Ironman Italy 2023 16.09.2023

by Halldóra

UNDIRBÚNINGUR
Hótelið okkar Sportur Club var á svo frábærum stað, eiginlega beint á móti markinu og mitt á milli skiptisvæðisins (T1/T2) og sundræsingar.  Við vöknuðum auðvitað eldsnemma og fórum í morgunmat og eftir morgunmat fórum við að hjólinu okkar þar sem settum vatn á brúsana og komum fyrir gelum og þeirri orku sem við ætluðum að taka inn. Ég var í smá vafa hvort ég ætti að pumpa eða ekki í hjólið, ég er alltaf smá stressuð að eiga við það rétt fyrir keppni, ef svo allt loftið myndi fara úr því, svo ég fékk aðstoð hjá Sverri við að pumpa, en fegin að hafa pumpað, því það var mjög lítið loft í dekkinu að framan.  En setti samt alls ekki of mikið. 

Tilbúin í keppnina með besta mínum <3

SUND 1.800 m 1:26:52 (2:17 min/100m)
Elite eða Prohópurinn var ræstur klukkan 07.30  Við hin klukkan 08.00.  Ég kom mér fyrir í ráshóp sem áætlaði 1 klst 15 mín til 20 mín í sundið, þ.e. 3,8 km . Það eru komin fimm ár síðan ég tók síðast þátt í Ironman og þá í Texas, svo það hefur mikið breyst síðan þá. Nú eru komin svona hlið, þar sem sex eða sjö manns eru ræstir í einu í gegnum hlið á 10 sek. fresti sem var ekki síðast. Því er mun minna kraðak í sundinu sem er gott, en á móti kemur þá er betra að vera í réttum ráshóp. Það er erfitt að „drafta“ hanga í kjölsoginu á næsta sundmanni ef það eru fáir og allir miklu hraðari en þú. Svo í næstu IM keppni ætla ég að vera frekar í 1:20-1:25 ráshópnum, því ég náði ekkert að drafta núna í sundinu sem ég hef yfirleitt alltaf náð að gera sem léttir sundið verulega. Á móti kemur voru miklu minni slagsmál og barátta á sundleggnum öllum. 

Sundið í IM Texas er bara einn hringur, svo maður syndir fyrst beint út, tekur svo hægri beygju og syndir langt, langt eftir ströndinni. Rauðar baujur eru alltaf hægra megin við þig, sem hentar mér vel þar sem ég anda alltaf hægra megin.  Við beygjur þá voru baujurnar GULAR og þríhyrntar en ekki kúlur eins og þessar rauðu.  Mér fannst sundið til baka, vera heil eilífð, hafði gleymt að telja hversu margar rauðar baujur voru á leiðinni sem hefði verið mjög sniðugt, því þá hefði ég getað talið þær að beygjunni.  Svo kom loksins gul þríhyrnt bauja og þá synti maður til baka og áfram rauðar kúlur/baujur á hægri hönd.  Þarna var ég farin að fá krampa í hægra fótinn, hægri kálfa niður í tvær tær. Fóturinn festist alveg og frekar erfitt að synda, en ég var búin að upplifa þetta á sundæfingum og æfa mig að synda með þennan krampa svo þær æfingar komu sér vel.  Það er MJÖG GAMALT brjósklos á milli 4 og 5 hægra megin, sem er að hafa þessi áhrif.  En þetta stoppaði mig ekki neitt.  Ég stoppaði einu sinni og tróð marvaðann, til að minnka móðu á gleraugunum þar sem ég var farin að sjá takmarkað.

Komin upp úr sjónum .. sá hvorki né heyrði í Óla 😉

„Overall“ leið mér vel í sundinu og alls ekkert ósátt við það, en hefði kannski alveg verð til í að synda án galla því sjórinn var mjög heitur.  Bara svona pælingar fyrir mig ef ég fer aftur 😉

T1 skiptitími 10 mín 16 sek
Hljóp bara rólega upp úr sjónum, tók af mér úrið, til að losa gallann á leiðinu upp úr, fór rólega í gegnum sturtuna sem er á leiðinni.  Settist svo niður við hjólapokann minn T1 (blár), fór úr gallanum, klæddi mig í sokka og í hjólaskó, fékk mér kóksopa, setti upp hjálminn og henti öllu sund dótinu í bláa pokann og restinni af kókflöskunni.  Fór svo á klósetið á leiðinni að hjólinu. Þetta skiptisvæði er það lengsta sem ég hef séð/upplifað í IM keppni, enda er líka pláss fyrir öll hjólin sem eru í ½ IM daginn eftir.

HJÓL 180 km 6:36:19 (27,25 km/klst)
Leið mjög vel þegar ég byrjaði að hjóla, hafði ekki gleymt neinu á skiptisvæðinu og það var mjög gott að komast á klósettið að pissa þar sem ég bara gat ekki pissað í gallann og í sjóinn ha ha ha þó ég hafi reynt það. 

Hjólaleiðin er út úr bænum og svo upp á hraðbraut, þar sem hjólað er í austurátt þar sem er snúningspunktur og hjólað til baka í vestur.   Ákvað fyrir þessa IronMan keppni að fara „back to basic“ þar sem ég hafði ekki náð að æfa skipulega fyrir þessa keppni, búin að vera í ýmsu öðru þetta sumarið eins og Everest maraþoni, Vasa Ultra keppnum og Team Rynekby ferðalagi. Allt samt skemmtilegar æfingar sem skila sér að sjálfsögðu í þríþrautina, án skipulags ;-). Því skildi ég TT hjólið mitt, djúpar gjarðir og powermæli eftir heima, enda tæp í baki og ekki æfð á TT hjólið.  Fór því á gamla TREK racernum mínum, með púlsmæli og grynnri gjarðir og engan powermæli.  Markmiðið var því bara að passa púlsinn og hjóla eftir líðan.  Það gekk mjög vel og ég var með ágætis næringarplan, með frábæra BioTech Energy Pro GELIÐ mitt frá Bætiefnabúllunni og með Enervit gummí/gel kubba frá því í Vasa í sumar.  

Ég var ekki komin að snúningspunktinum (sem er eftir 35 km) þegar ég fann að það var eitthvað skrítið í gel-kubbnum mínum, það er eitthvað hart í mjúka gúmmíinu.  Komst svo að því að ég var búin að missa „krónu“ (tönn) sem sat föst í gelinu. Varð því að taka gúmmíið í heild sinni úr munninum og setja það ofan í næringartöskuna á hjólinu.  Það hægðist aðeins á mér við þessa uppgötvun, sónaði svolítið út ha ha ha og var svolítið upptekin af þessu, hvort það kæmi verkur í tönnina eða hvernig þetta yrði.  Gat þar að auki ekki hugsað mér að borða fleiri svona gúmmíkubba, svo ég hélt mér við fljótandi gelin. 

Rétt áður en komið er að hinum snúningspunktinum sem er í suðvestur, þá tekur við mjög brött brekka (eftir um 69 km), sem tók vel á. Ég hafði hvorki hjólað né keyrt þessa brekku áður, hafði samt heyrt um hana og fengið ráð að taka ekki of mikið úr mér og var því mjög spennt að sjá hversu löng og brött hún yrði.  Á þessum tímapunkti var ég mjög ánægð að vera með GARMIN EDGE 1040 hjólatölvuna á hjólinu (ok kannski ekki alveg back to basic) en hún sýndi mér nákvæman halla á brekkunni og sýndi hvað væri mikið eftir, semhjálpaði andlega.  Kosturinn við brekkur eru að þegar maður er kominn „upp“ á toppinn þá er yfirleitt alltaf brekka „niður“ hinum megin, sem var mjög skemmtilegt að láta sig vaða.

Það kom mér á óvart þegar ég mætti hröðustu hjólurunum, hversu þétt þeir hjóluðu, því ég og allir í kringum mig pössuðu vel upp á 12 metra bilið. Fannst samt eftirlitið mjög gott, ég varð vör við að þeir stoppuðu þó nokkra. Því fyrir þá sem ekki þekkja þá má ekki „drafta“ eða hanga aftan í næsta hjólara, og bilið á milli hjólara verður að vera um 12 metrar.

Þegar ég var svo búin með um 107 km (rétt búin með snúningspunktinn aftur í norðri sem var við 105 km) þá lendi ég í því að viðgerðarsettið mitt, sem ég var með í brúsa í brúsafestingu aftan á hnakknum, poppaði upp úr standinum og út um alla götu. Ég hugsaði ég verð að stoppa ég get ekki skilið þetta eftir. Svo ég stoppa, reiði hjólið til baka og fer svo að leita að þessu dóti út um allt, var bæði á veginum og úti í kanti. Brúsinn opnaðist og tvö gashylki og pumpa hafði skoppð úr brúsanum, en sem betur fer fann ég allt dótið mitt aftur.  Ástæðan fyrir þessu voru miklar holur sem voru víða á hraðbrautinni, en vegurinn var mjög ójafn og bumpy 😊 Eftir á hugsaði ég hvað í raun það var gott að standa upp og fara af hjólinu, því við höfðum t.d. alltaf gert það reglulega á Rynkeby ferðalaginu og það skiptir miklu máli og þá sérstaklega fyrir bakveika að teygja aðeins úr sér.

Áður en ég kom svo að því að taka bröttu brekkuna í síðara skiptið þá komin með 139 km, þá peppaði ég sjálfa mig upp. Notaði möntruna mína „ég er grjóthörð og jákvæð“ og hugsaði að sá sem klárar „Mur De Hoy“ vegginn í Belgíu, án þess að ganga brekkunar upp, á að að geta hjólað þetta, þó ég væri að sjálfsögðu orðin þreytt, „tannlaus“ og búin með um 140 km 😉
Mantran virkaði og ég náði að komast upp alla brekkuna á hjólinu án þess að stoppa eða ganga.

Bakaleiðin eftir brekkuna og niður í bæ, var mjög krefjandi, þar sem mótvindur var mikill og því hægði verulega á mér þennan síðasta kafla. Ég hélt áfram að taka inn gel og drakk vel, svo ég yrði ekki orkulaus, en þetta var mjög krefjandi hjól og mikill hiti.  Horfði á hitamæli á leiðinni niður í bæ, og hitinn var 30 gráður í forsælu. 

T2 skiptitími 12 mín 43 sek
Kosturinn við þríþraut, er að þegar þú ert búin að synda, þá hlakkar þig til að byrja að hjóla, svo þegar þú ert búin að hjóla mjög langt og orðið smá illt í rassinum og bakinu, þá ertu bara fegin að fara af hjólinu og byrja að hlaupa. Þannig leið mér þegar ég kom í T2 og skilaði hjólinu.  Hitti Óla og kallaði á hann, Óli ég missti tönn 😉

Óli ég missti tönn 😉

Fór svo beint á klósettið, alveg í pissuspreng, því ekki get ég heldur pissað á mig á hjólinu eins og PRO fólkið getur gert 😉  Stoppaði svolítið lengi í T2, fékk mér sæti, klæddi mig í hlaupaskóna í rólegheitum, fékk mér kók að drekka og tók svo líka með mér eina flösku með vatni og söltum.  Gaman að hitta Óla, en svo hitt ég líka Sverri sem við kynntumst úti sem hafði því miður þurft að hætta í hjólinu, vegna púlsvandamála.  

Að dóla mér – skipta um skó og næra sig 😉
Sverrir – af hverju ertu þarna -ertu búin ?

HLAUP 42,2 km 5:47:13 (07:03 meðal pace)
Maraþonið eru fjórir rúmlega 5 km hringir.  Ég hafði hlaupið hluta af þessari leið þegar ég tók þátt í 5 km Midnight Run á fimmtudagskvöldinu (smá mistök sem ég gerði þar að hlaupa allt of hratt, enda var ég með harðsperrur í morgun þegar ég vaknaði) ha ha ha. 

Það voru margir að hvetja á hliðarlínunni, mikið partý í bænum á laugardagskvöldi og gaman. En mikið ofboðslega var HEITT. Ég stoppaði á hverri einustu drykkjarstöð, labbaði í gegnum hana og fékk mér vatn og orkudrykk og hellti vatni yfir mig alla, bæði höfðu, allan búkinn og hendurnar. 

Hingurinn er kláraður á hringtorgi sem var rétt hjá hótelinu okkar og þar hitti ég alltaf Óla og Pétur. Gaf mér alltaf tíma til að labba rólega þar í gegn, spjalla við þá og gefa Óla koss og knús.  Svo henti ég mér í næsta hring. 

Hringtorgið …

https://photos.app.goo.gl/f1yE9n66odevYchS8

Það var mikill munur á hitastigi um leið og sólin settist var ekki steikjandi hiti af sólinni, en eftir því sem leið á kvöldið, þá fækkaði áhorfendum á brautinni, þar sem þeir færðu sig nær markinu til að hvetja sitt fólk sem var að koma í mark.  Það var samt áberandi hversu mikla hvatningu við stelpurnar/konurnar fengum sem ég var mjög þakklát fyrir og einnig var áberandi hversu margir höfðu hnigið niður og voru komnir með aðstoð sjúkraliða, örugglega út af hita og /eða vatnsskorti. 

Það var mjög heitt, enda var maður með allt flaksandi 😉

Ég tek alltaf „sálfræðina“ á hlaupin og hugsa eftir fyrsta hring ¼ eða 25% búinn og svo áður en þú veist af eru þrír hringir af fjórum búnir eða 75% og þá er „bara“ einn eftir.

Tveir hringir búnir, bara 2 eftir 😉

https://photos.app.goo.gl/LCfDFH1xsiGmZSSG6

Þá var bara að „girða sig“ renna upp þríþrautargallanum, þar sem maður þarf að vera sómasamlegur til fara þegar maður kemur í mark 😉 😉

Markið í Ironman Italy er eitt það flottasta sem ég hef séð, það er hlaupið út á ströndina á rauðum dregli, beygt til hægri og þar fram hjá áhorfendapöllunum er svo markið. Það er fullt af fólki á áhorfendapöllunum sem gefur þér „high-five“ á leiðinni í mark og gaman að fagna þó að við Óli höfðum bæði steingleymt íslenska fánanum heima sem ég er vanalega með á mér þegar ég kem í mark 😉

Myndband sem Óli tók þegar ég kom í mark: https://photos.app.goo.gl/4QqQiUgxdcJJQpjn6

IRONMAN FINISHER 2023 13 klst 23 mín 21 sek.
Ég var mjög glöð með mig þegar ég kom í mark, þó tíminn væri minn annar slakasti, en þetta var sjötta IM keppnin sem ég klára. Tíminn var einni mínútu betri en þegar ég kláraði minn fyrsta Ironman í Cozumel, enda ákveðið að þessi yrði algjörlega back to basic. 

Markmiðið var ALDREI að bæta tímann, heldur að taka þátt, hafa gaman og komast í mark.  Mjög margir vina minna hafa lent í DNF (DidNotFinish) í hlaupum á þessu ári og ég var svo smeyk við að klára ekki, að lenda í einhverju, annað hvort með hjólið eða sjálfan mig.

Verðlaunin – Medalía og ískalt Egils Appelsín <3

Það var kona, grjóthörð, jákvæð og full af þakklæti og æðruleysi sem kom í mark í Ironman Italy 2023

Íslendingarnir sem kláraðu IM Italy 2023

You may also like

Leave a Comment