Marglyttur synda yfir Ermarsundið

by Halldóra

Við hittumst í anddyrinu á The Grand Burstin hotel klukkan 05:45. En við áttum að hitta feðgana Peter Reed og Peter Reed Jr sem eru skipstjórar og eigendur Rowena (báturinn okkar) klukkan 06:15 við höfnina. Hótelið er staðsett eiginlega á höfninni, svo við löbbuðum með farangurinn okkar og matinn yfir að bryggjunni þar sem Rowena var komin á flot.

Marglytturnar sex ásamt Grétu liðsstjóra, tilbúnar í ferðalagið.

FARANGUR
Í Speedo töskunni minni var ég með hvíta Eimskips baðsloppinn, sem við vorum búnar að nota mjög mikið, algjör snilld að fá þennan slopp að gjöf frá þeim. Ég var með Houdini goretex jakkann og buxurnar, flíspeysu, ullarundirföt (peysu og buxur), primaloft og Cloud úlpur, húfu og vettlinga. Allt mjög góðar vörur. Ég var með ullar-lopa-kjólinn minn, aðra húfu og mjög hlýja vettlinga. Var svo með fjóra Speedo sundboli, tvö Speedo sundgleraugu með lituðu gleri og ólituðu. Með þrjár Speedo sundhettur, Speedo eyrnaskrúfurnar (sem ég elska) og svo með hleðslupung fyrir símann. Var með eitt handklæði og svo handklæðaslá með hettu, sem mamma gaf mér fyrir ferðina. Var líka með Speedo inniskóna, þrjú GU Roctane gel og með heitt sítrónute í Eimskips stál-hitabrúsanum. Já Speedo taskan er mjög stór og þetta komst allt í hana 🙂

Fallegur og yndislegur morgun í Dover, Englandi þegar við loksins lögðum af stað, en við vorum búnar að bíða í eina viku úti. Höfðum lagt af stað að bryggju aðfararnótt föstudags, en þá var hætt við þar sem spáin hafði breyst, svo þetta var síðasti séns.

SKIPULAG SUNDSINS
Það eru mjög strangar reglur í kringum Ermarsundið, hvort sem sundmenn eru að synda einir, svokallað „sólo“ sund eða boðsund. Í boðsundinu eru reglurnar þannig að hver sundmaður syndir í 1 klst í einu. Sundmaðurinn má aldrei koma við bátinn eftir að hann er byrjaður og skiptingarnar eru þannig að sundmaðurinn sem er að taka við, þarf að taka fram úr sundmanninum vinstra megin og þeir mega ekki snertast. Sundmaðurinn sem er að klára má því ekki fara í bátinn fyrr en sá sem er að taka við er kominn fram úr honum. Hver sundmaður syndir í 1 klst og röðin er föst og óbreytanleg, þannig að hún helst óbreytt allan tímann. Sundmenn synda bara í sundbol (má ekki vera með ermum eða skálmum) og með eina hefðbundna sundhettu og sundgleraugu. Annar búnaður er ekki leyfður, eins og sokkar eða hanskar eða ullarhúfa. Við bárum ekkert Lanolin eða krem á okkur. Sundið hefst þegar fyrsti sundmaður byrjar í landi Englandsmegin og endar þegar sundmaður endar í landi Frakklandsmegin. Bein loftlína er 34 km.

Fyrsta skipting, Silla að koma í bátinn og Sigrún að leggja af stað fyrstu ferðina.

SUNDIÐ
Morguninn í Dover var yndislegur. Það var heiðskýrt og ofboðslega fallegt að sjá sólina koma upp. Við fengum sólstóla til að hafa á þilfarinu á Rowena bátnum okkar. Við vorum búnar að ákveða röðina á okkur í sjóinn. Silla, sem er hraðasti sundmaðurinn átti að byrja, svo kom Sigrún, síðan ég og þar sem Birna, Þórey og Brynhildur eru álíka hraðar, ákváðu þær að fara í þeirri röð. Fyrsti sundmaðurinn þarf að synda í land, þar sem við sigldum svolítið frá Folkestone en sundið byrjaði á ströndinni vestan megin við Samphire Hoe country park, en þetta er miðja vegu á milli Dover og Folkestone.

Silla þurfti sem sagt að hoppa í sjóinn úr bátnum, þar sem það var ekki búið að setja út stigann og synda í land. Svo gaf hún merki með því að veifa upp báðum höndum þegar hún var tilbúin og synt þá af stað frá Englandi, þá var klukkan 06:52. Ég kveikti á Strava á símanum mínum til að eiga trackið alla leiðina (en það var þá bara frá bátnum). Ég vorkenndi Sillu að byrja, því tíminn sem það tók hana að synda í land, var ekki tekin með þannig að hún synti rúma 1 klst í fyrsta skipti. Sundið gekk mjög vel hjá henni, hún er með svo fallegan sundstíl og svo góður sundmaður. Sjórinn var líka spegilsléttur og hún synti um 3 km, sem var alveg frábært.

Næst fór Sigrún út, og skiptingin gekk mjög vel. Þegar búið er að skipta þá þarf báturinn auðvitað að stoppa til að taka upp sundmanninn. Við vorum búin að fá þær upplýsingar að við mættum synda áfram ef það væri bjart úti, en ef við værum í myrkri, þá yrðum við að bíða við hliðina á bátnum á meðan sundmaðurinn kæmi um borð. Sigrún var í fantastuði og æddi því bara á stað en eini vandinn var að hún tók mjög ranga stefnu og synti beint í áttina að hvítu klettunum í Dover og á leið til Finnlands í stað Frakklands 🙂
Við urðum því að kalla og kalla á hana, öskruðum mjög hátt til að fá hana til að snúa við og fara í rétta átt, sem tókst svo að lokum. Ég var næst út og eina sem ég kveið fyrir var kuldinn, það var komin reyndar meiri alda, en sólin skein og ég var bara í góðum gír. Ég spurði Sillu hvort henni hefði orðið kalt og hún sagðist aðeins hafa fundið fyrir því síðari 30 mínúturnar. Við fengum merki frá Grétu Marglyttu liðstjóra, þegar 30 mín voru eftir, og svo aftur, þegar 10 mín voru eftir og 2 mín. Spjald sem var veifað til okkar sem á stóð 30, 10, 2.

Silla komin um borð og ég að taka WIM-HOF öndun fyrir mitt fyrsta sund, sést ennþá í hvítu klettana í Dover og ég ennþá með sjóveikisplásturinn sem fór af í fyrsta sundspretti.

FYRSTI SUNDSPRETTUR
Ég tók GU Roctane gel um 15 mín áður en ég fór út í, tók smá Wim-Hof öndun og svo henti ég mér bara í þetta. skv. Strava fór ég út klukkan 08:52. Sundið gekk vel, mér leið vel í öldunni, hugsaði bara um það sem Ásgeir kenndi mér á sínum tíma að vera eins og tréplanki. Mér var ekki kalt og ég ákvað að anda í 4-6 hvert skipti í staðinn fyrir 2 hvert skipti, til að auka hraðann hjá mér, því öndunin hægir á manni, auk þess sem aldan var að aukast. Mér leið mjög vel allan tímann og fannst gott að heyra úrið pípa eftir 1 km, sá svo 30 mín merkið, heyrði aftur píp eftir 2 km og svo fékk ég seinni merkin.

Ég á mínum fyrsta sundspretti, sést í hvítu klettana í Dover. Andaði 4-6 hvert skiptið og alltaf til hægri, sem var gott þá sá ég alltaf í bátinn og hélt mig í hæfilegri fjarlægð frá honum, en hann stýrði stefnunni.

Sundið gekk vel og ég var bara í góðum gír. Man ég hugsaði að ég gæti nú alveg verið í 1 klst, þegar Sigrún synti „sóló“ sundið var hún ein ofan í allan tímann í sjónum í 22 klst. Ég var líka mjög ánægð að hafa náð nokkrum 1 klst úthalds-sundæfingum í sundlauginni heima áður en ég fór út. Þessi eina klukkustund var síðan mjög fljót að líða, en ég synti 2.853 metra á 1 klst 1 mín og 17 sek skv. Strava sem var bara fínt út á sjó í öldugangi.

Mér leið mjög vel eftir fyrsta sundsprettinn. Var þarna bara komin á bikiníbrjóstahaldarann, söng og var í banastuði. Þarna er Brynhildur að synda og þá að klára fyrsta hring og Silla að gera sig klára fyrir sundsprett tvö.
Græna tjaldið var salernis-tjaldið okkar.

Þá var að sjá hvernig mér gengi að hlýja mér eftir sundið en það gekk ótrúlega vel. Fór strax úr sundbolnum og í hlý ullarföt og drakk hlýja sítrónuteið, sem var orðinn fastur liður hjá mér eftir sjóæfingar, eins og 2 klst æfinguna, Viðeyarsundið og æfingasundið í Skerjarfirðinum, sem við syntum heiman frá Birnu, en hún kom mér á lagið með þetta frábæra sítrónute. Fékk mér smá að borða og fór í flíspeysuna og setti á mig húfu. Ég kom sjálfri mér á óvart, að mér liði ekki verr og var bara nokkuð fljót að ná mér. Fór fljótlega á bikiní-brjóstahaldarann og fór bara að tana og spila og syngja með Spotify.

Þórey frænka setti þetta á Instagram …. 🙂 🙂

Þarna var ég ennþá vel klædd að hlýja mér eftir sundið … en í banastuði eftir fystu ferðina.
Hengirúmið var algjör snilld, þó ég hafi bara notað það einu sinni eftir fyrsta sundsprettinn, því svo fór að hvessa og „brælast“.
Brynhildur og Róbert komu með það með sér að heiman.
Við Silla saman í banastuði, en hún var næst út á Viðeyjar-sundbolnum. Þetta var svo vel skipulögð ferð að það var plan fyrir allt, eins og t.d. röðun sundbola. Við byrjuðum á nýjasta sundbolnum, ferð tvö var í Viðeyjarsundbolnum og ferð þrjú í Forseta- eða fyrsta sundbolnum okkar.

SUNDFERÐ NÚMER TVÖ GRJÓTHÖRÐ OG JÁKVÆÐ
Ég fór aftur í sjóinn í aðra sundferð klukkan 14:52 samkvæmt Strava. Sólin var farin, en Silla hafði náð smá sól framan af sinni ferð, en síðan dró fyrir sólu. Ég auðvitað spurði hana þegar hún kom upp hvort það hefði ekki verið kalt, en hún sagði að henni hefði verið aðeins kalt í lokin þar sem sólin var farin.

Tilbúin í sundsprett númer tvö, grjóhörð og jákvæð eins og Gréta sagði.

Mér var samt ekki svo kalt þegar ég fór út í, gerði samt ekki sömu mistökin og í ferð 2 að fara ekki á klósettið áður en ég fór út í. Hélt nefnilega að ég myndi ná að pissa strax og ég kæmi ofan í sjóinn, en það var ekki svo gott. Þannig að í fyrstu sundferðinni var mér mál allan tímann, en gaf mér ekki tíma til þess, fyrr en ég var komin aftur í bátinn sem er ekki góð tilfinning. Salernið á bátnum, var svona ferðaklósett sem var búið að setja grænt tjald í kringum á þilfarinu.

Sundið gekk mjög vel. Ég reyndi að hugsa ekki um kuldann, eina sem ég hugsaði var að ég er grjóthörð og jákvæð. Það er mantra sem ég tók upp þegar ég byrjaði að synda í sjónum í sundbol í lok maí. Mantran er komin frá góðum vini sem sagði mér að ég væri grjóthörð og jákvæð. Hann átti þá við utanvegahlaupin. Ég hins vegar ákvað að nota þessa möntru mér til hvatningar við það sem ég óttaðist mest, í sjósundæfingum í allt sumar, sem var kuldinn.
Náði að synda 2.693 metra á 1 klst og 49 sek skv. Strava. Það var samt kaldara að koma upp eftir ferð tvö, þar sem sólin var farin, og báturinn farinn að vagga verulega. Man eftir því að hafa horft í sundinu stundum á bátinn, eiginlega alveg á hlið, svo mikil var aldan. Man líka eftir því hvað ég var glöð að horfa alltaf á íslenska fánann á bátnum, það gerði mig svo stolta og svo vissi ég af öllum sem voru heima að hvetja okkur og fylgjast með okkur, það veitti mér líka auka orku. Sjá meira um upplifunina í myndbrotum hér að neðan.

Það var aðeins farið að kólna og aldan farin að frussa … en ég var samt alltaf glöð … erum hér orðnar aðeins meiri klæddar og Brynhildur að undirbúa sig fyrir sinn annan sundsprett. Silla heldur á SÍTRÓNUTE-dunkinum. Sá sem hélt á tedunkinum átti vaktina og mátti aldrei taka augun af sundmanninum. Mjög flott kerfi hjá okkur.
Í plastpokunum, er maturinn okkar sem við keyptum í matarbúðinni fyrir ferðina.
Róbert fangaði stemninguna eftir að við Sigrún og Silla vorum búnar að sunda ferð númer tvö.
Brynhidur að undirbúa sig fyrir ferð tvö með Wim-Hof öndun, ég að syngja og Sigrún orðin smá sjóveik.

SUNDFERÐ NÚMER ÞRJÚ
Þegar Silla lagði af stað í sundferð þrjú, var ljóst að hún myndi lenda í myrkri, enda klukkan um 19:50, svo það var sett ljósastika í sundhettuna hennar.

Sigrúnu og Þórey leið ekki mjög vel, þar sem þær höfðu báðar dottið um borð. Sigrún lenti á olnboganum þegar hún kom upp eftir ferð tvö og Þórey lenti með höfuðið (sem betur fer ennþá með sundgleraugun sem minnkuðu höggið), en beint á járnhandriðið á bátnum. Silla kom okkur inn í „Grafreit draumanna“ eða „Dauðamíluna“ og synti mjög vel í mikilli öldu, en hún var orðin mjög köld þegar hún kom aftur um borð og komin ógleði yfir hana.

Ég hjálpaði henni að fara úr sundbolnum og í ullarföt, þar sem hún var ísköld eftir volkið, sem hjálpaði mér ekki andlega við að fara út í þriðja skiptið. Ég reyndi að hvetja Sigrúnu til að klára sundið, svo ég þyrfti ekki að fara í þriðju ferðina. Samkvæmt okkar uplýsingum voru um 3 km eftir. Sigrún náði því miður ekki að klára, þar sem hún eins og hún sagði sjálf frá festist allan tímann í dauðamílunni, enda kom svo í ljós síðar að hún var með brákaðan olnboga, magnað að fara samt út og synda. Skipstjórarnir voru á því að við yrðum þarna örugglega í einhverjar klukkustundir og við myndum pottþétt ekki ná fluginu heim um morguninn.

Skilaboðin sem ég fékk frá Róberti var að ég yrði að fara ofan í sjóinn og gefa allt í þetta og koma okkur út úr þessari dauðamílu. Þetta væri bara rétt rúmlega 1 km og ég ætti að ná þessu á 20 mínútum ef ég bara gæfi allt í þetta. Ég var tilbún, grjóthörð, jákvæð og ekki sjóveik. Ég spurði samt Birnu hvort hún vildi ekki klára og koma að landi í Frakklandi. Birna sagði ,,Nei, Halldóra þú bara klárar þetta“. Það var því ekkert annað að gera, en að skella sér í sjóinn með möntruna, grjóthörð og jákvæð og setja allan kraft sem ég hafði í sundið. Ég vissi að ég gæti synt hratt og komið mér út úr öldunni, með því að setja auka kraft og nota líka fæturna og komast þannig í gegnum öldurnar.

Þegar ég fer ofan í klukkan 21:48 (skv. Strava) er komið kolniðarmyrkur og ég var með ljós á sundhettunni. Ég sá bátinn og höfuðljósin á stelpunum. Ljósið á höfðinu á Brynhildi var mjög sterkt, en það var eina sem ég sá og blindaði mig svolítið. Eftir að hafa gefið allt í þetta sund, sett kraft í fæturna og synt áfram í um 20 mín heyrði ég píp á úrinu mínu og vissi þá að ég væri búin með ca1 km og það hafði gengið ótrúlega vel í öldunum og myrkrinu. Stuttu seinna heyrði ég mikil fagnaðarlæti og klapp frá þeim í bátnum, en heyrði ekki hvað þau voru að segja, datt helst í hug að þau væru að láta mig vita að við værum laus úr dauðamílunni og þá væri bara stutt eftir. Ég heyrði ekki neitt, enda með Speedo skrúfur í eyrunum, svo ég sagði bara: ,,Ég heyri ekki neitt, ég held bara áfram“, sem ég og gerði.

Stuttu seinna lenti ég í hræðilegu marglyttupartýi. Skyndilega var allt morandi í marglyttum í kringum mig sem ég hafði auðvitað ekki séð í myrkrinu, en fann bara þegar ég kom við þær og sé þær svo þegar ég kom nær þeim. Ég öskraði að það væri allt í marglyttum, heyrði að stelpurnar sögðu Halldóra þú ert grjóthörð og ég sagði já ég er grjóthörð og hélt sundinu áfram. Ákvað að synda nær bátnum, datt í hug að öldurnar frá honum, myndu fæla þær í burtu

Stuttu síðar stöðvaðist báturinn og ég hélt fyrst áfram, fyrir framan hann, en mundi ég mátti ekkert fara á undan honum í svartamyrkrinu enda sá ég ekki neitt, svo ég hægði á mér og synti smá bringusund. Svo heyrði ég stelpurnar kalla að ég ætti að fara á eftir gúmmíbátnum, sem hafði tekið vinstri beygju, svo ég elti hann. Sá auðvitað ekki neitt nema höfuðljósinn á þeim sem voru í bátnum.
Eftir þó nokkra siglingu stöðvuðu þeir og spurðu hvort ég væri farin að botna, sem ég var ekki, en þeir stöðvuðu gúmmíbátinn alveg og sögðu mér að halda áfram og lýstu bara á undan mér. Ég synti svo bara áfram þar til ég var komin á fast, þ.e. á land í Frakklandi. Var sem betur fer á mjúkri sandströnd, þar sem ég sá ekki neitt í kolniðamyrkri. Eftir að ég fann botninn þá gekk ég, þar til ég var alveg komin á þurrt. Ég var algjörlega ein þarna, sá ekkert, en setti hendurnar uppí loft eins og Silla hafði gert þegar hún lagði af stað. Synti svo strax til baka í gúmmíbátinn þar sem strákarnir Tommi og Pétur Jr kipptu mér um borð.
Við sigldum svo á gúmmíbátnum að Rowenu þar sem ég fékk frábærar móttökur. En ég synti tæpa 4 km á 1 klst og 12 mín samtals, með tímanum sem ég fór til baka í bátinn. (4.062 km 1:12:36), skv. Strava (smá skekkja þar sem ég slökkti ekki alveg strax, en er ca).

Það voru stórkostlegar móttökur sem ég fékk frá liðinu þegar ég kom til baka í bátinn. Við Marglytturnar vorum ekkert smá stoltar af okkur að hafa klárað þetta, enda um frábært lið að ræða, sem stóð sig stórkostlega. Við höfðum synt um 49 km leið á nákvæmlega 15 klukkustundum sléttum.

ÉG ER KOMIN HEIM OG LEIÐIN HEIM
Stelpurnar skáluðu svo í kampavíni þegar ég kom um borð, en innihald flöskunnar fór að mestu á þilfarið, þar sem báturinn vaggaði mikið og þær höfðu ekki mikla lyst á innihaldinu í öldunni og sjóveikinni.
Framundan var hraðferð til baka, um 2,5 klst leið. Klósettið var tekið niður og við færðum okkur allar á hægri hlið bátsins, þar sem það flæddi inn á bátinn núna vinstra megin þ.e. á leiðinni til baka, en flætt hafði inn hinum megin þ.e. hægra megin á sundinu okkar á leið til Frakklands.

Ég var sjálf mjög hátt uppi, var alls ekki sjóveik, hafði sem betur fer ekkert orðið sjóveik allan daginn. Ég hafði sett á mig sjóveikisplástur þegar við ætluðum að fara út aðfararnótt föstudagsins og var með hann á mér, enda á hann að duga í 72 klst. Hann datt svo af bæði mér og Sillu í fyrsta sundinu okkar, en það kom greinilega ekki að sök hjá mér.
Þannig að þegar ég kom um borð í banastuði, búin að koma mér í þurr og hlý föt, þá var kveikt á SPOTIFY og hátalaranum mínum og spilað og sungið, Ég er komin heim og Þessi fallegi dagur og fleiri góð lög. Bróðir minn sagði mér reyndar eftir að ég kom heim, að þeir sem ekki þekkja mig, héldu örugglega að ég væri orðin ofurölvi, ha ha ha, þeir sem þekkja mig vita auðvitað betur þ.e. að ég drekk ekki áfengi, svo ég var bara ölvuð af gleði, sjá FB Live myndband hér að neðan.

Það voru allir sem sofnuðu á leiðinni heim, nema ég, en ég náði að leggja mig smá í rútunni sem beið okkur þegar við komum í höfnina.

Þegar við komum í höfn, rúmlega eitt eftir miðnætti, þá beið okkur leigubíll. Framundan var um 3 klst akstur til London Luton flugvallar, þar sem við áttum bókað flug heim með EasyJet klukkan 06:00. Við vissum að við yrðum tæp að ná þessu flugi, en létum reyna á þetta. Því var bara að hlaupa inn á hótel, sækja ferðatöskuna (ég var búin að pakka niður áður en ég fór um nóttina) og svo út í leigubíl. Ég var reyndar ótrúlega heppin að Soffía yndislegi herbergisfélaginn minn og stórkostlega PR Marglyttan var búin að láta renna í heitt bað, svo ég henti mér í 1 mín í bað og upp úr í hrein föt. Held að allir aðrir hafi bara skipt um föt og út í bíl, svo við vorum með Ermarsundssjóinn með okkur í fluginu heim.

Til að gera langa sögu stutta þá náðum við að vera komin á flugvöllinn í Luton til að tékka okkur inn og náðum fluginu heim til Íslands klukkan 06:15. Vorum lent heima klukkan 08:30 og ég var mætt í vinnu klukkan 11:00.

ÞAKKIR
Þetta ferðalag var ævintýri líkast. Mér er efst í huga þakklæti fyrir allar fallegu kveðjurnar og hvatninguna sem við Marglytturnar fengum en markmiðið með Ermarsundsboðsundinu okkar var að vekja athygli á mengun og þá sérstaklega plastmengun í hafinu og safna áheitum til að styrkja Bláa herinn.

Það er alls ekki sjálfsagt að ná að leggja af stað í svona ferðalag. Það fengum við að upplifa þar sem við biðum lengi af okkur brælu og það var fyrir mig pesónulega það erfiðasta við þessa frábæru ferð. Það er heldur alls ekki sjálfsagt að klára þetta erfiða sund, sem er oft kallað Everst sjósundsins, þar sem það getur margt komið uppá, eins og mikil alda, sjóveiki og byltur og við upplifðum það allt saman.

Auk þess að klára þá þrekraun að synda yfir Ermarsundið þá var það sannarlega gleðilegt að ná að hafa áhrif á umræðuna um plastmengun í sjó og vekja athygli á starfi Bláa hersins sem hefur hreinsað strandlengjur landsins í 24 ár. Það er svo mikilvægt fyrir lífríkið í sjónum og okkur jarðarbúa að sjórinn sé hreinn
Ég hef sjaldan eða aldrei fundið eins mikla hvatningu og stuðning, var mjög lengi að lesa allar fallegu kveðjurnar frá ykkur.

Marglyttuteymið allt var algjörlega einstakt, EIN FYRIR ALLA OG ALLAR FYRIR EINA og stuðningsliðið okkar var algjörlega einstakt.

Takk elsku bestu kæru vinir fyrir samveruna og takk kæru allir sem studdu okkur bæði andlega og fjárhagslega fyrir stuðninginn. #eimskip #houdinisportswearIceland #speedoIceland

Marglyttuliðið kvöldið fyrir Ermasundið.

You may also like

Leave a Comment