Nattvasan 90 – föstudagskvöld 04.03.2022

by Halldóra

Nattvasan er ræst að kvöldi til og gengið er alla nóttina. Tímamörkin eru þau sömu og í Vasaloppet en þátttakendafjöldinn mun færri. Hámarksfjöldinn í Nattvasan er 3000 á móti 15.800 í Vasaloppet og 8.000 (mánudags) og 10.000 (sunnudags) í Oppet spor.

Hins vegar ólíkt Opna sporinu þá eru eins og í Vasaloppet aðalkeppninni allir ræstir út í einu. Nattvasan er keppni (ólíkt Opna sporinu sem er ekki keppni) og keppt er þá annað hvort í einstaklingskeppni eða liðakeppni. Nattvasan keppnin var í boði í fyrsta skipti árið 2017 og þá tókum við Óli þátt saman (vorum eitt af fimm Ísbjarnarliðum) og það var virkilega skemmtleg upplifun. Við Óli hins vegar hættum keppni þegar við vorum hálfnuð, þ.e. skiluðum inn flögunum okkar, en ég fékk samt að klára með Ingu vinkonu og Jónsa þ.e. þeirra liði sem var um hálftíma á eftir okkur Óla eftir að við vorum hálfnuð. Nattvasan keppnin 2017 er samt skráð sem DNF hjá mér og því átti ég alltaf eftir að koma aftur og klára hana.

Það sem kom mér á óvart var að núna var hægt að skrá sig sem einstakling en það var ekki hægt árið 2017, þá máttirðu bara keppa sem lið. Kosturinn við að keppa sem lið, er auðvitað félagsskapurinn í fyrsta lagi og svo öryggið. Það er miklu minni þjónusta á drykkjarstöðvunum í Nattvasan og þegar líða tekur á keppnina þá verður meira bil á milli þátttakenda svo ef eitthvað kemur upp á, þá er það mikið öryggi í því að vera tveir saman í liði.

Sigga Sig vinkona skutlaði mér niður eftir um klukkan 18:30 (ræsing var 20:00) og hún fylgdist með okkur í ræsingunni. Ég rétt náði að knúsa liðið: Skidagarpar, þ.e. vini okkar, en þau voru öll nýbúin að klára STAFFETVASAN þ.e. liðakeppni í Vasaloppet 90 km. Þau fóru saman leiðina, þ.e. frá Sälen til Mora og skiptu henni fimm á mill sín. Hrefna byrjaði, svo kom Harpa, þá Jimmy, svo Brynja og Óli endaði og kom í mark, sem var svo yndislegt. Óli lenti því miður í meiðslum á langatöng á hægri fingri kvöldið áður en við flugum út. Hann átti miða í Vasaloppet 45 með Brynju á þriðjudeginum, en gat ekki tekið þátt svo Hrefna og Harpa fóru með henni, sem var líka yndislegt (systur og mæðgur og þá frænkur saman í keppni). Óli var svo búin að dekra við okkur alla vikuna, elda, versla inn, og skutla, svo það var yndislegt að hann gat tekið þátt í StaffetVasan og komið í mark í Mora og hitt allt teymið þar. Í StaffetVasan eru að hámarki 2.600 lið og allir liðsmenn fengu medalíu þegar þau komu í mark. Þau stóðu sig frábærlega og náðu fanta góðum tíma, eða á 7 klst 40 mín og 19 sek.

Frá vinstri: Mægðurnar Harpa og Brynja og eðalhjónin Hrefna og Óli. Fimmta liðsmanninn vantaði á myndina hann Jimmy sem er maðurinn hennar Hörpu.

Aftur að Nattvasan, Sigga skutlaði mér niður að ræsingunni. Ég fann að ég var ennþá frekar þreytt, en ég hafði fengið svolítið í nárann eftir Opið spor, veit ekki hvort það sé eftir opið sporið sjálft eða á skautaæfingu sem við Sigga tókum í vikunni. Ég fór samt til nuddara sem náði að vinna aðeins á þreytu í baki, læri og verknum inn á hægra innan læri (nára). En ég var samt spennt að fara, algjörlega til í þetta. Fór núna á áburðarskíðunum mínum, því það var spáð mun meira frosti um nóttina heldur en í Opna sporinu um daginn.

Ég var í ráshólfi tvö, þ.e. ekki fremst og ekki aftast, ég fór inní hólfið með skíðin mín þegar ég kom, fór svo aftur til baka á klósettið en Sigga náði að leggja bílnum bara rétt upp við Expoið, þannig að það var stutt að fara. Náði svo aftur að fara á klósettið áður en ég kom mér svo fyrir í hólfinu fyrir ræsinguna.

Það er mögnuð upplifun að leggja af stað í Opnu spori, í Vasaloppet, en upplifunin að vera þarna í myrkrinu með höfuðljós og horfa á flotta ljósasýningu, er eiginlega mest mögnuð af öllu. Það var heiðskýrt og sjörnubjart og því algjörlega mögnuð nótt fram undan.

https://www.facebook.com/848489557/videos/634680321150807/

Þar sem ég var í hólfi tvö, var ég með um 2000 aðilum að fara upp fyrstu brekkuna í staðinn fyrir 1000 í Opna sporinu, þá gekk samt bara vel og ég var bara einni mínútu lengur upp á hæsta punkt, m.v. Opið spor og var svo 4 mín fljótari að fyrstu drykkjarstöð en í Opna sporinu 01:03: á móti 01:07. Það átti að vera kalt um nóttina, en það var ÓGEÐSLEGA kalt, þó ég væri að hamast upp brekkuna, þá voru fingurnir algjörlega frosnir og ég reyndi að hita þá með því að blása í gegnum vettlingana án mikils árangurs.

Þegar ég kom í Smågan (fyrstu drykkjarstöðina) þá fékk ég mér strax heitan orkudrykk, örugglega 2-3 glös. Það var enginn þjónusta, ég þurfti að sækja mitt eigið plastglas, glös voru ekki til að byrja með í boði og svo að ganga frá því aftur og að hella í glasið. Á þessum tímapunkti fannst mér ég heyra einhverja tala íslensku en var ekki viss, komst svo að því seinna að það voru fjórir Íslendingar, í tveimur liðum að keppa í liðakeppninni og stelpurnar þær Hólmfríður Vala og Sigrún María Bjarnadóttir voru mjög oft í kringum mig á leiðinni. En út af kuldanum, þá var maður bara með buff fyrir andlitinu og náði ekki mikið að spjalla. En það voru þrjú íslensk lið sem lögðu af stað í Nattvasan og tvö sem kláruðu. En ég var eina íslenski þátttakandinn sem tók þátt í „individual“ keppninni.

Nattvasan er eins og Opið spor á mánudeginum að því leyti að tæknin er: Freestyle, þ.e. það má bæði vera á skautaskíðum sem og á hefðbundnum XC brautarskíðum. Ég var bara á brautarskíðum, þar sem ég kann ekki að skauta en er nýbúin að fá mér slík skíði og langar að fara aftur og þá á skautaskíðum.

Því voru bara lagðar tvær brautir fyrir okkur sem voru á Classic skíðum (brautarskíðum) og hinn hlutinn þ.e. 2/3 hluti brautarinnar var fyrir skautarana. Ég öfundaði þá oft og mikið þegar þeir brunuðu fram úr mér. Ég var með væntingar fyrr í vikunni að ég gæti kannski skautað eitthvað, en út af verknum í náranum, þá þorði ég ekki að prófa það og lét mig bara hafa það að vera í sporinu alla leið, enda var sporið að mestu fínt.

En KULDINN var rosalegur. Á leiðinni fórum við ofan í svona kuldapolla, þar sem kuldinn fór niður fyrir 20 stig. Það fraus allt í andlitinu á manni, buffið fraus, powerade drykkurinn sem ég var með í sérstökum SALOMON einangrunarpoka með einangrunarslöngu, fraus líka, þ.e. í slöngunni svo ég gat ekki drukkið það og mér var svo kalt á puttanum að ég treysti mér ekki til að stoppa og fara í meiri föt sem ég var með á mér í SALOMON vestinu, þ.e. primaloft vesti og pils. Ég stoppað samt alltaf á öllum drykkjarstöðvum og fékk mér heitt að drekka, en NB það var enginn þjónusta og maður varð bara að stoppa stutt, það voru ekki sætar bollur í boði, bara drykkir og bara grænmetisseyði (sem er mitt uppáhald) í boði á einum stað alla leiðina.

Það sem gerðist líka í frostlægðunum, var að það fraus snjórinn líka í sporinu og rennslið varð mjög vont (stamt), þegar maður fór í gegnum þessa kuldapolla 😉 Var einmitt hugsað til ÓL í Beijing um daginn þegar gönguskíðamenn skíðuðu frekar fyrir utan sporið út af frostinu og kuldanum.

En þar sem ég er „grjóthörð og jákvæð“ lét ég þetta því ekki hafa áhrif á mig, heldur hélt bara áfram, það var það eina sem var í boði. Fór samt alls staðar varlega, því ég var stíf og stirð eftir síðustu göngu og vildi alls ekki detta. Hugsaði með mér af hverju ég tók ekki með mér tvo álpoka í vestið, ég skátinn sjálfur, og af hverju ég var ekki með þunnu ullarvettlingana sem ég var með á mér í Opna sporinu, en ég var með aðra þunna vettlinga sem ég vissi að ég kæmist ekki í undir lúffunum sem ég var með.

Í hverju stoppi sá ég rútu, sem var mjög freistandi fyrir mig og aðra þátttakendur að skila inn flögunni, þ.e. hætta og fara inní heita rútuna. Það kom samt aldrei upp í hugann á mér, ég ákveð frekar að reyna að njóta mín í kuldanum en maður var ekki mikið að spjalla í þessu frosti.

Ein skemmtileg uppákoma sem var stuttu eftir að ég lagði af stað, þá var einn gönguskíðamaður sem sá alla límmiðana á skíðunum hjá mér og fór að spjalla við mig. Ég ákvað að halda mér bara í hægra sporinu, leyfði fólki að fara fram úr mér vinstra megin, því ég var ekki alveg úthvíld eins og kannski allir aðrir 😉 . En þessi gönguskíðamaður sagði mér að hann væri að stíga á gönguskíði í fjórða skiptið á ævi sinni . Ég tók þá eftir því að hann var frekar valtur og vinur hans var að leiðbeina honum. Hugsaði með mér hvað það væri gott að það væru til aðilar sem væru skrítnari en ég. Ég hugsaði líka að það væri kannski ágætt að halda mig ekki of nálægt honum, ef hann dettur 🙂

Það er einungis á einum eða tveim stöðum VALLASERVICE (aðstoð við að bera á gönguskíðin) í Nattvasan og ég mundi eftir að það væri í Evertsberg þar sem maður er rétt rúmlega hálfnaður. Ég ákvað því að fara beint í Vallaservice þegar ég kom í Evertsberg og bað þá um aðstoð við að bæta bæði rennslið og fattið. Ég skildi skíðin eftir hjá þeim og fór og fékk mér heitan drykk og grænmetisbulljon á drykkjarstöðinni. Í Evertsberg voru líka samlokur í boði sem ég hafði ekki séð áður, en ég hafði enga lyst. Þurfti bara að ná á mér hita. Sótti því primaloft vestið og prinaloft pilsið og klæddi mig í fötin og konugreyið í Vallaservice lánaði mér sína vettlinga til að ég myndi ná smá hita á fingurna. Á meðan reyndi hún að hita mína vettlinga. Önnur mistök sem ég hafði gert var að taka ekki með mér HAND WARMERS og þau áttu ekki svoleiðis þarna í Vallaservice. Þeir báru mjög vel á skíðin mín sem voru klárlega með miklu heitari áburð undir, en þeir báru líka á klístur fyrir mig á miðjuna, þ.e. fattið, svo ég fékk gett rennsli þegar ég kvaddi bjargvættina mína í Evertsberg.

Ég rann svo vel niður fyrstu brekkuna að ég passaði mig ekki nógu vel og í fyrstu kröppu beygjunni þá flaug ég upp úr sporinu, datt illa ofan á vinstri stafinn minn, þ.e. bæði með vinstra lærið og vinstri rifbeinin og hægri stafurinn losnaði af og ég týndi honum og höfuðljósið kastaðist líka af mér.

Fyrsta sem ég gerði þegar ég stóð upp, var að skríða á skíðunum eftir höfuðljósinu sem hafði flogið af mér, hrædd um að einhver myndi skíða á mig. Reyndi svo að standa upp og athuga hvort ég væri ekki örugglega óbrotin og fór svo að leita að hægri stafnum, sem ég fattaði að hefði flogið af króknum sem er á handbandinu hægra megin. Ég skíðaði því upp brekkuna og niður til baka tvisvar sinnum, og leitaði og leitaði. Það var algjört niðamyrkur, þú sérð ekki neitt nema í þá átt sem höfuðljósið vísar og það stoppaði enginn til að hjálpa mér að leita. Á þessum tímapunkti hefði verið mjög gott að vera með félaga. Ég bað til Guðs að ég myndi finna stafinn og að hann væri óbrotinn. Eftir að hafa gengið tvisvar upp og niður brekkuna ákvað ég að prófa að skíða áleiðis niður eftir og vita menn þar var stafurinn og sem betur fer óbrotinn, algjörlega magnað, þó margir hafi örugglega næstum verið búnir að skíða yfir hann.

Ástæðan fyrir því að ég datt var sú að ég fór of hratt og sá ekki beygjuna í myrkrinu og flaug því bara upp úr sporinu, en nákvæmlega svona gerast slysin og því var ég fram að slysinu búin að fara mjög varlega og ákvað að halda því áfram eftir þessa vondu byltu, en sem betur fer var ég ekki brotin, bara með brákað rifbein og stærsta marblett sem ég hef fengið (en komst ekki að því fyrr en síðar) 🙂

Það sem hefur hjálpað mér mikið í löngum utanvegahlaupum sem og í löngum gönguskíðakeppnum er „hausavinnan“, þ.e. t.d. að brjóta vegalengdina niður og hugsa allt í prósentum eða hlutföllum, þ.e. hversu mikið er búið, í staðinn fyrir að hugsa og horfa á hvað mikið er eftir. Á þessum tímapunkti eftir byltuna, þá voru „bara“ 40 km sem þýðir að það voru 50 km búnir. Miklu betra að hugsa þannig. Svo hugsaði ég næst kemur 39 km skilti og svo 29 km .. og svo á endanum þegar ég var komin á síðustu drykkjarstöðina þá voru bara 9 km eftir. Svona hausavinna, virkar vel fyrir mig, eins og í 350 km hlaupinu mínu var ég bara að fara í sjö sinnum 50 km hlaup, en ekki eitt 350 km hlaup 🙂

Á síðustu drykkjarstöðinni, þegar það voru bara 9 km eftir, þá tók ég inn síðasta gelið, af gelunum 3 sem ég tók alla gönguna. Ég vildi eiga næga orku fyrir síðustu km, auk þess sem ég var hrædd um að ég færi að vera syfjuð en hingað til hafði ég alveg losnað við syfju, svo þetta gel var með koffíni. Ég fékk mér líka smá kaffibolla á síðustu drykkjarstöðinni en þar voru eiginlega allir drykkir að verða búnir, sem kom mér spánskt fyrir sjónir þar sem það voru nú ansi margir á eftir mér, ég var ekki alveg síðust 🙂 En kannski áttu þeir bara eftir að fylla á alla brúsana.

Það var ofboðslega fallegt að koma í mark í Mora um miðja nótt, þ.e. klukkan 04:27:28 og sjá fallegu kirkjuna upplýsta með fallegri lýsingu og í markinu var bara einn ljósmyndari að taka á móti okkur. Það var enginn þulur, engnir áhorfendur og enginn Gustaf Vasa fígúra eins og í Opna sporinu.

Ég var himinlifandi þegar ég kom í mark, langt á undan eigin væntingum, heildartími 8 klst 27 mín og 27 sek. sem voru um 30 mín betri tími en í Opna sporinu sl. mánudag sem var PB eða personal best tími hjá mér, svo núna bætti ég um betur þrátt fyrir byltuna góðu eftir Evertsberg.

Held ég geti þakkað kuldanum fyrir þessa bætingu, því kuldinn skipaði mér að halda áfram og hreyfa mig eins hratt og ég gat, þrátt fyrir þreytuna í skrokknum og verki í stóru tá og nára.

Ég var samt mjög vel búin, ég var í ullarundirfötum og frábærum SALOMON buxum með vindshield og SALOMON jakka sem er líka mjög hlýr. Var með ullarbuff, sem fraus og með góða húfu og þykka vettlinga, og var svo komin í Primaloft vesti og pils líka.

Eina sem hægt er að setja út á staðahaldara er að rútan fór frá Mora á 2 klst fresti, svo ég missti af 4 rútunni og næsta rútan var ekki fyrr en klukkan 6 . Það var enginn aðstaða innanhúss fyrir keppendur til að bíða eftir næstu rútu.

Þeir buðu upp á opin arineld sem reyndar hitar mjög vel við veitingatjaldið þar sem boðið var uppá samloku og kaldan recovery drykk, þar sat ég og spjallaði við aðra þátttakendur. Rútuferðin heim var fín. Fór frá Mora klukkan rúmlega 6 og var komin 7:30 í Sälen, þar sem Sigga vinkona sótti mig. Elsku Sigga vinkona svaf lítið um nóttina þar sem hún var að fylgjast með mér. Hitamælirinn í bílnum sýndi mínus 12 gráður þegar Sigga sótti mig, svo þið getið ímyndað ykkur hvernig frostið var um nóttina.

En frábær ganga, ofboðslega fallegt og kalt veður en að mestu (ekki í kuldapollunum) mjög góð spor, þó þau væru bara tvö. En ég var fegin að láta preppa skíðin mín á leiðinni og fékk mjög góða þjónustu í Evertsberg þar sem þau voru preppuð 🙂

Okkur Siggu beið svo frábær morgunmatur rúnstykki og vínarbrauð hjá Jimmy og Hörpu þegar ég kom til baka.

Tímarnir mínar á drykkjarstöðvunum, var í 41 sæti kvk af 90 konum sem voru skráðar í einstaklingskeppnina.
Í 271 sæti alls af 476 skráðum.

You may also like

Leave a Comment