Helgi Skúlason – minningargrein

by Halldóra

MORGUNBLAÐIÐ – ÞRIÐJUDAGUR 7. JANÚAR 2020

Afi Helgi eins og Kristófer kallaði hann alltaf, var mjög góður afi, eiginmaður, faðir og stjúpfaðir. Hann var rólegur, yfirvegaður og einstaklega handlaginn og vandvirkur. Hann talaði ekki af sér, en það sem hann sagði var alltaf vel úthugsað og hann gat verið mjög hnyttinn og orðheppinn og brosmildur var hann alla tíð.

Hann brosti allan hringinn þegar hann fór í vöðlurnar sínar og var komin út í á með veiðistöngina. Hann var líka mjög fiskinn, enda með þolinmóðari mönnum sem ég hef kynnst og það krefst þolinmæði að bíða eftir þeim stóra.

Við Óli vorum um tíma félagar í Hvítarmönnum og veiddum í Hvítá með Helga, mömmu og félögum. Auk þess fórum við stundum og hittum Helga og mömmu þegar þau áttu veiðhelgi í ánni. Þau voru ótrúlega fiskin bæði tvö í Hvítánni og það var svo fallegt að fylgjast með þeim stunda þetta sameiginlega áhugamál. Í seinni tíð eftir að Helgi veiktist smíðaði hann sjálfur stæði undir stól sem var komið fyrir í miðri á, svo hann gæti haldið áfram að veiða, þrátt fyrir veikindin.

Þegar Kristófer var bara nokkurra mánaða gamall fórum við með Helga og mömmu í Kiðjaberg að veiða og þar veiddi Helgi laxa sem voru lengri en Kristófer, engar ýkjur, það eru til myndir af þeim á filmu.

Helgi var mikið náttúrubarn, enda alin upp í sveitinni að Hróarslæk. Helga fannst algjör óþarfi að fara til útlanda því það var svo margt fallegt að skoða og sjá á Íslandi. Við Óli og Kristó fórum þó í yndislega og eftirminnilega ferð til Flórída með Helga og mömmu, Jóa bróður og afa og ömmu þegar mamma varð 50 ára.

Helgi var einstaklega góður afi og þolinmóður og hafði alltaf tíma til í að hlusta á og leiðbeina barnabörnunum sínum. Eitt sinn fannst afa Helga, Kristófer hafa safnað of síðu hári. Hann bauð í hárið á Kristó sem var reyndar harður í horn að taka, en úr varð að afi Helgi keypti hárlokkana og bjó til úr þeim margar góðar veiðiflugur. Helga tókst svo að sjálfsögðu að veiða fisk á fluguna, sem hann nefndi Kristófer.

Helgi var alltaf boðinn og búinn að aðstoða okkur Óla. Hann var húsasmíðameistari af gamla skólanum, þar sem nákvæmni og vandvirkni var höfð að leiðarljósi. Hver einasti sentimetri skipti máli og það átti að hlaða milliveggi en ekki nota eitthvað nýtísku gifs þegar hús voru byggð. Við vorum einstaklega heppin að eiga Helga að þegar við keyptum fokhelda parhúsið okkar í Víðiásnum 2001. Helgi var húsasmíðameistarinn okkar og hann hjálpaði okkur að hlaða alla milliveggi, múra, flísaleggja og pússa. Hann hjálpaði okkur líka að smíða veggi og palla í garðinum. Helgi hafði líka aðstoðað okkur við breytingar í Lyngmóunum og Suðurhvammi þar sem við bjuggum áður, með vandvirknina að leiðarljósi.

Það er mjög erfitt fyrir svona sterkan, duglegan og kláran mann, sem elskaði að leysa Sudoku og spila Bridds að fá þennan hræðilega heilabilunarsjúkdóm sem hann barðist við um árabil. En hann fékk sem betur fer mjög góða umönnun fyrst af mömmu og síðar á Hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. 

Við fjölskyldan kveðjum elsku Helga með miklu þakklæti og söknuði og biðjum honum Guðs blessunar á þeim stað sem við eigum öll vísan.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, Óli og Kristó

You may also like

Leave a Comment