ITU Grand Final ólympísk þríþraut

by Halldóra

Í ITU Grand Final keppnum er sundið ræst út eftir kyni og aldursflokkum. Yngsti hópurinn er ræstur út fyrst um morguninn, svo Sædís og Dagný voru ræstar út fyrstar og þurftu að mæta fyrstar niður eftir. Hitastigið á Genfar vatninu var 23 gráður, svo það mátti ekki keppa í „wet-suit“ eða sundgalla. Hafdís var líka ræst út á undan okkur og tók strætó á undan okkur í bæinn.

Við (Gúa, Hildur, Leifur, Finnbogi og Óskar, ásamt Gerði) tókum strætó saman klukkan rúmlega 07:00 eða tveim tímum fyrir ræsingu. Við þurftum fyrst að fara að skiptisvæðinu þ.e. hjólinu okkar, þó við hefðum skilið það eftir, til að setja vatn á brúsann, pumpa í hjólin og koma á það næringu. Átti líka eftir að skilja eftir hjálminn og bæði hjóla- og hlaupaskóna, númerabeltið og derhúfuna fyrir hlaupið.

Það var skemmtileg tilviljun að við sáum Sædísi koma upp úr sjónum og hlaupa að T1 og hún leit mjög vel út. Veðrið var líka svo súper gott, ekki of mikil sól og ekki of heitt.

Við gengum svo að sundsvæðinu sem var í um 1 km fjarlægð og fórum inn í hólfið og í klósettröðina. Hildur var svo fyrst af okkur, síðan Leifur og svo við Gúa og að lokum Finnbogi og Óskar.

SUND: 36 mín og 7 sek
Aldursflokkurinn minn (Konur 50-54 ára) voru með bláar sundhettur og við vorum ræstar klukkan 09:20. Ég hafði ákveðið að hita ekkert upp áður, nema bara með teygju upphitun, svo mér yrði ekki kalt áður en ég færi út í. Sundið gekk mjög vel, en það sem kom mest á óvart var hversu mikil alda var í sjónum. Gúa hafði reyndar nefnt það við mig áður en við fórum út í, en ég hélt þetta væri ekki neitt. Sundið er einn 1,5 km hringur og fyrst er synt beint út, komið að rauðri bauju, þar sem maður beygir til vinstri. Ég hugsaði með mér að eftir baujuna myndi þetta skána, en nei, aldan hélt áfram og var ekkert skárri. Við tók langur kafli fram hjá hvítri bauju, svo aftur að annarri rauðri. Maður átti að hafa rauðu baugjuna vinstra megin við sig, og hvítu baugjuna hægra megin. Eftir næstu rauðu, þá kom önnur vinstri beygja, svo beinn kafli, önnur rauð og beygt til vinstri. Þar var hvít baugja sem maður átti að hafa hægra megin við sig, en við höfðum séð keppendur taka short-cut þar. En núna var komin kajak ræðari, svo það gat enginn stytt sér leið þar í gegn.

Eftir síðustu hvítu baugjuna var appelsínugult mark framundan og sundið búið. Leið samt alveg vel og nokkuð ánægð með tímann 36 mín og 7 sek – en ég synti líka 1.683 metra (ekki 1500 M) (2:08/100 metra).

T1: 3 mín 40 sek. Vegalengdin í T1 var um 550 metrar, þ.e. frá sundinu, að hjólinu og með hjólið út. Hjólið mitt var staðsett á milli F og G rekka og ég sem betur fer fann það strax. Þrátt fyrir að þetta væri bara ólympísk vegalengd, þá vildi ég fara í sokka, svo ég fengi ekki sár á fæturna fyrir Ermasundið. Þar sem ekki var synt í wet-suit var maður bara fljótur að klæða sig í sokka og skó, festa á sig hjálminn og taka svo hjólið af rekkanum og hlaupa með það út fyrir svæðið og út fyrir línuna, þar sem þú mátt fara á hjólið. En ég viðurkenni að ég hljóp nú ekkert hratt með hjólið smá sýra ennþá í fótunum eftir maraþonið síðustu helgi.

HJÓL: 1 klst 26 mín 01 sek. Ég vissi að hjólaleiðin væri erfið, en vegalengdin er 40 km, þ.e. tveir 20 km hringir. Við vorum búin að fara mestan hluta af leiðinni og vissum að það væri brött brekka sem var með um 7% halla upp. Í hjólabrautinni var líka hræðilega brekka niður sem var með um 12% halla. Þegar við fórum og fylgdumst með sprettþrautinni og Tómasi í gær, þá voru bara 5 hjólarar sem fóru á vegginn, þar sem þeir fóru allt of hratt niður þessa brekku. Við vorum öll ákveðin í því að lenda ekki í því.

Hjólaleggurinn byrjar upp brekku hjá Mövenpick hótelinu, þessi 7% halli og ég fann að ég var með sýru í lærunum, svo ég fór ekki hratt upp brekkuna, en ég alla vega gekk hana ekki. Sá svolítið eftir að hafa ekki farið út frekar með racerinn minn, heldur en TT hjólið, því hann er bæði með léttari kassettu og rafmagnsskiptum og það hefði hentað mun betur. En þetta hafðist. Svo tók smá sléttur kafli og niður aðra brekku, snúningur á hringtorgi og aftur upp brekku, sem var ekki eins brött en löng og aflíðandi. Ég tók eitt gel á leiðinni upp þessa brekku og fann strax hvernig orkan skilaði sér í líkamann. Svo var komið að því að fara niður bröttu brekkuna og ég bara fór strax á bremsurnar – ætlaði sko ekki að hitta „VEGGINN“. Við lékum okkur skemmtilega að þessum orðaleikjum, eins og að hitta vegginn, að dansa á línunni, þegar við fylgdumst með sprettþrautinni í gær, þar sem næstum allir Mexíkanarnir hlíddu ekki skipunum að fara af hjólinu áður en þeir komu að línunni, þegar þeir hlaupa með hjólið inn í T2. Þeir dönsuðu ekki á línunni, heldur fóru eiginlega alltaf yfir hana.

Brekkan niður gekk vel hjá mér og svo tók við smá beinn kafli, svo reyndar nokkrar krappar beygjur, til vinstri og til hægri og svo tekin undirgöng og farið í gegnum garðinn, aftur mjög bratta brekku, sem við vorum ekki búin að hjóla. Þá var ekkert annað að gera, en að standa bara hjólið og koma sér upp þessa bröttu brekku. Það hafðist líka og svo var hægri beygja og aftur snúningur til baka og þá kom langur hraður kafli frekar mikið niður. Sá ég náði þar hámarkshraða yfir 50 km á klst. Hugsaði alveg með mér, að ég myndi ekki vilja detta eða að það myndi springja hjá mér núna 🙂 En síðan hjóluðum við fram hjá hótelinu okkar og áfram í austur. Við höfðum farið þennan kafla tvisvar áður sem var gott og þarna hittum við Tómas og Mæju sem hvöttu mig áfram, sem var mjög gaman. Svo var snúið við, smá brekka upp og síðan langur beinn kafli, áður en við þurftum að fara nokkrar beygjur og hæga kafla niður í bæinn aftur og þá búin með fyrri hringinn.

Síðari hringurinn gekk mjög vel, nema þegar ég kom að hraða hraða kaflanum, sem ég hafði náð 50 km hámarkshraða þá fékk ég flugu í augað, var ekki búin að setja skyggnið fyrir augun og það var mjög óþægilegt að berjast við hana og reyna að ná henni úr auganu á mér, en hafðist að lokum.

T2: 3 mín 16 sek.
Ég passaði mig vel þegar kom að línunni, að fara ekki yfir hana eins og Mexíkanarnir höfðu gert í gær 🙂 Hljóp svo á hjólaskónum með hjólið að rekkanum mínum, hengdi upp hjólið, losaði hjálminn, fór úr hjólaskónum og í hlaupaskóna og setti á mig númerabeltið og derhúfuna og greip tvö gel sem lágu hjá skónum. Velti fyrir mér hvort ég ætti að drekka RedBull dósina sem ég var með, en ákvað svo að gera það ekki 🙂

HLAUP: 55 mín og 59 sek.
Það var orðið frekar heitt þegar ég hljóp af stað, sólin skein og ég var fegin að hafa tekið derhúfuna hvítu. Meðalhitastig í hlaupinu voru 27°C. Það voru drykkjarstöðvar á 2 km fresti og ég tók alltaf fullt glas af vatni og helti yfir derhúfuna mína og yfir mig sjálfa. Það voru miklar brekkur í hlaupinu, ég vissi af brekkunni sem var mjög brött við hliðna á Ólympíusafninu, en vissi ekki af hinum tveimur 🙂 Notaði tímann þegar ég gekk upp brekkuna að fá mér gel, og drakk svo bara vatn með. Það voru ótrúlega margir sem hvöttu mann áfram, sáu ISL og kölluðu áfram Ísland. Hitti líka nokkra vini mína úr þríþrautarsamfélaginu sem hvöttu mig áfram.
Hlaupaleiðin voru tveir 5 km hringir (5,2+4,8 km) og þrjár brekkur í hvorum hring. En falleg og skemmtileg leið.

LOKATÍMI: 3 klst 5 mín og 4 sek.
Ég var með úrið stillt á þríþrautarstillingu, svo ég var ekkert að spá í tímanum. Var búin að ákveða fyrir keppnina að vera skynsöm og passa að taka ekki of mikið úr mér, þar sem Ermasundið er áætlað bara rétt rúmum tveim dögum eftir þríþrautina. Það var yndislegt að sjá stelpurnar Sædísi, Hafdísi og Dagnýju hvetja mig áður en maður hljóp inn á bláa dregilinn í markið. Að sjálfsögðu tók ég Haddýjar hoppið í markinu. Lokatími 3 klst 5 mín og 4 sek.
(60 kona í aldursflokki kvk 50-54 ára)

ÞAKKIR
Kæru ferðafélagar takk fyrir yndislegar og skemmtilegar samverustundur í Lausanne. Innilega til hamingju öll með ykkar frábæra árangur. Gaman að kynnast ykkur öllum og hópurinn var einstaklega vel samstilttur.
Það var virkilega leiðinlegt að Guðlaug Edda náði ekki að klára, því það var mjög gaman að hvetja hana, bæði á hjóla- og hlaupaleggnum. Svo biðum við Hildur lengi eftir henni við markið með fánann.

You may also like

Leave a Comment