Vasavikan 2024

by Halldóra

Ég er svo lánsöm að eiga góða vini sem finnst gaman að hreyfa sig hvort sem er í þríþraut eða á gönguskíðum og finnst gaman að taka þátt í nýjum og skemmtilegum áskorunum, alltaf með það að leiðarljósi að hafa gaman og „njóta en ekki þjóta“ eru leiðarljós okkar. Með þessum yndislegu vinum tók ég þátt í fimm Vasagöngum þetta árið, en Vasaloppet er mjög þekkt gönguskíðaganga í Svíþjóð í sænsku dölunum, frá Sälen til Mora, sjá nánar hér: www.vasaloppet.se

Upphaflega planið hjá okkur Hrefnu og Óla hennar Hrefnu var að fara í Opið spor á mánudegi og svo í 100 ára afmælis Vasagönguna og svo í Staffetvasa sem er boðganga alla 90 km, skipt niður í 5 hluta og Óli minn (aðgreining frá Óla hennar Hrefnu) ætlaði að taka síðasta legginn. Óli minn fékk svo brjósklos fyrir nokkrum vikum, svo hann varð að hætta við ferðina svo við fengum Leif þríþrautaræfingafélaga okkar til að hoppa inn í hans stað. Svo fréttum við að Harpa og Jimmy væru skráð í Opið spor á sunnudag líka, svo við Hrefna auglýstum eftir miða á FB síðunni gönguskíði á Íslandi, þar sem það var uppselt í Opið spor á sunnudegi í fyrsta skipti. Við gátum keypt sitt hvorn miðann af íslenskum konum sem höfðu því miður þurft að hætta við, takk kærlega fyrir stelpur. Við flugum út á laugardeginum, enda eins og áður segir, var upphaflegt plan ekki að keppa á sunnudeginum, en plön hjá mér eiga það til að breytast 😉 Eftir lendingu í Osló, var keyrt til Svíþjóðar til Sälen til að sækja BIP númerið okkar (númeravesti) og flöguna fyrir bæði gönguna á sunnudeginum og mánudeginum.

#1 OPIÐ SPOR SUNNUDAGUR 25. FEBRÚAR 2024 – HEFÐBUNDIN GÖNGUSKÍÐI 90 KM (Öppet Spår söndag)

Tilbúnar í Opið spor á sunnudegi, á klassískum skíðum, 90 km.

Munurinn á Opnu spori og Vasagöngunni sjálfri er fjöldinn sem er ræstur út í einu. Að öðru leyti er gengið á gönguskíðum sömu leiðina, frá Sälen til Mora 90 km. Á sunnudeginum er bara heimilt að vera á klassískum eða hefðbundnum gönguskíðum, sem geta verið rifflur, skinn eða klístur. Við Hrefna og Harpa (systurdóttir Hrefnu, þ.e. Brynjudóttir) vorum í ráshóp 7 og vorum ræstar klukkan 08:00. En ráshóparnir voru ræstir út á 10 mín fresti, frá klukkan 07:00. Hámarksfjöldi þátttakenda er 10.000. Jimmy var í ráshóp 5 og fór því 20 mín á undan okkur. Við létum Vasaloppet preppa skíðin fyrir okkur og fór ég á nýjum Fisher 3D áburðarskíðum þar sem ég var að endurnýja mín gömlu sem voru orðin 9 ára gömul og spennan orðin mjög léleg í þeim við spennumælingu í Everest búðinni. Við Hrefna og Harpa ákváðum að ganga gönguna saman, en aðstæður voru ekki mjög góðar. Það var mjög hlýtt og því mikið krap, engin spor og því lélegt rennsli og líka lítið sem ekkert fatt. En fatt og rennsli eru mjög mikilvæg á gönguskíðum bæði fyrir ýtingar sem og vanagang. Ég rann samt mun betur, á nýju skíðunum mínum, en stelpurnar á skinnskíðum svo ég var mjög ánægð með að hafa ákveðið að hafa farið á þeim og fjárfest í þessum æðsilegu skíðum.

Djókið okkar eftir þessa upplifun var: “Öppet ja – men spåret saknades”.

Ferðalagið var því algjörlega: Njóta en ekki þjóta ferð og tíminn okkar var 10:34:57 (moving time skv. Strava 10:12:34) en á leiðinni eru sjö drykkjarstöðvar og við auðvitað fórum líka á salernið og ég lét einu sinni bæta á klístrið, en það er mjög flott Vallaservice á öllum sjö stoppistöðvunum á leiðinni.

Komnar í mark eftir 90 km á engu Opnu Spori á sunnudegi, alltaf glaðar <3

#2 OPIÐ SPOR MÁNUDAGUR 26. FEBRÚAR 2024 – SKAUTASKÍÐI 90 KM (Öppet Spår måndag 90)

Munurinn á Opnu spori á sunnudegi og mánudegi er sá að á mánudegi er hægt að velja hvort skíðað sé á skautaskíðum eða hefðbundnum gönguskíðum. Það eru færri keppendur á mánudegi, hámarkið var 8.000 og það var ekki uppselt. Það eru því færri spor gerð á leiðinni, en á móti er lögð braut fyrir skautaskíðin. Við vorum öll í „startled 3“ ráshópi 3, (ræsing klukkan 07:20) ég, Hrefna, Óli, Brynja og Harpa, en Jimmy hætti við að taka þátt þar sem hann var með verk í hné.

Við vorum í ráshóp 7 í Opnu spori á mánudegi, mæðgurnar Harpa og Brynja fóru á hefðbundnum skíðum, en ég, Hrefna og Óli á skautaskíðum.

Við Hrefna og Óli ákváðum að skíða leiðina saman enda vorum við öll á skautaskíðum, en mæðgurnar, Brynja og Harpa ætluðu að fara saman á hefðbundnum skíðum. Til að byrja með leit brautin vel út, sólin skein og þetta var mjög fallegur dagur. Ég var búin að ákveða að stoppa og taka myndir af hverri einustu drykkjarstöð, svo þetta frábæra veður var þvílíkt lotterí.

Svo fallegur dagur og flottar aðstæður framan af … breyttust svo í þungt færi og engin spor <3

Hins vegar vorum við ekki komin langt, þegar aðstæður urðu eins og á sunnudeginum, lítil sem engin spor, (jú við notum sporin líka sem erum á skautaskíðum, með ýtingum helst í brekkum á leið niður) en það var svo lítið rennsli og því varð dagurinn bara frábær í að æfa skautaskíðun í mjög krefjandi aðstæðum. Yndislegur dagur og njóta en ekki þjóta var aftur leiðarljós dagsins. Tíminn var 11:19:00 en skv. strava var tíminn á hreyfingu 9:48:19, enda stoppuðum við mun oftar á mánudeginum, bæði til að fara á salernið og svo tókum við brekkurnar í bitum, við erum ennþá að læra á þessi skautaskíði, en fín æfing í mjög krefjandi aðstæðum.

Komin í mark eftir krefjandi aðstæður í Opnu spori á mánudegi 90 km á skautaskíðum.

#3 BOÐGANGA FÖSTUDAGUR 1.MARS 2024 – KLASSÍSK SKÍÐI – FYRSTI LEGGUR 25 KM (Stafettvasan)

„Landsliðið“ var skráð í boðgönguna síðastliðið sumar, þegar við vorum að hlaupa og hjóla Vasaleiðina. En landsliðið skipa auk mín, Óli hennar Hrefnu, Hrefna, Brynja og Óli min, en Leifur þríþrautarfélagi okkar hljóp í skarðið fyrir Óla og tók síðasta legginn. Þetta var mjög skemmtilegt og í fyrsta skipti sem ég tek þátt í Boðgöngunni í Vasaloppet.

Skellti mér aðeins á EXPOIÐ að versla áður en ræsingin var í Stafetvasan 😉

Ég fór á fínu klísturskíðunum mínum og lét bara preppa klístrið, ekki rennslið, eftir á hefði ég þurft að bæta á það fyrir gönguna, kannski bara með instant brúsa 😉 Það var mikill mótvindur og við Harpa (sem var í öðru liði, Skíðagörpunum) ákváðum að ganga legginn saman, frá Sälen til Mängsbodarna.

Tilbúnar í Boðgönguna, fyrsta legginn, fyrir sitthvort liðið.

Við skiptumst því á að leiða, ég tók fyrstu 15 km og hún draftaði mig og svo tók hún við og ég hékk í henni. Ég fann alveg að ég var mjög þreytt og hafði smá áhyggjur af því að taka of mikið úr mér þar sem ég var á leið í Næturvasa um kvöldið.

Okkur gekk bara mjög vel tókum bröttu brekkuna að hæsta punkti og alla leið til Mangsbodarna 02:27:26 þessa 25 km – skv. Strava var moving time 2.27.31 svo við vorum ekkert að dóla. Lenti reyndar í því að gönguskíðamaður náði að slá af mér annan skíðastafinn, algjörlega úr höndunum á mér, svo ég þurfti að snúa við, fara til baka og sækja hann. Pollýanna var samt mjög fegin að stafurinn brotnaði ekki. Óli hennar Hrefnu tók svo við af mér og tók næstu tvo leggi, svo tók Hrefna við af honum, þar næst Brynja og Leifur tók síðustu tvo leggina. Hann lenti í smá rútuveseni og ævintýri og hann ásamt Andra „frænda“ sem var í hinu íslenska liðinu, Skíðagörpunum tóku síðustu leggina og fengu að klára. Þetta var mjög skemmtileg upplifun að prófa, svona boð-skíðagöngu.

Tilbúnar í StafetVasan 2024.

Svo tókum við Harpa rútuna til baka til Sälen, þar sem við fórum með bíl upp í Lindvallen þar sem ég náði að leggja mig fyrir Næturvasa keppni kvöldsins.


#4 NÆTURVASA FÖSTUDAGUR 1. MARS 2024 – 90 KM – SKAUTASKÍÐI (Nattvasan 90 – Individuellt)

Fyrir tveim árum, þá tók ég í fyrsta skipti þátt í þrem 90 km skíðagöngum í Vasavikunni og það er einhvern veginn í eðli mínu að skora stöðugt á mig og fara lengra út fyrir þægindarhringinn minn. Því sló ég til, þegar ég sá tækifæri á að skrá mig líka í Næturvasa og fara sem sagt allar fjórar 90 km skíðagöngurnar sem eru í boði í Vasavikunni.

Við vorum búnar með bæði Opna sporið keppnirar og áttum miða í VASAVASAgönguna eins og við köllum Vasaloppet aðalkeppnina þá var því núna tækifæri til að skella sér í Næturvasa líka. Mig langaði að prófa að ganga í þeirri keppni á skautaskíðum en það hef ég ekki gert áður. Nattvasan eða næturvasa keppnin er ræst út klukkan 20:00 og það eru bara tvö hólf, fremra hólfið þeir sem ætla að vera innan við 6 klst 30 mín og aftara hólfið þeir sem ætla að vera lengur en 06:30.

Tilbúin og orðin öftust í hólfinu 😉

Ég skellti mér því í aftara hólfið og fékk pláss mjög framarlega, lengst til vinstri, þar sem skautasporið er vinstra megin á leiðinni. Eftir að hafa komið skíðunum fyrir þá fór ég í bílinn og fékk mér banana og slakaði aðeins á. Fór svo á salernið og var komin tímanlega í sporið eða 15 mín fyrir 20.00.

Ég var búin að fjárfesta í vatnsheldum utanyfirskóm um morguninn, því ég var búin að vera vot í fæturnar allar hinar keppnirnar í þessari bleytu. Lenti því í smá brasi að komast í bindingarnar með þessum utanyfirskóhlífum.

Klukkan 19:50 hleyptu þau svo öllum úr hólfi 2 áfram inní hólf 1 og sameinuðu hólfin. Þá stóð ég eins og álfur að reyna að komast í skíðin mín, og ég endaði næstum því aftast í ræsingunni í Næturvasa ha ha ha, reynsluboltinn sjálfur.

Þeir höfðu ekki sameinað hólfin í Opnu sporunum, eins og við héldum að þeir myndu gera, þ.e. hleypa aftari ráshópum, í næsta hólf, en gerðu það svo í Næturvasa og þá var ég ekki tilbúin ha ha ha. Ég hugsaði samt með mér að þetta var kannski bara ágætt, því ég var „þreytt“ og því fínt að vera aftarlega og taka fyrstu löngu brekkuna bara rólega.

Önnur mistök sem ég gerði, sem við Hrefna höfðum líka gert í Opnu spori á mánudeginum, var að leggja af stað í fína SWIX jakkanum mínum utan yfir vestið og rúllukragabolinn. Ég hefði átt að setja bara jakkann í bakpokann og fara svo í hann seinna á leiðinni. Við þurfum nefnilega að stoppa þegar við vorum hálfnaðar upp brekkuna og fara úr jakkanum í Opnu spori á mánudeginum. Í Nattvasan svitnaði ég líka mikið, enda á skautaskíðunum, að streða við að komast upp brekkuna ha ha ha.

En það var rigning, myrkur og ég þreytt þegar ég lagði af stað svo ég hélt mér yrði kalt, en var í þunnum vettlingum, en með regnhelt cover yfir. Önnur mistök sem ég gerði og skrifa hér til að minna mig á og deila með öðrum, er að eftir stoppið í Oxberg skíðaði ég ofan í djúpan poll svo ég varð hundvot og coverið á skónum mínum saug í sig allt vatnið. Mér leið eins og ég væri komin með 5 kg lóð á hvorum fæti. Skynsamlegast í stöðunni hefði verið að stoppa strax, og annað hvort vinda coverið, eða losa mig við það í bakpokann. En hálfvitinn ég gekk áfram næstu 9 km að næstu drykkjarstöð í Hökberg. Þar fór ég á salernið, tók af mér hlífarnar og setti í bakpokann. Ég var búin að stoppa áður og fara í hlýrri vettlinga, en var í jakkanum allan tímann og með höfuðljós.

Við hliðina á salernunum í Hökberg var upphituð rúta, upplýst, eins og á öllum drykkjarstöðunum og ég fann alveg að hlý og þurr rúta, var alveg að kalla á mig, þar sem það var rigning alla leiðina, myrkur og mikil þoka. Engin spor og ömurlegt skautafæri, þungur KRAPA snjór, sem festist ofan á skíðunum og ég var orðn mjög góð í að kasta snjónum ofan af skíðunum í öðru hvoru spori ha ha ha.

En ég var stolt af mér að hafa haldið áfram, látið ekki undan þessum freystingum. Það var líka eitthvað í hausnum á mér að reyna að segja mér að vera skynsöm og hætta bara, svo ég myndi örugglega ná að klára keppnina á sunnudaginn, annars yrði ég of þreytt og myndi kannski ekki klára hvoruga. Nei ég lét ekki undan, er ekki vön að gefast upp og ákvað því að klára þessa skíðagöngu. Það gekk líka miklu betur, þegar ég var búin að létta skóna (þ.e. fjarlægja hlífarnar og setja í bakpokann minn). En það komu aldrei sleðar eða tæki til að leggja ný gönguskíðaspor eins og þeir gera alla jafna á leiðinni.

Í Næturvasa er heldur ENGIN þjónusta á drykkjarstöðvunum. Þú þarft að vera með þitt eigið glas og hella sjálfur í það og mjög lítið af fólki á stöðvunum og að hvetja. Ég þurfti að stoppa og skipta um höfuðljós, nennti ekki að skipta um batterí, svo ég tók bara hitt ljósið þegar ég stoppaði. Var ekki með nein markmið um tíma frekar en fyrri daginn, fyrir utan að reyna að ná rútunni til bakatil Sälen klukkan 06:00 sem gerði þá innan við 10 klst.

Tíminn var 9:38:43 Strava segir 9:22.21 moving time, svo það var ekki mikill tími sem fór í stopp, mest af þessum tíma var salernisferðin og að reyna að festa aftur bindingarnar 😉

Komin í mark í Mora, rennandi blaut, eftir rigningu og þoku alla nóttina í myrkrinu.

Fyrir tímanörda: Þessi árangur skilaði mér 56 sæti en ég vann mig upp úr 88 sæti í 56 sæti af 115 konum sem voru skráðar í einstaklingskeppninni í Næturvasa. Minn besti tími í Vasaloppet var í Næturvasa 2022 í miklu frosti og frábærum aðstæðum 8:27:27.

Það var fámennt í markinu í Mora undir morgun á laugardegi eftir Nattvasan 😉

#5 VASA-VASASKÍÐAGANGAN SUNNUDAGUR 03.03.2024 – 90 KM (Vasaloppet)

100 ára afmælis Vasagangan var haldin hátíðleg með um 16.000 þátttakendum. Við ákváðum af fenginni reynslu að leggja snemma af stað eða klukkan 05:00 (varð 05:08) sem var svo í raun og veru ekki nógu snemma, því við lentum í bílaröð. Ég þurfti að byrja á því að sækja skíðin mín í VallaSwan sem báru á þau, bæði rennsli og fatt (klístur).

Það var rigning, allt svæðið eitt drullusvað og ótrúlega hlýtt. Það voru engin spor í ráshólfi 9 sem var næstaftasta ráshólfið og þegar við komumst loksins inn í það lentum við eiginlega aftast. Við ákváðum að fara þetta öll saman, ég, Hrefna, Óli (hennar Hrefnu) og Harpa, en Jimmy var í ráshólfinu fyrir framan okkur.

Algjörlega magnað, að vera einn af 16.000, eins og fastur í síldartunnu að reyna að komast upp fyrstu brekkuna í Vasaloppet.
Á leið upp bröttu brekkun í kraðakinu, nægur tími í myndatöku.

Við fórum upp bröttu brekkuna, eins og gæsahópur, hvert á eftir öðru og pössuðum að enginn kæmist inn og já þarna þarf að passa stafina. Fólk er að detta á þá, brjóta þá með skíðunum og þetta er kraðak, eins og síld í síldartunnu. Ég var mjög þakklát að hafa Hrefnu fyrir aftan mig því ég vissi að hún myndi passa stafina mína.

Allir ofan í hvort öðru og aðalatriði að passa stafina að næsti skíðamaður gangi ekki á þá og brjóti þá.

Við vorum búin að vera í 30 mín að ganga áður en við komumst að brekkunni, vorum 1 klst 26 mín upp að hæsta punkti og 2 klst og 16 mín í Smägan sem er fyrsta drykkjarstöðin og tímamörkin þangað (rauða reipið) er 2 klst og 30 mín. Vegna þess hversu hræðilegar aðstæður voru var ákveðið að lengja reipistímanan um 30 mín, alveg frá fyrstu stöð. Við hittum Jimmy í Smågan og hann gekk með okkur yfir í Mångsbodarna en ákvað að hætta þar, þar sem hnén voru ekki að samþykkja að hann héldi áfram í þessu erfiða færi. Það voru mjög takmörkuðu spor og ekki gott rennsli, en ég var samt mjög ánægð með nýju klísturskíðin mín í þessu færi.

Engin spor, og ekki góðar aðstæður.

Við vorum komin í Mångsbodarna klukkan 11:50, í Risberg 13:15 og í Evertsberg klukkan 14:54 og þá í raun bara 5 mín frá upphaflegu tímamörkunum, en það var búið að bæta við 30 mín alveg frá fyrsta stoppi. En það rigndi stöðugt, snjórinn var mjög þungur og blautur og rennslið var mjög takmarkað þangað til þeir fóru með sporana og gerðu ný spor í brautinni.

Í Evertsberg var ég orðin stressuð með „rauða kaðalinn“ svo við Harpa ákvað að kveðja félaga okkar (Hrefnu og Óla) og henda okkur áfram og reyna að ná innan tímamarka í Oxberg. Við vorum þar 16:31, sem sagt með 29 mín inni, m.v. nýju tímamörkin, klukkan 17:42 í Hökberg og klukkan 18:55 í Eldris, vel innan gömlu og nýju tímamarkanna.

Við stoppuðum einu sinni til að pissa í Oxberg og stoppuðum svo aftur til að setja upp höfuðljós og vorum komnar í mark 19:55:36.

Fyrir tímanörda: Unnum okkur upp úr sæti 1936 (þar sem við vorum bara að njóta ekki þjóta) upp í 1728, þegar við breyttum um taktík og þutum, en jú reyndum að njóta líka ha ha ha. (unnum okkur upp um 208 sæti af bara konum).

Komnar í mark í 100 Vasaloppet keppninni, árið 2024.
Ánægð að ná að klára og komin í mark í fjórðu Vasaloppet keppninni á þessu ári, í skýjunum með nýju skíðin mín.

NÆRING

Næringin skiptir mjög miklu máli í Vasaloppet eins og öðrum löngum keppnum. Ég fór með fjögur svona BIOTECH Energy Lemon Gel frá Bætiefnabúlluni á mér í hverja einustu göngu og planið var að taka það inn eftir 20 km, 40 km. 60 km og 80 km. Stundum tók ég samt gelið inn fyrr, ef mér fannst ég vera orkulaus. Ég kláraði alltaf fjögur gel í hverri keppni, nema ég tók inn eitt gel í Boðgöngunni.

Auk þessara gela, var ég með góðan nammipoka á mér. Ég var t.d. með Snickers súkkulaðibita, norska Kvik Lunch súkkulaðið, Godt blandat salt-lakkrís hlaup, sænska saltaða bíla, carbotöflur og carbohlaup frá Enervit og svo salttöflur líka. Var með 1,5 líter af drykk í bakpokanum í blöðru sem var mjög þægilegt að geta fengið sér að drekka á milli drykkjarstöðva.

Stoppaði einnig á hverri einustu drykkjarstöð og fékk mér þar, volgt vatn, orkudrykk, buljon og bollu, held ég hafi borðað örugglega fimm bollur í fyrstu keppninni. Besta bollan var á síðustu drykkjarstöðinni í Eldris, þar sem maður fékk sér líka kaffi með sykri og það var svo mikið kardimommubragð af þeim bollum, langbestar.

Það var engin þjónusta á drykkjarstöðvunum í Næturvasa, þú gast sjálf helt vatni eða orkudrykk í glas, en ekkert annað í boði, nema jú eftir 45 km. Því var mkilvægast að vera með alla orku og drykki á sér í Næturvasa keppninni. Í Stafetvasa, boðgöngunni, þá fórum við bara hratt í gegnum þessa einu drykkjarstöð sem við fórum í gegnum, reyndar fékk ég mér BioTech orkugelið þar líka. Þetta gel er MJÖG gott á bragðið og mjög handhægar umbúðir, þ.e. skrúfaður tappi, svo maður þarf ekki að klára allan skammtinn í einu lagi.

BÚNAÐUR (FATNAÐUR OG SKÍÐI)

Uppáhalds gönguskíðafatnaður minn,er SWIX TRIAC COLLECTION. Ég á jakka, buxur og vesti úr þessu safni sem ég elska. Undir fötunum er ég í SWIX gönguskíða-undirfötum, sem eru úr einhverri gerviefnablöndu með windshield framan á bringunni/maganum og á lærunum. Þau eru þægileg þar sem þau þorna hratt þó maður svitni eða blotni í rigningunni í þeim.

Ég var í léttum SWIX gönguskíðahönskum og með ullarhöfuðband og gott Vasaloppet buff um hálsinn. Það var best að vera með jakkann í vestinu og fara bara af stað upp fyrstu brekkuna, í peysunni og vestinu og geta svo farið í jakkann þegar það kólnar. Ég gerði samt tvisvar þau mistök að leggjaf af stað í jakkanum, bæði í Opnu spori á mánudeginum og í Næturvasa. Síðan var ég líka með þykkari hanska í bakpokanum sem og cover utan um vettlingana, sem var mjög þægilegt þegar það rigndi sem mest. Í Næturvasa, var ég líka með auka buff, auka húfu, auka höfuðljós og rafhlöðu og meira af skyldudóti sem ég þurfti að vera með á mér í Næturvasakeppninni. Everest búðin er að selja Swix gönguskíðafatnaðinn og get ég 100% mælt með honum, #ekkisamstarf

Fór í Opið spor á sunnudeginum, boðgönguna á föstudeginum og í aðalkeppnina Vasaloppet keppnina á nýju Fisher 3D klísturskíðunum mínum sem fást í Everest. Þau voru æðisleg, ég fór mun hraðar en þeir sem voru á skinni niður brekkuna, og klístrið virkaði líka vel, eins vel og hægt var m.v. aðstæður. #ekkisamstarf

Með geggjuðu 3D Fischer áburðarskíðin mín, og Fischer stafina og í Swix Triac fatnaðinu sem hentaði mjög vel í öllum keppnunum.

Ég lét preppa skíðin fyrir mig úti. Fór svo á Fisher 3D skautaskíðunum mínum í Opið spor á mánudeginum og í Næturvasa á föstudeginum/laugardagsnóttina. Þau voru líka æðisleg, m.v. aðstæður. Það var mjög þungt að vera á skautaskíðum í svona þungu færi, krapi og sköflum og ég var orðin mjög æfð í að „kasta snjó af skíðunum“ á ferð ha ha ha.

ÞAKKIR

Það er ekki sjálfsagt að hafa heilsu til að geta hreyft sig og tekið þátt í svona erfiðum keppnum svo ég er mjög þakklát fyrir það. Það er heldur ekki sjálfsagt að eiga svona yndislega vini, sem hafa jafn gaman að því og ég að fara í svona skemmtileg ævintýri ár eftir ár, þó að aðstæður í ár hafi verið sérstaklega krefjandi í öllum göngunum.

Það var mjög leiðinlegt að Óli minn skyldi ekki geta komið með, þar sem hann greindist með brjósklos í janúar. Við ákváðum síðasta sumar að hann myndi fara síðasta legginn í boðgöngunni og hefði því fengið að koma í mark í Mora. Núna fylgdist hann bara með okkur á internetinu frá Íslandi í fjarlægð, en var alltaf online þegar ég kom í mark og fylgdist með sinni.
Takk kærlega fyrir það elsku Óli minn <3

Kæru vinir, elsku Hrefna, Óli Th, Brynja, Harpa, Jimmy, Leifur og Andri takk fyrir yndislegar samverustundir í Lindvallen sem og allar skemmtilegu stundirnar okkar á leiðinni frá Sälen til Mora. Það var alltaf gaman hjá okkur þó aðstæður hafi verið krefjandi og stundum smá stressandi að hafa áhyggjur af rauða kaðlinum.

Við kláruðum þetta og höfðum gaman af allan tímann – bestu þakkir til ykkar allra og til hamingju með ykkar göngur <3 <3 <3

Yndislegir vinir: Hrefna og Óli í markinu í Mora eftir Opið spor á mánudegi.

You may also like

2 comments

Björk Ólafsdóttir mars 8, 2024 - 8:35 e.h.

Vá, innilega til hamingju með allar göngurnar. Eftir að hafa lesið um þín afrek finnst mér mín 90km Vasaganga ein og sér frekar ómerkileg 😂 Skemmtilegur lestur, takk fyrir!

Reply
Halldóra mars 9, 2024 - 5:32 e.h.

Til hamingju Björk með þína Vasagöngu, mjög flottur tími hjá þér í mjög krefjandi göngu og það er alltaf sigur að klára Vasaloppet þetta er alveg rúmlega 90 km leið.

Reply

Leave a Comment