Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      NýársEsja 2023

      janúar 2, 2023

      Daglegt líf

      Áramóta íþróttaannáll 2022

      desember 31, 2022

      Daglegt líf

      Gamlárshlaup 2022

      desember 31, 2022

      Daglegt líf

      Þorláksmessusund 2022

      desember 23, 2022

      Daglegt líf

      Journey Into Power 200 klst kennararnámskeið

      desember 11, 2022

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      NýársEsja 2023

      janúar 2, 2023

      Fjallahlaup

      Fréttablaðið 07.09.2022

      september 7, 2022

      Fjallahlaup

      UTMB 2022 – tölfræði vegna UTMB 100 mílur

      ágúst 31, 2022

      Fjallahlaup

      UTMB 26.-28. ágúst 2022 Keppnissaga

      ágúst 28, 2022

      Fjallahlaup

      „Before and After“ með Alexis Berg

      ágúst 26, 2022

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Berlínarmaraþon 2022

      september 26, 2022

      Keppnissaga

      UTMB 26.-28. ágúst 2022 Keppnissaga

      ágúst 28, 2022

      Keppnissaga

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Keppnissaga

      Stjörnuhlaupið 2022

      maí 22, 2022

      Keppnissaga

      ÍR hlaupið á Sumardaginn fyrsta

      apríl 21, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

      Þríþraut

      ITU Grand Final ólympísk þríþraut

      september 1, 2019

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      NýársEsja 2023

      janúar 2, 2023

      Daglegt líf

      Áramóta íþróttaannáll 2022

      desember 31, 2022

      Daglegt líf

      Gamlárshlaup 2022

      desember 31, 2022

      Daglegt líf

      Þorláksmessusund 2022

      desember 23, 2022

      Daglegt líf

      Journey Into Power 200 klst kennararnámskeið

      desember 11, 2022

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      NýársEsja 2023

      janúar 2, 2023

      Fjallahlaup

      Fréttablaðið 07.09.2022

      september 7, 2022

      Fjallahlaup

      UTMB 2022 – tölfræði vegna UTMB 100 mílur

      ágúst 31, 2022

      Fjallahlaup

      UTMB 26.-28. ágúst 2022 Keppnissaga

      ágúst 28, 2022

      Fjallahlaup

      „Before and After“ með Alexis Berg

      ágúst 26, 2022

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Berlínarmaraþon 2022

      september 26, 2022

      Keppnissaga

      UTMB 26.-28. ágúst 2022 Keppnissaga

      ágúst 28, 2022

      Keppnissaga

      Salomon Hengill Ultra 2022

      júní 4, 2022

      Keppnissaga

      Stjörnuhlaupið 2022

      maí 22, 2022

      Keppnissaga

      ÍR hlaupið á Sumardaginn fyrsta

      apríl 21, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

      Þríþraut

      ITU Grand Final ólympísk þríþraut

      september 1, 2019

Flokkur:

Keppnissaga

Daglegt lífHlaupKeppnissaga

Berlínarmaraþon 2022

by Halldóra september 26, 2022

Fékk það skemmtilega verkefni að vera hópstjóri á vegum Bændaferða í Berlínarmaraþonið í september 2022.

Hópurinn fór út á mismunandi tímum, sumir með Icelandair, aðrir með Play og enn aðrir komu annars staðar frá eins og frá Svíþjóð og Noregi.

Ég fór sjálf með Play, föstudaginn 23. september. Hitti strax nokkra úr hópnum á flugvellinum eldsnemma um morguninn, það var ekki búið að opna tollaskoðun, veitingar og verslanir þegar ég mætti út á flugvöll, þar sem flugið er svo snemma og ég var komin til Keflavíkur klukkan 03:30.

Flugið sjálft var mjög fínt, þar sem ég svaf að mestu alla leiðina. Svo hitti ég fleiri úr hópnum við farangursbeltið á flugvellinum í Berlin og við tókum lestina saman að hótelinu okkar, MODEL ONE, sem er mjög vel staðsett við Alexanderplatz.

Við vorum orðin frekar svöng þegar við komum á hótelið, svo við fengum okkur að borða á veitingastað fyrir framan hótelið en fengum svo herbergin strax.

Ákváðum samt að drífa okkur á EXPOIÐ – sem er á gamla flugvellinum í Berlín (Flughafen Templehof), um 30 mín ferðalag í lest, sem gekk samt mjög vel. Smá gangur var frá lestarstöðinni Tempelhof að Expoinu.

Það var ótrúlega mikill fjöldi fólks á EXPOINU, metfjöldi í ár 45.527 sem voru skráðir Berlínarmarþonið (34.879 sem kláruðu frá 157 löndum), auk þess sem rúmlega 5000 taka þátt á skautum (Roller Blades) á laugardeginum. Helmingur Exposins er því undir „rollerblades“ lagður, mjög áhugavert, ein íþrótt sem ég hef ekki prófað að stunda 😉 😉

Adidas er aðal styrktar aðili hlaupsins og framleiddi bæði mjög flotta BMW Berlínarmaraþons jakka og líka ekki eins fallega 😉 Flottu jakkarnir voru því miður uppseldir þegar við komum, en nóg til af þessum síðri, sem enginn vildi kaupa, enda ekki einu sinni búnir til úr hlaupaefni.

Fyrir þá sem eru að fara á næsta ári, þá borgar sig að panta jakka / boli áður en farið er út, enda hægt að sækja það á expoinu, sem er fyrirfram pantað. Við vorum frekar svekkt að geta ekki keypt okkur flotta jakkann, en maður á svo sem nóg af hlaupajökkum, hefði bara farið í safnið 🙂

Eftir göngu á expoinu fórum við með neðanjarðarlestum aftur til baka á hótelið. Komum við í matarbúið, til að kaupa vatn, gos og banana á leiðinni heim.

Náðum stuttri hvíld áður en við fórum út að borða, fengum okkur mjög góðan þýskan Svínasnitzel á veitingastað eiginlega við hliðina á hótelinu. Var svo lánsöm að kynnast Rikka (kallaður Óli fyrir norðan) tækninörd sem hjálpaði mér að tengja STRYD græjuna mína, sem ég fékk endurnýjaða á expoinu, þar sem mín var orðin ónýt, en þeir létu mig hafa nýja (sama árs módel) ekki splunku nýja módelið.

LAUGARDAGUR 24. SEPTEMBER 2022
Við Guðrún og Matta (vinkonur frá Höfn) bókuðum okkur í skoðunarferð á hjóli um Berlin klukkan 10:30 á laugardagsmorgninum. Við fórum því í morgunmat klukkan 9 og tókum svo Uber að hjólastöðinni. Ferðin tók 3,5 klst og var á ensku og mjög áhugaverð. Við hjóluðum að mestu í gömlu Austur Berlín en ég fræddist mjög mikið um margt sem ég vissi ekki, enda að fara til Berlínar í fyrsta skipti. Sjá nánar hér:

Um kvöldið borðuðum við nokkur saman klukkan 18:30 á veitingastað fyrir framan hótelið, þar sem ég fékk mér Lasagne sem var mjög gott. Fór svo upp á herbergi eftir matinn og fór að græja mig fyrir hlaupið, fór í fötin og setti gelin í mittistöskuna, skrifaði upplýsingar sem var óskað aftan á númerið og græjaði og gerði. Fór svo að sofa um klukkan 23:00.

SUNNUDAGUR 25. SEPTEMBER 2022
Vaknaði 5:45 nokkrum mínútum áður en klukkan hringdi. Fór í morgunmat klukkan 06:00 og svo lögðum við af stað frá hótelinu 07:30, þeir sem voru í ráshópum, A-F, en ég var í ráshóp F og átti að ræsa klukkan 09:35.

Við ákváðum að ganga að rásmarkinu við Brandenburgarhliðið, sem var um 3 km frá hótelinu. Ferðin tók okkur samt um 1 klst, þar sem við fórum í gegnum öryggishlið. Við Guðrún vorum lengi að leita að stað þar sem við áttum að geyma pokana okkar og svo að finna rétt hólf, biðum í klósettröð sem er þetta klassíska. Var fegin að hafa ekki lagt seinna af stað.

Ég ákvað svo að fara aftur í klósettröð fyrir utan hólfið mitt, svo ég var eiginlega ennþá á salerninu, þegar hólfið mitt var opnað og við fengum að ganga að ráslínunni. Ég var því alveg öftust í hólfinu mínu af stað, sem útskýrir að ég var með 11 mínútna mun á byssutíma og flögutíma þegar ég kom í mark. Það skipti mig engu máli, þar sem markmiðið var alltaf að hlaupa þetta maraþon á gleðinni, „njóta en ekki þjóta“, þar sem ég var í 100 mílna UTMB hlaupinu fyrir 4 vikum síðan.

Síðast þegar ég gerði þetta, þ.e. fór í götumaraþon 2019, til Fíladelfíu með Rúnu Rut vinkonu, ákveðið með mjög stuttum fyrirvara, þá voru 6 vikur liðnar frá því ég var í 100 mílna hlaupi, þ.a. í Grand Raid Reunion. Núna voru bara 4 vikur frá síðasta langa hlaupi. Veit þetta er ekki skynsamlegt og ekki til eftirbreytni ;-(

Hlaupið gekk mjög vel framan af. Fyrrri helmingurinn, þ.e. hálft maraþon var nokkuð gott, mér leið vel og púlsinn var bara eðlilegur. Svo eftir um 25 km fann ég að ég hafði ekki æft nóg á malbiki (fór lengst 18 km) sem er ekki alveg nógu langt fyrir maraþon. Flestir fara lengst í kringum 30 km. En ég vissi að ég hafði ekki æft nóg og þetta yrði alveg krefjandi, svo þá var ekkert annað að gera, en að hægja á sér, halda áfram að taka inn orku á 5 km fresti. Ég stoppaði og gekk í gegnum ALLAR drykkjastöðvar og drakk vatn og hellti yfir mig. Þó það væri ekki mjög heitt, þá var ég orðin vön því eftir allan hitann í Ölpunum í sumar að hella yfir höfuðið á mér sem og inn á bakið og á hendurnar og mér finnst það mjög gott.

Ég ákvað að njóta líka, svo ég tók mikið af myndum og myndböndum á leiðinni, sérstaklega af skrítnum fígúrum 😊 Fannst verst að ná ekki mynd af manninum sem hljóp berfættur fram úr mér, en hann hljóp svo hratt 😊

Þegar um 37 km voru búnir sá ég svæði þar sem var búið að setja upp mikið af bekkjum og þar voru nuddarar að aðstoða hlaupara sem voru komnir með krampa eða önnur meiðsli. Þar lágu líka maraþonhlauparar á börum og á leið í sjúrkabíl.

Þá hugsaði ég: „Ég ætla bara að klára – ég ætla EKKI að lenda í sjúkrabíl.“ Var líka hugsað til þeirra vina minna sem hafa lent í þessum heima, þ.e. að komast rétt yfir rásmarkmið og lenda á börum eða ná ekki að klára síðustu metrana í mark. Þessar hugsanir gerðu mig ennþá skynsamari og ég ákvað að hægja ennþá meira á mér.

EINA MARKMIÐIÐ mitt VAR AÐ KLÁRA, KOMAST BROSANDI GLÖÐ Í MARK OG SÆKJA FLOTTU MEDALÍUNA.

Síðasti kílómeterinn í hlaupinu er algjörlega magnaður, að hlaupa undir Brandenburgarhliðið og allir áhorfendurnir að fagna, báðum megin við götuna. Þetta er svo stórkostlegt. Svo hleypur maður áfram hinum megin við hliðin og kemur í mark og fer beint inní garðinn (Tiergarten).

FRÁBÆR UMGJÖRÐ, SKIPULAG OG STEMNING

Ég get 100% mælt með Berlínarmarþoninu. Allt skipulag er svo flott og yndislegir sjálfboðaliðar allan hringinn. Ég fékk medalíuna mína, sá að Eliud Kipchoge hafði slegið sitt eigið „World Record“, heimsmet á tímanum 02:01:09, þá var ég rétt búin með hálft maraþon. Ég hringdi í Óla minn, sem var heima að horfa á maraþonið í sjónvarpinu og sagði honum að ég væri komin í mark.

Tíminn minn var 04:20:42 – 20.981 sæti – 5.220 af konum – 542 í aldursflokki.

Gekk svo í gegnum allt svæðið, fékk poka með veitingum, sótti pokann minn með fötunum mínum og fékk einn óáfengan bjór sem var mjög góður.

Fór svo við „Treffen punk“ eða „meeting point“ stað þar sem við vorum búin að ákveða að hittast við „i-ið“ . Þar hitti ég Edda og Jórunni og svo Guðrúnu og Möttu. Lilja, Reynir, Bjarki, Rikki og Guðrún voru löngu komin í mark og farin upp á hótel.

Við biðum smá stund á þessum stað við I-ið, en svo fór að kólna þegar sólin fór og þá ákváðum við bara að skella okkur uppá hótel, tókum neðanjarðarlestina þangað sem er mjög einfalt og þægilegt. Þátttökumiðanum í maraþonið fylgir fjögurra daga lestarpassi.

Eftir sturtu og smá hvíld þá hittumst við á ROOF Bar klukkan 18:00 á hótelinu og fórum svo saman út að borða á Hofbraeu Wirtshaus.

Á maraþon matseðlinum var þríréttað ekta þýskt hlaðborð. Virkilega skemmtileg lifandi tónlist, skemmtilegir slagarar eins og Sweet Caroline og við tjúttuðum heilmikið á dansgólfinu um kvöldið.

MÁNUDAGUR 26. SEPTEMBER 2022

Flugið heim var klukkan 12, svo við borðuðum morgunmat klukkan 8, tókum lestina út á flugvöll klukkan 9 en svo var smá seinkun á fluginu út frá Íslandi um morguninn. Svo fluginu seinkaði um 1 klst.

En það voru sælir og glaðir ferðalangar, margir með medalíuna um hálsinn, aðrir í FINISHER bolum, en allir stoltir eftir flottan árangur í Berlínarmaraþoninu.

ÞAÐ SEM STENDUR UPP ÚR

Það var eitt sem ég myndi gera öðruvísi ef ég væri að fara í maraþon um næstu helgi. Það er að vera í gamla hlýrabolnum mínum sem er með nafninu mínu framan á og íslenska fánanum. Maður fær svo mikla hvatningu og orku frá áhorfendum sem eru að hvetja allan hringinn. Ég ákvað hins vegar að vera í FREE TO RUN hlýrabolnum mínum þar sem ég er að safna fyrir þessi frábæru samtök, sjá nánar hér.

Það sem stendur upp úr eftir helgina, er hvað það er skemmtilegt að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Hópurinn (sem var mikið saman) náði virkilega vel saman og það var einstaklega gaman að kynnast þeim og vera með þeim.

Mig langar að þakka þeim kærlega fyrir skemmtilega helgi í Berlín og óska öllum hlaupurum innilega til hamingju með glæsilegt maraþon.

september 26, 2022 0 comment
1 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífFjallahlaupKeppnissaga

UTMB 26.-28. ágúst 2022 Keppnissaga

by Halldóra ágúst 28, 2022

UTMB hlaupið í UTMB hlaupaséríunni er ræst í miðbæ Chamonix fyrir framan kirkjuna. Við Börkur ætluðum að vera komin út á torg klukkan 17:00, en hlaupið var ræst klukkan 18:00. Það voru fimm Íslendingar skráðir í hlaupið, ég, Börkur Árna vinur okkar sem býr í Noregi, Siggi Kiernan vinur minn, Biggi Már og Andri Teitsson frá Akureyri. Biggi mætti ekki til leiks, Siggi þurfti að hætta við að taka þátt samdægurs vegna veikinda, svo það voru þrír Íslendingar sem lögðu af stað í þetta 100 mílna/ 172 km hlaup með rúmlega 10.000 metra samanlagðri hækkun.

May be an image of text that says 'UTMB® race bib- Surname First Category name Nationality 2461- 50-54M ARNASON Borkur IS 745- 50-54M KIERNAN SigurdurIS 1056- MATTHIASD 50-54F IS PROPPE Halldora Registered f Registered f Registered f 1300- 55-59M TEITSSON Andri IS 576 40-44M VIGFUSSON BirgirIS Registered Registered f'
Íslendingar sem voru skráðir í UTMB 100 mílna/172 km hlaupið.

Síðustu skilaboð Sigga til okkar Barkar voru að troða okkur framarlega við rásmarkið. Við Börkur lentum í miklum troðningi að komast að kirkjunni og rásmarkinu svo það var ekki séns að komast framarlega. Hefðum svona eftir á séð átt að mæta fyrr og reyna að komast framar, því það liðu 10 mínútur eftir ræsingu, þangað til við gátum farið að hlaupa (ég kíkti á úrið og klukkan var 18:10 þegar ég byrjaði að hlaupa). Kosturinn var að ég heyrði allt Vangelis lagið (Conquest of Paradise) spilað, þar sem ég var svo lengi að komast út úr rásmarkinu.

UTMB hlaupið í UTMB séríunni fer allan hringinn í kringum Mt.Blanc, þ.e. ræst í Chamonix í Frakklandi og endar þar. Fer í gegnum Ítalíu og Sviss áður en leiðin liggur aftur til Frakklands.

UTMB hringurinn

UTMB hlaupið er „mekka“ allra fjallahlaupara. Í ræsingunni eftur „Hú-ið“ er lagið Conquest of Paradise eftir Vangelis spilað og að vera þarna og hlusta og vera einn af rúmlega 2.600 hlaupurum sem leggja af stað í þetta einstaka ferðalag er „gæsahúðarmóment“. Ég viðurkenni að ég fékk tár í hvarma og var mjög meir að hlusta. Verkefnið framundan var líka mjög krefjandi þar sem ég þurfti að hætta í þessari sömu keppni árið 2017. Ég var með áreynsluasma sem ég vissi ekki af og náði því ekki tímamörkum í Courmayeur (hálfa leið).

Í ræsingunni þegar Conquest of a Paradise lag eftir Vangelish er spilað.

Þegar við Börkur stöndum þarna og bíðum í ræsingunni kalla tveir menn til mín, er þetta ekki Halldóra frá Íslandi sem var með okkur í TOR-num ? Það voru tveir spænskir vinir mínir sem ég hafði kynnst í TOR Dés Geants 330 fyrir ári síðan, sem voru að heilsa mér.

Við Börkur tilbúin að reyna að troða okkur að ráslínunni.
Með Francisco Benjumea og Jose Carmona sem ég kynntist í TOR í fyrra.

Það var alveg meiriháttar að hlaupa í gegnum bæinn og ég sá marga Íslendinga á leiðinni, fyrst sá ég mömmu, svo Öbbu og Bárð, svo alla Akureyringana.

Siggi náði þessari mynd af mér á leið út úr bænum …
og þessi líka frá Sigga … @alparnir, @baetiefnabúllan @eyesland og @natturuhlaup.
Ræsingin – myndband sem Siggi tók frá göngugötunni 😉

Það var fólk að hvetja sitt hvorum megin við alla göngugötuna og í raun eiginlega alveg út að kifurvegg, þar sem hlaupið fer skógarleið í átt að Les Houches, þar sem fyrsta drykkjarstöðin er.

Það voru þátttakendur að hvetja út um allt – þetta var í Les Houches.

Í Les Houches byrjar fyrsta klifrið. Við Börkur vorum samferða upp fyrsta fjallið. Þar sem við ræstum frekar aftarlega þá lentum við í langri biðröð, þvögu sem tók nokkuð margar mínútur að komast í gegnum.

Troðingurinn upp fyrsta fjallið …
Ennþá meiri troðningur ..

Ég var farin að hafa smá áhyggjur af fyrstu tímamörkunum, þar sem planið mitt gerði ráð fyrir að ég væri alltaf um 30 mínútum frá þeim. En nú var ég búin að tapa 10 mínútum í ræsingunni sem ég gerði ekki ráð fyrir og um 15 mínútum í þessari þvögu, svo það var ekki mikið upp á að hlaupa. Fyrsta „tékk inn“ stöð var í Col de Voza (La Delever) fyrsta fjallið í um 1.900 m hæð, þá voru 13,3 km búnir og 774 m hækkun og ég var númer 2.473 af þessum 2.627 þáttakendum sem hófu keppni.

Framundan var niðurhlaup í átt að Saint-Gervais, en þar týndi ég Berki þar sem ég fór aðeins hraðar niður en hann. Það var ótrúlega magnað að koma inn í Saint-Gervais bæinn. Hlaupið fer í gegnum miðbæinn, sem var fullur af fólki sem var að skemmta sér á föstudagskvöldi og hvetja okkur áfram og það fer ekki bara í gegnum hann heldur, er hlaupið í hring, svo þú sérð fólkið sem er að hlaupa hinum megin. Mjög skemmtileg leið. Ég mundi ekki eftir þessu frá 2017, en wow hvað það var gaman að fara þarna í gegn, hefði viljað eiga þessa upplifun á myndbandi. Ég var búin að fylgja næringaplani, þ.e. búin að taka inn Coca-cola orkugúmmi og smá gel og drakk vel.

Kom inn í Saint-Gervais klukkan 21:26 um kvöldið sem var 34 mín frá tímamörkum sem voru klukkan 22:00, þá var 21 km búin eða hálft maraþon og ég var búin að vera á ferðinni í 3 klst 26 mín. Búin að vinna mig upp um 56 sæti, þ.e. komin í sæti 2.417. Ég fyllti á báða drykkjarbrúsana, setti frábæra orku í annan ( ISOTONIC blandað með BCAA NANO, með appelsínubragði sem var mjög gott frá Bætiefnabúllunni) og vatn í hinn brúsann. Fékk mér nokkra ávexti í poka á leiðinni út. Þegar ég var að fara, sá ég Börk koma inn á drykkjarstöðina, ég sagði honum að ég ætlaði að drífa mig enda fullviss um að hann myndi ná mér.

Eftir Saint-Gervais kemur langur frekar aflíðandi kafli, en með smá hækkun í átt að Les Contamines. Það var frekar erfitt að taka fram úr á þessum kafla og það kom mér á óvart hversu margir voru bara að ganga. Ég hafði ennþá áhyggjur af tímamörkum og reyndi að taka fram úr og hlaupa, þar sem það var hægt.

Í sumar fór ég tvo hringi sem fararstjóri í kringum TMB (Tour Mt.Blanc) á vegum Náttúruhlaupa (Arctic Running). Báðar ferðirnar byrjuðu rétt fyrir utan Les Contamines, svo ég hlakkaði mikið til að koma að Notre Dame kirkjunni, þar sem við byrjuðum ferðirnar okkar, því þá þekkti ég leiðina sem var framundan.

Les Contamines drykkjarstöðin er fyrsta stöðin þar sem aðstandendur mega koma inn. Það var ofboðslega troðið á þessari stöð að ég bara fór inn, fyllti á vatnsbrúsana, setti banana og appelsínur í poka, fór á klósettið og svo bara út aftur, fékk mér ekki einu sinni sæti. Jú ég fékk mér kaffisopa í glasið með einum sykurmola, sem var mjög gott enda komið niðamyrkur. Klukkan orðin 23:08 á föstudagskvöldi. Tímamörkin þar voru klukkan 00:00 svo ég var aðeins að bæta í, enda settist ég ekki einu sinni niður. Búin að vinna mig upp um 150 sæti.

Eftir Les Contamines er frekar flatur kafli að Notre Dame kirkjunni og þar var HOKA með virkilega flott ljósashow sem hlaupið er í gegnum og mikið ljósashow úti á ökrunum og frábæra stemnings tónlist. Það var virkilega skemmtilegt að hlaupa þarna í gegn, ég reyndi að taka myndir sem tókst ekki mjög vel. Hoka er aðalstyrktaraðili hlaupsins.

HOKA ljósashow.
VIð ljósashowið …

Það var yndislegt að koma að Notre Dame kirkjunni og byrja klifur númer tvö, því þarna vissi ég að ég væri á heimaslóðum, þekkti leiðina vel. Hins vegar byrjaði ég aðeins að finna fyrir astmanum í lungunum, svo ég tók bæði astma lyfin. Ein af aukaverkunum þessara astmalyfja er að maður getur fengið krampa í fæturna, eins og ég var búin að finna áður en ég lagði af stað. Það var það síðasta sem ég nefndi við Sigga, voru þessir krampar sem ég var að finna og þá ekki lögð af stað.

Krampinn kom strax í hægri fótinn og ég fann hvernig ég dofnaði á fætinum sjálfum, svo ég ákvað bara að hlaupa á „vinstri“. Setti allan þunga í vinstri fótinn og hafði hann alltaf á undan, þannig slapp þetta til 🙂

Drykkjarstöðin í La Balme er þegar maður er komin tæplega hálfa leið upp fjallið að Col du Bonhomme skarðinu. Þar borðaði ég fleiri eplaskífur og drakk annan kaffibolla, en stoppaði ekkert að ráði. Þetta er úti drykkjarstöð og það var orðið frekar kalt, svo ég ákvað að halda áfram. Velti fyrir mér að fara í jakkann, en ákvað að sleppa því, þar sem ég vissi að framundan var langt klifur upp fjallið í niðamyrkri. Búin að vinna mig upp um 253 sæti og klukkan orðin 00:57 aðfararnótt laugardags.

Leiðin var því áfram upp. Ég hlakkaði til að komast á toppinn. Þegar toppnum var náð hugsaði ég um frábæru dagana og allar flottu myndirnar sem við tókum þarna í skarðinu af báðum frábæru hópunum sem við vorum með þarna í sumar. Nú var ekki ein mynd tekin þarna í myrkrinu 🙂 Hélt áfram að Croix Bonhomme og þaðan að Refuge de La Criox du Bonhomme sem er skálinn sem við stoppuðum í með hópana í sumar og nutum sólarinnar. Þar var ég klukkan 02:46. Það var engin drykkjarstöð þar og skálinn ekki opinn. Því var haldið áfram beint niður í bæ Les Chapieux. Hugsaði með mér og minnti mig á að það var ekkert símasamband eða netsamband í Les Chapieux, en það skipti engu máli, þar sem ég var í samfélagsmiðlabindindi, þ.e. fór aldrei í símann, nema til að kíkja á hvar næstu tímamörk væru og til að vera viss um að síminn væri að tracka þ.e. á life tracking, sem eyddi rafhlöðunni 🙂

Þegar komið var inn á drykkjarstöðina í Les Chapieux þá var búnaðarskoðun. Við urðum að sýna jakka, höfuðljós (sem ég var með á höfðinu) og gsm síma. Samkvæmt planinu frá Betu þá átti ég að stoppa og næra mig vel í Les Chapieux, þar sem það var langt í næstu drykkjarstöð og krefjandi fjöll framundan. Ég settist því niður í fyrsta skipti í hlaupinu þar og fékk mér smá súpu að borða og eitt brauð og hvíldi mig aðeins. Þar hitti ég aftur annan spænska vin minn úr TOR-num, hann Jose sem spurði hvar vinur minn (Börkur) væri, en við vorum sem sagt bæði búin að týna vinum okkar 🙂

Fyllti svo á vatnsbrúsana og fékk mér kaffisopa áður en ég lagði aftur af stað út í myrkrið. Stoppaði 21 mínútu þarna inni og tapaði því 66 sætum á þessu stoppi. Búin með 50 km, af 176 km, svo rétt tæplega þriðjungur búinn 🙂

Ég þekkti leiðina vel frá Les Chapieux, alveg að Pýramídunum. Mér leið ágætlega og það var ekki hlaupið hratt, mér fannst ansi margir ganga, en ég ákvað að reyna að hlaupa og taka aðeins fram úr fólki sem var bara að ganga inn Jökuldalinn (Vila des Glaciers). Dalurinn er ofboðslega fallegur, það var heiðskýrt og stjörnubjart. Allar stjörnur himintungslins vöktu yfir okkur og mér var einmitt hugsað til Sigga Kiernan vinar míns sem hvatti okkur til að fara út þarna um nóttina og horfa á stjörnurnar í TMB ferðinni okkar í sumar.

Framundan var þriðja fjallið sem ég þekkti vel, en nú fór að halla undan fæti. Astminn helltist yfir mig þar sem brekkan var sem bröttust en þær voru ansi brattar þarna. Mér leið eins og allir væru að fara fram úr mér og það tók á mig andlega, þar sem minningar frá 2017 helltust yfir mig, þegar ég endaði með sóparann (e. Sweeper) fyrir aftan mig og komst ekki fetið áfram.

Ég ákvað því að taka 1/2 töflu af háfjallaveikislyfi sem ég átti frá því ég var í Nepal (Díamox) sem að víkkar æðarnar og á endanum komst ég upp á topp á Col de la Seigne, en mér var farið að líða mjög illa. Ég kom ekki niður orkugeli eða neinni orku, eina sem ég gat borðað voru epli og þegar ég kom upp á toppinn á Col de La Seigne, þ.e. landamæri Frakklands og Ítalíu reyndi ég að troða í mig geli (fyrir píramídana), sem gerði það að verkum að ég kastaði upp, allri orku sem ég hafði komið niður og klárlega þessari 1/2 töflu líka. Góðu fréttirnar eftir á, sé ég er að ég var samt að vinna mig upp um 65 sæti, þó ég hafi misst allt þetta fólk fram úr mér og var viss um að Börkur hefði líka farið fram úr mér þarna um nóttina en ég hefði bara ekki séð hann, þannig að ég hef greinilega náð góðu hlaupi á flata kaflanum áður en ég fór í klifrið.

Ég rifjaði upp allar fallegu minningarnar sem ég átti frá því í sumar á Col de la Seigne skarðinu og leið aðeins betur eftir að hafa kastað upp svo ég hljóp bara hratt niður og tók fram úr mörgum. Kveið smá fyrir „pýramídahringnum“ þar sem ég hafði ekki farið hann. Honum var sleppt út af vondu veðri 2017, og ég og Siggi fórum ekki þessa leið í sumar. Beta fór með helming hópsins okkar þennan hring. Ég var fullviss um að ég myndi aftur missa alla fram úr mér upp þessa pýramída sem ég hafði tekið fram úr á leiðinni niður 🙂 En Pýramída leiðin er mjög krefjandi svo það er enginn að fara hana mjög hratt, stígurinn er mjög gríttur og erfiður, svo það fóru allir jafn hægt og ég 🙂

Þegar toppnum var náð þá var útsýnið guðdómlegt. Ég varð að taka upp símann og taka mynd af sólarupprásinni á þessum yndislega og fallega stað. Við komum svo ofan við Elísabeta skálann (Rifugio Elisabetta) sem var lokaður og engin drykkjarstöð þar.

Næsta drykkjarstöð Lac Combal er á túninu fyrir neðan Elísabetar skálann (Rifugio Elisabetta). Þar settist ég aðeins niður og eina sem ég get hugsað mér að borða voru eplaskífur, en ég var með hnetusmjör í poka sem ég gat smurt eplin, svo ég kom aðeins meiri orku en bara eplum niður. Ég var komin í Lac Combal klukkan átta á laugardagsmorgni, tímamörkin þar voru klukkan 10:00 svo þrátt fyrir allt þá var ég að vinna mér inn tíma m.v. tímamörkin. Var líka að vinna mig upp um 87 sæti, en held það hafi nú aðallega verið vegna þess hversu stutt ég stoppaði í Lac Combal, þar sem það var enginn leið að komast fram úr á leiðinni niður pýramídana, þar sem það var lítið bil á milli hlaupara, þétt keðja, og mjög erfitt að taka fram úr. Allir að ganga niður fjallið.

Það var orðið bjart og aðeins farið að hlýna þegar ég yfirgaf Lac Combal drykkjarstöðina. Á leiðinni niður að stöðinni hafði ég hitt Alexis Berg sem er þekktur ljósmyndari meðal hlaupara og hafði tekið af mér myndir fyrir hlaupið. Hann var að vinna sérstakt verkefni sem gengur út á að taka myndir af UTMB hlaupurum fyrir og eftir hlaupið. Á þessum flata kafla sá ég hann aftur og heilsaði honum að sjálfsögðu, mjög glöð að hitta einhvern sem ég þekkti.

Mynd af okkur Alexis Berg sem við tókum í stúdíóinu fyrir hlaupið.

Framundan var síðasta fjallið, klifrið, áður en hlaupið er niður löngu brekkuna til Courmayeur á Ítalíu. Ég krossaði bara fingur og vonaði að þessi brekka myndi ganga vel. Tók meira af astmalyfjum og eins og vanalega fékk ég krampa í hægri fótinn sem ég var farin að venjast 🙂 Klifrið upp gekk ágætlega og ég rifjaði allar minningarnar sem ég átti frá því í sumar upp þetta fjall, misgóðar þó, þar sem einn félagi okkar datt þarna í sumar ;-(

Var kominn á toppinn klukkan 9:23 á laugardagsmorgni á Aréte du Mont-Favre, þá voru 72 km búnir og ég hafði unnið mig upp um 44 sæti, sem er aðallega vegna þess að ég stoppaði mjög stutt á síðustu drykkjarstöð.

Í Checrouit Maison Vieille sem er efst í skíðabrekkunni í Courmayeur, fékk ég mér fleiri eplaskífur og appelsínur og rifjaði upp yndislegar minningar frá því í sumar. Þarna missti ég einhverja níu framúr mér. Tók svo fram úr einhverjum á leiðinni niður í Courmayeur. Var komin til Courmayeur klukkan 11:02, en tímamörkin þar eru klukkan 13:15 (mundi vel hvernig tilfinningin var 2017, að vera einni mínútu frá tímamörkunum). Um leið og ég kem inn á drykkjarstöðina sem er í íþrótthúsinu hitti ég Sigga Kiernan og Heiðu sem tóku vel á móti mér og tóku þessa mynd af mér, þegar ég kom hlaupandi inn á stöðina.

Á leiðina inní Courmayeur drykkjarstöðina, mynd sem Siggi Kiernan tók.

Mamma var komin inn á stöðina og beið mín þegar ég kom þangað, en ég tók „drop-bag“ pokann með mér inn á stöðina. Núna er bara einn svoleiðis poki alla leiðina, fyrir tíma C-19 voru tveir pokar á leiðinni. Því þarf núna að bera alla næringu fyrir fyrri helming hlaupsins að Courmayeur svo hlaupavestið var frekar þungt, þó Siggi hafi komist í það fyrir brottför og tekið örugglega 2-3 kg úr því og það munaði verulega um það.

Í Courmayeur er hlaupið tæplega hálfnað, þ.e. 81 km búin af rúmlega 170 km. Ég skipti um stuttermabol og sokka, setti á mig meira Gewohl fótakrem, en skipti ekki um buxur eða skó. Reyndi að borða eitthvað af matnun sem mamma kom með en ég kom því ekki niður var orðin svo þurr í hálsinum af öllum astmalyfjunum. Eina sem ég átti auðvelt með að borða voru eplaskífur og ég drakk Egils Appelsín sem mamma kom með það var mjög gott. Ég skipti um rafhlöður í Petzl Nao+ ljósinu mínu, þ.e. var með tvær rafhlöður og skipti þeim bara báðum út fyrir nýjar sem voru fullhlaðnar. Tók svo allan pokann með næringunni fyrir seinni helminginn, tók samt að mestu öll gelin úr, þar sem ég var ekki ennþá að koma neinum gelum niður. Mamma var mjög dugleg að reyna að aðstoða mig, hljóp og sótti vatn í brúsana og sótti ávexti fyrir mig og var mjög dugleg að aðstoða mig þó hún hafi aldrei verið svona aðstoðarmaður áður <3

Á Courmayeur drykkjartöðinni, mynd sem mamma tók af mér þegar ég var að skipta um bol.

Hafði enga lyst á orkugeli, svo ég tók bara súkkulaði bitana (Snickers, Milkiway og Mars) og Oatbar bita frá Bætiefnabúllunni og próteinbita. Það var það eina sem ég gat hugsað mér að borða sem og Prótein snakk poki sem ég var með úr Bætiefnabúllunni sem er mjög gott snakk og rann vel ofan í mig. Hlóð líka gsm símann (sem ég hafði samt einungis notað til að tracka mig). Hlóð líka Garmin úrið þó ég vissi að rafhlaðan myndi duga allan tímann í úrinu, vildi bara ekki klúðra því, svo ég gaf því smá stuð, var samt ennþá í 80% held ég.

Fór út af Courmayeur drykkjarstöðinni klukkan 11:58 svo ég stoppaði þar mjög lengi eða í 56 mínútur, náði samt ekki að leggja mig. Þegar ég horfi til baka hefði ég átt að skipuleggja þetta stopp betur og ná t.d. 10 mín „powernappi“ svefni á þessum tíma 🙂 En það var samt ekki á keppnisplaninu frá Betu 🙂

Þegar maður er svefnvana, þá hugsar maður oft skringilega, ég man að á tíma fannst mér þetta ekki vera alvöru UTMB hlaupið heldur bara æfing og því hugsaði ég að þessi skiptitími væri ekki góður, þegar ég færi í alvöru hlaupið þá myndi ég vera búin að undibúa þetta betur ha ha ha 😉 Það var svo sem ekki hægt að undirbúa þetta, því ég átti ekki von á að mamma myndi komast til mín til Courmayeur, þar sem Siggi átti að vera sjálfur að hlaupa og hún hafði ekki rútumiða til að komast yfir, þeir voru allir uppseldir.

Upprunalega planið var því alltaf að ég yrði ein í Courmayeur, svo það var mjög gaman og fór langt umfram væntingar að hitta þau öll þrjú þar og tala nú ekki um að fá ískalt Egils appelsín. Svo máttu Siggi og Heiða ekki koma inn í íþróttahús.
En yndislegt að fá mömmu til að aðstoða mig <3

Þegar ég kem svo út af stöðinni með mömmu, þá hittum við aftur Sigga og Heiðu og þau búin að kaupa handa mér frostpinna, wow hvað hann var gómsætur bráðnaði alveg í munninum á mér. Hefði sko alveg getað borðað þrjá ha ha ha. Fékk þær fréttir af Berki að hann væri um einni klst á eftir mér svo við Siggi vorum á því að hann myndi ná mér á leiðinni upp næsta fjall ef hann myndi bara stoppa stutt á stöðinni, ég var farin að hlakka til að hitta hann aftur.

Að hlaupa frá drykkjarstöðinni í Courmayeur með íspinna í hendinni 🙂

Hlaupið fer svo í gegnum miðbæ Courmayeur yndislegt að hlaupa fram hjá yndislegu hótelunum sem ég gisti á þarna í sumar og fara í gengum miðbæinn, göngugötuna þar sem ég byrjaði og endaði TOR hlaupið fyrir ári síðan.

Framundan var klifur upp í Refuge Bertone. Enn og aftur var astminn að pirra mig og allir að taka fram úr mér. Ég talaði við Betu í gsm á leiðinni út úr Courmayeur og hún hvatti mig áfram. Upplýsti mig að mér gengi mjög vel og ég væri stöðugt að vinna mig upp um fullt af sætum og væri bara í góðum málum. Ætti alls ekki að láta astmann svekkja mig, halda bara mínum hraða.

Það var því ekkert annað að gera en „áfram gakk“ og sætta sig við það að allir færu fram úr mér. Þegar ég kom upp í Refuge Bertone ákvað ég að stoppa í fjallaskálanum (það var ekki drykkjarstöðin) og kaupa mér tvær Sprite dósir. Var komin í Sprite, þar sem aukaverkanir af Díamox, gera bæði Kók og Fanta mjög vont á bragðið. Drakk eina dósina strax og setti hina í drykkjarbrúsann. Fór svo inn á drykkjarstöðina og tékkaði mig inn, fyllti á vatnsbrúsann, fékk mér smá kaffi í glasið og öfundaði smá þá sem höfðu lagt sig í grasinu, en það var ekki á mínu keppnisplani.

Það var MJÖG HEITT upp allt fjallið, bæði heiðskýrt og mikill hiti. Sem betur fer var ég með Sahara derhúfna mína (sem ég keypti fyrir CCC 2015) og rennbleytti hana í öllum brunnum og lækjum sem ég fann á leiðinni. Ég missti 177 fram úr mér á leiðinni upp í Bertone skálann, astminn að hafa veruleg áhrif ;-(

Eftir Bertone skálann, er bara þægilegur kafli að Bonatti skálanum, sem er uppáhalds skálinn minn á TMB leiðinni. Útsýnið þar er svo magnað og svo góður andi í skálanum. Ég fór því inní skálann og keypti mér eina Fanta dós, þó ég vissi að hún væri ekki góð á bragðið, þá er orkan í gosinu svo góð og fer vel í magann. Kláraði Sprite úr brúsanum, borðaði góða prótein snakkið með og naut útsýnisins. Tók þetta myndbrot þar:

Bonatti skálinn – flottasta útsýnið úr fjallaskála og góður andi í skálanum.
Fyrir utan Bonatti skálann.

Eftir Bonatti skálann er þægilegur flatur kafli með mögnuðu útsýni. Ég tók fram úr nokkrum hlaupurum á leiðinni niður í Arnouvaz. Á leiðinni niður að Arnouvaz sýndi úrið mitt að ég væri búin að ná 100 km. Ákvað að það væri nú tækifæri til að stoppa, taka eina mynd og fagna því 🙂

Komin með 100 km á Garmin Fenix 7X úrinu mínu, tækifæri til að stoppa, taka mynd og fagna því, 22 klst og 36 mín búnar.

Þegar ég kom á drykkjarstöðina í Arnouvaz voru mjög margir sem sváfu á bekkjunum í tjaldinu. Ég settist niður í smá stund og fékk mér smá kjúklingasúpu með spaghettí í glasið og fór á salernið.

Hélt svo bara ferðinni áfram því framundan var að mínu mati erfiðasta fjallið í allri ferðinni, þ.e. Col Ferret skarðið (landamæri Ítalíu og Sviss).

Það var komið síðdegi (16:51) þegar ég yfirgaf Arnouvaz og það var MJÖG MJÖG heitt. Hitinn magnast allan daginn og verður mestur um klukkan 18:00. Ég vissi að þessi brekka yrði krefjandi, en reyndi að hugsa um fallega hluti. Mundi til dæmis þegar við vorum þarna í seinni ferðinni í sumar og höfðum miklar áhyggjur af hundunum sem maðurinn var að leita að og við héldum að hefðu hrapað niður í gilið, en skiluðu sér svo sem betur fer. Hugsaði líka um fallegu konuna sem var að hlaupa í flotta hlaupapilsinu og við spurðum hana hvaða merki hlaupapilsið væri ha ha ha 🙂 Rifjaði líka upp þegar við stoppuðum í Elena fjallaskálanum og ég ákvað í huganum hvað ég ætlaði að kaupa mér þar 🙂

Þegar ég kom svo að Elena skálanum, þá var engin drykkjarstöð þar, svo ég fór bara fram hjá og spáði í það hvort ég myndi ná í súpermarkaðinn í La Fouly, en taldi ekki miklar líkur vera á því. En áfram gakk… 🙂

Komst á endanum upp að Grand Col Ferret skarðinu, sem er á landamærum Ítalíu og Sviss og það kom mér á óvart, núna þegar ég sé það eftir á að ég hafi unnið mig upp um 22 sæti. Ekki var það hraðinn upp brekkuna 🙂

Það var enginn drykkjarstöð þarna á toppnum bara læknar og starfsmenn sem skönnuðu inn BIP númerið með handskanna. Grand Col Ferret er eitt af hæstu skörðum á leiðinni eða um 2.500 metra hæð og á þessum tímapunkti var ég búin með 6.566 m samanlagða hækkun af leiðinni og um 103 km.

Frá skarðinu er mjög langur og krefjandi kafli niður, sem fer í gegnum skóg en er svona „rolling hill“ aðeins upp og niður kafli, en mjög falleg leið. Það var ein tékk inn stöð á leiðinni (sem kemur samt ekki fram í tölfræðinni). Drykkjarstöðin í La Fouly var alveg í hinum endanum á bænum (m.v. hvar við komum niður og þar sem við borðuðum í sumar).

Ég hljóp örugglega fram úr tíu manns í götunni á leiðinni að drykkjarstöðinni þar sem allir voru gangandi. Kom inn í La Fouly í myrkri. Það var yndisleg kona sem tók á móti mér á drykkjarstöðinni, sagði að ég væri fyrsti Íslendingurinn sem hún hitti nokkrum sinnum í hlaupinu, en hún hefur verið sjálfboðaliði í mörg ár.

Ákvað að heimsækja sjúkratjaldið og láta þá kíkja á fæturna á mér, þar sem ég fann að ég var komin með svona „sigg/blöðrumyndun“ á tveim stöðum á hvorum fæti, þ.e. á jarkanum og á stóru tánni. Frábær ungur strákur sem hjálpaði mér og tók mesta siggið með hníf og smurði svo og plástraði tærnar vel, en plásturinn á jarkanum hélst nú ekki mjög vel.

Hann sagði mér svo að það væri hægt að fá nudd í Champex Lac. Ég var orðin spennt að komast þangað þar sem keppnisplanið mitt gerði rað fyrir „powernap“ svefni þar. Fékk skilaboð frá Betu þar sem hún sagði mér að hún hefði séð mig koma inn, þ.e. þegar ég vinkaði í myndavélina.

Stoppaði samt bara í 32 mín í La Fouly. Uppgötvaði þegar ég var búin að ganga svolítið frá drykkjarstöðinni að ég hafði gleymt að fylla á vatnsbrúsana og því ekkert annað að gera en að snúa við og fylla á báða brúsana.

Þegar ég fór frá drykkjarstöðinn ákvað ég að hringja í mömmu og Sigga. Sá að mamma hafði sent skilaboð og spurt hvort ekki væri allt í lagi. Þau voru nefnilega að spá í að koma til Champex Lac og hitta mig þar, en við ákváðum að ég myndi bara stoppa þar ein, leggja mig og því óþarfi að þau kæmu þangað, betra að þau kæmu til Trient sem er næsta stöð eftir Champex Lac, þar sem aðstandendur mega koma inn.

Fram undan var 13,5 km kafli sem ég hafði ekki farið áður, þ.e. frá La Fouly til Champex-Lac. Var því mjög spennt að sjá þennan kafla. Hluti af leiðinni er með snarbröttum hlíðum niður, enda búið að festa keðjur í fjallshlíðinni til halds og trausts.

Það er eins gott að vera ekki syfjaður eða valtur í þessum hlíðum, en þarna var ég búin að vera 27 klst á ferðinni án þess að sofa og búin með um 115 km. Leiðin hélt svo áfram upp á við, og í gegnum skóg og fór svo á mjög grýttan stíg, sem var líka frekar brattur niður. Eins gott að misstíga sig ekki eða detta, þegar maður fór þetta hálfsofandi. Ég fann að syfjan var farin að hellast yfir mig og ég hlakkaði mikið til að komast til Champex Lac og leggja mig.

Hélt ég myndi aldrei ná þessum toppi á milli Fouly og Champex, en það hafðist á endanum og ég var komin þangað inn um klukkan 00:36 aðfararnótt sunnudags. Beta hringdi í mig á þessum tíma, sá þegar ég kom inn og skipaði mér að borða og leggja mig svo. Ég var komin í svefntjaldið og fékk dýnu, tvö ullarteppi, eitt sem kodda og hitt yfir mig, hafði enga lyst eða orku til að borða, langaði bara að leggja mig.

Bað starfsmanninn að vekja mig eftir 15 mín, en Beta skipaði mér að segja 20 mínútur, svo ég sagði henni að vekja mig eftir 20 mínútur. Til öryggis þá stillti ég sjálf gsm símann minn, ætlaði alls ekki að sofa yfir mig. Það tók mig nokkrar mínútur að sofna, en þegar ég sofnaði þá rotaðist ég alveg. Var frekar rugluð þegar starfsmaðurinn vakti mig. Kíkti á símann og sá það voru bara komnar 18 mín ha ha ha. Fór samt á fætur, var skítkalt, fór því bæði í Salomon peysuna mína og jakkann og fór í ullarvettlinga líka. Fékk mér smá súpu að borða með hrísgrjónum sem voru eiginlega ósoðin og vond 😉 Borðaði því bara meira af prótein snakkinu mínu og fékk mér kaffi og hélt svo af stað. Heildarstopp 44 mínútur í Champex Lac.

Tók smá myndbrot á símann minn þegar ég gekk fram hjá vatninu í Champex og rifjaði upp yndislegar stundir þarna, þó ég væri núna þarna í niðamyrkri og mér skítkalt, þá yljuðu minningarnar verulega.

Var svo mikið að reyna að rifja upp leiðina að Trient, en hún hafði einhvern veginn þurrkast úr huga mér. Mundi að það var eitt stykki fjall, en átti erfitt með að muna leiðina, enda fórum við hana ekki með seinni hópnum í sumar, bara fyrri hópnum.

Skyndilega kom hún upp í hugann, mundi eftir hópmyndatöku á veginum sem var einmitt rétt fyrir Plan De L´Au þar sem var tékk-in stöð. Svo fallegi staðurinn þar sem við stoppuðum hjá ungu hjónunum með börnin með ávaxtakökunum og svo búðin og veitingastaðurinn á landamærunum sem Siggi mundi ekki eftir 😉 Allt rifjaðist þetta upp á endanum fyrir mér.

Plan de L´au tékk in stöðin var rétt fyrir mesta klifrið, en ég var þar klukkan 02:23, en tímamörkin voru þar 03:45.

Leiðin sem ég fór núna upp fjallið og í áttina að Trient var samt ekki sú sama og við fórum í sumar, enda var drykkjarstöðin inn í miðju fjósi. Ótrúlega skemmtileg drykkjarstöð og mikil stuðstemning og hávær tónlist þar.

Stoppaði til að fylla á brúsana og fékk mér kaffi, en það var enginn sykurmoli í boði í fjósinu;-) Tékkpunkturinn í La Giéte, var klukkan 04:49 sunnudagsmorgunn og ég hafði eins og venjulega misst fullt af fólki fram úr mér upp brekkuna, eða um 38 manns, enda astminn ekkert að fara 🙂

Var samt aldrei buguð, né brotin og ég hlakkaði mikið til að komast til Trient, vissi að ég myndi hitta mömmu, Sigga og Heiðu þar. Það var því yndislegt að horfa á Trient bæinn af hæðinni um miðja nótt, baðaðan ljósum svo fallegt. Ég kom í bæinn undir morgun eða klukkan 06:08.

Á leið í drykkjarstöðina í Trient, myndband sem Siggi K tók.

Á drykkjarstöðinni skipti ég um íþróttatopp og bol, greiddi á mér hárið, fléttaði mig aftur, tannburstaði mig og reyndi að koma niður einhverjum mat, smá súpu, en aðallega eplum og ávöxtum. Fékk Orangina sem mig hafði dauðlangað í og fékk mér líka Orangina í annan drykkjarbrúsann og vatn í hinn.

Það var yndislegt að hitta þau öll, Jón Ö var með þeim og ég var virkilega hress og algjörlega tilbúin í að klára þessar tvær Esjur, eins og Siggi kallaði tvö síðustu fjöllin, NB annað var í 1.900 m hæð og hitt í 2.000 m hæð ha ha ha .. bara tvær Esjur 🙂

Stoppaði samt bara 32 mín í Trient, má segja að þetta hafi verið mjög skilvirkt pit-stopp svo maður noti samlíkingar við F1. Gat pakkað niður höfuðljósinu, þurfti það ekki meira, enda orðið bjart, en það sem það er skyldubúnaður, þá bar ég ljósið og auka rafhlöður áfram.

Á leið upp frá Trient, síðustu „tvær Esjunar“ fram undan 🙂

Framundan var fyrri Esjan, um 1.900 m hæð. Hugsaði mikið til Erlu minnar sem var þvílíkt kvalin á þessari leið upp fjallið í sumar. Ég var þó bara að berjast við astmann en ekki ógleði á þessum tímapunkti, svo ég hélt bara rólega áfram. Það var enginn lækur né vatnshani á þessari leið í sumar svo það kom skemmtilega á óvart að koma að tékk-in stöð, fyrir utan eina húsið á leiðinni, þar sem ég gat fyllt á vatnsbrúsann. Auðvitað missti ég marga fram úr mér á þessari leið upp.

Komst loksins á toppinn og þá lá leiðin niður að Vallorcine, vissi að þar biðu mín fleiri vinir, svo ég var spennt að komast þangað. Þegar ég kom inn í bæinn, hitti ég Öbbu, Bárð og Guðmund Smára sem tóku á móti mér og gengu með mér í áttina að drykkjarstöðinni.

Guðmundur Smári og Bárður að bíða eftir mér í Vallorcine.
Bárður og Abba að bíða eftir mér í Vallorcine.

Guðmundur Smári mátti koma inn, en ekki Abba og Bárður. Hann var með meira af Oranginu gosinu og óáfengan bjór sem ég fékk mér. Mjög gott að fá bæði bjórinn og appelsínið. Svo sótti hann ávexti fyrir mig, sem ég hafði reyndar litla lyst á, held ég hafi borðað eina eplaskífu.

Hitti svo fyrir tilviljun vin minn Richard Newey á drykkjarstöðinni, en ég kynntist honum í kringum TOR hlaupið í fyrra. Var reyndar mjög hissa að hann væri ekki löngu búin að klára hlaupið, þar sem hann er mun hraðari hlaupari en ég og ekki að berjast við astmann, en hann var að leggja í hann upp síðasta fjallið þegar þegar ég rakst á hann.

Stoppaði í um 27 mínútur í Vallorcine (fór líka á klósettið) svo það stopp var líka mjög skilvirkt, en greinilega margir sem stoppuðu ekkert og því fóru um 21 fram úr mér á þeim tíma. Ég var algjörlega tilbúin í síðustu Esjuna og var farin að sjá markið fyrir mér. Man ég fór að rifja upp við Öbbu og Bárð þegar ég fór í fyrsta skipti út í UTMB CCC hlaupið 2015 og sá UTMB hlauparana koma í mark, að ég hugsaði ONE DAY verð ég þarna, og að í dag væri dagurinn runninn upp, þ.e. ONE DAY is TODAY 🙂

Það er um 3,6 km nokkuð flatur kafli frá drykkjarstöðinni að Téte Aux Vents (Col des Montets), þar sem klifrið byrjar upp síðasta fjallið á toppinn Téte aux Vents. Náði að fara fram úr um 49 manns á þessum kafla, enda í góðum gír eftir að hafa fengið flotta hvatningu frá vinum mínum. Hitti Richard aftur þarna þar sem klifrið var að byrja og uppgötvaði þá að ég var búin að skila af mér öllum gelum. Var á þessum tímapunkti til í að reyna aftur að koma niður einu orkugeli fyrir síðasta klifrið.
Fékk fyrst létt sjokk, þegar ég sá að tímamörkin í La Flégére voru klukkan 14:45 stóð á stóru skilti og klukkan var um 11, mér fannst klukkan vera meira, og hugsaði shit, hvað ef ég næ þessu ekki, ég er komin í síðustu brekkuna, hvað ef astminn mun hrjá mig og ég næ ekki síðustu tímamörkunum púff .

Svo leit ég á klukkuna og sá hún var bara 11 og hugsaði, að ég hlýt að ná þessu, get ekki verið svona lengi, þarna upp eftir og ákvað að spyrja Richard hvort hann ætti auka gel handa mér. Hann gaf mér tvö SIS epla gel sem ég greip fegins hendi. Á samt tíma kom einhver hlaupari, sem vildi endilega gefa mér GU fljótandi kaffigel, heyrði þegar ég spurði Richard og ég greip það líka fegins hendi.

Mig hefur alltaf langað að prófa þetta fljótandi GU gel, Gúa vinkona var búin að segja mér frá því og það var virkilega gott. Það var örþunnt, eins og ég væri að drekka kaffi og fór mjög vel í magann á mér. Stundum birtast bara svona englar á örlagastundu <3 svo ég tók ekki inn SIS gelin frá Richard, bara þetta GU kaffigel.

Mér leið því nokkuð vel upp fjallið, auðvitað voru allir að taka fram úr mér, út af astmanum, en þegar ég komst á slétta kaflann, var komið að mér að taka fram úr öllum. Ég bara hljóp og hljóp, reyndar stoppaði til að fá eina mynd við La Téte Aux Vents..

Hélt svo áfram að taka fram úr fólki og nú var ég farin að sjá markið í Chamonix enn betur fyrir mér.

Rétt áður en ég kom að La Flégére sem er stór skíðalyfta fyrir ofan Chamonix, kom Nick Gísli á móti mér. Ég bölvaði síðustu brekkunni en fagnaði félagsskapnum. Spurði Nick hvort hann væri ekki örugglega með sólarvörn á sér, þar kom „mamman“ upp í mér, en nei hann hafði gleymt aftur að setja á sig sólarvörn ha ha ha, hann sem hafði fengið þvílíkan sólbruna í OCC hlaupinu tveim dögum áður.

Myndin sem Nick tók af mér upp allra síðustu skíðabrekkuna að La Flégére.

Hann sagði mér að vera dugleg að borða í tjaldinu, en ég fékk mér bara að drekka og hélt svo áfram svo ég týndi honum. Var komin í La Flégére klukkan 13:46 eða 1 klst á undan tímamörkunum þar.

Þá var bara síðasta niðurhlaupið eftir, fann ég var svo sem ekkert alveg með ferskustu lærin í það, en var samt að hlaupa, ekki ganga ha ha ha. Rétt áður en ég kom að La Floria fyrir ofan Chamonix kom Börkur á móti mér.

Börkur hefur alltaf tekið á móti mér þegar ég hef komið í mark í Chamonix, og hann klikkaði ekki á því frekar en fyrri daginn. Því miður þurfti hann að hætta í hlaupinu í Courmayeur. Honum fannst ég hin hressasta og spurði hvort ég væri bara búin að hlaupa 5 km ekki 165 km? ‘Ég var nú alveg ánægð að fá þetta hrós frá vini mínum 😉

Þegar ég kom í La Floria hitti ég líka Öbbu, Bárð og Guðmund Smára. Abba spilaði fyrir mig lagið „Top of the World“ og „FLOTT“ og „Ég er komin heim“ .. svo yndislegir vinir og gerði síðasta niðurhlaupið svo eftirminnilegt og skemmtilegt. En hún tók líka myndband og var LIVE á Facebook 😉

Hljóp svo inn í miðbæ og fékk þvílíkar móttökur. Guðmundur Smári lét mig hafa íslenska fánann þegar ég var komin að göngugötunni og það var svo góður vindur að fáninn blakti svo fallega og vakti mikla athygli.

Fékk þvílíkt góðar og flottar móttökur frá vinum mínum og hljóp í gegnum haf af fagnaðarlátum og þetta móment að hlaupa með íslenska fánann blaktandi að kirkjunni og markinu í Chamonix var magnþrungið, mig skortir orð til að lýsa þessu – munið ONE DAY IS TODAY.

Að sjálfsögðu var svo Haddýjar hoppið tekið í markinu. Að skála í ísköldu Egils Appelsíni var svo alveg toppurinn á ísjakanum og að fá mömmuknús <3 <3 <3 það var best.

Fékk svo MONTVESTIÐ eins og ég hef kallað það frá því ég fékk CCC vestið mitt 2015, þ.e. Hoka Finisher vestið og að sjálfsögðu tók ég fleiri myndir í vestinu.

Börkur minnti mig svo á að fara aftur í „after“ myndatökuna hjá Alexis Berg, annars hefði ég pottþétt gleymt því.

Kom í mark eftir 45 klst 6 mínútur og 25 sekúndur. Var í 1.540 sæti allra keppenda, vann mig upp um 933 sæti frá ræsingu. Var í 18 sæti í aldursflokki og 104 konan í mark. Ánægð með það, þar sem brottfall kvenna í hlaupinu var 43% og heildarbrottfall var 32% og konur voru bara 9% allra þátttakenda.

ÞAKKIR:
Takk elsku mamma fyrir að koma með mér út og hvetja mig allan tímann. Takk elsku Óli fyrir að sýna mér alla þolinmæðina og stuðninginn og fyrir að koma út á milli ferða í sumar. Takk elsku Beta fyrir öll plönin og allan stuðninginn í sumar og á meðan á keppninni stóð. Takk kæru vinir, Siggi Kiernan og Heiða, Guðmundur Smári, Börkur, Abba og Bárður og Jón, Nick, Ásgeir, Valgerður, Matthildur, Hildur og Brynja fyrir hvatninguna og aðstoðina úti.

Takk kæri Biggi Coach fyrir styrktaræfingar og andlegan stuðning og hvatningu. Takk @alparnir fyrir frábæran SALOMON búnað, fullyrði að þetta eru bestu trailhlaupavörur í heimi. Takk @baetiefnabúllan fyrir góða næringu og takk @eyesland fyrir mjög góð sólgleraugu bæði með og án stækkunar. Takk kæri Dóri sjúkraþjálfari fyrir að halda skrokknum gangandi.

Takk kæru samferðarmenn í UTMB og TMB ferðunum fyrir samveruna og innilegar hamingjuóskir með ykkar hlaup öll sömul.

Takk kæru vinir sem hvöttuð mig áfram bæði fyrir og á meðan og á eftir keppni fyrir yndislega hvatningu, þykir vænt um hverja eina og einustu þeirra <3 <3 <3

ágúst 28, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnissaga

Salomon Hengill Ultra 2022

by Halldóra júní 4, 2022

Mér fannst svo frábært þegar Einar Bárða kynnti næturútgáfu af Hengli Ultra, þar sem ég er svolítil Ugla í mér og elska næturhlaup. Oft er líka meira logn og gott að hlaupa með sjálfum sér að nóttu til. Ég ákvað því að slá til og skrá mig í 26 km Hengil Ultra miðnæturútgáfa.

Hlaup var ræst klukkan 22:15 og það var bara ágætis spá. Ég var reyndar komin mjög snemma í Hveragerði, þar sem Friðleifur bað mig að skutla Max sem var að kenna okkur á hlaupaþjálfaranámskeiði á vegum FRÍ. Ég var því bara komin um átta leytið um kvöldið og reyndi bara að hvíla mig aðeins í bílnum.

Svo komst ég að því að höfuðljós var skyldubúnaður, svo ég í miklu sjokki hringdi í Hjört þar sem ég vissi að hann væri á leiðinni í Hveragerði í 100 km hlaupið, og kannaði hvort hann ætti auka höfuðljós, sem hann átti og reddaði mér því þannig.

Einar plataði mig svo í útsendingu, TV LIVE, en hann var með mjög flotta umgjörð og útsendingu sem var beint á mbl.is alla helgina. Ég klæddi mig því í tíma, og fór í útsendingu með Rúnu Rut vinkonu sem var að fara í 10 km hlaupið með Helgu Maríu vinkonu.

100 km hlaupið var ræst fyrst, svo 53 km og svo vorum við þ.e. 26 km og það endaði með 10 km ræsingunni. Þegar það var búið að ræsa mig og ég komin út götuna, uppgötvaði ég að ég hafði gleymt að taka inn Ventolyn asma sprayið mitt. Hugsaði því mikið hvort ég ætti kannski bara að snúa við og sækja það, en ákvað að halda bara áfram. Var svo mikið að hugsa um þetta, en þegar ég var komin að klifrinu þá hugsaði ég að það þýddi ekki að svekkja sig meira á þessu, þetta færi í reynslubankanna og vonandi myndi mér bara líða vel í klifrinu upp frá Reykjadalnum.

Hlaupið gekk mjög vel, ég fann ekki mikið fyrir asmanum og mér fannst stígarnir mjög góðir. Það var mjög hlýtt, alveg uppá topp, en þá kólnaði verulega út af mótvindi, en ég nennti ekkert að fara í jakkann, hann var bara í Salomon hlaupavestinu mínu.

Ég hljóp með stafi og var mjög ánægð með það og leiðin til baka gekk líka vel. Reyndar voru engnir starfsmann alla leiðina niður og þegar ég kom að kaffihúsinu var ég í smá vandræðum að finna réttu leiðina til baka, en notaði svo fína GARMIN úrið mitt og þá að sjálfsögðu fór ég á réttan stað. Var mjög ánægð að vera með leiðina í úrinu, enda elska ég GARMIN úrið mitt.

Það var aðeins farið að rökkva þegar við komum til baka, en ég nennti ekkert að sækja höfuðljósið, ákvað bara að nota UGLU augun mín og ég fann mest fyrir rökkrinu þegar maður hljóp í gegnum skóginn síðasta kaflann.

Það var mjög gaman að koma inní bæinn, en þar sem komin var nótt var ekki mikið af fólki að hvetja eða klappa fyrir manni þegar maður kom í mark. Þá reddar maður sér bara ljósmyndara sem tekur mynd af Haddýjar hoppinu.

Ég kláraði á 03:01:49 sem var 13 sæti kvk overall af 34 kvk. Fékk svo þær upplýsingar eftir á að ég hefði verið í 5 sæti í aldursflokki af öllum kvk sem tóku þátt í 26 km hvort sem er miðnætur eða dagsútgáfa, en ég hafði nú sjálf ekki fyrir því að gera þá greiningu 🙂

Sjá heildarúrslit hér: https://timataka.net/hengillultra2022/

júní 4, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífHlaupKeppnissaga

Stjörnuhlaupið 2022

by Halldóra maí 22, 2022

Tók þátt í nýju og breyttu Stjörnuhlaupi í dag sem var 10 km. Leiðin er ný og mjög skemmtileg, enda er hlaupið fram hjá garðinum heima hjá mér. Fékk því Óla og nágrannana til að koma og hvetja okkur, sem var einstaklega skemmtilegt.

Hlaupið er með um 120 m hækkun, sem er alveg ágæt hækkun af malbikshlaupi að vera, til samanburðar er ÍR hlaupið á sumardagrinn fyrsta 5 km og 30 m hækkun.

Markmiðið var að vera með, hafa gaman og væri gaman að klára undir 60 mín. Ég náði því var á 55:27 og náði 4 sæti í aldursflokki og 13 sæti kvk overall sem kom skemmtilega á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að ég hafði hlaupið 24 km um morguninn, með einni Esju innifalinni 🙂

Frábærir sjálfboðaliðar og starfsmenn í hlaupinu. Takk kærlega fyrir mig kæru Stjörnufélagar.

maí 22, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífHlaupKeppnissaga

ÍR hlaupið á Sumardaginn fyrsta

by Halldóra apríl 21, 2022

Tók þátt í mjög skemmtilegu ÍR hlaupi á sumardaginn fyrsta, þar sem maður gat hlaupið á stuttermabol í fyrsta skipti í mjög langan tíma.

Ákvað að taka aðeins á því, en alls ekki of mikið því ég vil ekki lenda í meiðslum og er ennþá að láta rifbeinið gróa. En ákvað að hafa gaman alla leið og tók upp skemmtilegt myndband þ.e. tók upp allan hringinn á DJI græjuna mína 🙂 Sjá afrakstur hér að neðan.

Fékk þessar skemmtilegu myndir sendar frá vini sem ég varð að leyfa að fylgja með ha ha ha – fyrst var bara gleði, en svo tekið á því i´endasprettinum 🙂

Fyrir þá sem hafa áhuga á tölum og slíku þá var ég í 9 sæti af 28 konum í 50- 60 ára. Var í 54 sæti af 172 konum sem tóku þátt alls. Var í 237 sæti af 423 heildarþátttakendum í hlaupinu.

apríl 21, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíðiKeppnissaga

Vasaloppet 90 – sunnudagur 06.03.2022

by Halldóra mars 6, 2022

Hámarksfjöldi þátttakenda í Vasaloppet er 15.800 manns og Vasaloppet er keppni og einungis má skíða á Classic skíðum, þ.e. bannað er að skauta. Það eru tíu ráshólf og það eru allir ræstir út á sama tíma eða klukkan 08:00. Ég var í ráshólfi númer 9 með Jimmy sem tók ákvörðun degi fyrir keppni að vera með og Sigga Sig vinkona var í ráshólfi 10.

Við ákváðum að keyra niður að rásmarki, þ.e. leggja af stað klukkan 06:00 sem var mjög góð ákvörðun, þar sem við gátum þá farið styttri leiðina, þar sem ekki var búið að setja snjó á götuna og ég þurfti að sækja skíðin mín í preppþjónustuna. Þeir opnuðu klukkan 05 til að afhenda skíðin, en ég gat ekki skilað þeim inn fyrr en í gær, þ.e. eftir Nattvasan keppnina.

Þegar ég var búin að sækja skíðin mín fór ég og hitti á Jimmy í hólfinu okkar. Það var mjög mikil röð á leið inní hólfið. Eftir að hafa komið skíðunum fyrir þá fórum við aftur út í bíl og fengum okkur kaffi og Bircher morgunmat sem Óli hennar Hrefnu hafði búið til og er einstaklega gómsætur morgunmatur.

Það var mjög kalt úti, mælirinn á bílnum sýndi 14 gráður í mínus. Eftir að hafa borðað morgunmatinn í bílnum þá fórum við Sigga í klósettröðina, hún þurfti fyrst að skella sér inní hólfið þar sem hún hafði gleymt að setja Vasaloppet límmiðana á skíðin. Jimmy fór með drop-bag töskurnar okkar, þ.e. með þurru fötunum sem við förum í, þegar við komum í mark í DHL bílana sem flytja þær til Mora. Eftir að hafa beðið lengi í klósettröðinni þá fórum við aftur í bílinn og náðum að hlýja okkur aðeins, áður en það var kominn tími á að fara í hólfið okkar klukan 07:40. Í hólfinu voru upphitunaræfingar og mikil stemning. Rétt áður en ég fór á skíðin þá henti ég þykku Levis dúnúlpunni í DHL pokann, þennan poka fáum við svo með drop-off töskunni þegar við komum í mark í Sälen. Var annars orðin frekar æfð í þessu, enda að leggja af stað þarna í þriðja skiptið þessa vikuna.

Frekar „brennd“ eftir kuldann í Nattvasan, fór ég mjög vel klædd í þessa keppni, þ.e. í ullar-undifötum og hlýjum galla, ætlaði ekki að drepast aftur úr kulda 😉 Núna var ég með Hand Warmers sem og auka þunna ullarvettlinga og í primaloft vestinu og pilsinu þegar ég lagði af stað 🙂

https://www.facebook.com/848489557/videos/685150102512537/

Mesti munurinn á Vasaloppet og öðrum keppnum er þessi gífurlegi fjöldi þ.e. um 15.000 manns sem taka þátt. Allir þessir þátttakendur eru komnir á sama punkt á sama tíma. Þess vegna eru klósettraðir miklu lengri, langar raðir inní hólfin sem eru annars ekki og svo röðina að komast upp fyrstu brekkuna – sem mér finnst reyndar mesti gallinn við þessa keppni 🙂

Svona var kraðakið fyrir framan mig og allir að brjóta stafina sína. Ég passaði mig að hafa þá alltaf innan við skíðin, allan tímann upp brekkuna – eina klukkustund að hæsta punkti.

Í stað þess að vera rétt innan við 30 mín að hæsta punkti þá var ég nákvæmlega 1 klst þarna upp. Var svo komin í drykkjarstöðina í Smågan eftir 1 klst og 40 mín í staðinn fyrir 1 klst 03 eða 1 klst 07. Munar alveg 37 mínútum að vera í þessu kraðaki í byrjun. Auk þess sem maður er mjög stressaður að einhver brjóti hjá manni stafina.

Ég var mjög heppin að hafa Jimmy fyrir framan mig, ég reyndi að hanga í honum og svo var Guðrún „Ísbjörn“ vinkona mín komin fyrir aftan mig, þannig að ég þurfti bara að passa mig á fólki sem var hægra og vinstra megin við mig.

SMÄGAN
Á fyrstu drykkjarstöðinni í Smägan þurfti ég samt að stoppa því ég var að kafna úr hita, þurfti að fara úr primaloft vestinu og skipta um vettlinga, þ.e. fara í þynnri hanska. Sólin var farin að skína og það var orðið mjög heitt, þannig að í raun var ég OF MIKIÐ klædd m.v. hitann sem varð svo þegar líða tók á keppnina.

RISBERG
Sporin voru mjög fín og fattið á skíðunum var alveg ágætt til að byrja með. Ég passaði mig mjög vel á kraðakinu í hættulegu brekkunni (fyndu brekkunni) áður en maður kemur í Risberg. Síðar í keppninni eru tvær aðrar mjög þröngar og í raun mun erfiðari brekkur og út af kraðakinu voru raðir til að komast að þeim.

Á þessum tíma var snjórinn farinn að festast mikið undir skíðunum mínum (var sem sagt með of kaldann áburð m.v. hitann) og ég var ekki með neinn bauk eða klísturáburð með mér þó ég hafði keypt svoleiðis á expoinu (skildi hann eftir heima). Tók einungis með mér eina sköfu og ætlaði svo að treysta á Vallaservice.

Það voru greinilega fleiri í vandræðum því keppendur voru að stoppa utanbrautar til að skafa undan skíðunum og sumir að setja klístur undir og aðrir rauðan eða bleikan bauk, því það var orðið frekar hlýtt.

Í einni af þessum þröngu og erfiðu brekkum, þurfti ég að bíða eftir að röðin kæmi að mér og þá safnaðist snjórinn undir. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, svo þegar ég ætlaði að fara af stað, þá flaug ég á hausinn og magalenti og „faceplantaði“ eins og unglingarnir segja, en alls ekkert alvarlegt, bara frekar fyndið svona eftir á 😉

Eftir byltuna ákvað ég alltaf að reyna að skafa undan skíðunum og reyndi að draga þau vel í sporinu svo ég myndi ekki lenda í þessu aftur.

EVERTSBERG
Ákvað að heimsækja aftur vini mína í Vallaservice í Evertsberg, sem ég hafði heimsótt aðfararnótt laugardagsins. Það voru allt aðrar aðstæður núna, löng biðröð í þjónustuna. Fyrst var einhver sem sópaði undan skíðunum hjá öllum og svo fóru þau bara í klísturvél, þ.e. þau rennd í gegnum svoleiðis vél. Þegar ég lagði svo aftur á stað, fann ég að ég var fegin að hafa stoppað og beðið, því fattið hafði batnað, en það var ekki lengi, því eftir smá stund, fór að festast aftur undir skíðunum.

Á drykkjarstöðvnum í Vasaloppet er miklu meiri troðningur og það var líka mikið meira af fólki í brautinni, þannig að þó það væru fleiri spor þá var maður mjög mikið að taka fram úr. Á sama tíma voru miklu fleiri áhorfendur að hvetja heldur en t.d. í Opna sporinu eða Nattvasan.

OXBERG
Eftir drykkjarstöðina í Oxberg voru sporin orðin frekar léleg. Óli Már, Þóra og Margrét (Millu og Tótadóttir) tóku svo fram úr mér í kringum Hökberg og ég reyndi að hanga í þeim alveg að drykkjarstöðinni í Eldris. Þar stoppaði ég aðeins styttra en þau en svo komu þau aftur á fleygiferð fram úr mér. Á þessum tímapunkti var ég farin að finna fyrir smá syfju og þreytu eftir Nattvasan sem sat aðeins í mér, en það var sem var kannski erfiðast, var sporleysið sem var samt mun betra en í hin tvö skiptin sem ég hafði farið í Vasaloppet keppnina, þ.e. 2016 og 2018.

MÄL Í MORA
Ég var einstaklega glöð að koma í mark í Mora um 2 mín á eftir Ísbjörnunum vinum mínum á tímanumm, heildartími 9 klst 22 og 11 sek sem er veruleg bæting hjá mér í Vasaloppet keppni, þó tíminn hafi verið lakari en bæði Opna sporið og Nattvasan.

Hugsaði líka til þess þegar ég kom í mark í fyrsta skipti árið 2016 algjörlega buguð og sagðist aldrei aldrei aldrei ætla að gera þetta aftur, en núna var ég búin að fara þrisvar sinnum alla leiðina á einni viku, samtals 276 km.

Það var yndislegt að hitta alla vini míni í markinu, Óli og Harpa voru komin til að taka á móti mér. Þar voru Ísbjarnarvinir mínir, Óli og Þóru, Guðrúnu, Tommi og Sóley og örugglega fleiri. Þar var líka Mari Järsk og fleir og yndislegt að fá allar þessar frábæru móttökur.

Sigga og Jimmy stóðu sig líka virkilega vel svo gaman að sjá þau koma í mark. Svo var lúxuskvöldmatur þegar við Sigga og Jimmy komum heim aftur til yndislegu vina okkar.

Tímarnir mínir, en ég var í 1002 sæti kvk af 2.715 skráðum kvk.
Var í 8.745 sæti af 15.000 skráðum.
Það voru 83 Íslendingar sem tóku þátt þar af 22 kvk og 61 kk.

mars 6, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíðiKeppnissaga

Nattvasan 90 – föstudagskvöld 04.03.2022

by Halldóra mars 4, 2022

Nattvasan er ræst að kvöldi til og gengið er alla nóttina. Tímamörkin eru þau sömu og í Vasaloppet en þátttakendafjöldinn mun færri. Hámarksfjöldinn í Nattvasan er 3000 á móti 15.800 í Vasaloppet og 8.000 (mánudags) og 10.000 (sunnudags) í Oppet spor.

Hins vegar ólíkt Opna sporinu þá eru eins og í Vasaloppet aðalkeppninni allir ræstir út í einu. Nattvasan er keppni (ólíkt Opna sporinu sem er ekki keppni) og keppt er þá annað hvort í einstaklingskeppni eða liðakeppni. Nattvasan keppnin var í boði í fyrsta skipti árið 2017 og þá tókum við Óli þátt saman (vorum eitt af fimm Ísbjarnarliðum) og það var virkilega skemmtleg upplifun. Við Óli hins vegar hættum keppni þegar við vorum hálfnuð, þ.e. skiluðum inn flögunum okkar, en ég fékk samt að klára með Ingu vinkonu og Jónsa þ.e. þeirra liði sem var um hálftíma á eftir okkur Óla eftir að við vorum hálfnuð. Nattvasan keppnin 2017 er samt skráð sem DNF hjá mér og því átti ég alltaf eftir að koma aftur og klára hana.

Það sem kom mér á óvart var að núna var hægt að skrá sig sem einstakling en það var ekki hægt árið 2017, þá máttirðu bara keppa sem lið. Kosturinn við að keppa sem lið, er auðvitað félagsskapurinn í fyrsta lagi og svo öryggið. Það er miklu minni þjónusta á drykkjarstöðvunum í Nattvasan og þegar líða tekur á keppnina þá verður meira bil á milli þátttakenda svo ef eitthvað kemur upp á, þá er það mikið öryggi í því að vera tveir saman í liði.

Sigga Sig vinkona skutlaði mér niður eftir um klukkan 18:30 (ræsing var 20:00) og hún fylgdist með okkur í ræsingunni. Ég rétt náði að knúsa liðið: Skidagarpar, þ.e. vini okkar, en þau voru öll nýbúin að klára STAFFETVASAN þ.e. liðakeppni í Vasaloppet 90 km. Þau fóru saman leiðina, þ.e. frá Sälen til Mora og skiptu henni fimm á mill sín. Hrefna byrjaði, svo kom Harpa, þá Jimmy, svo Brynja og Óli endaði og kom í mark, sem var svo yndislegt. Óli lenti því miður í meiðslum á langatöng á hægri fingri kvöldið áður en við flugum út. Hann átti miða í Vasaloppet 45 með Brynju á þriðjudeginum, en gat ekki tekið þátt svo Hrefna og Harpa fóru með henni, sem var líka yndislegt (systur og mæðgur og þá frænkur saman í keppni). Óli var svo búin að dekra við okkur alla vikuna, elda, versla inn, og skutla, svo það var yndislegt að hann gat tekið þátt í StaffetVasan og komið í mark í Mora og hitt allt teymið þar. Í StaffetVasan eru að hámarki 2.600 lið og allir liðsmenn fengu medalíu þegar þau komu í mark. Þau stóðu sig frábærlega og náðu fanta góðum tíma, eða á 7 klst 40 mín og 19 sek.

Frá vinstri: Mægðurnar Harpa og Brynja og eðalhjónin Hrefna og Óli. Fimmta liðsmanninn vantaði á myndina hann Jimmy sem er maðurinn hennar Hörpu.

Aftur að Nattvasan, Sigga skutlaði mér niður að ræsingunni. Ég fann að ég var ennþá frekar þreytt, en ég hafði fengið svolítið í nárann eftir Opið spor, veit ekki hvort það sé eftir opið sporið sjálft eða á skautaæfingu sem við Sigga tókum í vikunni. Ég fór samt til nuddara sem náði að vinna aðeins á þreytu í baki, læri og verknum inn á hægra innan læri (nára). En ég var samt spennt að fara, algjörlega til í þetta. Fór núna á áburðarskíðunum mínum, því það var spáð mun meira frosti um nóttina heldur en í Opna sporinu um daginn.

Ég var í ráshólfi tvö, þ.e. ekki fremst og ekki aftast, ég fór inní hólfið með skíðin mín þegar ég kom, fór svo aftur til baka á klósettið en Sigga náði að leggja bílnum bara rétt upp við Expoið, þannig að það var stutt að fara. Náði svo aftur að fara á klósettið áður en ég kom mér svo fyrir í hólfinu fyrir ræsinguna.

Það er mögnuð upplifun að leggja af stað í Opnu spori, í Vasaloppet, en upplifunin að vera þarna í myrkrinu með höfuðljós og horfa á flotta ljósasýningu, er eiginlega mest mögnuð af öllu. Það var heiðskýrt og sjörnubjart og því algjörlega mögnuð nótt fram undan.

https://www.facebook.com/848489557/videos/634680321150807/

Þar sem ég var í hólfi tvö, var ég með um 2000 aðilum að fara upp fyrstu brekkuna í staðinn fyrir 1000 í Opna sporinu, þá gekk samt bara vel og ég var bara einni mínútu lengur upp á hæsta punkt, m.v. Opið spor og var svo 4 mín fljótari að fyrstu drykkjarstöð en í Opna sporinu 01:03: á móti 01:07. Það átti að vera kalt um nóttina, en það var ÓGEÐSLEGA kalt, þó ég væri að hamast upp brekkuna, þá voru fingurnir algjörlega frosnir og ég reyndi að hita þá með því að blása í gegnum vettlingana án mikils árangurs.

Þegar ég kom í Smågan (fyrstu drykkjarstöðina) þá fékk ég mér strax heitan orkudrykk, örugglega 2-3 glös. Það var enginn þjónusta, ég þurfti að sækja mitt eigið plastglas, glös voru ekki til að byrja með í boði og svo að ganga frá því aftur og að hella í glasið. Á þessum tímapunkti fannst mér ég heyra einhverja tala íslensku en var ekki viss, komst svo að því seinna að það voru fjórir Íslendingar, í tveimur liðum að keppa í liðakeppninni og stelpurnar þær Hólmfríður Vala og Sigrún María Bjarnadóttir voru mjög oft í kringum mig á leiðinni. En út af kuldanum, þá var maður bara með buff fyrir andlitinu og náði ekki mikið að spjalla. En það voru þrjú íslensk lið sem lögðu af stað í Nattvasan og tvö sem kláruðu. En ég var eina íslenski þátttakandinn sem tók þátt í „individual“ keppninni.

Nattvasan er eins og Opið spor á mánudeginum að því leyti að tæknin er: Freestyle, þ.e. það má bæði vera á skautaskíðum sem og á hefðbundnum XC brautarskíðum. Ég var bara á brautarskíðum, þar sem ég kann ekki að skauta en er nýbúin að fá mér slík skíði og langar að fara aftur og þá á skautaskíðum.

Því voru bara lagðar tvær brautir fyrir okkur sem voru á Classic skíðum (brautarskíðum) og hinn hlutinn þ.e. 2/3 hluti brautarinnar var fyrir skautarana. Ég öfundaði þá oft og mikið þegar þeir brunuðu fram úr mér. Ég var með væntingar fyrr í vikunni að ég gæti kannski skautað eitthvað, en út af verknum í náranum, þá þorði ég ekki að prófa það og lét mig bara hafa það að vera í sporinu alla leið, enda var sporið að mestu fínt.

En KULDINN var rosalegur. Á leiðinni fórum við ofan í svona kuldapolla, þar sem kuldinn fór niður fyrir 20 stig. Það fraus allt í andlitinu á manni, buffið fraus, powerade drykkurinn sem ég var með í sérstökum SALOMON einangrunarpoka með einangrunarslöngu, fraus líka, þ.e. í slöngunni svo ég gat ekki drukkið það og mér var svo kalt á puttanum að ég treysti mér ekki til að stoppa og fara í meiri föt sem ég var með á mér í SALOMON vestinu, þ.e. primaloft vesti og pils. Ég stoppað samt alltaf á öllum drykkjarstöðvum og fékk mér heitt að drekka, en NB það var enginn þjónusta og maður varð bara að stoppa stutt, það voru ekki sætar bollur í boði, bara drykkir og bara grænmetisseyði (sem er mitt uppáhald) í boði á einum stað alla leiðina.

Það sem gerðist líka í frostlægðunum, var að það fraus snjórinn líka í sporinu og rennslið varð mjög vont (stamt), þegar maður fór í gegnum þessa kuldapolla 😉 Var einmitt hugsað til ÓL í Beijing um daginn þegar gönguskíðamenn skíðuðu frekar fyrir utan sporið út af frostinu og kuldanum.

En þar sem ég er „grjóthörð og jákvæð“ lét ég þetta því ekki hafa áhrif á mig, heldur hélt bara áfram, það var það eina sem var í boði. Fór samt alls staðar varlega, því ég var stíf og stirð eftir síðustu göngu og vildi alls ekki detta. Hugsaði með mér af hverju ég tók ekki með mér tvo álpoka í vestið, ég skátinn sjálfur, og af hverju ég var ekki með þunnu ullarvettlingana sem ég var með á mér í Opna sporinu, en ég var með aðra þunna vettlinga sem ég vissi að ég kæmist ekki í undir lúffunum sem ég var með.

Í hverju stoppi sá ég rútu, sem var mjög freistandi fyrir mig og aðra þátttakendur að skila inn flögunni, þ.e. hætta og fara inní heita rútuna. Það kom samt aldrei upp í hugann á mér, ég ákveð frekar að reyna að njóta mín í kuldanum en maður var ekki mikið að spjalla í þessu frosti.

Ein skemmtileg uppákoma sem var stuttu eftir að ég lagði af stað, þá var einn gönguskíðamaður sem sá alla límmiðana á skíðunum hjá mér og fór að spjalla við mig. Ég ákvað að halda mér bara í hægra sporinu, leyfði fólki að fara fram úr mér vinstra megin, því ég var ekki alveg úthvíld eins og kannski allir aðrir 😉 . En þessi gönguskíðamaður sagði mér að hann væri að stíga á gönguskíði í fjórða skiptið á ævi sinni . Ég tók þá eftir því að hann var frekar valtur og vinur hans var að leiðbeina honum. Hugsaði með mér hvað það væri gott að það væru til aðilar sem væru skrítnari en ég. Ég hugsaði líka að það væri kannski ágætt að halda mig ekki of nálægt honum, ef hann dettur 🙂

Það er einungis á einum eða tveim stöðum VALLASERVICE (aðstoð við að bera á gönguskíðin) í Nattvasan og ég mundi eftir að það væri í Evertsberg þar sem maður er rétt rúmlega hálfnaður. Ég ákvað því að fara beint í Vallaservice þegar ég kom í Evertsberg og bað þá um aðstoð við að bæta bæði rennslið og fattið. Ég skildi skíðin eftir hjá þeim og fór og fékk mér heitan drykk og grænmetisbulljon á drykkjarstöðinni. Í Evertsberg voru líka samlokur í boði sem ég hafði ekki séð áður, en ég hafði enga lyst. Þurfti bara að ná á mér hita. Sótti því primaloft vestið og prinaloft pilsið og klæddi mig í fötin og konugreyið í Vallaservice lánaði mér sína vettlinga til að ég myndi ná smá hita á fingurna. Á meðan reyndi hún að hita mína vettlinga. Önnur mistök sem ég hafði gert var að taka ekki með mér HAND WARMERS og þau áttu ekki svoleiðis þarna í Vallaservice. Þeir báru mjög vel á skíðin mín sem voru klárlega með miklu heitari áburð undir, en þeir báru líka á klístur fyrir mig á miðjuna, þ.e. fattið, svo ég fékk gett rennsli þegar ég kvaddi bjargvættina mína í Evertsberg.

Ég rann svo vel niður fyrstu brekkuna að ég passaði mig ekki nógu vel og í fyrstu kröppu beygjunni þá flaug ég upp úr sporinu, datt illa ofan á vinstri stafinn minn, þ.e. bæði með vinstra lærið og vinstri rifbeinin og hægri stafurinn losnaði af og ég týndi honum og höfuðljósið kastaðist líka af mér.

Fyrsta sem ég gerði þegar ég stóð upp, var að skríða á skíðunum eftir höfuðljósinu sem hafði flogið af mér, hrædd um að einhver myndi skíða á mig. Reyndi svo að standa upp og athuga hvort ég væri ekki örugglega óbrotin og fór svo að leita að hægri stafnum, sem ég fattaði að hefði flogið af króknum sem er á handbandinu hægra megin. Ég skíðaði því upp brekkuna og niður til baka tvisvar sinnum, og leitaði og leitaði. Það var algjört niðamyrkur, þú sérð ekki neitt nema í þá átt sem höfuðljósið vísar og það stoppaði enginn til að hjálpa mér að leita. Á þessum tímapunkti hefði verið mjög gott að vera með félaga. Ég bað til Guðs að ég myndi finna stafinn og að hann væri óbrotinn. Eftir að hafa gengið tvisvar upp og niður brekkuna ákvað ég að prófa að skíða áleiðis niður eftir og vita menn þar var stafurinn og sem betur fer óbrotinn, algjörlega magnað, þó margir hafi örugglega næstum verið búnir að skíða yfir hann.

Ástæðan fyrir því að ég datt var sú að ég fór of hratt og sá ekki beygjuna í myrkrinu og flaug því bara upp úr sporinu, en nákvæmlega svona gerast slysin og því var ég fram að slysinu búin að fara mjög varlega og ákvað að halda því áfram eftir þessa vondu byltu, en sem betur fer var ég ekki brotin, bara með brákað rifbein og stærsta marblett sem ég hef fengið (en komst ekki að því fyrr en síðar) 🙂

Það sem hefur hjálpað mér mikið í löngum utanvegahlaupum sem og í löngum gönguskíðakeppnum er „hausavinnan“, þ.e. t.d. að brjóta vegalengdina niður og hugsa allt í prósentum eða hlutföllum, þ.e. hversu mikið er búið, í staðinn fyrir að hugsa og horfa á hvað mikið er eftir. Á þessum tímapunkti eftir byltuna, þá voru „bara“ 40 km sem þýðir að það voru 50 km búnir. Miklu betra að hugsa þannig. Svo hugsaði ég næst kemur 39 km skilti og svo 29 km .. og svo á endanum þegar ég var komin á síðustu drykkjarstöðina þá voru bara 9 km eftir. Svona hausavinna, virkar vel fyrir mig, eins og í 350 km hlaupinu mínu var ég bara að fara í sjö sinnum 50 km hlaup, en ekki eitt 350 km hlaup 🙂

Á síðustu drykkjarstöðinni, þegar það voru bara 9 km eftir, þá tók ég inn síðasta gelið, af gelunum 3 sem ég tók alla gönguna. Ég vildi eiga næga orku fyrir síðustu km, auk þess sem ég var hrædd um að ég færi að vera syfjuð en hingað til hafði ég alveg losnað við syfju, svo þetta gel var með koffíni. Ég fékk mér líka smá kaffibolla á síðustu drykkjarstöðinni en þar voru eiginlega allir drykkir að verða búnir, sem kom mér spánskt fyrir sjónir þar sem það voru nú ansi margir á eftir mér, ég var ekki alveg síðust 🙂 En kannski áttu þeir bara eftir að fylla á alla brúsana.

Það var ofboðslega fallegt að koma í mark í Mora um miðja nótt, þ.e. klukkan 04:27:28 og sjá fallegu kirkjuna upplýsta með fallegri lýsingu og í markinu var bara einn ljósmyndari að taka á móti okkur. Það var enginn þulur, engnir áhorfendur og enginn Gustaf Vasa fígúra eins og í Opna sporinu.

Ég var himinlifandi þegar ég kom í mark, langt á undan eigin væntingum, heildartími 8 klst 27 mín og 27 sek. sem voru um 30 mín betri tími en í Opna sporinu sl. mánudag sem var PB eða personal best tími hjá mér, svo núna bætti ég um betur þrátt fyrir byltuna góðu eftir Evertsberg.

Held ég geti þakkað kuldanum fyrir þessa bætingu, því kuldinn skipaði mér að halda áfram og hreyfa mig eins hratt og ég gat, þrátt fyrir þreytuna í skrokknum og verki í stóru tá og nára.

Ég var samt mjög vel búin, ég var í ullarundirfötum og frábærum SALOMON buxum með vindshield og SALOMON jakka sem er líka mjög hlýr. Var með ullarbuff, sem fraus og með góða húfu og þykka vettlinga, og var svo komin í Primaloft vesti og pils líka.

Eina sem hægt er að setja út á staðahaldara er að rútan fór frá Mora á 2 klst fresti, svo ég missti af 4 rútunni og næsta rútan var ekki fyrr en klukkan 6 . Það var enginn aðstaða innanhúss fyrir keppendur til að bíða eftir næstu rútu.

Þeir buðu upp á opin arineld sem reyndar hitar mjög vel við veitingatjaldið þar sem boðið var uppá samloku og kaldan recovery drykk, þar sat ég og spjallaði við aðra þátttakendur. Rútuferðin heim var fín. Fór frá Mora klukkan rúmlega 6 og var komin 7:30 í Sälen, þar sem Sigga vinkona sótti mig. Elsku Sigga vinkona svaf lítið um nóttina þar sem hún var að fylgjast með mér. Hitamælirinn í bílnum sýndi mínus 12 gráður þegar Sigga sótti mig, svo þið getið ímyndað ykkur hvernig frostið var um nóttina.

En frábær ganga, ofboðslega fallegt og kalt veður en að mestu (ekki í kuldapollunum) mjög góð spor, þó þau væru bara tvö. En ég var fegin að láta preppa skíðin mín á leiðinni og fékk mjög góða þjónustu í Evertsberg þar sem þau voru preppuð 🙂

Okkur Siggu beið svo frábær morgunmatur rúnstykki og vínarbrauð hjá Jimmy og Hörpu þegar ég kom til baka.

Tímarnir mínar á drykkjarstöðvunum, var í 41 sæti kvk af 90 konum sem voru skráðar í einstaklingskeppnina.
Í 271 sæti alls af 476 skráðum.
mars 4, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíðiKeppnissaga

Öppet Spår 90 – mánudagur 28.02.2022

by Halldóra febrúar 28, 2022

Við Hrefna, Harpa, Jimmy og Fjóla vorum öll í öðrum ráshópi í Opna sporinu 90 km á mánudeginum, en Sigga Sig var í þriðja ráshóp. Fyrsti ráshópur var ræstur klukkan 7, annar klukkan 7:10 og þriðji klukkan 7:20.

Margir velta fyrir sér hver sé munurinn á Opna sporinu 90 km á sunnudegi, Opna sporinu 90 km á mánudegi og svo aðal Vasakeppninni sem er sunnudaginn þar á eftir. Ég vissi nú ekki sjálf hver væri munurinn fyrr en ég tók núna þátt, eina sem ég vissi er að það er alltaf farin sama leiðin frá Sälen til Mora, samtals um 90 km.

Í sunnudags Opna sporinu er ekki heimilt að fara á skautaskíðum og því eru lögð gönguskíðaspor á alla brautina, kannski 5-7 spor. Þar eru því alir að keppa í „Classic skiing“. Í opna sporinu á mánudeginum voru bara lögð tvö spor og restin af brautinni var „preppuð“ eða undirbúin fyrir skautaskíði, þar sem á mánudeginum má fara keppnina á skautaskíðum. Þetta vissi ég ekki þegar ég skráði mig heldur, skráði ég mig bara í sömu keppni og Hrefna vinkona og hún hafði alltaf valið mánudaginn því þá eru færri þátttakendur þ.e. í mánudagskeppninni en sunnudags. Ég hélt líka að Opna sporið væri þannig að þú réðir því hvenær þú legðir af stað og það væru engin tímamörk, en það er sem sagt ekki rétt. Þú verður að leggja af stað í því hólfi sem þú ert skráður í og tímamörkin eru þau sömu og í Vasaloppet í klst, en þú ert að leggja fyrr af stað, þannig að þau eru aðeins rýmri, en það er ekki rétt að það séu engin tímamörk 🙂

Aðakosturinn samt við Opna sporið m.v. Vasaloppet keppnina er að það eru „bara“ 1000 manns með þér í hólfi svo t.d. leiðin upp fyrstu brekkuna gengur miklu hraðar heldur en í stóru keppninni þar seum 15.000 manns eru ræstir á sama tíma.

Óli og Brynja skutluðu okkur niður að rásmarkinu og við vorum komin þangað um 6 leytið. Þá fórum við og byrjuðum á að sækja skíðin okkar í „prepp“ tjaldið, þar sem við höfðum keypt áburðarsmurningu undir þau. Valkvíðinn í gær hafði verið um það hvort ég ætti að fara á skínnskíðunum eða áburðarskíðunummínum, en komst svo líka að því að fínu skinnskíðin mín væru ekki rétt fyrir mig, fékk þær upplýsingar að ég sé of þung fyrir þau. Einar Óla mælti með því að ég færi á skinnskíðunum, því færið var frekar hlýtt og því klísturfæri og vesen á hinum, auk þess sem breytileikinn í hitastigi var mikill, þ.e. frá miklu frosti um morguninn í mikinn hita eftir hádegi, þá lá sú ákvörðun fyrir 🙂

Við skiluðum í DHL rúturnar pokunum sem við fáum þegar við komum í mark, þar var ég með lopakjólinn minn og þurr föt og aðra skó til skiptana. Fórum svo inn í hólfið okkar (#2) með skíðin og komum þeim fyrir, vorum ca fyrir miðju, ekki fremst og ekki aftast. Eftir það fórum við í klósett röðina og á leiðinni á klósettið, datt ég aftur og skall á bakið, annað skiptið í þessari viku, var að spá hvort örlögin væru að reyna að stoppa mig í að fara í þessar þrjár keppnir 🙂

Eftir eina klósettferð hentum við okkur aftur í hólfið, Sigga ætlaði að kanna hvort hún fengi sig færða í okkar hólf, sem gekk svo ekki. Hólf 1 var ræst af stað klukkan 07:oo og ég og Hrefna vorum ekki komnar í skíðin okkar þegar við vorum látin færa okkur yfir í fremsta hólfið. Svo við vorum hlaupandi með skíðin okkar í fanginu í næsta hólf. Rétt náði svo að henda mér í skíðin, taka 1-2 myndir og svo vorum við bara ræst klukkan 07:10. Tíminn er svo fljótur að líða, þ.e. í aðdraganda að svona keppni.

Ferðin uppá hæsta punkt gekk vel og ég var komin þangað eftir 28 mín eða klukkan 07:49, enda reyndi ég bara að hanga í Hrefnu sem er mjög öflug upp brekkurnar. Fyrsta drykkjarstöðin er í Smågan og þar vorum við klukkan 08:27 og þá búnar að vera um 1 klst og 7 mín á ferðinni. Það var gaman að heyra nafnið manns lesið upp þegar maður kemur á drykkjarstöðvarnar.

Á leiðinni að næstu drykkjarstöð týndi ég Hrefnu, en við vorum til skiptis fyrir framan og aftan og allt í einu uppgötvaði ég að hún væri ekki með mér, þ.e. hvorki fyrir framan ná aftan. Svo ég stoppaði og beið í smá tíma og kallaði á hana, en hugsaði svo að hún væri kannski bara á undan mér, svo ég hugsaði að ég myndi þá bara hitta hana á næstu drykkjarstöð sem var í Mångsbodarna. Þegar ég kom þangað sá ég hana ekki, en fékk mér að drekka og borða og þegar ég er að fara að gera mig klára í að fara, þá heyri ég þulinn segja Hrefna Guðmundsdóttir fra Island, svo ég skíðaði til baka og tók á móti henni. Hún fékk sér að drekka og borða og svo héldum við saman áfram. Hrefna hafði lent í því að einhver datt fyrir framan hana eða datt á hana svo hún reif 66°norður mittistökuna sína og þurfti að koma næringunni fyrir í bakpokanum, þess vegna var hún svona langt á eftir.

Eini gallinn sem ég sé við mánudags Opna sporið, er að það eru bara tvö spor og ekki allir sem virða þá reglu að halda sig hægra megin og því vorum við Hrefna stöðugt að taka fram úr fólki sem var samt í vinstra sporinu. Það er mikil orka og tími sem fer í það. En opna sporið á mánudegi er sniðugt fyrir góða skautara og þeir flugu hratt fram úr okkur.

Okkur var fljótlega mjög heitt og Hrefna vildi fara úr jakkanum og ég ákvað að fara í þynnri vettlinga, auk þess sem ég þurfti að pissa. Við stoppuðum því út í kanti (vorum búnar með um 32 km). Ég fór af skíðunum og aðeins út í skó, þar sem ég pissaði og svo skipti ég um vettlinga, fór í þynnri vettlinga sem var mjög sniðugt.

Rétt áður en þú kemur að Risberg sem er þriðja drykkjarstöðin (35 km búnir), þá er hættulega fyndna brekkan sem allir detta í, svo við ákváðum að fara mjög rólega þar niður og duttum sem betur fer ekki þar, sjá annars þetta skemmtilega myndband.

Í Evertsberg er gangan rúmlega hálfnuð (47 km búnir), þar fengum við okkur bara heita súpu og næringu eins og venjulega.

Oxbberg er fimmta drykkjarstöðin og eftir hana eru um 28 km eftir. Þar fórum við Hrefna á klósettið sem var mjög gott. Eini gallinn var að þegar við erum komnar niður fyrstu brekkuna eftir Oxberg, þá fattaði ég að ég hafði gleymt mittistöskunni með allri næringunni minni inni á klósetti. Var alvarlega að hugsa um að skilja hana bara þar eftir, en Hrefna var ekki alveg á því, svo ég dreif mig til baka skíðaði upp eftir og sótti töskuna og Hrefna beið bara róleg eftir mér á meðan og nærði sig.

Hökberg er næst síðasta drykkjarstöðin og við stoppuðum bara eðlilega þar og fengum okkur að drekka og nærðum okkur og síðasta drykkjarstöðin er í Eldris og þá eru 9 km eftir.

Við vorum báðar í nokkuð góðum málum og ákváðum að skíða saman inní markið en sporin voru orðin frekar léleg þarna í lokin síðustu kílómetrana, þar sem það var orðið mjög hlýtt.

Það voru brosmildar og ánægðar vinkonur sem komu í mark klukkan 16:27 og lokatími því 9 klst 6 mín og 58 sek

Þar sem Opið spor er ekki keppni þá ertu ekki í neinu sæti, það er ekki haldið utan um það sem er líka bara frábært.

Ég var mjög glöð enda er þetta minn besti tími í Vasaloppet keppni hingað til og samveran með Hrefnu alla leiðina, var mjög skemmtileg.

Takk elsku vinkona fyrir yndislega göngu saman og alla samveruna í Svíþjóð þessa viku, það var yndislegt að vera með ykkur öll sömul kæru vinir í Sälen.

https://fatmap.com/routeid/2925655/oppet-spor-2022?fmid=cp

Tímarnir mínir á drykkjarstöðvunum í Opna sporinu.

febrúar 28, 2022 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnissagaSund

NOM2021 Norðurlandamót Garpa í sundi 2021

by Halldóra október 10, 2021

Mamma hvatti mig til að skrá mig í Nordic Open Masters mótið sem er Norðurlandamót garpa 2021 þegar ég kom heim úr TOR hlaupinu um daginn.

Mamma var einn af dómurunum í mótinu. Ég gat að sjálfsögðu ekki skorast undan áskoruninni, þó ég sé ennþá í recovery mode eftir TOR-inn og skráði mig í allar skriðsunds- og bringusundsvegalengdir.

Ég synti 800 m, 400 m , 200 m , 100 m og 50 m skrið og 100 m og 50 m bringusund.

Það sem stendur upp úr eftir NOM2021 eru skemmtilegar samverustundir með Görpunum og frábært skipulag mótsins sem og frábærir sjálfboðaliðar þ.e. dómarar og annað starfsfólk.

Takk kærlega fyrir mig og samveruna 🙏🇮🇸🏆

p.s. ég fékk tvö gullverðlaun, þ.e. er Norðurlandameistari í 50 m bringu og 100 m bringu, ég fékk ein silfurverðlaun í 50 m skriðsundi og tvö bronsverðlaun, þ.e. í 800 m skriðsundi og í 100 m skriðsundi. Allar viðurkenningar voru veittar fyrir aldursflokkin 50-52 ára konur.

október 10, 2021 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífFjallahlaupKeppnissaga

#7 Tor dés Geants, Rey (Ollomont) – Courmayeur

by Halldóra september 17, 2021

Eftir að hafa farið út af Ollomont stöðinni klukkan 19:27 (komnir 127 klst og 27 mín), 298,5 km og 26.602 m samanlögð hækkun, var ég frekar rugluð og tók til að mynda strax ranga beygju, þ.e. til hægri í staðinn fyrir vinstri og þurfti að snúa við, eftir nokkur hundruð metra 😊 Það var enginn að kalla á mig núna, þó ég færi vitlaust, en sá bara allt í einu engin gul flögg 🙂

(17/9 17:06 Halldóra er að leggja í hann. Náði einhverjum svefni, kannski 1 klst og það verður að duga. Fætur í lagi, ljós, sími og úr hlaðið. Tékklistinn yfirfarinn fyrir síðasta legginn. Framundan er strax 1.080.- metra brekka upp að Rifugio Champillon skálanum, þar sem hægt er að taka stutt stopp fyrir efri partinn. Þaðan er rúmlega 300 metra hækkun upp í fjallaskarðið. Eftir það lagast færið mikið, fyrst brekka niður um 500 metra lækkun og svo mjög langur aflíðandi niður kafli, utan í fjöllum, alltaf smá upp og niður, en þægilegt alla leið til Saint-Rhémy Bosses um 16 km. leið. Frá Bosses heldur leiðin áfram 8 km til Merdeux, með smá hækkun í restina og þar er Cut kl. 8:00 í fyrramálið. Þetta verður ekki létt en hefst vonandi. Eftir Merdeux hefst síðasta fjallaklifrið hjá Halldóru, upp í Rifugi Frassati skálann og stutt frá honum er farið yfir hið fræga Malatra skarð þar sem Mont Blanc fjallið birtist þér í allri sinni dýrð og þaðan er mestmegnis niðurhlaup alla leið til Courmayeur. Við reynum að fylgja Halldóru alla þessa leið og yfir marklínuna á næstu 22 klst. og 45 mínútum, Stefán Bragi.)

(17/9 17:48 Halldóra er búin að fá tíma út úr Ollomont. 127:27 í sæti 392 af 437 hlaupurum sem eru eftir. 216 komnir í mark og 45 á eftir Halldóru. Skv. þessu mun þetta ganga upp. Ég fór út af Ollomont 2019 á 127:24 og kom í mark 8 mínútum áður en að Courmayeur lokaði. Halldóra er þremur mínútum seinna út þannig að hún mun þá koma í mark 5 mínútum áður en lokar í Cormayer. Eru ekki allir klárir í lokasprettinn ? Stefán Bragi.) 

(17/9 20:20 Enn er staðsetningarkerfið í rugli. Við höfum ekki hugmynd um hvar Halldóra er. Hlauparar sem að voru á svipuðum slóðum og hún eru sumir löngu komnir upp fyrir Champillon skálann á GPS trackinu en hafa enn ekki sýnt tíma í skálanum. Við höfum ekki númer á vin þar sem Halldóra er alveg sambandslaus og GPS laus. Þannig að við erum alveg ein í myrkrinu eins og Halldóra. En hún hlýtur að skila sér til byggða. Allt sem fer upp kemur niður. Stefán Bragi.)

Framundan var heilmikið klifur upp að Rif. Champillon (303,5 km, 27.681 m.hækkun), ég fékk ekki tíma þar einhverra hluta vegna. En ég kannaðist við þessa leið, þar sem við höfðum gengið hana saman upp að skálanum, ég, Iðunn og Stefáni í sumar. Þarna er t.d. sauna fyrir utan húsið, en drykkjarstöðin var mjög kósý. Hitti aftur Diego og félaga á drykkjarstöðinni, fékk mér heitt súpuseyði og kók, og fór svo með Diogo og félögum hans upp á topp á Col Champillon.

(17/09 20:49 Þættinum var að berast SMS og Halldóra er komin upp í Champillon skálann. Ætlar að stoppa stutt og taka síðan síðustu 300 metrana upp á topp. Nú er áreynsluasminn að hægja á henni en við verðum að treysta því að hún vinni upp tíma á leiðinni niður. Jón Örlygsson hitti naglann á höfuðið hér í skilaboðum neðst, Halldóra elti lengi vel Rizzi Lucio með Bib nr. 666. en í myrkrinu ryfjaðist upp hvað þetta númer þýðir í Biblíunni og þá leyfi hún honum bara að fara á undan. Bara 300 metrar upp og þá er Halldóra mun sterkari í niðurhlaupinu eftir það sem er yfir 20 km. Og vonandi náum við símasambandi þá, Stefán Bragi.)

17/9 21:34 Í stuttu samtali við Halldóru áðan sagði hún mér að skila mjög góðri kveðju til allra Bakgarðshlauparanna sem að ætla að byrja að hlaupa í Heiðmörkinni kl. 9:00 í fyrramálið. Þar ætla 200 hlauparar að hlaupa hring eftir hring þar til einn verður eftir uppistandandi. Halldóra tók sérstaklega fram að hún ætlaði bara að skokka „Einn hring“ í þetta skiptið.  Stefán Bragi.)

Næsta tímatökustöð var Ponteille Desot, kom þangað klukkan 00:38, aðfararnótt laugardags (132 klst og 38 mín).

17/9 22:01 Hér er verið að vinna í lausnum og Halldóra er kominn í stopult 3G-4G samband. Hún sendir mér því Shared Location á Messenger og þá get ég séð nákvæmlega hvar hún er. Núna er hún að koma inn á drykkjarstöð Ponteille Desot og er þá búin með 10 km. frá Ollomont. Bara 40,4 km. eftir. 17 klst. og 55 mín að loka marki. Það gerir nauðsynlegan meðalhraða upp á 2,24 sem er lægri en meðalhraði hlaupsins 2,33. Halldóra er því „Inni“ í þessum nýjustu tölum frá Aosta dalnum, Stefán Bragi.)

17/9 23:31 Halldóra er á hlaupum, á mjög góðri ferð núna og 8 km. til Bosses. Miðað við áætlaða staðsetningu á hún núna eftir 16 km til Merdeux og þarf ekki að halda meðalhraða nema upp á 1,88 km til að ná því Cut. Þannig að það virðist vera í höfn. Alla leið til Courmayer eru 36 km og hún þarf ennþá að halda 2,18 km meðalhraða þangað, sem er lækkandi frá tölunni áðan. Þannig að staðan er að batna. Halldóra er núna komin 312 km og við bara gleymdum að halda upp á 300 km. mörkin. Hún er að reyna að hlaupa sem mest núna til að vinna sér inn smá svefn i Bosses, Stefán Bragi.)

(18/9 00:23 Netið dettur út og inn þannig að við missum staðsetninguna alltaf. Þannig að við erum aftur búin að velja spánskan vin Carmona Marina Jose Fernando Bib 793 sem Halldóra er rétt á eftir. Gengur vel og mikil hreyfing á hlaupurunum á þessum slétta kafla til Bosses. Styttist mjög í að Halldóra komi á malbikið og þá getur hún náð enn meiri hraða niður til Bosses. Aðal vandamálið núna er ekki svefn heldur eru háls og axlir algerlega að drepa hana þessa stundina. Hún sagði að þett væri eins og hún hefði hlaupið niður frá Champillon á herðablöðunum, Stefán Bragi.)

(18/9 00:28 Smá skemmtilegt innskot. Maður fær allskyns skemmtileg SMS og verkefni á þessari leið. Fékk þessi skilaboð áðan frá Halldóru, og þau eru skrifuð eins og og þau komu frá henni. “ Er í þessum hópi. Við búi að hlaupa alla leið nú Þ Að kepss brú. Þarf meira koffín“ Ég var ekki alveg viss um hvernig ég ætti að ná að leysa þetta , Stefán Bragi.)

(18/9 00:55 Halldóra er að koma inn á stöðina í Bosses. Hún er að vinna sér inn mikinn tíma á slétta og niðrímóti kaflanum sem er að baki. Hér verður tekið smá stopp sem hún er búin að vinna sér inn fyrir á hlaupum. Eftir eru 7 km. í Merdeux Cut stöðina og heilar 7 klst. til að ná því. 1 km á klst. þannig að þetta er orðið öruggt þangað. 30 km til Courmayeur og yfir ansi hátt Malatra skarðið að fara og meðalhraðinn þarf að vera 2 km á klst. alla leið þangað, ef hún færi strax af stað. 2- 3 tímar í birtingu og lokaorkan kemur með sólarupprásinni, Stefán Bragi.)

Eftir fjallaskálann Rif. Champillion er klifur áfram upp í næsta skarð (sem við Iðunn og Stefán Bragi gengum í frábæru veðri og dagsbirtu) og góða við skörðin, er að það er brekka niður hinum megin. Var þar um miðja nótt og löngu hætt að reyna að taka myndir að nóttu til 🙂

Kom svo í Saint-Rhémy-en-Bosses, aðfararnótt laugardags klukkan 03:01 (135 klst 01 mín), 320,6 km og 28.650 m. hækkun. Þegar ég kem inn í Bosses, vissi ég að ég yrði að hitta lækni, eða hjúkrunarfræðing og reyna að fá Voltarin gel eða eitthvað kælandi aftan á hálsinn á mér, var orðin virkilega kvalinn og náði ekki að halda uppi hausnum, nema með stöfunum. NB á þessum tímapunkti vissi ég ekkert hvar ég væri og ég þurfti að spurja Stefán Bragi að því þegar ég var að skrifa bloggið, hvar ég hefði verið þegar ég hitti lækninn. Svona var ástandið á manni 🙂

Ég fæ að hitta ítalska konu, lækni eða sjúkraliða, sem talaði ENGA ensku. Hún notaði GOOGLE TRANSLATE á símanum sínum til að tala við mig, skrifaði og sýndi mér svo skjáinn þar sem ég gat lesið á ensku það sem hún skrifaði á ítölsku.

Hún spurði mig hvar ég væri með verk? Hversu lengi ég ætlaði að stoppa? Hvaða lyf ég væri búin að taka inn o.s.frv.? Ég skyldi hana ekki þegar hún spurði mig hvað ég ætlaði að stoppa lengi, því ég óttaðist MEST AF ÖLLU að hún myndi „grounda mig“, þ.e. ekki leyfa mér að halda áfram í keppninni. Svo ég var alltaf að segja við hana, ég verð að halda áfram, ég ætla að halda áfram. Ég held hún hafi séð hversu rugluð og kvalinn ég var orðinn, svo hún fór með mig inná fyrstu hæð á hóteli við hliðina á drykkjarstöðinni og lét mig leggjast þar á læknabekk.

Þar spurði hún mig hversu lengi ég ætlaði að sofa. Ég var að tala við Stefán Braga í gsm sem eiginlega hjálpaði mér að skilja hana og enduðum við á að segja 45 mínútur. Þegar hún kom til baka þá vaknaði ég og vissi ég ekki hvar ég væri eða hvað væri í gangi, var mjög rugluð í hausnum. Talaði við Stefán Braga sem hringdi sem betur fer í mig á sama tíma til að vekja mig og ég spurði hann: Hvað ætlaði ég að biðja hana um, hvað er að mér ? Hann sagði mér að ég ætlaði að biðja um annað hvort kælisprey á hnakkann, eða verkjalyf í gelformi til að smyrja á hann og einhverja kælingu.

Sjúkraliðinn átti ekki kælisprey og hún átti ekki verkjalyf í krem- eða gelformi, en hún bauð mér fljótandi verkjalyf (sem ég fyrst neitaði ha ha ha) og hún margsagði ARE YOU SURE ?? Svo ég endaði á að segja já takk og hún setti það undir tunguna á mér. Svo gaf hún mér kælipoka, úr þurrís, þar sem er ýtt á hnapp og hrist til að kælingin fari af stað.

Hún kom því fyrir á hnakkann á mér (aftan á hálsinn) undir hettupeysuna sem hélt þessu á sínum stað. Þvílíkur munur að fá þessa kælinguna á verkinn. Ég bað hana um að fá annan poka með mér í „nesti“.

(18/9 02:24 Halldóra náði að sofa í 45 mín og fékk aðstoð sjúkraþjálfara vegna háls og bakeymsla. „Þetta hangir“ sagði hún og bara 28,7 km eftir. Fékk kælipoka og verkjalyf í fljótandi. Órjúfanlegur partur af TOR ferðalagi, það er alltaf eitthvað sem kvartar. Planið fyrir næsta stað er Merdeux þar sem er Cut kl. 8:00, 5,5 tímar til stefnu, 7,6 km. og 900 metra hækkun. Bara ein stöð í einu. Stefnan er að ná þessu á undir 4 tímum og eiga því 1,5 tíma allavega á Cut timann. Halldóra kom inn á Bosses í sæti 396 en það eru margir búnir að fara í gegn síðan hún lagði sig. Innan við 20 hlauparar eftir í brautinni fyrir aftan Bosses. Það eru en að detta út hlauparar, sem er óvenjulegt eftir Ollomont, nú eru 279 hlauparar hættir keppni. 433 í keppni og af þeim hafa 276 klárað nú þegar. Verkefnið heldur áfram og styttist í sólarupprás enn einn fallega daginn í Aosta dalnum á Ítalíu, Stefán Bragi.)

Þegar ég legg af stað sé ég að Diego og vinir hans eru að leggja sig á gólfinu í drykkjarstöðinni, allir orðnir frekar steiktir. Ég held áfram út úr bænum og sé þá að ljósið mitt er að vera batteríslaust. Garmin úrið varð líka batteríslaust og gsm síminn var líka orðinn tæpur. Ég tek því upp stóra hleðslukubbinn minn, 20.000 sem ég var búin að bera á bakinu frá Ollomont og fór að hlaða allar þrjár græjunar, var líka með auka léttan USB hleðslupung, svo ég gat hlaðið þrjá hluti í einu.

Þurfti að nota varahöfuðljósið á meðan og ég setti gsm á airplanemode á meðan ég var að hlaða. Hafði auðvitað ekki vit á því þegar ég kom inn á Bosses stöðina að setja allar græjurnar í hleðslu. Þurfi því að halda á kubbnum og öllu þessi dóti á meðan ég gekk út úr bænum, kælingin var að virka vel á verkinn aftan á hnakkanum og mér leið mun betur.

(18/9 02:34 Farin af stað frá Bosses og nýjasti vinur okkar er Bagliane Marco með bib nr. 551. Fylgjum honum upp í Merdeux því að nú höldum við aftur inn í óbyggðir og náum ekki að staðsetja Halldóru með Messenger Location. Síðasta fjallið framundan, frá Stefáni Braga.)

Á leiðinni upp fjallið, tóku Diego og vinir hans fram úr mér, eins og vanalega, en svo náði ég þeim stuttu áður en við komum að Frasatti skálanum, þar sem þeir höfðu lagst út af á jörðinni og lagt sig. Þeir voru hóstandi þegar ég kom að þeim, svo ég gaf þeim STREPSILS töflur sem ég hafði keypt í apótekinu sem komu sér mjög vel. Við vorum öll hóstandi og slæm í hálsinum af álaginu held ég og ég líka af astmanum.

(18/9 05:16 Halldóra nálgast síðustu Cut off stöðina, Merdeux. Hún mun ná þangað í síðasta lagi um 6:00, var að senda mynd af dalnum í sólarupprásinni þar sem bæði sést til Merdeux og Frasatti skálans. Hún verður þá með 2 klst. á Cut of tímann. Næsti áfangi upp og jafnframt sá síðasti upp er til Frasatti og þaðan yfir upp í Malatra skarðið. Það er mjög stutt frá Merdeux til Frasatti, þú sérð skálann allan tímann en það er samt tæplega 300 metra hækkun. Halldóra mun taka stutt stopp þar og svo halda áfram upp í skarð. Malatra skarðið er bara 2 km. frá en aftur 400 metrum ofar. Eftir það eru 17 km., nánast allt niður í móti og í MARK. Ný mynd neðst, frá Stefáni Braga).

(18/9 05:59 Hún er komin í gegnum síðasta Cut off með rúmlega 2 tima á tímamörkin. Smá spölur eftir. Hvað eru 700 metrar upp þegar þú ert búinn með 30.000.- metra upp á síðustu 6 dögum, frá Stefáni Braga.)

Kom inn í Rif. Frassati skálann á laugardagsmorgni klukkan 08:18, komnar 140 klst og 18 mín (329,7 km og 28.650 m hækkun). Mér leið eins og ég hefði verið hérna áður. Þegar ég spurði Michele og dóttir hans Chiöru um hvaða hluti af leiðinni væri fallegastur, þá voru þau sammála um að Frasatti og Malatra skarðið væru fallegasti hlutinn. Ég sagði einmitt við þau, að þá væri eins gott að maður kláraði TOR-inn svo maður sæi síðasta og fallegasta hlutann 😉

Chiara var einmitt að hlaupa á þessum sama tíma TOR30 sem eru síðustu 30 km af TOR leiðinni. Í Frasatti skálanum settist ég við hliðina á Diogo en vinir hans Ítalarnir voru á næsta borði. Á þar næsta borði við hliðina á mér, voru Danirnir sem komu inn á svipuðum tíma og ég. Ég hafði ekki mikla lyst á mat, en keypti mér Sprite og Kitkat. Diego pantaði sér Polentu og ætlaði að borða hana. Ég ákvað að stoppa ekki lengi, því ég vissi að ég átti ennþá eftir enn eitt fjallið uppí Malatra skarðið og þau myndu öll taka fram úr mér á leiðinni þangað. Tók stutt myndbrot til að sýna ykkur hversu fallegt útsýnið er frá Frassati skálanum.

Fallegt útsýni að og frá Frasatti skálanum.

(18/9 06:29 Halldóra var að koma inn í Frasatti skálann. Hún var komin þangað á 140 klst. og 18 mínútum. Bara 9,5 klst. eftir þar til að markið lokar í Courmayeur. Hún er í sæti 412 af 432 hlaupurum sem eru enn eftir. Það eru enn 19 km. eftir í mark og meðalhraðinn verður að vera yfir 2 km. á klukkustund til að þetta náist. Sem betur fer er megnið af leiðinni niður í móti. En stoppið í Frasatti verður stutt. Hún mun leggja af stað 6:45 sem er bara 45 mínútum áður en TOR hlaupið mælir með því að hlauparar reyni að komast yfir Malatra skarðið. Þannig að við mælum ekki lengur forskotið í klst. heldur mínútum. Við erum komin með nýjan vin til að elta yfir Malatra skarðið, Somozza Francisco BIB 615, frá Stefáni Braga).

Þegar maður er komin að Col Malatrà, eða í Malatra skarðið þá eru 331,8 km búnir og 30.293 m í hækkun. Þegar ég kom í skarðið var margt fólk í skarðinu, þ.e. göngufólk, sjónvarpstökumenn og ljósmyndari og ég fékk einhvern til að taka af mér ljósmynd í skarðinu. Ég var búin að lofa Stefáni Braga að láta taka af mér mynd með Courmayeur í baksýn, mynd eins og hann sendi mér af sér, þegar hann var þarna í skarðinu og kláraði sinn TOR. Ljósmyndarinn og kvikmyndatökufólkið tóku mikið af myndum af mér og mér leið ótrúlega vel, þrátt fyrir allt klifrið þarna upp, enda vissi ég að það væri stutt eftir.

Eftir klifrið, tók við brekka niður eins og vanalega, sem var algjört æði. Hins vegar þegar ég er komin alveg niður í dal og hélt ég væri að fara að klára þetta. NEI !!! Þá er merki sem bendir okkur á að fara upp aftur fjallið hinum megin. Það fauk í mig, eina sekúndu, og ég hringdi í Stefán Braga og spurði hann af hverju hann hefði ekki sagt mér frá þessu fjalli þarna. Ég sem hélt þetta væri bara allt niður eftir Malatra skarðið. Var svo ennþá frekar súr þegar ég kom í Mont del Saxe klukkan 12:53 komnir 144 klst og 53 mín sagði við grey sjálfboðaliðana að ég hefði haldið að allar brekkur væru búnar 🙂 🙂 LOL LOL.

Þau auðvitað reyndu að hvetja mig og sögðu að það væri mjög stutt eftir 🙂

(18/9 08:54 Það er svo sem ekkert nýtt að frétta nema að Halldóra er að fara að klára TORX 2021 innan tímamarka. Hún er komin núna 335,6 km með 30.468 metra hækkun. Það hlýtur að fara að koma á hana tími á Pas Entre Deux Saus stöðinni. Og þá er hægt að reikna meðalhraðann í mark. Hún hringdi áðan og kvartaði yfir því að það væri brekka upp í móti og ég hefði sagt að þetta væri allt niður í móti (Það er ekki alltaf hægt að segja satt, frá Stefán Bragi.) 

Á þessum tímapunkti var ég líka farin að hlakka svo mikið til að komast í mark, því hugarórar mínir voru búnir að ákveða að Óli, Kristó og Hafrún og Siggi og Hildur væru öll í markinu að bíða eftir mér með íslenska fánann. Stefán Bragi sagði mér að hann væri búin að hita Óla upp fyrir markið og ég hafði heldur ekkert heyrt í Óla lengi. Svo ég var viss um að hann væri bara í flugi á leiðinni til Ítalíu. Þegar Siggi hringdi í mig í gær, þá var ég viss um að hann væri að tékka hvort ég myndi ekki örugglega klára TORINN, svo hann væri ekki að fara til Ítalíu í fýluferð LOL LOL (eina sem var að trufla þetta var að ég vissi að Siggi væri að stýra Backyard Ultra hlaupinu, svo kannski væru ekki hann og Hildur í Courmayeur, en Óli var pottþétt þar 🙂 🙂

(18/9 09:16 Tor 30 var ræst í morgun og nú eru fyrstu hlaupararnir þar að kom að Frasatti skálanum, þeir eru eins og gefur að skilja mjög hraðir og mjög margir, þannig að það er heil skriða af hlaupurunum núna um 2-3 klst. á eftir Halldóru og þeir eru allir á leið til Cormayeur líka. Það gefur góðan kraft að fá svona ferska hlaupara inn í brautina og er gott búst í síðustu klukkutímana. Þá er líka veislan í hámarki þegar að Halldóra kemur til Courmayeur, frá Stefáni Braga).

(18/9 9:22 Halldóra var að fá inn tíma á Pas Entre Deux Saus 143 klukkustundir þannig að tíminn er 22 mínútna gamall. Þaðan eru 13,7 kílómetrar í mark. 6 klst. og 50 mínn tíma til að ná í gegn ennþá þannig að Halldóra er að bæta í og er búin að ná að lækka meðalhraðann sem þarf niður fyrir 2 í 1,98 km á klst. Þetta er að hafast frá Stefáni Braga.)

Það er ótrúlega falleg leið að hlaupa þarna í áttina að Courmayeur, tala nú ekki um þegar maður fer að sjá Mt. Blanc í öllu sínu veldi. Ég var hins vegar með hræðilegan verk aftan á hálsinum, hausinn hékk ekki lengur uppi, eins og sjá má á myndunum, hér að neðan. Ég gaf samt bara í, tók fram úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, því ég vildi bara komast í mark, sjá íslenska fánann og hitta alla vini mína sem biðu eftir mér þar. Ég tók fram úr og taldi alla vega fimm konur og miklu fleiri karla. Ég píndi mig áfram, þó ég væri að drepast aftan á hálsinum.

(18/9 10:08 Halldóra er hætt að hugsa um tímamörkin. Nú er hún að hugsa um hversu mörgum hún nær að taka framúr þangað til hún kemst til Courmayer. Við erum komin með nýjan/gamlan vin. Halldóra var að taka fram úr Fabrice Gueriot með bib 730 – sem kemur við sögu hér fyrr í frásögninni. Hann er samt ekki lestarstjórinn, það var Diego. Skv. hans staðsetningu er bara mjög stutt í að Halldóra komi að Bertone skálanum og þaðan er ekki nema rúm klukkustund niður til Cormayeur. Þannig að Halldóra virðist eiga eftir innan við 2 klst. í mark á sama pace og hún er á núna, frá Stefáni Braga.)

Kom svo að Bertone skálanum, sem er síðasta tékkinnstöðin, fékk samt ekki tíma þar. Við Bertone skálann bað ég starfsmanninn (sjálfboðaliðann) að hjálpa mér að virkja klakapokann sem ég átti eftir í Salomon vestinu. Verkurinn var aftur orðinn óbærilegur og gamli pokinn löngu hættur að virka. Það var einstaklega gott að fá aftur kælingu aftan á hálsinn síðasta spölinn.

Stefán Bragi heyrði í mér í gsm og varaði mig við niðurhlaupinu frá Bertone skálanum þar sem hún væri mjög grýtt og hættuleg. Ég ákvað samt að halda áfram og hlaupa hana, fór samt varlega, hugsaði það væri nú ekki þess virði að fara að detta þegar það væru örfáir kílómetrar eftir í mark. Á sama tíma var ég orðin verulega spennt að klára TOR DÉS GEANTS 2021.

Þegar ég er komin um hálfa leið niður brekkuna þá fara hlauparar úr TOR 30 að taka fram úr mér. Fyrsti hlauparinn var reyndar löngu búinn að taka fram úr mér, en hlauparar númer tvö og þrjú og fyrstu konurnar tóku fram úr mér á þessum kafla, komu sem sagt á hvínandi siglingu þarna niður.

Það sem mér fannst sérstakt var að bæði kona númer eitt og tvö voru með „héra“ með sér, einhverja stráka, sem leiddu fyrir þær brautina og opnuðu fyrir þeim leiðina niður.

Annað sem mér fannst sérstakt í TOR-num var að við konurnar í TOR330 fengum miklu meiri hvatningu og hrós frá almenningi og öllum heldur en karlarnir sem voru í sama hlaupi, kannski er það vegna þess að við erum bara um 11% þátttakenda 🙂

Þegar ég kem svo loksins inn í Courmayeur, var ég mjög utan við mig. Ég sá ekki skilti sem sýndi að við ættum að beygja til hægri. Heyrði heldur ekki þegar kallað var á mig og mér sagt að snúa við. Það var ung stelpa sem þurfti að hlaupa á eftir mér til að láta mig snúa við aftur upp og taka beygjun 😉

Eftir þessa hægri beygju þá liggur leiðin í gegnum garð (park), sem er rétt fyrir ofan ræsinguna, þ.e. þar sem hlaupið var ræst fyrir sex dögum síðan.

Ég var eiginlega ekki að trúa því að ég væri að klára TOR-inn. Ég lagi af stað í hlaupið, vitandi að ég yrði að berjast við tímamörk og astmaköst. Væntingum um að klára var algjörlega stillt í hóf. Ég vissi líka á sama tíma að ég var bara með eitt skýrt markmið og það var að klára innan tímamarka, mér var alveg sama um sæti og eða tíma.

(18/9 10:34 Bertone skálinn nálgast en hann er síðasta stöðin áður en komið er í mark. Halldóra á eftir innan við 30 mínútur í skálann. Er eins og stendur að ganga með Guido Zansottera Bib 447. Þeir sem til þekkja í UTMB hlaupunum þá er Halldóra núna að koma öfuga leið niður í Cormayer miðað við UTMB og CCC hlaupin. Leiðin niður er mjög gróf og grýtt og ég bað Halldóru að hægja á sér. Þetta hlaup snýst ekki um sæti, það snýst eingöng um að komast leiðina innan tímamarka. Nú á að njóta síðasta klukkutímans, njóta þess að sigur er unninn og í Courmayour bíður fjöldi fóks sem mynda göng eftir allri göngugötu bæjarins þar til að FINISH pallinum er komið. Það er engin ástæða til að flýta sér í gegn, þú hefur fyllilega unnið fyrir því að þér sé aðeins fagnað á lokametrunum, frá Stefáni Braga.)

(18/9 11:00 Halldóra var að fá inn tíma í Bertone skálanum en stöðin heitir Mont de la saxe. 144 klst. og 53 mínútur. Nú horfir hún beint niður á Cormayeur og heyrir músíkina úr miðbænum. Það þarf ekki að reikna neina tíma lengur. Það eru enn 5 tímar í tímamörkin og hún á bara rúman klukkutíma eftir Á https://www.tordesgeants.it/en síðunni er vefmyndavél sem að hægt er fylgjast með þeim sem að koma inn á FINISHER pallinn, frá Stefáni Braga).

Áður en ég hleyp inn göngugötuna, þá þurfti að ég hugsa og taka ákvörðun um það hvort ég ætlaði að vera á FB live, eða taka upp myndband af öllum sem voru að hvetja mig síðustu metrana. Tók ákvörðun um að vera með VIDEO stillingu á gsm símanum mínum, til að geta sett inn myndbandið síðar. Það voru mjög stór mistök. Ég nefnilega stillti símann óvart bara á PHOTO og tók bara eina ljósmynd í staðinn fyrir myndbnadið ha ha ha 🙂

Ég á því ekkert myndband af þessu magnaða MÓMENTI þegar ég hleyp inn göngugötuna, fram hjá kirkjunni og öllu þessu fólki sem fagnaði mér svo innilega, eftir að hafa hlaupið 350 km í sex daga um 30.000 metra hækkun. Þetta var svo magnað móment að það mun lifa í minni mér að eilífu.

TOR330 FINISHER 2021- KOMIN Í MARK Á 145 KLUKKUSTUNDUM og 55 MÍNÚTUM – 4 klst og 5 mín frá tímamörkum.
349,3 km – 30.879 m SAMANLÖGÐ HÆKKUN, skv ITRA.

Frank spurði mig stuttu eftir að við kynntumst, hvernig ég ætlaði að taka því þegar kynnirinn myndi „REYNA“ að segja allt nafnið mitt „Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé“. Ég svaraði honum, að mér alveg sama, því ég ætlaði bara að gráta af gleði þegar og ef ég kæmist í mark 🙂

Þegar ég kom í mark, þá komu tár, ég fékk gæsahúð og naut hverrar mínútu þegar ég stóð undir TOR FINISHER skiltinu. Grét ekki hátt eða mikið, en ég var mjög hrærð 🙂 Fékk FINISHER medalíuna mína, fór svo á svæði á bak við við þar sem ég fékk FINISHER bolinn minn, bjór (áfengur svo ég gat ekki drukkið hann) og Fanta. Þar tóku þeir tracker græjuna og ég fékk 50 EUR trygginguna til baka.

Það var hins vegar ENGINN Íslendingur í markinu að taka á móti mér. Það var enn ein ímyndunin, eins og huldufólkið og álfarnir og húsin sem ég sá á leiðinni. Tommi, finnski vinur minn var í markinu og tók á móti mér, auk auðvitað allra Ítalanna sem tóku vel á móti mér og fögnuðu innilega. Sjá myndband sem Stefán Bragi tók þegar ég kom í mark.

Ég fór að sjálfsögðu á FB live, „BROSTI HRINGINN“ í orðsins fyllstu merkingu og þakkaði fyrir allar kveðjurnar og hringdi svo í Óla sem var eins og öll plön höfðu gert ráð heima á Íslandi.

(18/9 11:24 Smá leiðbeiningar til þeirra sem að ætla að reyna að sjá Halldóru koma inn í beinu útsendingunni. Útsendingin er á https://www.tordesgeants.it/en en þið þurfið að fara neðst á stikuna og færa bendilinn alveg til hægri til að vera á LIFE. Þá er bein útsending og klukkan efst vinstra megin á að vera nákvæmlega 2 tímum meira en okkar. Annars eruð þið að horfa á gamla upptöku, frá Stefáni Braga.)

(18/9 11:58 Komin í mark – Útsendingu lokið 🙂 Við þökkum þeim sem hlýddu 🙂 frá Stefáni Braga.)

Komin í mark eftir 145 klst og 55 mín. Rúmlega 350 km og 30.000 metra hækkun skv ITRA.
Stefán Bragi tók myndina og setti UTMB lag Vangelis undir, Conquest of Paradise, magnað ekki satt ?
Fór á FB Live þegar ég var komin í mark og komin baksviðs, þar sem ég fékk FINISHER bolinn, skilaði tracker græjunni og fékk bjór og Fanta. Tommi, finnski vinur minn var sá eini sem ég þekkti og tók á móti mér í markinu.

COURMAYEUR – LAUGARDAGUR KLUKKAN 13:55 (145:55 klst).
349,3 km – 30.879 m SAMANLÖGÐ HÆKKUN, ITRA MÆLIKVARÐAR.
TÍMAMÖRK KLUKKAN 18:00.

ÞAKKIR
Ég er einstaklega þakklát vinum mínum Stefáni Braga og Elísabetu Margeirsdóttur (sem bæði hafa klárað TOR330). Þau voru vakin og sofin yfir mér alla vikuna, auk þess sem þau hjálpuðu mér mikið við undirbúning. Fékk t.d. hlaupaplön frá Betu og tékklista og undirbúningslista frá Stefáni Braga. Auk þess heyrði ég reglulega í Stefáni allan tímann og í Betu. Ég veit að Stefán Bragi svaf ekkert síðustu nóttina, vakti algjörlega yfir mér. Einstakir vinir <3

Stefán Bragi skrifaði einnig þessar skemmtilegu færslur allan tímann og leyfði vinum mínum og öllu hlaupasamfélaginu á Íslandi að fylgjast með á Facebook síðunni: Utanvegahlauparar.

Elsku Stefán, Beta og Iðunn þið eruð einstakir vinir og ég hefði ekki klárað TOR330 án ykkar <3

Með Stefáni Braga og Betu - hefði ekki klárað TOR330 án ykkar kæru vinir.
Fékk yndislegar móttökur og Siggi K hélt fyrir mig æðislegt partý eftir að ég kom heim.
TOR FINISHERS, Stefán Bragi og Elísabet Margeirsdóttir.

Ég er einnig fullviss um að æfingaferðin með Iðunni og Stefáni Braga hafi verið mjög mikilvægur þáttur, ekki bara líkamlega heldur líka andlega og er ég þeim einstaklega þakklát fyrir að koma með mér í það yndislega og frábæra ferðalag.

Í æfingarferðinni okkar með Iðunni og Stefáni Braga.

Ég er líka þakklát „Óla mínum“ sem hefur endalausa þolinmæði og ber virðingu fyrir þessu áhugamáli mínu.

Þakka ykkur öllum sem fylgdust með mér og sendu mér kveðjur allan tímann, öll þessi hvatning, myndir og myndbönd frá ykkur gáfu mér heilmikla orku. Þið eruð best.

Það kom aldrei upp í hugann á mér, allan tímann að mig langaði að hætta, hugsaði aldrei um það, þó ég væri að berjast við astmann og hæðarveiki. Markmiðið var alltaf skýrt og einfalt, það var að KLÁRA TOR330 INNAN TÍMAMARKA.

ÁRANGUR HGMP
HGMP náði 9. sæti í aldursflokki V2 af 18 sem hófu keppni (11 sem klára / 7 sem hætta).
HGMP var í 40. sæti kvk overall af 78 sem hófu keppni. (47 sem klára / 31 sem hættir).
HGMP var í 377. sæti overall af 712 sem hófu keppni (431 sem klára/ 281 sem hættir 39,5%).

ÁRANGUR VINA MINNA
Richard Newey #335 var í 260. sæti – 133 klst og 47 mín
(Bretinn sem ég kynntist í röðinni daginn fyrir keppni, lagði af stað 2 klst á undan mér)
Fabrice Gueriot #730 var í 370. sæti – 145 klst og 45 mín
Halldóra Gyða #827 var í 377. sæti – 145 klst og 55 mín
Frank Reich #549 var í 394. sæti 146 klst og 47 mín.
Fernandes Benjumea #546 var í 398. sæti 146 klst og 51 mín
Francesca Billi #438 var í 401. sæti 146 klst og 54 mín.
Diego Polotti #524 var í 405. sæti 147 klst og 2 mín.
Flenning Anderson #421 DANI í 411. sæti 147 klst og 20 mín.
Allan Bode #480 DANI í 412. sæti 147 klst og 20 mín.

VINIR MÍNIR SEM EKKI NÁÐU AÐ KLÁRA
Michele Zenato #424 – hættir í Rif.Coda – 69 klst og 6 mín
Tommi Lainema #456 – hættir í Niel La Gruba – 79 klst og 47 mín
Matts Björklund #757 – hættir í Niel La Gruba – 83 klst og 52 mín
Veit ekki hvort Bretinn sem var að reyna við þetta í þriðja skipti, sem var með íslenskt buff, náði að klára eða ekki ?

september 17, 2021 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
  • 1
  • 2
  • 3
  • …
  • 7

Nýlegar færslur

  • NýársEsja 2023
  • Áramóta íþróttaannáll 2022
  • Gamlárshlaup 2022
  • Þorláksmessusund 2022
  • Journey Into Power 200 klst kennararnámskeið

Nýlegar athugasemdir

    Færslusafn

    • janúar 2023
    • desember 2022
    • nóvember 2022
    • september 2022
    • ágúst 2022
    • júlí 2022
    • júní 2022
    • maí 2022
    • apríl 2022
    • mars 2022
    • febrúar 2022
    • janúar 2022
    • desember 2021
    • október 2021
    • september 2021
    • ágúst 2021
    • júlí 2021
    • maí 2021
    • apríl 2021
    • mars 2021
    • febrúar 2021
    • janúar 2021
    • nóvember 2020
    • október 2020
    • september 2020
    • ágúst 2020
    • júlí 2020
    • júní 2020
    • maí 2020
    • apríl 2020
    • mars 2020
    • janúar 2020
    • desember 2019
    • nóvember 2019
    • október 2019
    • september 2019
    • ágúst 2019
    • júlí 2019
    • júní 2019
    • maí 2019
    • apríl 2019
    • mars 2019
    • febrúar 2019
    • janúar 2019
    • desember 2018
    • nóvember 2018
    • október 2018
    • september 2018
    • ágúst 2018
    • júlí 2018
    • júní 2018
    • maí 2018
    • apríl 2018
    • janúar 2018
    • janúar 2017
    • september 2016
    • ágúst 2016
    • júlí 2016
    • júní 2016
    • mars 2016
    • nóvember 2015
    • ágúst 2015
    • júní 2015
    • febrúar 2015
    • nóvember 2014
    • ágúst 2014
    • október 2013
    • september 2013
    • ágúst 2013
    • júní 2013
    • maí 2013
    • apríl 2013

    Flokkar

    • Daglegt líf
    • Fjallahlaup
    • Fjallaskíði
    • Fjallgöngur
    • Gönguskíði
    • Hjól
    • Hlaup
    • Ísklifur
    • Kajak
    • Keppnis
    • Keppnissaga
    • Sjósund
    • Skíði
    • Sund
    • Veiðar
    • Þríþraut

    Um mig

    Um mig

    Halldóra Gyða

    Halldóra hefur mjög gaman af því að fara út að leika. Markmiðið hjá henni er að njóta lífsins hvern einasta dag, brosa, hafa gaman og hún er þakklát fyrir góða heilsu.

    Verum í sambandi

    Facebook Twitter Instagram Pinterest Tumblr Youtube Bloglovin Snapchat

    Nýlegar færslur

    • NýársEsja 2023

      janúar 2, 2023
    • Áramóta íþróttaannáll 2022

      desember 31, 2022
    • Gamlárshlaup 2022

      desember 31, 2022
    • Þorláksmessusund 2022

      desember 23, 2022
    • Journey Into Power 200 klst kennararnámskeið

      desember 11, 2022

    Um mig

    banner
    Halldóra Gyða elskar að vera úti að leika. Hér er hún í Dólómítunum í Lavaredo fjallahlaupinu 2016.

    Vinsæl innlegg

    • 1

      Eco Trail Reykjavík – 22 km

      júlí 6, 2018
    • 2

      Ironman Texas 2018

      apríl 28, 2018
    • 3

      Buthan – dagur 1 – hæðaraðlögun og skoðunarferð

      maí 26, 2018

    Síðustu æfingar

    • NH gæðaæfing - sól á þriðjudegi - brekkur 🙏
      On mars 7, 2023 5:33 e.h. went 5,66 km during 00:46:23 hours climbing 129,00 meters burning 472 calories.
    • Síðasta gönguskíða æfingin í Lindvallen þennan veturinn 🙏
      On mars 5, 2023 5:52 e.h. went 3,74 km during 00:26:58 hours climbing 41,00 meters burning 87 calories.
    • Svigskiði eftir hádegismat - með Óla og Óla
      On mars 5, 2023 1:49 e.h. went 14,90 km during 00:35:29 hours burning 127 calories.
    • Frábær svigskíða morgunn með Hrefnu, Óla og Óla - yndislegur morgunn 🙏🥰
      On mars 5, 2023 10:13 f.h. went 12,44 km during 00:33:35 hours burning 116 calories.
    • Kalven runt með Óla í Tandådalen fallegur og yndislegur dagur og hringur 🙏
      On mars 4, 2023 1:11 e.h. went 12,14 km during 01:27:09 hours climbing 159,00 meters burning 416 calories.
    • Facebook
    • Twitter
    • Instagram
    • Linkedin
    • Snapchat
    • Vimeo

    @2017 - PenciDesign. All Right Reserved. Designed and Developed by PenciDesign


    Back To Top