Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

by Halldóra

Hafði samband við Margréti M formann Þríþrautardeildar Breiðabliks sl. mánudag og spurði hana hvað hún vildi að ég gerði varðandi Kópavogsþrautina. Átti ég að skrá mig sem sjálfboðaliða (eins og ég hef verið síðustu árin), taka að mér þá sem ekki ætluðu að keppa og hjóla með þeim (hef verið aðstoðarhjóla þjálfari á sunnudögum) eða átti ég að skrá mig sem þátttakanda í keppnina ?

Margrét var mjög fljót að svara mér og sagði mér að ég ætti að skrá mig sem þátttakanda, ég hélt hún myndi frekar segja mér að skrá mig sem sjálfboðaliða ha ha ha, en ég auðvitað tók áskoruninni og skráði mig.

Var samt í smá vanda með að skrá sundtíma, því ég hafði ekki alveg nógu mikla trú á mér og mínum sundtíma. Ætlaði fyrst að skrá á mig 8 mín, en ég endaði á að skrá 7 mín og 30 sek sem var nákvæmlega tíminn sem ég sinnti á, þegar búið er að taka frá tímann sem fór í að fara upp úr og hlaupa að tímamottunni.

Lenti á braut 7, þar sem við vorum 7 saman á braut. Haddý (Hrafnhildur) nafna mín, var á sömu braut og ég og kvöldið fyrir keppni höfðum við áhyggjur af því að það væru ansi margir á brautinni, því sums staðar voru bara 5, 6 og/eða 7 :- )

KEPPNISMORGUN
Var mætt á Rútstún með hjólið mitt, rétt rúmlega 7:30 en svæðið opnaði klukkan 7:30, fór í gegnum hjólatékk og hjálmurinn var líka skoðaður. Setti svo hjólið á rekka, ásamt hjólaskóm, hlaupaskóm, sokkum og númerabelti (sólgleraugum og ennisbandi).

Það var svo keppnisfundur klukkan 08:30 og sundlaugin opnaði klukkan 09:15, fór fyrst útí Krambúð og keypti mér banana, hafði gleymt að taka hann með mér, sem mér finnst mjög góð næring rétt fyrir keppni.

SUND
Keppnin var svo ræst klukkan 09:30, fór út í laug með tvenn sundgleraugu, þar sem ég var ekki viss hvor þeir leka, hef svolítið verið að lenda í því, fékk Þórdísi vinkonu, lækni til að geyma svo hin gleraugun. Ræddum aðeins fyrir ræsingu hver ætlaði að vera hvar í sundbrautinni, en lögðum svo öll af stað á sama tíma. Fegin að ég var ekki alveg aftast eins og ég ætlaði mér þar sem sú sem var síðust var þó nokkuð mikið fyrir aftan mig, en ég kom næstsíðustu upp úr lauginni. Sundtími að mottu: 7 mín 43 sek. 400 metra vegalengd.

T1
Var mjög lengi í skiptatímanum, þar sem ég þurrkaði fæturna, fór í flíspeysu sem er rennd (sá ekki eftir því), fór í sokka, hlaupaskóna, setti á mig keppnisbeltið og tók svo hjólið af rekkanum og hljóp með það yfir marklínuna og krítuðu línuna, þar sem við máttum fyrst fara á hjólið. T1 tími: 2 mín, sem er frekar lakur tími, en skiptir ekki máli þegar maður er bara að hafa gaman og vera með.

HJÓL
Fann ég var ekki örugg á hjólinu, þar sem ég var ekki búin að æfa mig neitt á TT hjólinu. Hafði lánað vinkonu minni hjólið í fyrrasumar og sótti það bara í gærkvöldi uppá háaloft, og reyndi að hækka aðeins sætið og færa það aðeins aftur. Ég ákvað að liggja ekkert á letistýrinu heldur bara taka hjólið frekar öruggt, sá að ég hefði kannski frekar átt að fara á racernum mínum, kassettan á því er léttari, það er með rafmagnsskiptum og ég er bara öruggari á því, en á sama tíma er SVARTI FOLINN geggjað flott TT hjól og með frábærum keppnisgjörðum. Hjólabrautin eru þrír hringir 10 km samtals, þ.e. þrisvar upp sömu brekkuna en á sama tíma mjög gaman að fara hratt niður brekkuna hinum megin. Ég var með drykk á hjólinu sem var mjög gott, en enga næringu. Það var ótrúlega kalt, vindur og skuggi á norðanverðu Kársnesi svo ég var mjög glöð að hafa gefið mér tíma og farið í flíspeysuna. Hjólatími: 23 mín (26,19 km klst meðalhraði)

T2
Hoppaði af hjólinu áður en ég nálgaðist hvítu línuna, hljóp svo á hjólaskónum með hjólið uppá rekkann. Losaði svo hjálminn, úr skónum, í hlaupaskóna, var í smá vandræðum að komast í þá, þó ég væri með skóhorn, greip sólgleraugun, eyrnabandið og sneri númerinu fram og hljóp af stað. T2 Tími: 1:44

HLAUP
Mér leið ótrúlega vel þegar ég byrjaði að hlaupa, kom sjálfri mér eiginlega á óvart þar sem ég hef ekki verið dugleg að æfa „brick“, þ.e. hlaup eftir hjól, kannski vegna þess að ég hef svo lítið verið að hjóla ha ha ha, tek bara eina rólega 100 km Gran Fondo æfingu á mánuði, þar sem við höfum reynt að velja flata braut 🙂 En alla vega mér leið vel, tók fram úr mörgum á leiðinni. Það var virkilega góð tilfinning að hafa ekki tekið of mikið úr sér bæði í sundinu og hjólinu að eiga fullt inni til að líða vel allan tímann á hlaupunum, líka upp brekkuna, en hlaupabrautin eru tveir hringir samtals 3,5 km. Tók enga næringu, hvorki á hlaupinu, né hjólinu, fyrir utan drykkinn sem ég var með á hjólinu. Heildar hlaupatími: 17 mín 28 sek eða 04:59 pace.

HEILDARTÍMI 52 mín 24 sek. Varð 11 konan í heildina og varð í 4 sæti í aldursflokki.

Náði að grafa upp gamla tíma, en ég keppti síðast í Kópavogsþrautinni 2014 á 47 mín og 6 sek. og árið 2013 var ég 47 mín og 38 sek. Fann ekki tímann minn 2012, en þá tók ég þátt í fyrsta skipti og var pottþétt lengur, því ég fékk refsistig frá Ásgeiri vini mínum sem var yfirdómari, þar sem ég var búin að taka hjólið af rekkanum áður en ég festi hjálminn 🙂 Það var fyrsta þríþrautarkeppnin mín, en það ár keppti ég í öllum þríþrautarkeppnum á Íslandi og mínum fyrsta Ironman (af fimm) þ.e. árið 2012.

Það sem stendur upp úr var hversu skemmtileg keppni Kópavogsþrautin er. Frábærir keppnishaldarar, mótstjóri, dómarar, sjálfboðaliðar allt saman eðalfólk. Ég var búin að gleyma hvað þríþrautin er ofboðslega skemmtileg íþrótt og að taka þátt í svona keppni er einstök upplifun og skemmtun, frá A-Ö, er svo glöð að hafa drifið mig aftur á stað, þó ég væri ALLS ekki í besta formi lífs míns. Þá var ég alltaf glöð og náði þar með markmiði mínu sem var að klára og hafa gaman alla leið. Takk kærlega fyrir mig.

You may also like

Leave a Comment