50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

by Halldóra

MARKMIÐ
Það var í lok árs 2018 sem við Siggi Kiernan grínuðumst með það að það væri gaman að gera eitthvað skemmtilegt eða út fyrir þægindahringinn í hverjum mánuði á árinu 2019, þar sem þá myndum við bæði fagna 50 ára eða hálfrar aldar afmæli. Þó þetta hafi byrjað sem grín, þá má segja að þetta hafi eiginlega orðið raunin og árið 2019 verður pottþétt eitt eftirminnilegasta ár ævi minnar og ólíklegt að ég muni einhvern tíma toppa það, nema kannski þegar ég verð 100 ára 🙂

Hér að neðan ætla ég að fara yfir árið eftir mánuðum og rifja upp allt það skemmtilega sem ég tók þátt í með yndislegum og skemmtilegum vinum, en það er það sem skiptir öllu máli. Ég var líka svo lánsöm að byrja í nýrri og skemmtilegri vinnu og eignaðist yndislega vinnufélaga, sem er líka algjörlega ómetanlegt.

JANÚAR 2019
Ég byrjaði þetta magnaða ár, með nýársgöngu á Esjuna ásamt frábærum vinum sjá hér. Það er alltaf einstaklega skemmtilegt og hátíðlegt. Annars var ég dugleg að hlaupa bæði með Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa, hljóp með vinum mínum nokkra ríkishringi og Digraneströppunar (himnastigann) þar sem við vorum að æfa fyrir HK100. Hlaupið í Hong Kong, þ.e. HK100 fór svo fram 19. janúar og það gekk mjög vel. Kláraði á 18 klst 43 mín og 56 sek, þessa 103 km og kom fyrst Íslendinganna í mark. Sjá nánar um HK100 keppnissöguna hér. Þetta var þriðja árið í röð sem ég tók þátt í HK100 og minn langbesti tími frá upphafi. Alltaf gaman að toppa sjálfan sig á 50 ára afmælisárinu 🙂
Annars þakka ég yndislegu vinkonum mínum í HK, þeim Huldu og Rebekku fyrir frábærar móttökur og aðstoð í HK100, þær eru einstakar heim að sækja og þær ásamt vinum mínum ástæðan fyrir því að ég hef tekið þrisvar sinnum þátt í þessu sama hlaupi.

Strax eftir heimkomu frá Hong Kong byrjuðu gönguskíðaæfingar og ég var ótrúlega heppin með veður. Fram að HK100 hafði verið ótrúlega snjólétt og þægilegt til að æfa fjallahlaup og strax eftir heimkomu fór að snjóa mikið og ég náði að æfa bæði í Bláfjöllum og í Heiðmörkinni gönguskíðin.

FEBRÚAR 2019
Náttúruhlaupa – hlaupasamfélagsæfingar héldu áfram í febrúar sem og gönguskíðaæfingar þegar færi og tími gafst. Við Óli fórum svo til Brighton aðra helgina í febrúar með Kjöthúsinu (vinnustaður Óla) en okkur var boðið í þessa glæsilegu árshátíðarferð Kjöthússins sem var mjög skemmtileg. Í lok febrúar fórum við svo til Trysil til að taka þátt í þriðja skiptið í Vasaloppet veislunni. Fórum 2017 í Nattvasan og 2016 í Vasaloppet keppnina sem er 90 km skíðaganga í sænsku dölunum.

MARS 2019
Vasaloppet 90 km skíðagangan með Ísbjörnunum vinum okkar var svo 3. mars. Þrátt fyrir mikið vesen á leiðinni með bindingarnar, sem voru alltaf að losna og ég þurfti á endanum að henda þeim og fá nýjar, þá var ég bara sátt við, í fyrsta lagi að hafa klárað gönguna og á allt í lagi tíma eða 10 klst 23 mín og 42 sek. Það fór mikill tími í að reyna að redda bindingunum. Gangan sjálf var líka mun betri hjá mér heldur en þegar ég tók þátt í fyrsta skipti. Sjá myndir frá Vasaloppet 2019 hér, en ég gleymdi að skrifa keppnissöguna 🙂

Þegar ég kom heim héldu skíðaæfingar áfram ásamt Náttúruhlaupaæfingum, þar sem næsta keppni var bara tveim vikum seinna eða 16. mars, Birkebeinerennet, sem er 50 km skíðaganga í Noregi. Keppnin er mjög skemmtileg, mjög ólík Vasa, að því leiti að fyrst er mjög löng brekka upp fjallið og svo eru margar hraðar brekkur niður. Vasaloppet er mun flatari og meiri lækkun en hækkun, öfugt við Birken. En keppnin var krefjandi en mjög skemmtileg og ég náði að klára á 5 klst 37 mín og 35 sek. Sjá nánar um Birkebeinerennet keppnina hér:

APRÍL 2019
Í byrjun apríl flugum við Óli til San Fransisco með Eddu og Eið vinum okkar. Við höfðum keypt þennan flugmiða fyrir punkta fyrir rúmlega ári síðan, eða þegar ég var í Ironman Texas, þá fékk ég póst frá Icelandair um að punktarnir okkar væru að renna út. Ég spurði þá Pétur, Sædísi og Irinu hvert við ættum að fara til Bandaríkjanna og þau mæltu með San Fransisco og Kaliforníu. Þegar við Edda vorum svo að plana ferðina þá kom í ljós að það var San Fransisco Rock and Roll 1/2 maraþon í SF á sama tíma og við vorum úti. Úr varð að ég skráði mig í hlaupið og hljóp það 7. apríl. Það var mjög skemmtilegt að hlaupa á Golden Gate brúnni, en við vorum líka búin að sigla undir hana svo það var skemmtileg upplifun að hlaupa líka yfir hana. Sjá nánar um hlaupið hér á Relive myndbandi, engin keppnissaga.

Í ferðinni okkar fórum við líka til Los Angeles og til Las Vegas en við keyrðum um 2.000 km í þessari ferð og það var mjög gaman að sjá þessar fallegu en ólíku borgir. Við sigldum líka útí Alcatras og skoðuðum fangelsið. Undir lok ferðarinnar þá manaði Eiður mig í að fara í fallhlífarstökk með honum. Það þurfti reyndar ekki mikið að mana mig, því fallhlífarstökk var alltaf „on my bucket list“ svo það var magnað að geta upplifað það þann 12. apríl. Sjá nánar um fallhlífarstökkið og myndband úr þeirri flugferð hér:

Mamma varð 70 ára 20. apríl 2019 og við vorum búnar að ákveða að fara saman til Bilbao og fagna því. Ívar Trausti bjó til ferð og hvatti mig til að bjóða öðrum að koma með mér og njóta fjallahlaupa í fjöllunum í kringum Bilbao. Það var einstakt ævintýri en leiðinlega við það, var að mamma komst ekki með (hún ætlaði nú ekki að hlaupa, heldur bara njóta borgarinnar), en ákvað á síðustu stundu að fara ekki út þar sem heilsan hans Helga (maðurinn hennar) hafði hrakað og hún hafði áhyggjur af honum. En ég fór í yndislega páskaferð með yndislegu fólki, fórum út á skírdag og heim á annan í páskum og ég get 100% mælt með fjallahlaupaferð til Bilbao á Spáni.
Í lok apríl eða 29. apríl byrjaði ég svo að þjálfa Hóp1 hjá Stjörnunni og fékk frábærar móttökur frá æfingafélögum.

MAÍ 2019
Maí verður eftirminnilegur fyrir það að ég fékk nýja vinnu og byrjaði 15. maí að vinna hjá Reykjavíkurborg á Velferðarsviði sem framkvæmdastjóri Samstarfsnetsins. Fékk yndislegar móttökur frá frábæru samstarfsfólki í Borgartúni og það er búið að vera virkilega skemmtilegt að vinna að undirbúningi að stofnun Samstarfsnetsins sem fer formlega í loftið núna 1. janúar næstkomandi.

Hvað hreyfingar varðar þá var ég dugleg að hlaupa bæði með Náttúruhlaupurum og þá sérstaklega með Laugavegshópi NH, svo byrjaði ég að synda í sjónum, þar sem ég hafði samþykkt að taka þátt í Marglyttuævintýri um haustið, þ.e. að synda boðsund (sex manna lið) yfir Ermasundið. Ég synti þó að mestu í galla í maí þar sem sjórinn var frekar kaldur. Stærstu verkefnin hvað hreyfingar varðar í maí voru fjallaskíðaferðir, á Snæfellsjökul með Guðmundi Smára og Guðmundi Tryggva 22. maí í gullfallegu veðri, gengum upp á stuttermabolum, bara eftir vinnu. Sjá nánar hér:

Fór svo líka á Hvannadalshnúk á gönguskíðum með Sigga Kiernan og Guðmundi Tryggva 30. apríl, líka í mjög góðu veðri, sjá nánar hér: Frábærar fjallaskíðaferðir báðar tvær.

Sjósund og fjallaskíði voru því ný verkefni, bæði þó nokkuð út fyrir þægindahringinn í maí.

JÚNÍ 2019
Ég hélt áfram að hlaupa utanvega með Laugavegshópi Náttúruhlaupa, hljóp með Hópi 1 í Stjörnunni og hjólað smá og synti í júní. Tók þátt í Hvítasunnuhlaupi Hauka 10. júní og náði 4 sæti í aldursflokki, 26 sæti overall kvk og náði PB í tíma.

Stærsta ævintýri JÚNÍ mánaðar var svo auðvitað á sjálfan afmælisdaginn 20. júní, 50-50-50. Fékk hugmyndina frá Siggu vinkonu sem hljóp 50 km (5*10 km hringi) þegar hún varð 50 ára fyrir nokkrum árum. Ákvað því að hjóla 50 km, hlaupa 50 km og synda 50 metra á sjálfan afmælisdaginn og bjóða vinum mínum að taka þátt með mér. Það komu 9 manns að hjóla með mér (um miðja nótt í miðri viku), en ég hafði ákveðið að leggja af stað í hjólið, á miðnætti og hjóla nokkra Álftaneshringi út á Bessastaði og svo Ásahring þar til ég næði þessum 50 km. Við þurfum bara að fara 3 hringi og ég fékk frábæran félagsskap yndislegra vina með mér. Bauð þeim svo uppá súkkulaðiköku, Hleðslu og banana um nóttina eftir hjólaævintýrið, en þetta var svo björt og falleg og yndisleg nótt.

Svo klukkan 06:30 byrjuðu morgunhlaupin, Fékk líka yndislega vini mína til að hlaupa með mér og var búin að teikna upp þennan 7,8 km hring og hljóp 4 hringi alltaf í frábærum félagsskap. Miðnæturhlaup Suzuki var 20. júní og það var hægt að hlaupa 10 km eða 21,1 km (hálft maraþon), ég ætlaði fyrst að hlaupa bara 10 km þar og 4 * 10 km hringi heima áður, en svo breytti ég planinu og hljóp 4 * 7,8 km um daginn og svo 21,1 km í Miðnæturhlaupi Suzuki. Það voru áfram frábærir vinir sem hlupu með mér um kvöldið þetta skemmtilega hlaup. Eftir hlaupið fór ég svo í Laugardalslaugina og þar beið mamma og fleiri vinir sem syntu með mér 50 metrana yfir laugina. Sjá nánar um 50-50-50 hér:

Á milli hlaupanna heima og Miðnæturhlaupsins var ég með opið hús (hamborgara-grillpartý) þar sem Óli minn grillaði fyrir fjölskyldu og vini og ég fékk Hrafnkel Pálmason til að koma og syngja fyrir okkur. Mikið var þetta var yndislegur dagur og ég er einstaklega þakklát Óla, fjölskyldunni og vinum sem gerðu þennan dag svona eftirminnilegan og einstakan.

JÚLÍ 2019
Æfingar fyrir Laugavegshlaupið héldu áfram í júlí og þetta skemmtilega æfingatímabil með skemmtilegum æfingafélögum var toppað með því að hlaupa sjálft Laugaveghslaupið 13. júlí. Ég kom sjálfri mér á óvart og náði mínum besta árangri í Laugavegshlaupinu, (PB), en þetta var í fjórða skiptið sem ég tek þátt. Sjá nánar hér:

Eftir Laugavegshlaupið tóku við fleiri sjósundsæfingar, því það styttist í 2 klst æfinguna, sem ég kveið verulega fyrir. Vissi að ég væri ekki að fara í Ermasundið nema ég myndi ná að klára þá þrekraun, þ.e. að vera 2 klst í einu í sjónum í Nauthólsvík. Ég var ekki alveg með nógu mikið sjálfstraust í þessum efnum, þar sem tilhugsunin um kuldann í sjónum var mín helsta hindrun, en ég notaði ávallt möntruna mína, #jákvæð og #grjóthörð til að hvetja mig áfram og komast fram hjá þessari hindrun sem var föst í huga mínum. Þann 22. júlí syntum við svo þetta 2 klst sund í Nauthólsvík. Hitastigið var 14 gráður. Sjá nánar um þetta sund, sem var LANGT ÚT fyrir minn þægindahring hér:

ÁGÚST 2019
Ágúst byrjaði hjá okkur Óla með mjög skemmtilegri fjallahjólaferð inná Fjallabak með vinum okkar, Ísbjörnunum um verslunarmannahelgina. Á frídegi verslunarmanna skutlaðist ég vestur í Grundarfjörð með Marglyttunum Þórey og Birnu, þar sem við hittum Marglyttuna Brynhildi. Syntum svo boðsund yfir Grundarfjörð og lentum í árshátíð alvöru Marglyttna sem brenndu okkur allar. Eftir á að hugsa var þetta fín æfing og þá sérstaklega að vera búin að lenda í alvöru Marglyttum, sjá nánar hér.

Fór svo með frábærum hópi utanvegahlaupara í fjallahlaupaferð í hringinn í kringum Mt. Blanc (Tour Mont Blanc TMB), en ég var farastjóri með Elísabetu Margeirsdóttur. Ferðin var frá 11.-16. ágúst og var algjörlega mögnuð, félagsskapurinn svo skemmtilegur og leiðin falleg. Við hlupum um 140 km á þessum 6 dögum.

Synti svo hið fræga Viðeyjarsund föstudaginn 23. ágúst með Marglyttunum mínum en við lögðum af stað í beinni útsendingu á Stöð 2, sjá nánar hér: Þetta var enn eitt ævintýrið sem var langt út fyrir minn þægindahring, enda sjórinn verulega kaldur, undir 10 gráður.

Daginn eftir Viðeyjarsundið tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þ.e. 24. ágúst og eftir maraþonið skokkaðu ég frá miðbæ Reykjavíkur heim í Garðabæinn til að ná 50 km, enda var ég með númerið 50 á þessu 50 ára afmælisári. Tók ákvörðun um að skrá mig í þetta maraþon með 3ja daga fyrirvara, sjá nánar hér:

Í lok ágúst flaug ég svo til Genfar í Sviss þar sem ég fór á fund á vegum Þríþrautarsambandsins og var auk þess fararstjóri íslenska hópsins sem tók þátt í aldursflokkakeppni í þríþraut í Lausanne í Sviss.

SEPTEMBER 2019
Þríþrautarkeppnin fór fram 1. september í Lausanne í Sviss, en ég tók þátt í Ólympískri vegalengd og gekk mjög vel. Virkilega skemmtilegt að fá að taka þátt og synda í Genfar vatni. Sjá nánar hér:

Flaug svo beint frá Sviss til Englands, þar sem ég hitti Marglyttur vinkonur mínar en til stóð að synda yfir Ermasundið þann 4. sepember. Vegna veðurs þá dróst það fram á síðasta dag, en þann 10. september náðum við Marglytturnar að synda yfir Ermasundið frá Dover í Englandi til Calais í Frakklandi, sjá nánar hér: Þetta var algjörlega magnað ævintýri og mjög eftirminnilegt.

EFtir að ég kom heim hélt ég áfram æfingum með Stjörnunni, Náttúrúhlaupunum og tók nokkrar Esjur með vinum mínum. Við Siggi og Viggó tókum svo magnaða næturæfingu, 27. september, þegar við fórum fimm ferðir upp að Steini á Esjunni, á ofboðslega fallegu Norðurljósakvöldi. Hins vegar var ég frekar óheppin á niðurleiðinni í fjórðu ferðinni, flaug ég á hausinn og brákaði á mér nokkur rifbein og gerði gat á hnén á buxunum og var líka blóðug á höndum. Eftir smá aðgerð, þ.e. hreinsun á sárum á bæði hnjám og höndum fór ég samt og kláraði fimmtu ferðina (reyndar mjög rólega).

OKTÓBER 2019
Þetta fall mitt í Esjunni, hafði smá áhrif á æfingar fram að keppni. Fann þó nokkuð fyrir rifbeinunum og æfði ekki mjög mikið í lok september eða fyrstu dagana í október. En það sem ekki drepur þig, herðir þig og því fór ég kokhraust í langt ferðalag til Reunion Island (frönsk eyja í S-Afríku, Indlandshafi) þann 14. október og lagði svo af stað í þetta 100 mílna fjallahlaup, eitt erfiðasta fjallahlaup í heimi þann 17. október. Kláraði hlaupið á 56 klst 34 mín og 14 sek sjá nánar hér: Þetta er klárlega lengsta og erfiðasta hlaup sem ég hef tekið þátt í og klárað.

NÓVEMBER 2019
Eftir Reunion hlaupið tóku bara við mjög þægilegar æfingar með Stjörnunni og Náttúruhlaupum. Fór til dæmis 14. nóvember í yndislegt Powerarde með einum Stjörnuhlaupara sem var að fara í fyrsta skipti í Powerade.

Árlegur fundur 100 km félaga og inntaka nýrra félaga fór fram 13. nóvember. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema þar hitti ég Rúnu Rut vinkonu og hlaupafyrirmyndina mína sem var að fara til Fíladelfíu að hlaupa maraþon 24. nóvember. Ég kastaði því svona fram eftir fundinn, meira í gamni, en alvöru, hvort ég ætti ekki að henda mér með henni í þetta maraþon. Fór á netið og sá að það var ennþá laust í hlaupið og í flug. Daginn eftir hringdi svo RRR í mig og spurði hvort mér væri alvara. Til að gera langa sögu stutta, þá skráði ég mig með viku fyrirvara í þetta hlaup og hljóp svo maraþon í Fíladelfíu með Rúnu Rut vinkonu minni þann 24. nóvember. Náði að sjálfsögðu ekki neinum sérstökum tíma, en kláraði með bros á vör sem var markmiðið. Sjá nánar hér:

Þann 30. nóvember fór ég svo í skemmtilega Rjúpnaveiðiferð með Óla og Sigga Kiernan. Sáum engan fugl, en gönguferðin var yndisleg. Hélt áfram æfingum með Stjörnunni og Náttúruhlaupum, bara mjög rólegar æfingar, enda þó nokkur þreyta í fótunum eftir langa Reunion hlaupið.

DESEMBER 2019
Fékk fleiri Stjörnur með mér í desemberhlaup Powerade og það voru þrjár Stjörnur að fara í fyrsta skipti í Powerade þann 12. desember. Synti svo Þorláksmessusund með mömmu að morgni Þorláksmessu og gaman að ná mínum besta árangri PB í þessu sundi frá upphafi, en ég hef tekið fimm sinnum þátt. Sjá nánar hér:

Þessu magnaða 50 ára afmælisári, var svo slúttað í frábærum félagsskap Stjörnuhlaupara sem „Ólafur“ á gamlársdag 31. desember. Hver er þessi Ólafur ? Það er von að þú spyrjir því ég spurði sömu spurningar, en hann er snjókarlinn í bíómyndini Frozen. Þar sem ég hafði ekki séð þessa mynd, ákvaðum við Óli að leigja hana núna um helgina og nú veit ég allt um Elsu, Önnu og Ólaf og ævintýri þeirra í Frozen og söng og spilaði lagið „Let it GO“ allt gamlárshlaupið og kom glöð í mark, síðust af öllum Stjörnunum.

AUÐMÝKT OG ÞAKKLÆTI
Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa heilsu til að gera allt það sem ég hef gert á þessu 50 ára afmælisári. Ég er einnig þakklát að eiga yndislega vini sem hafa tekið þátt með mér í þessum ævintýrum. Fjölskyldunni þakka ég líka fyrir þolinmæðina og hvatninguna, ef baklandið er ekki til staðar er ekki hægt að láta alla þessa drauma verða að veruleika.


You may also like

Leave a Comment