Snæfellsjökull toppaður á stuttermabol

by Halldóra

Toppaði Snæfellsjökul á fjallaskíðum í kvöld í mögnuðu veðri. Fórum á stuttermabolnum alla leið upp, eða þar til skugginn af Þúfunni skall á okkur. Fór með Guðmundi Smára og Guðmundi Tryggva, en Siggi Kiernan ætlaði með okkur, en var orðinn lasinn svo hann missti af þessari frábæru ferð.

Við ókum úr bænum eftir vinnu klukkan 17:10. Lögðum í hann upp jökulinn fyrir klukkan 20:00. Ferðin upp á topp á skíðunum tók rétt innan við 2 klst. Fórum meðfram jaðrinum, leiðina sem snjótroðarnir fara, þá fengum við sólargeislana í andlitið allan tímann, í stað þess að taka skuggaleiðina beint upp, sem ég hef reyndar farið tvisvar áður.

Var svolítið lengi að koma mér af stað frá bílastæðinu út af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi fann ég enga hárteygju, og eyddi miklum tíma í að leita eða finna mér hárteygju, enduðum á að klippa til snæri, sem rann svo reyndar strax úr hárinu á mér. Svo var ég að læra á bindingarnar á skíðunum, því Siggi lánaði mér frábæru léttu fjallaskíðin sín og skóna, þar sem ég er nýbúin að selja mín skíði og ekki búin að fá mér ný. Ekki viss um að Siggi fái skóna og skíðin til baka, þar sem ég tók algjöru ástfóstri við græjunar hans 🙂 😉

Það var algjörlega magnað að komast á toppinn og sjá magnaða útsýnið yfir fallega landið okkar og út á haf. Síðan fórum við af skíðunum og gengum upp á þúfuna, snjórinn var mjög mjúkur og á tíma fann ég fyrir smá lofthræðslu, enda hafði ég skilið broddana mína eftir niður í bíl. Út af sólinni og hitanum, var smá snjóbráð og það var að renna snjór og leka niður af þúfunni og smá snjóflóðahætta þar í kring, svo við fórum ekki alveg uppá brattasta topp, enda ekki í línu og ekki með brodda, þó við vorum með beltið og kaðalinn í bakpokanum á okkur, en við vorum með hjálm og ísexi.

Á leiðinni niður varð ég svo að stoppa til að taka magnað mynd, þar sem skugginn af Snæfellsjökli myndaði skemmtilegan skugga út á hafið. Magnþrungið útsýni. Færðin var æðisleg niður og meiriháttar gaman að skíða.

Þegar við komum svo niður uppgötvaði ég að ég var með þessa fínu „Alparósar-hárteygju“ á Deuter bakpokanum mínum, sem ég hefði auðvitað átt að nota 🙂 Mun aldrei gleyma því aftur, en þessar fallegu blómateygjur eru á öllum kvk bakpokunum mínum frá Deuter.

Snæfellsjökull toppaður 22.05.2019, var maí verkefnið mitt, þar sem ég verð 50 ára 20.júní næstkomandi og markmiðið að gera eitthvað „spennandi“ í hverjum mánuði allt almanaksárið. Takk kæru vinir Guðmundur Smári og Guðmundur Tryggvi fyrir frábæra ferð og takk Siggi fyrir lánið á búnaðinum.

You may also like

Leave a Comment