Unnur G. Proppé – minning

by Halldóra

Eftirfarandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu, 21. nóvember 2019.

Mig langar í örfáum orðum að minnast elsku ömmu minnar.

Amma Unnur var einstaklega glæsileg kona. Hún fagnaði 90 ára afmæli sínu í sumar. Hún var ekki mikið fyrir veisluhöld en ávallt hugsaði hún vel um heilsuna. Það var því við hæfi að hún verði afmælisdeginum á Heilsuhælinu í Hveragerði þangað sem við heimsóttum hana á afmælisdaginn.

Amma var mér mikil fyrirmynd. Hún var mjög dugleg í leikfimi, fór reglulega í tíma til Jónínu Ben. og Ágústu, fastaviðskiptavinur þeirra til margra ára. Amma var mjög flott á VHS leikfimismyndbandi sem þær stöllur gáfu út. Amma Unnur hugsaði ekki bara vel um heilsuna og útlitið, heldur var hún alltaf stoð og stytta afa Jóa og allra sjúklinganna sem hún sinnti á Borgarspítalanum þar sem hún starfaði sem sjúkraliði starfsævina.

Það var yndislegt að eiga ömmu í hvítum sloppi á Borgarspítalanum, þegar maður er ungur hrakfallabálkur og ávallt kom amma og heimsótti mig.

Minningarnar um ömmu og afa úr Sæviðarsundi eru líka yndislegar. Þar fengum við Cherrios og Coco Puffs og þar var til Tab í dós og allskonar amerískir hlutir sem voru mjög spennandi. Þar var líka hiti í gólfflísunum inn á baði sem var einstakt á þessum tíma. Pípulyktin sem kom úr skrifstofuherberginu hans afa í anddyrinu var líka mjög góð. Arinlyktin og snarkið á aðfangadagskvöld þegar maður kíkti um kvöldið til ömmu og afa í Sævó eins og þau voru alltaf kölluð. Stóra kringlótta jóla-lagkakan með sultunni og hvíta flórsykrinum sem amma bakaði alltaf með fallega litla jólasveininum í miðjunni var gómsæt. Það eru ekki mörg ár síðan amma kenndi okkur mömmu að baka þessa köku, og það þarf einstakt lag við það, sem amma gerði svo vel. Amma var líka alltaf með jólasprellikall með ljósi á hvíta vinnusloppnum sínum um jólin. Fleiri yndislegar minningar eru úr Sæviðarsundi þegar öll stórfjölskyldan kom saman á annan dag jóla í afmælinu hans afa

Þegar ég var unglingur tókum við Óli að okkur, fegins hendi, að passa húsið í Sæviðarsundi og gullmolana hennar ömmu þegar afi og amma fóru til Flórída. Gullmolarnir voru mæðgurnar Perla og Táta, hvítir poodlehundar sem amma elskaði og fóru henni mjög vel. Þær voru alltaf jafn snyrtilegar og glæsilegar og amma, þótt Perla hefði nú alltaf verið mun fínlegri en dóttirin Táta.

Það er ekki hægt að minnast ömmu nema minnast elsku afa Jóhannesar einnig, en hann var líka einstaklega góður maður. Þau voru mjög samrýnd hjón, afi og amma í Sævó, síðar Hæðó, en afi var mjög sérvitur og gerði sjálfur grín að sérvisku sinni. Hann mætti alltaf mjög snemma í Laugardalslaugina áður en hún opnaði á morgnana, svo hann fengi bílastæðið sitt, skápinn sinn og sitt sæti í heita pottinum.

Við Óli og Kristó vorum svo lánsöm að fá að fara eitt árið með afa og ömmu og mömmu, Helga og Jóa bróður til Flórída og kynnast Sarasota, Siesta Key, sem var staðurinn sem afa og amma elskuðu og heimsóttu árlega í mörg ár. Nú veit ég að afi og Perla og Táta eru búin að taka á móti ömmu og þau eru öll komin til Sarasota á Siesta Key, þar sem þau sleikja sólina á hlýju hvítu ströndinni og ganga eftir henni saman.

Ég kveð elsku ömmu mína og bið henni Guðs blessunar á þeim stað sem við eigum öll vísan.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé

You may also like

Leave a Comment