Hleypur til styrktar heftum ungum konum – Morgunblaðið 27.10.2023

by Halldóra

Hlaupa- og skíðakonan Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hefur lengi haft það að leiðarljósi að láta gott af sér leiða í tengslum við hreyfinguna. Hún er sendiherra styrktarsamtakanna Frelsis til að hlaupa (e. Free to Run) á Íslandi og um aðra helgi, sunnudaginn 5. nóvember, hleypur hún New York maraþonið til styrktar samtökunum. Markmið hennar er að safna 3.500 dollurum, um 500 þúsund krónum.


Lögfræðingurinn Stephanie Case stofnaði Free to Run 2014 með það að markmiði að þrýsta á samfélagslegar breytingar á kynjareglum, þar sem þess er þörf, með því að styðja ungar konur í stríðshrjáðum löndum til að fá tækifæri til að taka þátt í útihreyfingu og efla þannig sjálfsímynd þeirra og forystu. „Konur í Afganistan mega til dæmis ekki fara út úr húsi til þess að hreyfa sig, þær mega ekki fara í skóla og mega bar ekki gera neitt,“ bendir Halldóra á.
Áheitin óskert til samtakanna

Sendiherrar samtakanna safna peningum fyrir þau. Fyrir tveimur árum hljóp Halldóra 330 km í fjallahlaupinu Tor Des Géants á Ítalíu. Þar sá hún Stephanie Case byrja 450 km hlaup. Í því voru 60 þátttakendur og þar af þrjár konur. Ná þarf ákveðnum tíma í 330 km hlaupinu til að öðlast þátttökurétt í lengra og erfiðara hlaupinu. „Það er til miklu klikkaðra fólk en ég, hugsaði ég með mér,“ segir Halldóra og bætir við að Stephanie Case hafi hlaupið fyrir Free to Run. „Við verðlaunaafhendinguna fékk hún ávísun, sem voru áheit fyrir samtökin. Í framhaldi kynnti ég mér þessi samtöki og ákvað í fyrra að sækja um að verða sendiherra þeirra.“ Þau starfi nú í Afganistan, Írak og Palestínu en hafi líak verið í Hong Kong, Kongó og Suður-Súdan. „Yfir 5.000 ungar konur hafa tekið þátt í verkefninu frá upphafi.“

Fyrsta maraþon Halldóru var 2011 og hún hefur ekki litið til baka síðan, er á leið í 11. maraþonið sitt að meðtöldum sex Ironman keppnum. Hún hefur gengið, hlaupið, hjólað, synt og skíðað til styrktar góðum málefnum eins og til dæmis Bláa hernum, Umhyggju og Ljósinu. „Það er svo gott og fallegt að gefa af sér og ég geri það samfara hreyfingu minni.“ Árið 2022 hafi hún safnað 1.000 dollurum fyrir samtökin, meðal annars hlaupið Berlínar maraþonið í Free to Run bolnum, þá orðin sendiherra en ekki formlegur fulltrúi samtakanna eins og hún sé nú. Hún eggur áherslu á að áheitin renni óskert til þeirra. Hún greiði allan kostnað vegna ferðarinnar til New York og þátttöku í hlaupinu úr eigin vasa.

Þrjár konur frá Afganistan, Fatima, Zahra og Hasina, er skráðar í New York maraþonið. Halldóra segir að þær hafi verið virkar í Free to Run undanfarin ár. Það hafi veitt þeim tækifæri til að búa í Norður-Ameríku, þar sem þær séu í námi. „Þær hlaupa fyrir konurnar í Afganistan sem fá ekki að hreyfa sig og það er svo fallegt en hlaup þeirra er líka valdeflandi fyrir þær og það hefur svo mikið að segja.“

Halldóra hefur þegar safnað um 1.500 dollurum, en heita má á málefnið á netinu (https://www.givegab.com/p2p/2023-tcs-nyc-marathon-for-free-to-run/halldora-matthiasdottir-proppe). „Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir hún.

You may also like

Leave a Comment