Nepal – fróðleiksmoli dagsins

by Halldóra

Nepal liggur á milli Indlands og Tíbet, nokkuð stærra en Ísland, ríflega 147.000 km2. Talsverður munur er á hæsta og lægsta púnkti landsins eða tæplega 8800 metrar. Landslagið er því fjölbreytt þó að Himalayafjöllin setji vissulega mestan svip á ásjónu landsins. Himalayafjöllin eru yngsti en jafnframt hæsti fjallgarður heims og þriðjungur hans liggur innan Nepal. Því eru ófáir tindarnir sem hægt er að glíma við eða einfaldlega bara horfa á og dást að. Yfir 1300 nepölsku tindanna eru yfir 6000 metrum þar af eru 8 þeirra yfir 8000 metrum. Í undirhlíðum þessara mikilfenglegu fjalla er bæði fjölskrúðugt dýralíf og náttúrufar að ekki sé minnst á fjölbreytta menningu ólíkra svæða landsins. Löng hefð er fyrir gönguferðamennsku og fjallakllifri í Nepal og ættu allir að finna þar eitthvað við sitt hæfi.

Í Nepal er fjölbreytt kerfi stíga sem í raun eru ævafornar þjóðleiðir heimamanna og sem enn eru reyndar í fullri notkun. Nepalska þjóðin skiptist í nokkur þjóðabrot sem tala ólík tungumál en nepalska er þjóðtungan. Enginn þarf þó að örvænta um að verða mállaus því enska er víða töluð sérílagi á fjölförnum ferðamannaslóðum. Lengi vel var Nepal eina hindúa konungsríkið en í dag hefur konungdæmið lotið í lægra haldi fyrir lýðræðislegri stjórnarháttum. Auk hindúisma eru búddismi, íslam og kristni viðurkennd trúarbrögð í Nepal. Landbúnaður er helsta atvinnugrein landsmanna sem teljast verður merkilegt ef sú staðreynd er höfð í huga að eigöngu 25% landsins er ræktanlegt. Nepal er 5 klst og 45 mín á undan GMT.

Í Nepal eru árstíðirnar 4 líkt og hér heima en þó með örlítið öðru sniði. Haustið hefst í september og veturinn tekur yfir í desember. Á þessum tíma má þó búast við að sjá öllu hærri hitatölur en við hérna heima eigum að venjast, en meðalhiti í nóvember er á bilinu 4°C til 23°C. Rétt er að benda á að gera verður ráð fyrir eitthvað lægra hitastigi því hærra sem fólk ferðast. Monsúnvindar blása með tilheyrandi regni frá júní og fram í september og þá getur úrkoma orðið allt að 150cm á sólarhring í eftirmiðdagsskúrum. Gjaldmiðillinn í Nepal er rúpía, US$ 1 jafngildir 106 rúpíum og hægt er að leggja virði rúpíunnar að jöfnu við virði krónunnar. Ekki er ráðlegt að skipta fé nema á viðurkenndum stöðum og trúlega ekki gott að skipta of miklu í einu en nógu þó til þess að eiga fyrir drykkjum og ýmsum smáhlutum á meðan á göngunni stendur. Í lok ferðar er svo hægt að skipta aftur ef áhugi er á að fara í stórtæk kaup á minjagripum, en handverk í Nepal er um margt áhugavert og hægt að fá ýmsa muni á góðu verði í Kathmandu.

Nepal liggur á skilum tveggja fleka sem rekast í sífellu saman. Þetta eru Evrasíuflekinn og Indlandsflekinn sem hafa með samreki sínu myndað Himalajafjallgarðinn. Jarðskorpa flekanna er þykk og eðlislétt og vöðlast upp í fellingar þar sem hvorugur flekinn gefur eftir. Skrið flekanna er uþb 4 – 5 cm á ári. Eins og gefur að skilja geta þessi stórkostlegu umbrot orsakað jarðskjálfta og jafnvel stóra. Er að jafnaði búist við einum stórum á öld.
Árið 2015 urðu 2 stórir skjálftar í Nepal sem höfðu gríðarleg áhrif á líf landsmanna. Sá fyrri 7,8 stig, varð í apríl og olli m.a. snjóflóði í hlíðum Everest sem leiddi til þess að fjöldi fólks fórst og hætt var við allar göngur á þennan hæsta tind heims það árið. Skjálftinn olli gífulegu tjóni og mikill fjöldi bygginga var lagður í rúst, þar á meðal forn hof í Kathmandu dalnum. Fjöldi fólks lét lífið og margir fleiri slösuðust. Í maí tæpum þremur vikum síðar varð svo annar skjálfti upp á 7,3 stig nokkru austar í landinu. Þrátt fyrir hversu öflugur seinni skjálftinn var, urðu ekki jafn mikil eignaspjöll og af þeim fyrri en snjóflóð féllu í hlíðum Everest.

Erfitt er að gera sér í hugarlund hve mvargvíslegar afleiðingar skjálftar af þessum stærðargráðum geta haft í för með sér. Eignatjón er augljóst sem og slys á fólki en félagslegar afleiðingar í jafn fátæku landi og Nepal geta líka verið talsverðar. Talið er að óprúttnir aðilar hafi nýtt sér óreiðuna sem ríkti í kjölfar skjálftanna og hneppt fjölda kvenna í ánauð og selt mansali úr landi. Flestar þessara kvenna munu hafa endað sem kynlífsþrælar í suð austur Asíu.

Nepalska þjóðin skiptist upp í 36 ólík þjóðabrot og trúlega eru Sérparnir þeirra kunnastir. Sérparnir búa í austurhluta Himalajafjallanna og talsverður hluti þeirra í Khumbu dalnum. Flestir stunda þeir landbúnað og daglegt líf þeirra og amstur í þessari hæð hefur gert þá hæfa til þess að takast á við háfjallamennsku. Það fer varla sá leiðangur í ferð á neinn af hærri tindum landsins án þess að hafa amk einn sérpa með í för. Sérpinn Tenzing Norgay er einn af frægustu Sérpunum en hann var aðstoðarmaður Edmunds Hillary þegar þeir komust fyrstir manna á hátind Everest.

Háfjallaveiki er ekki veiki sem plagar sérpa en gæti stungið upp kollinum hjá okkur sem alla jafna erum niðri við sjávarmál og því mikilvægt að vera vakandi fyrir einkennum hennar þegar ferðast er í hæð yfir 2500 – 3000 metrum. Flestir upplifa trúlega væg einkenni háfjallaveikinnar sem lýsa sér m.a. í höfuðverki, ógleði og lystarleysi. Góð aðlögun er besta leiðin til þess að komast hjá háfjallaveikinni, það að hækka sig ekki um of hvern dag og hvílast vel í hæð. Einnig kemur mikil og stöðug vökvaneysla að gagni. Ágerist einkennin er eina leiðin tafarlaus lækkun. Fararstjóri ferðarinnar

Heimild: Íslenskir fjallaleiðsögumenn

You may also like

Leave a Comment