Namche Basar – fræðslumoli

by Halldóra

Namche Basar er stærsta þorpið á leiðinni í grunnbúðir Everest, staðsett í bröttum hlíðum með ómótstæðilegu útsýni til fjallatindanna gegnt því. Upphaflega var þorpið verslunarstaður þar sem afurðum svæðisins, yak smjöri og osti, var skipt út fyrir afurðir af lægri svæðum, korn og hrísgrjón. Eftir að Hillary og Tenzing Norgay klifu Everest varð þorpið miðstöð ferðalanga og fjallagarpa sem fetuðu í fótspor þeirra félaga. Ferðaþjónustan hefur gjörbreytt þorpinu og lífi þeirra sem þar búa en samkvæmt nepölskum hagtölum er afkoma íbúanna þar sú besta sem gerist í landinu og tekjur íbúa sjö sinnum hærri en meðaltekjur landsmanna. Þar er líflegt um að litast, kaffihús og söfn, klaustur og verslanir auk tehúsa og hótela. Þar er einnig hægt að skipta peningum en gengið er töluvert lægra en í Kathmandu. Enn í dag er þorpið verslunarstaður og á laugardagsmorgnum er þar líflegur markaður. Íbúar nærliggjandi dala bjóða þar afurðir sínar í bland við vörur sem hafa verið fluttar frá Kathmandu. Í Namche Basar er lítið pósthús fyrir þá sem vilja senda kort eða bréf.

Heimild: Íslenskir fjallaleiðsögumenn.

You may also like

Leave a Comment