Vasaloppet 90 – sunnudagur 06.03.2022

by Halldóra

Hámarksfjöldi þátttakenda í Vasaloppet er 15.800 manns og Vasaloppet er keppni og einungis má skíða á Classic skíðum, þ.e. bannað er að skauta. Það eru tíu ráshólf og það eru allir ræstir út á sama tíma eða klukkan 08:00. Ég var í ráshólfi númer 9 með Jimmy sem tók ákvörðun degi fyrir keppni að vera með og Sigga Sig vinkona var í ráshólfi 10.

Við ákváðum að keyra niður að rásmarki, þ.e. leggja af stað klukkan 06:00 sem var mjög góð ákvörðun, þar sem við gátum þá farið styttri leiðina, þar sem ekki var búið að setja snjó á götuna og ég þurfti að sækja skíðin mín í preppþjónustuna. Þeir opnuðu klukkan 05 til að afhenda skíðin, en ég gat ekki skilað þeim inn fyrr en í gær, þ.e. eftir Nattvasan keppnina.

Þegar ég var búin að sækja skíðin mín fór ég og hitti á Jimmy í hólfinu okkar. Það var mjög mikil röð á leið inní hólfið. Eftir að hafa komið skíðunum fyrir þá fórum við aftur út í bíl og fengum okkur kaffi og Bircher morgunmat sem Óli hennar Hrefnu hafði búið til og er einstaklega gómsætur morgunmatur.

Það var mjög kalt úti, mælirinn á bílnum sýndi 14 gráður í mínus. Eftir að hafa borðað morgunmatinn í bílnum þá fórum við Sigga í klósettröðina, hún þurfti fyrst að skella sér inní hólfið þar sem hún hafði gleymt að setja Vasaloppet límmiðana á skíðin. Jimmy fór með drop-bag töskurnar okkar, þ.e. með þurru fötunum sem við förum í, þegar við komum í mark í DHL bílana sem flytja þær til Mora. Eftir að hafa beðið lengi í klósettröðinni þá fórum við aftur í bílinn og náðum að hlýja okkur aðeins, áður en það var kominn tími á að fara í hólfið okkar klukan 07:40. Í hólfinu voru upphitunaræfingar og mikil stemning. Rétt áður en ég fór á skíðin þá henti ég þykku Levis dúnúlpunni í DHL pokann, þennan poka fáum við svo með drop-off töskunni þegar við komum í mark í Sälen. Var annars orðin frekar æfð í þessu, enda að leggja af stað þarna í þriðja skiptið þessa vikuna.

Frekar „brennd“ eftir kuldann í Nattvasan, fór ég mjög vel klædd í þessa keppni, þ.e. í ullar-undifötum og hlýjum galla, ætlaði ekki að drepast aftur úr kulda 😉 Núna var ég með Hand Warmers sem og auka þunna ullarvettlinga og í primaloft vestinu og pilsinu þegar ég lagði af stað 🙂

https://www.facebook.com/848489557/videos/685150102512537/

Mesti munurinn á Vasaloppet og öðrum keppnum er þessi gífurlegi fjöldi þ.e. um 15.000 manns sem taka þátt. Allir þessir þátttakendur eru komnir á sama punkt á sama tíma. Þess vegna eru klósettraðir miklu lengri, langar raðir inní hólfin sem eru annars ekki og svo röðina að komast upp fyrstu brekkuna – sem mér finnst reyndar mesti gallinn við þessa keppni 🙂

Svona var kraðakið fyrir framan mig og allir að brjóta stafina sína. Ég passaði mig að hafa þá alltaf innan við skíðin, allan tímann upp brekkuna – eina klukkustund að hæsta punkti.

Í stað þess að vera rétt innan við 30 mín að hæsta punkti þá var ég nákvæmlega 1 klst þarna upp. Var svo komin í drykkjarstöðina í Smågan eftir 1 klst og 40 mín í staðinn fyrir 1 klst 03 eða 1 klst 07. Munar alveg 37 mínútum að vera í þessu kraðaki í byrjun. Auk þess sem maður er mjög stressaður að einhver brjóti hjá manni stafina.

Ég var mjög heppin að hafa Jimmy fyrir framan mig, ég reyndi að hanga í honum og svo var Guðrún „Ísbjörn“ vinkona mín komin fyrir aftan mig, þannig að ég þurfti bara að passa mig á fólki sem var hægra og vinstra megin við mig.

SMÄGAN
Á fyrstu drykkjarstöðinni í Smägan þurfti ég samt að stoppa því ég var að kafna úr hita, þurfti að fara úr primaloft vestinu og skipta um vettlinga, þ.e. fara í þynnri hanska. Sólin var farin að skína og það var orðið mjög heitt, þannig að í raun var ég OF MIKIÐ klædd m.v. hitann sem varð svo þegar líða tók á keppnina.

RISBERG
Sporin voru mjög fín og fattið á skíðunum var alveg ágætt til að byrja með. Ég passaði mig mjög vel á kraðakinu í hættulegu brekkunni (fyndu brekkunni) áður en maður kemur í Risberg. Síðar í keppninni eru tvær aðrar mjög þröngar og í raun mun erfiðari brekkur og út af kraðakinu voru raðir til að komast að þeim.

Á þessum tíma var snjórinn farinn að festast mikið undir skíðunum mínum (var sem sagt með of kaldann áburð m.v. hitann) og ég var ekki með neinn bauk eða klísturáburð með mér þó ég hafði keypt svoleiðis á expoinu (skildi hann eftir heima). Tók einungis með mér eina sköfu og ætlaði svo að treysta á Vallaservice.

Það voru greinilega fleiri í vandræðum því keppendur voru að stoppa utanbrautar til að skafa undan skíðunum og sumir að setja klístur undir og aðrir rauðan eða bleikan bauk, því það var orðið frekar hlýtt.

Í einni af þessum þröngu og erfiðu brekkum, þurfti ég að bíða eftir að röðin kæmi að mér og þá safnaðist snjórinn undir. Ég gerði mér ekki grein fyrir því, svo þegar ég ætlaði að fara af stað, þá flaug ég á hausinn og magalenti og „faceplantaði“ eins og unglingarnir segja, en alls ekkert alvarlegt, bara frekar fyndið svona eftir á 😉

Eftir byltuna ákvað ég alltaf að reyna að skafa undan skíðunum og reyndi að draga þau vel í sporinu svo ég myndi ekki lenda í þessu aftur.

EVERTSBERG
Ákvað að heimsækja aftur vini mína í Vallaservice í Evertsberg, sem ég hafði heimsótt aðfararnótt laugardagsins. Það voru allt aðrar aðstæður núna, löng biðröð í þjónustuna. Fyrst var einhver sem sópaði undan skíðunum hjá öllum og svo fóru þau bara í klísturvél, þ.e. þau rennd í gegnum svoleiðis vél. Þegar ég lagði svo aftur á stað, fann ég að ég var fegin að hafa stoppað og beðið, því fattið hafði batnað, en það var ekki lengi, því eftir smá stund, fór að festast aftur undir skíðunum.

Á drykkjarstöðvnum í Vasaloppet er miklu meiri troðningur og það var líka mikið meira af fólki í brautinni, þannig að þó það væru fleiri spor þá var maður mjög mikið að taka fram úr. Á sama tíma voru miklu fleiri áhorfendur að hvetja heldur en t.d. í Opna sporinu eða Nattvasan.

OXBERG
Eftir drykkjarstöðina í Oxberg voru sporin orðin frekar léleg. Óli Már, Þóra og Margrét (Millu og Tótadóttir) tóku svo fram úr mér í kringum Hökberg og ég reyndi að hanga í þeim alveg að drykkjarstöðinni í Eldris. Þar stoppaði ég aðeins styttra en þau en svo komu þau aftur á fleygiferð fram úr mér. Á þessum tímapunkti var ég farin að finna fyrir smá syfju og þreytu eftir Nattvasan sem sat aðeins í mér, en það var sem var kannski erfiðast, var sporleysið sem var samt mun betra en í hin tvö skiptin sem ég hafði farið í Vasaloppet keppnina, þ.e. 2016 og 2018.

MÄL Í MORA
Ég var einstaklega glöð að koma í mark í Mora um 2 mín á eftir Ísbjörnunum vinum mínum á tímanumm, heildartími 9 klst 22 og 11 sek sem er veruleg bæting hjá mér í Vasaloppet keppni, þó tíminn hafi verið lakari en bæði Opna sporið og Nattvasan.

Hugsaði líka til þess þegar ég kom í mark í fyrsta skipti árið 2016 algjörlega buguð og sagðist aldrei aldrei aldrei ætla að gera þetta aftur, en núna var ég búin að fara þrisvar sinnum alla leiðina á einni viku, samtals 276 km.

Það var yndislegt að hitta alla vini míni í markinu, Óli og Harpa voru komin til að taka á móti mér. Þar voru Ísbjarnarvinir mínir, Óli og Þóru, Guðrúnu, Tommi og Sóley og örugglega fleiri. Þar var líka Mari Järsk og fleir og yndislegt að fá allar þessar frábæru móttökur.

Sigga og Jimmy stóðu sig líka virkilega vel svo gaman að sjá þau koma í mark. Svo var lúxuskvöldmatur þegar við Sigga og Jimmy komum heim aftur til yndislegu vina okkar.

Tímarnir mínir, en ég var í 1002 sæti kvk af 2.715 skráðum kvk.
Var í 8.745 sæti af 15.000 skráðum.
Það voru 83 Íslendingar sem tóku þátt þar af 22 kvk og 61 kk.

You may also like

Leave a Comment