Philadelphia maraþon 2019

by Halldóra

Hitti Rúnu Rut vinkonu í síðustu viku á árlegum fundi 100 km félagsins. Þá var vika í að hún flygi til Philadelphiu til að taka þátt í maraþoni þar sunnudaginn 24. nóvember. Ég sagði svona í gríni, „á ég ekki bara að koma með þér“, en mig langaði mikið til Bandaríkjanna og ég vissi að Rúna Rut væri að fara ein út. Hún var fljót að grípa þennan bolta og sendi mér tölvupóst morguninn eftir og spurði hvort mér væri alvara. Til að gera langa sögu stutta, þá skellti ég mér út til Bandaríkjanna með Rúnu Rut og skráði mig í maraþonið með viku fyrirvara.

FÖSTUDAGUR 22. NÓV OG LAUGARDAGUR 23. NÓVEMBER
Við vöknuðum auðvitað eldsnemma á laugardagsmorgninum, þó við reyndum að sofa eins lengi og við gátum, en við fórum auðvitað ekki að sofa fyrr en mjög seint aðfaraarnótt laugardagsins. Flugið til New York Newark var langt og svo 90 mín í Uber frá NY til Philadelphiu. Rúna Rut fékk hótelherbergið uppfært í svítu, svo við vorum í frábæru herbergi, með sjónvarpsherbergi og eldhúsi. Við hittum Óla (vinnufélagi RRR hjá Icelandair) og fórum með honum á Expoið að sækja gögnin. Þegar við vorum að ganga á Expoið, var 1/2 maraþonið í gangi og það var gaman að fylgjast með því. Veðrið var gott, smá kalt, en smá sól og perfect hlaupaveður fyrir Íslendinga.

Þegar við höfðum sótt gögnin og kíkt aðeins á Expoið sem var í Convention Center, ekkert sérstaklega stórt eða mikið úrval, en við að sjálfsögðu gengum það allt saman, þá fórum við og hittum fleiri vini RRR úr Hlaupahópi Icelandair á hamborgarstaðnum Five Guys. Það minnti mig á þegar við Óli fórum með Eddu og Eið til Boston, ég reyndar lá heima í flensu og þau fóru á Five Guys og töluðu mjög illa um þennan stað.

Reyndar var hamborgarinn sem ég fékk þarna bara mjög fínn 😉 Kíktum svo í Apple búðina á leiðinni heim, en fórum svo bara uppá hótel, ákváðum að vera skynsamar og hvíla okkur aftur fyrir maraþonið.
Um kvöldið fórum við svo á Cheesecake út að borða með vinum RRR frá Boston, en þau höfðu keyrt frá Boston til Philadelphiu og voru líka að fara að hlaupa, höfðu reyndar bæði hlaupið þetta maraþon áður.

SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2019 – MARAÞONDAGURINN
Við vöknuðum klukkan 04:00. Maraþonið var ræst klukkan 07:00 og við ætluðum að taka rútu að ræsingunni klukkan 05:30. Fengum okkur kaffi og hafragraut og græjuðum okkur. Þurr og hlý föt í poka, sem við gátum látið geyma á meðan við hlaupum. Fór svo í gamlar joggingbuxur og peysu, sem ég ætlaði svo að kasta af mér í ræsingunni, en þeim fötum er safnað saman fyrir heimilislausa í borginni. Veðurspáin fyrir hlaupadaginn var að breytast mikið fram og til baka fram að hlaupi. Nýjasta spáin gerði ráð fyrir mikilli rigningu um nóttina en svo átti að stytta upp og ekki að hvessa fyrr en um hádegisbil.

Þegar við komum niður í lobbý þá var bæði myrkur og rigning, svo við vorum þakklátar fyrir Regn-ponchoin okkar sem RRR hafði tekið með út fyrir okkur báðar. Við vorum heppnar að það var skólabíll (rúta) sem beið okkar fyrir utan hótelið okkar og ók okkur að rásstað, sem var í rúmlega 2 km fjarlægð. Óli samstarfsaðili Rúnu hjá Icelandair hitt okkur í anddyrinu.

Þegar við komum út úr strætó, var mikil rigning og smá rok. Við fórum í röð að bíða eftir að komast í öryggisleit, þar sem það var leitað á okkur og pokanum okkar. Þegar við komum inn á svæðið var orðin mikil röð á klósettin. Við þurftum aðeins að leita að gámnum, þar sem við gátum geymt pokann okkar, þ.e. með þurrum fötum til að fara í þegar við vorum búin með hlaupið. Eftir að hafa skilað honum af okkur, fórum við að leita að rásmarkinu, þ.e. græna hólfinu okkar. Hlaupið er ræst í hollum, og við Rúna Rut vorum í 3:45 hollinu, sem var græna hollið og Óli var með okkur þar. Þegar við vorum búnar að finna hólfið, fórum við að leita að klósettröð. Fórum í eina og eftir að hafa beðið í þó nokkra stund, sáum við að við myndum ekki ná að fara á klósettið áður en hlaupið yrði ræst. Við ákváðum því að henda okkur bak við næsta tré, enda báðar í PONCHOINU ennþá sem var mjög gott skjól fyrir okkur. Þá komu til okkar tvær konur sem báðu okkur að mynda skjól fyrir sig líka.

RÆSINGIN
Við vorum því komnar í ráshollið okkar fyrir ræsingu og vorum í góðum gír. Rétt fyrir ræsingu, kastaði ég af mér, joggingbuxum og peysu sem er þvegið og gefið til heimilislausra. Einnig skyldum við ponchoinn okkar eftir.

Rúna Rut vinkona var mjög vel æfð og í góðum gír og markmiðið hjá henni var að ná PB 3:45. Mitt markmið var að fara á púls (þ.e. aldrei yfir 85% af hámarkspúls, helst að vera undir 80%) og bara að reyna að klára þetta maraþon með bros á vör. Þegar ég lagði af stað fann ég að ég var ennþá mjög súr í lærunum (eftir Reunion hlaupið í október) og hafði lítið sem ekkert æft á malbiki. Þegar ég lagði af stað voru þetta hugsanirnar: 42,2 km eru margir km á malbiki, ég hefði kannski bara átt að skrá mig í hálft. En það hlaup var á laugardeginum svo það hefði aldrei gengið. Ég hugsaði líka að þetta er bara skemmtilegt ferðalag og þetta eru ekki 56 klst. Ég hugsaði líka til æfingafélaga minna í Breiðablik sem voru að hjóla inni. Eg er venjulega að stýra hjólaæfingum inni á sunnudagsmorgnum í rúmar 2 klst. Þetta var bara aðeins lengra 🙂 rétt um 5 klst.
Ákvað því að bægja öllum neikvæðum hugsunum á bug og bara njóta og vera þakklát fyrir að vera þarna. Það voru mjög margir að hvetja alls staðar í borginni, þrátt fyrir mikla rigningu og þó nokkuð rok og kulda.

HÁLFT MARAÞON
Þegar ég var búin með hálftmaraþon eða 21,1 km þá langaði mig að fara á Facebook Live og leyfa fólki að sjá þessa fallegu borg og allt þetta yndislega fólk sem var að hvetja okkur. Var nýbúin að hlaupa fram hjá fallegu vatni, með svona bátahúsum, sem var yndislegt. Viðurkenni samt að það var mikill mótvindur og rigning, en ég var vel búin, í hlýjum buxum, CEP compress sokkum uppað hné. í uppáhalds þunnum ullarbol og svo í Fusion vesti við Fusion buxurnar mínar. Var svo með Compressport svarta breitt svitaband og vettlinga, sem ég var tilbúin að henda af mér ef mér yrði heitt, bara ódýrir Primaloft vettlingar. Var svo með gelin í Compresssport mittistbeltinu mínu, en ég tók með mér 8 gel og 1 gel fyrir hlaup. Ætlaði að taka 1 gel á 5 km fresti.

Brautin í Philadelphiu er mjög skemmtileg, en kaflinn eftir að við fórum út úr bænum og áleiðis í annan bæ, xxx, var eiginlega endalaus. Mistökin sem ég hafði gert var að vita ekki nákvæmlega hvenær eða hvar snúningspunkturinn væri. Góða samt við þennan kafla, var að það var gaman að sjá alla hlauparana sem voru búnir að snúa við á snúningspunktinum. Sá að allir þessi fremstu hlauparar voru í nýju Nike Vaporfly sub2 skónum.

Þegar ég var orðin langeygð eftir því að sjá snúningspunktinn, spurði ég einn hlaupara í kringum mig hvort hún vissi hvað væri langt í snúningspunkt. Hún hélt að það væri í kringum 19 mílur. Loksins kom ég að snúningspunktinum og það er alltaf betri líðan þegar maður er á leiðinni til baka, heldur en þegar maður er að horfa á alla hina á leiðinni til baka 🙂 En ég var samt mjög stíf í lærunum, og með verki í mjöðmunum, svo það hægði verulega á mér, en ég var fegin að vera ekki að fá krampa, svo ég bara krossaði fingurna og hélt áfram að fylgjast vel með púlsinum og fara ekki yfir 165.

KOMIN Í MARK
Það var frábært að fá alla hvatninguna síðasta kílómeterinn í mark. EN það sem var skrítið var að maður sá ekki og vissi ekki alveg hvar markið væri. Og þegar maður kom í mark, þá voru eiginlega tvö mörk. Um leið og ég kem í mark, bætist verulega í rigninguna. Svo það var enginn tími eða staður til að biðja fólk um að taka mynd af mér í markinu. Tók samt Haddýjarhoppið í markinu og staðarhaldarar, þ.e. ljósmyndarar frá þeim tóku mynd af mér þegar ég kom í mark. Fór svo beint inní veitingatjald, þar sem í boði voru heit súpa, kringla og banani. Drakk kjúklingasúpuna og fór svo beint í gáminn að sækja fötin mín þurru. Þar var svo ekki neinn staður til að klæða sig í eða úr, svo ég fór bara í úlpuna mína yfir blautu hlaupafötin. Hringdi svo í Rúnu Rut en var viss um að hún væri farin uppá hótel. En hún var bara rétt hjá mér, hafði náð að komast í þurr föt, svo hún gat beðið. Við tókum svo strætó saman uppá hótel, þar sem heit sturta og hitapoki í rúminu beið mín.

Slökuðum svo bara á, það sem eftir lifði dags og fórum svo út að borða um kvöldið með Icelandair hópnum og vinum Rúnu frá Boston á mjög góðan ítalskan steikarveitingastað. Á sunnudeginum, kíktum við í tvær búðir, fengum okkur svo aftur Chessecake og tókum svo smá túrista rúnt um borgina að skoða t.d. Rocky tröppurnar.

Þessi helgarferð í Philadelphiu var algjörlega yndisleg. Svo gaman þegar maður tekur ákvörðun með stuttum fyrirvara. Takk elsku besta vinkona Rúna Rut, fyrir samveruna og að hvetja mig til að drífa með með þér (þurfti reyndar ekki mikið til) 😉 Innilega til hamingju með annan besta maraþon tímann þinn og enn eitt maraþonið, snillingurinn þinn og hlaupafyrirmyndin mín.

You may also like

Leave a Comment