Bláfjallaþríþraut 2020

by Halldóra

Það var í lok fimmtudagsins 7. maí sem poppaði upp hjá mér á Facebook að Bláfjallaþríþrautin yrði haldin, sunnudaginn 10. maí og hámarksfjöldi væri 50 manns út af Covid-19. Ég smellti á skráningarlinkinn til að kanna hvort það væru ennþá laus sæti og sá að það voru tvö sæti eftir, númer 49 og 50. Ég hringdi strax í Margréti Magnúsdóttur þar sem ég var búin að lofa að vera hjólaþjálfari á sunnudeginum og fékk frí, sem var ekkert mál. Ég hringdi svo í Siggu Sig vinkonu sem var ekki við tölvu, en hún var til, svo ég skráði okkur báðar. Hún hafði tekið þátt í þessari keppni í fyrra, en þá var ég í útlöndum.

UNDIRBÚNINGUR
Við Sigga fórum seinnipartinn á laugardeginum upp í Bláfjöll til að kanna aðstæður á sporinu, þ.e. snjónum og veginum þ.e. hjólaleiðinni. Við skíðuðum lítinn hring og rennslið á „skinn“ skíðunum var bara fínt. Ég fór svo í grillpartý með Ísbirnum vinkonum mínum og Sigga hjólaði utanvegarkaflann á CX hjólinu um 11 km til Hafnarfjarðar til að kanna ástandið á veginum sem er lokaður bílaumferð. Vegurinn var grófur en samt þannig að það var alveg hægt að fara á CX hjóli.

KEPPNISMORGUN
Ég var búin að undirbúa mig vel hvað varðar allan búnað á laugardagskvöldinu. Fór snemma að sofa kvöldið áður og vaknaði klukkan 07:00 fékk mér hefðbundinn morgunmat fyrir keppni, þ.e. ristað brauð og kaffi á fastandi maga. Það er að ýmsu að hugsa í svona þríþraut. Taka þurfti til göngskíði (og velja hvaða skíði og þá hvort og hvað bera eigi undir þau) gönguskíðastafi, gönguskíðaskó, hjólaskó, hjólið, hjálminn, hlaupaskó og næringu. Þurfti að muna eftir að setja drykk í brúsa á hjólið og koma þurfti fyrir auka slöngu og gashylki í viðgerðartöskuna á hjólið. Við Óli lögðum af stað uppí Bláfjöll rétt rúmlega átta, fannst ágætt að vera einu sinni komin tímalega, til að stilla upp hjólinu og prófa aftur skíðin. Auk þessi þurfti að merkja bæði skíðin, stafina og hjólið. Fékk merki númer tvö. Hafði tekið þá ákvörðun að fara á skinn skíðunum, en ekki keppnis(klísturs) skíðunum þar sem það er vorfæri og því stundum vesen með áburð eða klístur á keppnisskíðin, þar sem ég kann ekki mikið á þetta klístur 🙂 Hins vegar er yfirleitt rennslið mun betra á keppnisskíðunum og ég því hraðari á þeim. En þetta var bara gleðikeppni og hugsað til að styrkja afreksskíðafólk í Ulli. Prófaði þarna aftur skinnskíðin og þau runnu ágætlega.

Við vinkonurnar ég og Sigga Sig að leggja í hann.

GÖNGUSKÍÐI 1/3
(10,5 km = 53 mín 58 sek = 11,4 km á klst meðalhraði – hámarkshraði 32,4 km/klst)
Við vorum ræst út í 8 manna hópum, klukkan 10:00 með u.þ.b. 1 mín millibili. Við Sigga vorum saman í þriðja ráshópi og ég skíðaði í sporinu á eftir henni. Við fórum vel af stað í þó nokkrum mótvindi. Svo fór að snjóa og þá snjóaði í sporið og þá fundum við hvað það var lítið rennsli í sporinu. Svo kom hríð og rennslið hjá Siggu var ennþá verra en hjá mér svo hún sagði mér að fara á undan sér. Ég fór fram úr henni og sagði henni að „drafta“ mig, þar sem það var ennþá mótvindur og ég vissi að hún myndi svo ná mér niður fyrstu brekkuna. Sigga er algjör snillingur niður brekkur, á meðan ég fer í plóg, enda er minningin um það þegar ég tvíhandleggsbrotnaði í Bláfjallagöngunni um árið, ennþá í fersku minni. Brautin lá um 5 km inn á heiðina og svo til baka. Þetta er ekki sami 10 km hringurinn og var í fyrra og við vorum því í engu skjóli af vestanáttinni sem barði á okkur.

Að koma í mark á gönguskíðunum, eftir smá baráttu við vind, snjókomu og hríð, en það sá líka til sólar.

HJÓL 2/3
(25,5 km = 1 klst 6 mín 54 sek = 22, 9 km á klst meðahlraði – hámarkshraði 68,9 km/klst)
Eftir að hafa skíðað yfir marklínuna, þ.e. tímatökumottuna, þá skilur maður skíðin og stafina eftir og hleypur í átt að hjólinu. Þar skiptir maður um skó, þ.e. fór úr skíðaskónum og í hjólaskóna, ég skipti um hanska líka (sem var ágætt þessir orðnir frekar sveittir), setti á mig hjálminn, hjólahanskana og svo HOKA bakpokann sem var með hlaupaskónum í. T1 = 2 mín og 27 sek. Henti mér svo á hjólið og náði góðri siglingu niður malbikaða kaflann að beygjunni, tók fram úr tveim keppendum á leiðinni að gatnamótunum. Náði hámarkshraða þar um 69 km á klst skv Garmin. Malarkaflinn var mjög krefjandi en ég fór samt fram úr öllum á fjallahjólum, þar sem CX TREK hjólið er auðvitað mun hraðara en fjallahjól almennt. Fór síðan fram úr tveim keppendum sem var sprungið hjá og hægði á mér og bauð þeim aðstoð. En það voru komnir aðrir keppendur að aðstoða þá báða svo þau sögðu mér bara að halda áfram. Þetta var mjög krefjandi 11 km grófur utanvegakafli, þar sem það eru almennt ekki demparar á CX hjólum og ekki á mínu, svo þetta tók vel á hendur og axlir, en vegurinn var samt skárri en ég hélt að hann væri m.v. lýsingar Siggu frá laugardeginum. Meðalhraði hjá mér var um 21-22 km á þessum erfiða kafla skv. Garmin Fenix 6x úrinu mínu.
Eftir malarkaflann tók við malbikskafli alveg niður að gatnamótum Krísuvíkurvegar og vegarins að Hvaleyrarvatni, eða við Dúfnakofana í Krísuvík. Þar beið okkar sendibíll þ.e. í T2 sem tók hjólið, hjálminn og bakpokan með hjólaskónum og ég henti mér í hlaupaskóna og hljóp af stað.

Elska TREK BOONE CX hjólið mitt, en fyrsta skipti sem ég keppi á því.

HLAUP 3/3
(5,43 km 31 mín og 32 sek. Meðalhraði 5:48 pace eða 10,3 km/klst og hámarkshraði 13,6 km /klst.)
T2 tíminn var 2 mín 7 sek, sem er frekar langur tími m.v. þríþraut, en þetta átti hvort eð er bara að vera skemmtikeppni, þ.e. taka þátt og hafa gaman sem ég og gerði. Hlaupið er utanvega í byrjun og fer svo í gegnum Vellina á malbiki og þaðan inn að Ástjörn þar sem er farinn hringur í kringum tjörnina allt á utanvega stígum.
Var því mjög glöð að vera á HOKA SPEEDGOAT utanvega skónum mínum, en ekki HOKA malbiks skónum. Mér leið ótrúlega vel í hlaupinu, en var auðvitað allt of mikið klædd. Í SWIX gönguskíða undirfatnaði, þykkum hlaupabuxum, legghlífum og í SWIX rúllukragabol og jakka og með buff 🙂 Þannig að ég batt utan um mig jakkann á hlaupunum og renndi niður kraganum á bolnum. Þegar ég var komin á malbiksstíg hinum megin við vatnið og tók beygjuna inná malbikaðan göngustíg, þá sé ég hvar ein stelpa kemur á milljón á eftir mér. Ég gaf því svolítið í og náðu góðum niðurhlaupskafla niður brekkuna, en svo þegar við vorum komin hringinn í kringum Ástjörnina, þ.e. rétt áður en við komum að Haukahúsinu, þá náði hún mér og var rétt á undan mér í mark. Við villtumst reyndar báðar í hraunkaflanum á milli Haukahússins og sundlaugarinnar, sem var bara skemmtilegt 🙂

Haddýjar hopp að sjálfsögðu tekið í markinu.

LOKATÍMI = 2 klst 37 mín 2 sek skv. tímataka.net – 2 klst 36 mín 59 sek. skv. Garmin – næstum því á pari. Vegalengdin samtals: 41,29 km.
Þrátt fyrir að hafa misst Berglindi Gunnarsdóttur fram úr mér á lokasprettinum, þá náði ég 3 sæti kvk af öllum 24 konunum sem kláruðu keppnina. Var á eftir Karen Axelsdóttur, sem var í 2. sæti og Kristrúnu Guðnadóttur, gönguskíðadrottningu í Ulli sem var í 1 sæti.
Ég varð í 1 sæti í aldursflokki 50 ára og eldri og var í 12 sæti yfir alla keppendur af 40 sem kláruðu. Þessi niðurstaða kom mér skemmtilega á óvart, þar sem markmiðið var alltaf bara að fara og hafa gaman sem ég og gerði.

Óska ULLI til hamingju með glæsilega Bláfjallaþríþraut. Þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir þeirra frábæra starf og hvatningu. Þetta var einstaklega skemmtileg keppni og gaman að taka þátt í henni og styrkja frábært starf Ullar í Bláfjöllum.
#HOKAONEONE #TREK #ÖRNINN #SPORTÍS #FISCHER #GARMIN #FENIX6X

Konur 50 ára og eldri. Með Sæunni Gísladóttur til vinstri (2.sæti) og Guðrúnu Guðmundsdóttir (til hægri, 3.sæti)

You may also like

Leave a Comment