20 mín 51 sek. 

Fleiri myndir frá Jökulsárhlaupinu er að finna hér:

HEILDARTÍMI Fyrirmyndarhúsmóðurinnar eða Landvætts #8 (númerin eru í þeirri röð sem Landvættir komu í mark í Jökulsárhlaupinu, hefur ekkert með heildartíma eða árangur að gera) er 11 klst 18 mín 34 sek. 

Það væri áhugavert að taka saman fjölda klukkustunda sem var varið í bíl þegar ekið var vestur á Ísafjörð, austur á Egilsstaði og svo norður í Ásbyrgi ;-)  En þar sem ferðafélagar voru alltaf mjög skemmtilegir þá var þetta bara yndislegur og skemmtilegur tími, sem algjör óþarfi er að taka saman ;-) ;-)

ágúst 10, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
HjólKeppnis

KEPPNISSAGA – Gullhringurinn sem endaði á LSH 2013

by Halldóra júní 18, 2013

Við Sigga vinkona ákváðum að taka þátt í hjólareiðakeppninni Gullhringnum 18. ágúst sl.

Við ákváðum að fara B hringinn sem var 66 km og þetta átti bara að vera bara fín og löng æfing, þar sem stutt var í heimsmeistaramótið í London.  Þetta var í fyrsta skipti sem ég tek þátt í svona racer hjólakeppni þar sem margir eru ræstir í einu og var keppnin mjög skemmtileg.

Hópurinn hélst nokkuð þéttur til að byrja með og við sem vorum fremst vorum nokkuð dugleg að skiptast á að leiða og drafta.  Þegar á leið helltist aðeins úr hópnum og þegar við vorum að hringa aðila sem voru í A hringnum þá duttu enn fleiri úr lestinni.

Þegar um 10 km voru eftir þá vorum við Sigga (einu konurnar) í hópi með nokkrum öðrum, held við höfum kannski verið 6 eða 7, því Helgi Geirharðs og Ívar ásamt þriðja manni höfðu stungið okkur af þegar við Sigga hægðum á okkur þegar ég rétti henni annan vatnsbrúsann minn.  Hún hafði glatað sínum brúsa og það gekk erfiðlega að grípa vatnsglös á leiðinni, en ég var með tvo brúsa.

Þegar nokkrir km voru eftir, var greinilega komið að lokasprettinum, ég man bara að ég var farin að hugsa hversu skemmtilegt það væri að við Sigga fengjum báðar gull því við vorum í sitthvorum aldurshópnum og var farin að hugsa um í hvaða peysu ég ætti að vera í, á pallinum. Var ánægð að vera ekki í Hjólamannapeysunni minni svo hún var þurr og man ég var með Þríkó bolinn minn líka (stolt Hjólamanna og Þríkó þríþrautarkona) � 

Síðan man ég ekki fyrr en ég lít upp og sé að Gunnhildur (Dunda hjá Rauða krossinum) Sveinsdóttir úr 3Ægir er að spyrja mig hvaða mánuður sé og hvaða dagur og ég vissi ekki af hverju ég lá á götunni með flísteppi yfir mér og undir mér. En mér var þá sagt að ég hefði dottið, það var búið að hringja á sjúkrabíl sem var á leiðinni og ég man að ég fékk að tala við Óla í símann og honum sagt að koma á móti mér á Selfoss.

Ég hafði greinilega rotast og mér var sagt að ég hefði margoft beðið um að fá að klára og bara viljað klára keppnina ;-) Sigga vinkona og Siggi Martins höfðu snúið við og kláruðu ekki keppnina til að sitja yfir mér með Gunnhildi. Einhver maður úr næsta húsi kom með flísteppi fyrir mig og hringdi á neyðarlínuna.  Sigga sagði mér líka að hún hefði sagt mér að við værum búnar að vinna keppnina og þá fyrst hefði ég róast ;-) ;-) (það er samt ekkert keppnisskap í minni ;-) ;-) )

Ég man eftir ferðinni í sjúkrabílnum og man eftir að hafa talað um að þessi helgi var “HFF” og sjúkraflutningamennirnir skildu það ekki- en þá var ég að vísa til þess að Stjarnan hafi tapað í úrslitaleiknum deginum á undan og svo að ég skyldi detta þegar innan við 1 km var eftir af þessari keppni.  “HFF” = “Helvítans Fokking Fokk” – afsakið orðbragðið – en þetta er orðtak sem einhver kom með haustið 2008.

Farið var með mig í röngtenmyndatökur á Sjúkrahúsið á Selfossi, þar hitti ég Óla. Svo var ég send með sjúkrabíl frá Selfossi á Slysó á gamla Borgarspítalann, þar voru teknar fleiri myndir og ég send í höfuðskanna. Niðurstaðan, fimm brotin rif, brotið viðbein og mar á lunga og loftlunga vinstra megin sem og mar á höfði.  Ákveðið að leggja mig inn á heila- og lungnadeild LSH við Hringbraut, svo ég var send um kvöldið í sjúkrabíl þangað.  Held ég hafi aldrei verið jafn oft, mikið og lengi í sjúkrabíl fyrr á æfi minni, en allir sjúkraflutningamennirnir voru mjög indælir.

Ég fór í aðgerð á viðbeini fjórum dögum síðar og lá inni á LSH við Hringbraut í 11 daga. Þar naut ég frábærrar umönnunnar einstakra heilbrigðisstarfsmanna spítalans og fékk góðar heimsóknir fjölskyldu og vina.   Eftir að ég kom heim sendi ég tölvupóst á forstjóra LSH Björn Z þar sem ég þakkaði kærlega fyrir frábæra þjónustu, (sjá tölvupóstinn hérna).

Mig langar að þakka öllum sem huguðu að mér, þá sérstaklega Siggu vinkonu (sem fórnaði gullinu fyrir mig) Sigga Martins og Dundu, sem og manninum sem kom með flísteppinn. Einnig vil ég þakka öllum sjúkraflutningamönnunum, hjúkrunarfræðingunum á spítulunum öllum og læknunum kærlega fyrir einstaka umönnun og hlýju.  Auk þess er ég mjög þakklát öllum vinum mínum og fjölskyldu sem heimsóttu mig á spítalann.  Takk líka öll sem senduð mér kveðju á facebook. Ég er ofboðslega þakklát, glaðasti þríþrautarkappi í heimi og tel mig heppna að hafa ekki slasast verr. TAKK ÖLL ;-) ;-)

Glæsilegt myndband frá keppninni er að finna hér:

júní 18, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnisSkíði

KEPPNISSAGA – Fossavatnsgangan 2013

by Halldóra maí 5, 2013

Fyrirmyndarhúsmóðirin er stolt af því að vera ein af 90 keppendum sem luku keppni í 45 km skíðagöngu á Ísafirði, Fossavatnsgöngunni 4. maí og lauk keppni í 83 sæti, á tímanum 4 klst 15 mín og 6 sek.

Gönguskíðin fékk hún í jólagjöf, fór á gönguskíðanámskeið hjá Ulli, 12. janúar og skellti sér í Bláfjallagönguna 20 km þann 16. febrúar og hefur alls farið 10 sinnum með Fossavatnsgöngunni á gönguskíði.

Þetta var í 63 skipti sem Fossavatnsgangan er haldin, en hún var haldin fyrst árið 1935.

Vegna slæmrar veðurspár var tekin ákvörðun í pastaveislunni á föstudagskvöldinu að flytja gönguna upp á Seljalandsdal svo gengnir voru þrír 15 km hringir, í stað þess að ganga að Fossavatni einn 50 km hring. Forsvarsmenn keppninnar sögðu þessa göngu erfiðari þ.e. þessa þrjá hringi en þennan eina stóra og því var keppnin stytt um 5 km.

Fyrirmyndarhúsmóðirin ók ásamt samferðarmönnum, þeim Kristjönu Bergsdóttur og Ívari Trausta Jósafatssyni á föstudagsmorgni, þannig að þau misstu af fimmtudags-dagskránni, þ.e. masterclass skíðanámskeiði sem haldið var á fimmtudagseftirmiðdeginum og jógatímum með Mörthu Erntsdóttur.

Ferðin vestur gekk mjög vel. Fyrst var farið á Hótel Ísafjörð til að sækja gögnin, síðan  var útibú Íslandsbanka heimsótt og síðan farið með skíðin í lúxus áburðarþjónustu hjá Craft Sport.

Eftir það var smá tími til hvíldar áður en skíðin voru sótt aftur og farið í pastaveislu í íþróttahúsinu.  Þar var haldinn kynningarfundur með þátttakendum þar sem okkur var tilkynnt um breytta staðsetningu og tímasetningu og lengd göngunnar vegna veðurs.

Að sjálfsögðu voru allir bara rólegir og í raun bara ánægðir með að ekki yrði hætt alveg við gönguna.  Eftir að hafa gert allt klárt um kvöldið var áð snemma til að fá góðan svefn fyrir gönguna.

Á keppnisdag var vaknað snemma í sterkt kaffi og ristað brauð með sultu. Síðan var farið með rútu upp í Seljalandsdal.  Áður en lagt var í hann, hitti Fyrirmyndarhúsmóðirin eina fremstu gönguskíðakonu í heimi, Seraina Boner, frá Sviss, sjá hér heimasíðuna hennar. Boner tók vel í beiðni húsmóðurinnar um að fá að taka mynd af sér með henni.  Boner sigraði gönguskíðakeppnina í kvennaflokki á tímanum 02:17.11.

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður rok og ofankomu, gekk gangan bara þokkalega og Fyrirmyndarhúsmóðirin ánægð með niðurstöðuna, en hún var í 10 sæti í sínum aldursflokki konur, 35-49 ára og í 19 sæti af 23 konum sem kepptu.  Stærsti sigurinn er að þora að vera með þrátt fyrir að vera nýbyrjuð og þar af leiðandi fáar æfingar og aðallega byltu, sem hún fékk í æfingu á Akureyri í lok febrúar, sem er búið að kosta marga tíma hjá hnykkjara, sjúkraþjálfara og nuddara  🙂

Kaffisamsætið á eftir og Gúllassúpan og skemmtunin í Edinborgarsalnum um kvöldið voru alveg til fyrirmyndar og Ísfirðingar geta verið stoltir af þessari frábæru skíðaveislu sem Fossavatnsgangan er, Fyrirmyndarhúsmóðirin mun klárlega mæta aftur 🙂

Hér að neðan má sjá fjölda þátttakenda í hverri vegalengd fyrir sig og úrslit.

90 þáttt. = 45 km
108 þáttt. = 15 km 
39 þáttt. = 10 km 
63 þáttt. = 2,5 km

Ferðin heim á sunnudeginum var hins vegar mjög eftirminnileg, þar sem Steingrímsfjarðarheiðin, var illa fær.  En ferðalangarnir voru á almennilegum fararskjóta og höfðu fengið upplýsingar frá veðurfræðingi hvenær best væri að fara og því var ekki lagt í hann fyrr en ljóst var að búið var að búið væri að ryðja brautina.  Það var mikill skafrenningur á heiðinni, svo Ívar skellti sér í snjósleðagallann og trail strigaskóna út í snjóbylinn og hljóp á undan bílnum til að vísa leiðina, þegar hætti að sjást á milli stika. Á eftir hópnum voru fleiri bílar sem nutu leiðsagnar hlaupagarparins okkar. En með öruggum bílstjóra, góðum fararskjóta, frábæru samferðarfólki og hröðum undanfara – varð leiðin heim bara TRAUST, fróðleg og skemmtileg, enda bættist annar Trausti við hópinn fyrir heimferðina, sem hafði ætlað í flug.

—————————————————
Kristjana Bergsdóttir fékk fyrstu verðlaun í sínum aldursflokki í Íslandsgöngunni og fékk tvo bikara, farandbikar og annan til varðveislu.

Myndaalbúm frá Fossavatnsgöngunni er að finna hér:

maí 5, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt líf

Hemmi og svaraðu nú

by Halldóra apríl 7, 2013

Var í viðtali hjá Hemma Gunn í dag á Bylgjunni í þættinum ,,Hemmi og svaraðu nú”. Ég hef aldrei hitt Hemma Gunn áður í svona eigin persónu (jú hann var farastjóri á Costa Del Sol þegar ég var þar 1987 en ég talaði nú ekkert við hann þá),  en hann hringdi í mig um daginn, (ég veit að Emma sem er yfirmaður á Stöð 2 sport, benti á mig) og þegar maður var búin að segja JÁ við Fréttatímann,= þá er ekki hægt að segja Nei við Hemma, enda sé ég ekki eftir því 🙂

Það var nefnilega alveg einstakt að spjalla við Hemma. Hann er svo einlægur og yndislegur og með því að vera hann sjálfur, brosandi, geislandi og glaður, nær hann algjörlega fram því besta í fólki.  Hann gaf  sér góðan tíma til að spjalla við mig áður en kveikt var á míkrafóninum og ná þannig úr mér mesta hrollinum. Þetta er algjörlega einstakur og frábær eiginleiki góðs útvarpsmanns, enda er Hemmi mikill reynslubolti 🙂

Hemmi er mjög áhugasamur um fólk og hans markmið er að hafa jákvæð og góð áhrif á hlustendur og hann vill að viðtölin hans hreyfi við fólki.  Það er líka frábært á þessum tímum, þar sem ansi mikill tími fer nú í pólitískt þras og neikvæðni þar sem stutt er í kosningar.  Eftir þetta stutta spjall okkar Hemma eignaðist ég vin fyrir lífstíð og það var eiginlega eins og við hefðum alltaf verið vinir og þekkst lengi lengi lengi, enda komumst við að því að við eigum margt sameiginlegt 🙂

Ég vona að þetta stutta spjall mitt við Hemma í dag hreyfi við einhverjum sófadýrum til að setja sér markmið og að einhverjir fari út og njóti hvers einasta dags til fullnustu – því munið að lífið er fallvalt svo við þurfum að njóta hvers dags. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Hér að neðan eru viðtölin, þrír hlutar.

Hemmi og svaraðu nú – Halldóra G M P – fyrsti hluti
Hemmi og svaraðu nú – Halldóra G M P – annar hluti
Hemmi og svaraðu nú – Halldóra G M P – þriðji hluti

apríl 7, 2013 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
  • 1
  • …
  • 32
  • 33
  • 34

Nýlegar færslur

  • Chicago 2022
  • Íþróttaferilsskrá Halldóru Proppé
  • Salomon Hengill Ultra 2022
  • Snæfellsjökull #2 2022
  • Fyrsta útilega ársins 2022

Nýlegar athugasemdir

    Færslusafn

    • júní 2022
    • maí 2022
    • apríl 2022
    • mars 2022
    • febrúar 2022
    • janúar 2022
    • desember 2021
    • október 2021
    • september 2021
    • ágúst 2021
    • júlí 2021
    • maí 2021
    • apríl 2021
    • mars 2021
    • febrúar 2021
    • janúar 2021
    • nóvember 2020
    • október 2020
    • september 2020
    • ágúst 2020
    • júlí 2020
    • júní 2020
    • maí 2020
    • apríl 2020
    • mars 2020
    • janúar 2020
    • desember 2019
    • nóvember 2019
    • október 2019
    • september 2019
    • ágúst 2019
    • júlí 2019
    • júní 2019
    • maí 2019
    • apríl 2019
    • mars 2019
    • febrúar 2019
    • janúar 2019
    • desember 2018
    • nóvember 2018
    • október 2018
    • september 2018
    • ágúst 2018
    • júlí 2018
    • júní 2018
    • maí 2018
    • apríl 2018
    • janúar 2018
    • janúar 2017
    • september 2016
    • ágúst 2016
    • júlí 2016
    • júní 2016
    • mars 2016
    • nóvember 2015
    • ágúst 2015
    • júní 2015
    • febrúar 2015
    • nóvember 2014
    • ágúst 2014
    • október 2013
    • september 2013
    • ágúst 2013
    • júní 2013
    • maí 2013
    • apríl 2013

    Flokkar

    • Daglegt líf
    • Fjallahlaup
    • Fjallaskíði
    • Fjallgöngur
    • Gönguskíði
    • Hjól
    • Hlaup
    • Ísklifur
    • Kajak
    • Keppnis
    • Keppnissaga
    • Sjósund
    • Skíði
    • Sund
    • Veiðar
    • Þríþraut

    Um mig

    Um mig

    Halldóra Gyða

    Halldóra hefur mjög gaman af því að fara út að leika. Markmiðið hjá henni er að njóta lífsins hvern einasta dag, brosa, hafa gaman og hún er þakklát fyrir góða heilsu.

    Verum í sambandi

    Facebook Twitter Instagram Pinterest Tumblr Youtube Bloglovin Snapchat

    Nýlegar færslur

    • Chicago 2022

      júní 26, 2022
    • Íþróttaferilsskrá Halldóru Proppé

      júní 20, 2022
    • Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022
    • Snæfellsjökull #2 2022

      maí 29, 2022
    • Fyrsta útilega ársins 2022

      maí 29, 2022

    Um mig

    banner
    Halldóra Gyða elskar að vera úti að leika. Hér er hún í Dólómítunum í Lavaredo fjallahlaupinu 2016.

    Vinsæl innlegg

    • 1

      Eco Trail Reykjavík – 22 km

      júlí 6, 2018
    • 2

      Ironman Texas 2018

      apríl 28, 2018
    • 3

      Buthan – dagur 1 – hæðaraðlögun og skoðunarferð

      maí 26, 2018

    Síðustu æfingar

    • Yndislegar 3. morgun Esjur skv plani - fyrsta sóló en 2 og 3 með Ástu Laufey 🙏
      On ágúst 13, 2022 7:04 f.h. went 20,12 km during 03:45:40 hours climbing 1.862,00 meters burning 1.722 calories.
    • Mjög rólegt recovery skokk - með smá berja tínslu ívafi - eftir anna saman fyrsta dag eftir sumarfrí í vinnunni 🙏
      On ágúst 12, 2022 4:09 e.h. went 8,01 km during 01:03:34 hours climbing 99,00 meters burning 553 calories.
    • Morning Trail Run
      On ágúst 11, 2022 8:24 f.h. went 0,90 km during 00:06:09 hours climbing 2,00 meters burning 52 calories.
    • VK-Plan Praz - síðasta brekkan fyrir flug heim 🙏
      On ágúst 11, 2022 6:32 f.h. went 5,05 km during 01:31:19 hours climbing 1.004,00 meters burning 676 calories.
    • TMB2022 - Dagur 6 Frá Le Tour til Chamonix ❤️🙏❤️
      On ágúst 10, 2022 8:09 f.h. went 18,56 km during 03:42:06 hours climbing 942,00 meters burning 1.588 calories.
    • Facebook
    • Twitter
    • Instagram
    • Linkedin
    • Snapchat
    • Vimeo

    @2017 - PenciDesign. All Right Reserved. Designed and Developed by PenciDesign


    Back To Top