Ferðaskíði á flekaskilum Mývatn-Þeistareykir-Húsavík

by Halldóra

Dagur 1: Mývatn

Var svo lánsöm að fá far með Hafdísi og Atla norður. Stoppuðum á Akureyri og fengum okkur að borða á Strikinu. Annars notuðum við Hafdís ferðina norður í bílnum mjög vel og hönnuðum slagorð og byrjuðum á að vinna í LOGOI-fyrir heimasíðu Halldóru. Hittum svo hópinn á Fosshóteli Mývatn þar sem við gistum í tvær nætur.

Dagur 2: Krafla – Mývatn

Við fórum með rútu norður að Kröfluvirkjun. Krafla er megineldstöð og þar er að finna háhitasvæði með leirhverum og gufuhverum. Við hófum gönguna við eldgígin Víti og skíðuðum til suðurs með sólina í andlitið og útsýni yfir Mývatn. Við þræddum okkur sunnan við Hlíðarfjallið þar sem það var mjög mikið af snjóhengjum á leiðinni, mjög blint en nægur snjór. Fórum eftir gönguna í gufubaðið á hótelinu, sumir fóru í Jarðböðin.

Gengum 12-13 km.

Dagur 3: Krafla – Þeistareykir

Eftir morgunverð komum við farangrinum fyrir í trússbílnum sem fer með farangurinn á Húsavík. Við fórum svo með rútu inn að Kröflu. Ferðaskíðaleiðin okkar lá á flekaskilum yfir Leirhnjúkahraun, úr gosinu 1975-1984, yfir í sigdalinn Gjástykki með 20m háa klettaveggi á tvo vegu, (svipað og á Þingvöllum).

Við fengum frekar lítið skyggnið þennan daginn. Fékk að leiða hópinn um 3-4 km fram að hádegismat og það var mjög töff. Djúpt að vera fremstur á skíðunum, svo það var gott að skiptast á.

Eftir góða pásu héldum við áleiðis að stóra og litla Víti sem eru gígar á toppi dyngju sem myndaðist fyrir 10.000 árum. Áfram héldum við svo norður fyrir Gæsafjöll og renndum okkur niður í Þeystareikjaskála þar sem við gistum. Skálinn á Þeystareykjum lúrir undir bæjarfjallinu, er einfaldur A-laga skáli með rennandi vatni, virkilega kósý og fallegur skáli. En við gistum einmitt í honum þegar við hjóluðum yfir landið, frá strönd til strandar með Ísbjörnunum um árið.
Gengum um 30 km. Hækkun 100 m, lækkun 300 m.

Dagur 4: Þeystareykir – Húsavík

Eftir hafragraut og nestisgerð, æðislegt heimabakað rúgbrauð. þá héldum við inn á Reykjaheiðina í átt að Húsavík.

Fengum ofboðslega fallegan dag og fallegt veður. Fórum fyrst í myndatöku við „gluggana“ hjá virkjuninni. Síðan skíðuðum við yfir Þeystareykjahraunið og skíðuðum yfir Höskuldarvatnið og fáum okkur nesti á leiðinni. Við vildum ekki vera of nálægt fjallinu út af snjóflóðahættu, en heimamenn hættu við Orkugönguna sem átti að halda í dag vegna snjóflóðahættu.

Eftir góða pásu héldum við áleiðis til Húsavíkur. Við vorum heppin og náðum við að skíða alla leið inn í bæ og næstum því inná Fosshótel þar sem við gistum. Það var æðislega gaman að renna sér þarna niður og í gegnum skóginn, það ískraði í manni af gleði þessi niðurferð.

Eftir flottan skíðadag, komum við okkur fyrir á Fosshótel Húsavík og skelltum okkur svo í Sjóböðin. Fengum mjög góðan kvöldverð á hótelinu og ég fékk frábært herbergi, svítu með aðstöðu fyrir hjólastól.

Ganga 25-28 km. Hækkun óveruleg, lækkun 300 m.

You may also like

Leave a Comment