Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

      apríl 29, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

      apríl 28, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

      apríl 26, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D2 föstudagur 25. apríl 2025

      apríl 25, 2025

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      ITRA HLAUP FRÁ 2011-2024

      júlí 31, 2024

      Fjallahlaup

      TMR D8 Ferðadagur

      ágúst 4, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D7

      ágúst 3, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D6

      ágúst 2, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D5

      ágúst 1, 2023

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Íþróttaferilskrá eftir árum frá 2011

      júlí 31, 2024

      Keppnissaga

      Vasavikan 2024

      mars 6, 2024

      Keppnissaga

      New York City maraþon 2023

      nóvember 5, 2023

      Keppnissaga

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Keppnissaga

      Berlínarmaraþon 2022

      september 26, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
  • Heim
  • Daglegt líf
    • Daglegt líf

      Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

      apríl 29, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

      apríl 28, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

      apríl 27, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

      apríl 26, 2025

      Daglegt líf

      Grænland D2 föstudagur 25. apríl 2025

      apríl 25, 2025

  • Fjallahlaup
    • Fjallahlaup

      ITRA HLAUP FRÁ 2011-2024

      júlí 31, 2024

      Fjallahlaup

      TMR D8 Ferðadagur

      ágúst 4, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D7

      ágúst 3, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D6

      ágúst 2, 2023

      Fjallahlaup

      TMR D5

      ágúst 1, 2023

  • Keppnissaga
    • Keppnissaga

      Íþróttaferilskrá eftir árum frá 2011

      júlí 31, 2024

      Keppnissaga

      Vasavikan 2024

      mars 6, 2024

      Keppnissaga

      New York City maraþon 2023

      nóvember 5, 2023

      Keppnissaga

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Keppnissaga

      Berlínarmaraþon 2022

      september 26, 2022

  • Þríþraut
    • Þríþraut

      Ironman Italy 2023 16.09.2023

      október 16, 2023

      Þríþraut

      Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

      maí 9, 2021

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut Relive

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      Bláfjallaþríþraut 2020

      maí 10, 2020

      Þríþraut

      50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

      desember 31, 2019

Category:

Þríþraut

Daglegt lífKeppnissagaÞríþraut

Ironman Italy 2023 16.09.2023

by Halldóra október 16, 2023

UNDIRBÚNINGUR
Hótelið okkar Sportur Club var á svo frábærum stað, eiginlega beint á móti markinu og mitt á milli skiptisvæðisins (T1/T2) og sundræsingar.  Við vöknuðum auðvitað eldsnemma og fórum í morgunmat og eftir morgunmat fórum við að hjólinu okkar þar sem settum vatn á brúsana og komum fyrir gelum og þeirri orku sem við ætluðum að taka inn. Ég var í smá vafa hvort ég ætti að pumpa eða ekki í hjólið, ég er alltaf smá stressuð að eiga við það rétt fyrir keppni, ef svo allt loftið myndi fara úr því, svo ég fékk aðstoð hjá Sverri við að pumpa, en fegin að hafa pumpað, því það var mjög lítið loft í dekkinu að framan.  En setti samt alls ekki of mikið. 

Tilbúin í keppnina með besta mínum <3

SUND 1.800 m 1:26:52 (2:17 min/100m)
Elite eða Prohópurinn var ræstur klukkan 07.30  Við hin klukkan 08.00.  Ég kom mér fyrir í ráshóp sem áætlaði 1 klst 15 mín til 20 mín í sundið, þ.e. 3,8 km . Það eru komin fimm ár síðan ég tók síðast þátt í Ironman og þá í Texas, svo það hefur mikið breyst síðan þá. Nú eru komin svona hlið, þar sem sex eða sjö manns eru ræstir í einu í gegnum hlið á 10 sek. fresti sem var ekki síðast. Því er mun minna kraðak í sundinu sem er gott, en á móti kemur þá er betra að vera í réttum ráshóp. Það er erfitt að „drafta“ hanga í kjölsoginu á næsta sundmanni ef það eru fáir og allir miklu hraðari en þú. Svo í næstu IM keppni ætla ég að vera frekar í 1:20-1:25 ráshópnum, því ég náði ekkert að drafta núna í sundinu sem ég hef yfirleitt alltaf náð að gera sem léttir sundið verulega. Á móti kemur voru miklu minni slagsmál og barátta á sundleggnum öllum. 

Sundið í IM Texas er bara einn hringur, svo maður syndir fyrst beint út, tekur svo hægri beygju og syndir langt, langt eftir ströndinni. Rauðar baujur eru alltaf hægra megin við þig, sem hentar mér vel þar sem ég anda alltaf hægra megin.  Við beygjur þá voru baujurnar GULAR og þríhyrntar en ekki kúlur eins og þessar rauðu.  Mér fannst sundið til baka, vera heil eilífð, hafði gleymt að telja hversu margar rauðar baujur voru á leiðinni sem hefði verið mjög sniðugt, því þá hefði ég getað talið þær að beygjunni.  Svo kom loksins gul þríhyrnt bauja og þá synti maður til baka og áfram rauðar kúlur/baujur á hægri hönd.  Þarna var ég farin að fá krampa í hægra fótinn, hægri kálfa niður í tvær tær. Fóturinn festist alveg og frekar erfitt að synda, en ég var búin að upplifa þetta á sundæfingum og æfa mig að synda með þennan krampa svo þær æfingar komu sér vel.  Það er MJÖG GAMALT brjósklos á milli 4 og 5 hægra megin, sem er að hafa þessi áhrif.  En þetta stoppaði mig ekki neitt.  Ég stoppaði einu sinni og tróð marvaðann, til að minnka móðu á gleraugunum þar sem ég var farin að sjá takmarkað.

Komin upp úr sjónum .. sá hvorki né heyrði í Óla 😉

„Overall“ leið mér vel í sundinu og alls ekkert ósátt við það, en hefði kannski alveg verð til í að synda án galla því sjórinn var mjög heitur.  Bara svona pælingar fyrir mig ef ég fer aftur 😉

T1 skiptitími 10 mín 16 sek
Hljóp bara rólega upp úr sjónum, tók af mér úrið, til að losa gallann á leiðinu upp úr, fór rólega í gegnum sturtuna sem er á leiðinni.  Settist svo niður við hjólapokann minn T1 (blár), fór úr gallanum, klæddi mig í sokka og í hjólaskó, fékk mér kóksopa, setti upp hjálminn og henti öllu sund dótinu í bláa pokann og restinni af kókflöskunni.  Fór svo á klósetið á leiðinni að hjólinu. Þetta skiptisvæði er það lengsta sem ég hef séð/upplifað í IM keppni, enda er líka pláss fyrir öll hjólin sem eru í ½ IM daginn eftir.

HJÓL 180 km 6:36:19 (27,25 km/klst)
Leið mjög vel þegar ég byrjaði að hjóla, hafði ekki gleymt neinu á skiptisvæðinu og það var mjög gott að komast á klósettið að pissa þar sem ég bara gat ekki pissað í gallann og í sjóinn ha ha ha þó ég hafi reynt það. 

Hjólaleiðin er út úr bænum og svo upp á hraðbraut, þar sem hjólað er í austurátt þar sem er snúningspunktur og hjólað til baka í vestur.   Ákvað fyrir þessa IronMan keppni að fara „back to basic“ þar sem ég hafði ekki náð að æfa skipulega fyrir þessa keppni, búin að vera í ýmsu öðru þetta sumarið eins og Everest maraþoni, Vasa Ultra keppnum og Team Rynekby ferðalagi. Allt samt skemmtilegar æfingar sem skila sér að sjálfsögðu í þríþrautina, án skipulags ;-). Því skildi ég TT hjólið mitt, djúpar gjarðir og powermæli eftir heima, enda tæp í baki og ekki æfð á TT hjólið.  Fór því á gamla TREK racernum mínum, með púlsmæli og grynnri gjarðir og engan powermæli.  Markmiðið var því bara að passa púlsinn og hjóla eftir líðan.  Það gekk mjög vel og ég var með ágætis næringarplan, með frábæra BioTech Energy Pro GELIÐ mitt frá Bætiefnabúllunni og með Enervit gummí/gel kubba frá því í Vasa í sumar.  

Ég var ekki komin að snúningspunktinum (sem er eftir 35 km) þegar ég fann að það var eitthvað skrítið í gel-kubbnum mínum, það er eitthvað hart í mjúka gúmmíinu.  Komst svo að því að ég var búin að missa „krónu“ (tönn) sem sat föst í gelinu. Varð því að taka gúmmíið í heild sinni úr munninum og setja það ofan í næringartöskuna á hjólinu.  Það hægðist aðeins á mér við þessa uppgötvun, sónaði svolítið út ha ha ha og var svolítið upptekin af þessu, hvort það kæmi verkur í tönnina eða hvernig þetta yrði.  Gat þar að auki ekki hugsað mér að borða fleiri svona gúmmíkubba, svo ég hélt mér við fljótandi gelin. 

Rétt áður en komið er að hinum snúningspunktinum sem er í suðvestur, þá tekur við mjög brött brekka (eftir um 69 km), sem tók vel á. Ég hafði hvorki hjólað né keyrt þessa brekku áður, hafði samt heyrt um hana og fengið ráð að taka ekki of mikið úr mér og var því mjög spennt að sjá hversu löng og brött hún yrði.  Á þessum tímapunkti var ég mjög ánægð að vera með GARMIN EDGE 1040 hjólatölvuna á hjólinu (ok kannski ekki alveg back to basic) en hún sýndi mér nákvæman halla á brekkunni og sýndi hvað væri mikið eftir, semhjálpaði andlega.  Kosturinn við brekkur eru að þegar maður er kominn „upp“ á toppinn þá er yfirleitt alltaf brekka „niður“ hinum megin, sem var mjög skemmtilegt að láta sig vaða.

Það kom mér á óvart þegar ég mætti hröðustu hjólurunum, hversu þétt þeir hjóluðu, því ég og allir í kringum mig pössuðu vel upp á 12 metra bilið. Fannst samt eftirlitið mjög gott, ég varð vör við að þeir stoppuðu þó nokkra. Því fyrir þá sem ekki þekkja þá má ekki „drafta“ eða hanga aftan í næsta hjólara, og bilið á milli hjólara verður að vera um 12 metrar.

Þegar ég var svo búin með um 107 km (rétt búin með snúningspunktinn aftur í norðri sem var við 105 km) þá lendi ég í því að viðgerðarsettið mitt, sem ég var með í brúsa í brúsafestingu aftan á hnakknum, poppaði upp úr standinum og út um alla götu. Ég hugsaði ég verð að stoppa ég get ekki skilið þetta eftir. Svo ég stoppa, reiði hjólið til baka og fer svo að leita að þessu dóti út um allt, var bæði á veginum og úti í kanti. Brúsinn opnaðist og tvö gashylki og pumpa hafði skoppð úr brúsanum, en sem betur fer fann ég allt dótið mitt aftur.  Ástæðan fyrir þessu voru miklar holur sem voru víða á hraðbrautinni, en vegurinn var mjög ójafn og bumpy 😊 Eftir á hugsaði ég hvað í raun það var gott að standa upp og fara af hjólinu, því við höfðum t.d. alltaf gert það reglulega á Rynkeby ferðalaginu og það skiptir miklu máli og þá sérstaklega fyrir bakveika að teygja aðeins úr sér.

Áður en ég kom svo að því að taka bröttu brekkuna í síðara skiptið þá komin með 139 km, þá peppaði ég sjálfa mig upp. Notaði möntruna mína „ég er grjóthörð og jákvæð“ og hugsaði að sá sem klárar „Mur De Hoy“ vegginn í Belgíu, án þess að ganga brekkunar upp, á að að geta hjólað þetta, þó ég væri að sjálfsögðu orðin þreytt, „tannlaus“ og búin með um 140 km 😉
Mantran virkaði og ég náði að komast upp alla brekkuna á hjólinu án þess að stoppa eða ganga.

Bakaleiðin eftir brekkuna og niður í bæ, var mjög krefjandi, þar sem mótvindur var mikill og því hægði verulega á mér þennan síðasta kafla. Ég hélt áfram að taka inn gel og drakk vel, svo ég yrði ekki orkulaus, en þetta var mjög krefjandi hjól og mikill hiti.  Horfði á hitamæli á leiðinni niður í bæ, og hitinn var 30 gráður í forsælu. 

T2 skiptitími 12 mín 43 sek
Kosturinn við þríþraut, er að þegar þú ert búin að synda, þá hlakkar þig til að byrja að hjóla, svo þegar þú ert búin að hjóla mjög langt og orðið smá illt í rassinum og bakinu, þá ertu bara fegin að fara af hjólinu og byrja að hlaupa. Þannig leið mér þegar ég kom í T2 og skilaði hjólinu.  Hitti Óla og kallaði á hann, Óli ég missti tönn 😉

Óli ég missti tönn 😉

Fór svo beint á klósettið, alveg í pissuspreng, því ekki get ég heldur pissað á mig á hjólinu eins og PRO fólkið getur gert 😉  Stoppaði svolítið lengi í T2, fékk mér sæti, klæddi mig í hlaupaskóna í rólegheitum, fékk mér kók að drekka og tók svo líka með mér eina flösku með vatni og söltum.  Gaman að hitta Óla, en svo hitt ég líka Sverri sem við kynntumst úti sem hafði því miður þurft að hætta í hjólinu, vegna púlsvandamála.  

Að dóla mér – skipta um skó og næra sig 😉
Sverrir – af hverju ertu þarna -ertu búin ?

HLAUP 42,2 km 5:47:13 (07:03 meðal pace)
Maraþonið eru fjórir rúmlega 5 km hringir.  Ég hafði hlaupið hluta af þessari leið þegar ég tók þátt í 5 km Midnight Run á fimmtudagskvöldinu (smá mistök sem ég gerði þar að hlaupa allt of hratt, enda var ég með harðsperrur í morgun þegar ég vaknaði) ha ha ha. 

Það voru margir að hvetja á hliðarlínunni, mikið partý í bænum á laugardagskvöldi og gaman. En mikið ofboðslega var HEITT. Ég stoppaði á hverri einustu drykkjarstöð, labbaði í gegnum hana og fékk mér vatn og orkudrykk og hellti vatni yfir mig alla, bæði höfðu, allan búkinn og hendurnar. 

Hingurinn er kláraður á hringtorgi sem var rétt hjá hótelinu okkar og þar hitti ég alltaf Óla og Pétur. Gaf mér alltaf tíma til að labba rólega þar í gegn, spjalla við þá og gefa Óla koss og knús.  Svo henti ég mér í næsta hring. 

Hringtorgið …

https://photos.app.goo.gl/f1yE9n66odevYchS8

Það var mikill munur á hitastigi um leið og sólin settist var ekki steikjandi hiti af sólinni, en eftir því sem leið á kvöldið, þá fækkaði áhorfendum á brautinni, þar sem þeir færðu sig nær markinu til að hvetja sitt fólk sem var að koma í mark.  Það var samt áberandi hversu mikla hvatningu við stelpurnar/konurnar fengum sem ég var mjög þakklát fyrir og einnig var áberandi hversu margir höfðu hnigið niður og voru komnir með aðstoð sjúkraliða, örugglega út af hita og /eða vatnsskorti. 

Það var mjög heitt, enda var maður með allt flaksandi 😉

Ég tek alltaf „sálfræðina“ á hlaupin og hugsa eftir fyrsta hring ¼ eða 25% búinn og svo áður en þú veist af eru þrír hringir af fjórum búnir eða 75% og þá er „bara“ einn eftir.

Tveir hringir búnir, bara 2 eftir 😉

https://photos.app.goo.gl/LCfDFH1xsiGmZSSG6

Þá var bara að „girða sig“ renna upp þríþrautargallanum, þar sem maður þarf að vera sómasamlegur til fara þegar maður kemur í mark 😉 😉

Markið í Ironman Italy er eitt það flottasta sem ég hef séð, það er hlaupið út á ströndina á rauðum dregli, beygt til hægri og þar fram hjá áhorfendapöllunum er svo markið. Það er fullt af fólki á áhorfendapöllunum sem gefur þér „high-five“ á leiðinni í mark og gaman að fagna þó að við Óli höfðum bæði steingleymt íslenska fánanum heima sem ég er vanalega með á mér þegar ég kem í mark 😉

Myndband sem Óli tók þegar ég kom í mark: https://photos.app.goo.gl/4QqQiUgxdcJJQpjn6

IRONMAN FINISHER 2023 13 klst 23 mín 21 sek.
Ég var mjög glöð með mig þegar ég kom í mark, þó tíminn væri minn annar slakasti, en þetta var sjötta IM keppnin sem ég klára. Tíminn var einni mínútu betri en þegar ég kláraði minn fyrsta Ironman í Cozumel, enda ákveðið að þessi yrði algjörlega back to basic. 

Markmiðið var ALDREI að bæta tímann, heldur að taka þátt, hafa gaman og komast í mark.  Mjög margir vina minna hafa lent í DNF (DidNotFinish) í hlaupum á þessu ári og ég var svo smeyk við að klára ekki, að lenda í einhverju, annað hvort með hjólið eða sjálfan mig.

Verðlaunin – Medalía og ískalt Egils Appelsín <3

Það var kona, grjóthörð, jákvæð og full af þakklæti og æðruleysi sem kom í mark í Ironman Italy 2023

Íslendingarnir sem kláraðu IM Italy 2023
október 16, 2023 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnissagaÞríþraut

Kópavogsþrautin 2021 (keppnissaga)

by Halldóra maí 9, 2021

Hafði samband við Margréti M formann Þríþrautardeildar Breiðabliks sl. mánudag og spurði hana hvað hún vildi að ég gerði varðandi Kópavogsþrautina. Átti ég að skrá mig sem sjálfboðaliða (eins og ég hef verið síðustu árin), taka að mér þá sem ekki ætluðu að keppa og hjóla með þeim (hef verið aðstoðarhjóla þjálfari á sunnudögum) eða átti ég að skrá mig sem þátttakanda í keppnina ?

Margrét var mjög fljót að svara mér og sagði mér að ég ætti að skrá mig sem þátttakanda, ég hélt hún myndi frekar segja mér að skrá mig sem sjálfboðaliða ha ha ha, en ég auðvitað tók áskoruninni og skráði mig.

Var samt í smá vanda með að skrá sundtíma, því ég hafði ekki alveg nógu mikla trú á mér og mínum sundtíma. Ætlaði fyrst að skrá á mig 8 mín, en ég endaði á að skrá 7 mín og 30 sek sem var nákvæmlega tíminn sem ég sinnti á, þegar búið er að taka frá tímann sem fór í að fara upp úr og hlaupa að tímamottunni.

Lenti á braut 7, þar sem við vorum 7 saman á braut. Haddý (Hrafnhildur) nafna mín, var á sömu braut og ég og kvöldið fyrir keppni höfðum við áhyggjur af því að það væru ansi margir á brautinni, því sums staðar voru bara 5, 6 og/eða 7 :- )

KEPPNISMORGUN
Var mætt á Rútstún með hjólið mitt, rétt rúmlega 7:30 en svæðið opnaði klukkan 7:30, fór í gegnum hjólatékk og hjálmurinn var líka skoðaður. Setti svo hjólið á rekka, ásamt hjólaskóm, hlaupaskóm, sokkum og númerabelti (sólgleraugum og ennisbandi).

Það var svo keppnisfundur klukkan 08:30 og sundlaugin opnaði klukkan 09:15, fór fyrst útí Krambúð og keypti mér banana, hafði gleymt að taka hann með mér, sem mér finnst mjög góð næring rétt fyrir keppni.

SUND
Keppnin var svo ræst klukkan 09:30, fór út í laug með tvenn sundgleraugu, þar sem ég var ekki viss hvor þeir leka, hef svolítið verið að lenda í því, fékk Þórdísi vinkonu, lækni til að geyma svo hin gleraugun. Ræddum aðeins fyrir ræsingu hver ætlaði að vera hvar í sundbrautinni, en lögðum svo öll af stað á sama tíma. Fegin að ég var ekki alveg aftast eins og ég ætlaði mér þar sem sú sem var síðust var þó nokkuð mikið fyrir aftan mig, en ég kom næstsíðustu upp úr lauginni. Sundtími að mottu: 7 mín 43 sek. 400 metra vegalengd.

T1
Var mjög lengi í skiptatímanum, þar sem ég þurrkaði fæturna, fór í flíspeysu sem er rennd (sá ekki eftir því), fór í sokka, hlaupaskóna, setti á mig keppnisbeltið og tók svo hjólið af rekkanum og hljóp með það yfir marklínuna og krítuðu línuna, þar sem við máttum fyrst fara á hjólið. T1 tími: 2 mín, sem er frekar lakur tími, en skiptir ekki máli þegar maður er bara að hafa gaman og vera með.

HJÓL
Fann ég var ekki örugg á hjólinu, þar sem ég var ekki búin að æfa mig neitt á TT hjólinu. Hafði lánað vinkonu minni hjólið í fyrrasumar og sótti það bara í gærkvöldi uppá háaloft, og reyndi að hækka aðeins sætið og færa það aðeins aftur. Ég ákvað að liggja ekkert á letistýrinu heldur bara taka hjólið frekar öruggt, sá að ég hefði kannski frekar átt að fara á racernum mínum, kassettan á því er léttari, það er með rafmagnsskiptum og ég er bara öruggari á því, en á sama tíma er SVARTI FOLINN geggjað flott TT hjól og með frábærum keppnisgjörðum. Hjólabrautin eru þrír hringir 10 km samtals, þ.e. þrisvar upp sömu brekkuna en á sama tíma mjög gaman að fara hratt niður brekkuna hinum megin. Ég var með drykk á hjólinu sem var mjög gott, en enga næringu. Það var ótrúlega kalt, vindur og skuggi á norðanverðu Kársnesi svo ég var mjög glöð að hafa gefið mér tíma og farið í flíspeysuna. Hjólatími: 23 mín (26,19 km klst meðalhraði)

T2
Hoppaði af hjólinu áður en ég nálgaðist hvítu línuna, hljóp svo á hjólaskónum með hjólið uppá rekkann. Losaði svo hjálminn, úr skónum, í hlaupaskóna, var í smá vandræðum að komast í þá, þó ég væri með skóhorn, greip sólgleraugun, eyrnabandið og sneri númerinu fram og hljóp af stað. T2 Tími: 1:44

HLAUP
Mér leið ótrúlega vel þegar ég byrjaði að hlaupa, kom sjálfri mér eiginlega á óvart þar sem ég hef ekki verið dugleg að æfa „brick“, þ.e. hlaup eftir hjól, kannski vegna þess að ég hef svo lítið verið að hjóla ha ha ha, tek bara eina rólega 100 km Gran Fondo æfingu á mánuði, þar sem við höfum reynt að velja flata braut 🙂 En alla vega mér leið vel, tók fram úr mörgum á leiðinni. Það var virkilega góð tilfinning að hafa ekki tekið of mikið úr sér bæði í sundinu og hjólinu að eiga fullt inni til að líða vel allan tímann á hlaupunum, líka upp brekkuna, en hlaupabrautin eru tveir hringir samtals 3,5 km. Tók enga næringu, hvorki á hlaupinu, né hjólinu, fyrir utan drykkinn sem ég var með á hjólinu. Heildar hlaupatími: 17 mín 28 sek eða 04:59 pace.

HEILDARTÍMI 52 mín 24 sek. Varð 11 konan í heildina og varð í 4 sæti í aldursflokki.

Náði að grafa upp gamla tíma, en ég keppti síðast í Kópavogsþrautinni 2014 á 47 mín og 6 sek. og árið 2013 var ég 47 mín og 38 sek. Fann ekki tímann minn 2012, en þá tók ég þátt í fyrsta skipti og var pottþétt lengur, því ég fékk refsistig frá Ásgeiri vini mínum sem var yfirdómari, þar sem ég var búin að taka hjólið af rekkanum áður en ég festi hjálminn 🙂 Það var fyrsta þríþrautarkeppnin mín, en það ár keppti ég í öllum þríþrautarkeppnum á Íslandi og mínum fyrsta Ironman (af fimm) þ.e. árið 2012.

Það sem stendur upp úr var hversu skemmtileg keppni Kópavogsþrautin er. Frábærir keppnishaldarar, mótstjóri, dómarar, sjálfboðaliðar allt saman eðalfólk. Ég var búin að gleyma hvað þríþrautin er ofboðslega skemmtileg íþrótt og að taka þátt í svona keppni er einstök upplifun og skemmtun, frá A-Ö, er svo glöð að hafa drifið mig aftur á stað, þó ég væri ALLS ekki í besta formi lífs míns. Þá var ég alltaf glöð og náði þar með markmiði mínu sem var að klára og hafa gaman alla leið. Takk kærlega fyrir mig.

maí 9, 2021 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnissagaÞríþraut

Bláfjallaþríþraut Relive

by Halldóra maí 10, 2020
maí 10, 2020 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífGönguskíðiKeppnissagaÞríþraut

Bláfjallaþríþraut 2020

by Halldóra maí 10, 2020

Það var í lok fimmtudagsins 7. maí sem poppaði upp hjá mér á Facebook að Bláfjallaþríþrautin yrði haldin, sunnudaginn 10. maí og hámarksfjöldi væri 50 manns út af Covid-19. Ég smellti á skráningarlinkinn til að kanna hvort það væru ennþá laus sæti og sá að það voru tvö sæti eftir, númer 49 og 50. Ég hringdi strax í Margréti Magnúsdóttur þar sem ég var búin að lofa að vera hjólaþjálfari á sunnudeginum og fékk frí, sem var ekkert mál. Ég hringdi svo í Siggu Sig vinkonu sem var ekki við tölvu, en hún var til, svo ég skráði okkur báðar. Hún hafði tekið þátt í þessari keppni í fyrra, en þá var ég í útlöndum.

UNDIRBÚNINGUR
Við Sigga fórum seinnipartinn á laugardeginum upp í Bláfjöll til að kanna aðstæður á sporinu, þ.e. snjónum og veginum þ.e. hjólaleiðinni. Við skíðuðum lítinn hring og rennslið á „skinn“ skíðunum var bara fínt. Ég fór svo í grillpartý með Ísbirnum vinkonum mínum og Sigga hjólaði utanvegarkaflann á CX hjólinu um 11 km til Hafnarfjarðar til að kanna ástandið á veginum sem er lokaður bílaumferð. Vegurinn var grófur en samt þannig að það var alveg hægt að fara á CX hjóli.

KEPPNISMORGUN
Ég var búin að undirbúa mig vel hvað varðar allan búnað á laugardagskvöldinu. Fór snemma að sofa kvöldið áður og vaknaði klukkan 07:00 fékk mér hefðbundinn morgunmat fyrir keppni, þ.e. ristað brauð og kaffi á fastandi maga. Það er að ýmsu að hugsa í svona þríþraut. Taka þurfti til göngskíði (og velja hvaða skíði og þá hvort og hvað bera eigi undir þau) gönguskíðastafi, gönguskíðaskó, hjólaskó, hjólið, hjálminn, hlaupaskó og næringu. Þurfti að muna eftir að setja drykk í brúsa á hjólið og koma þurfti fyrir auka slöngu og gashylki í viðgerðartöskuna á hjólið. Við Óli lögðum af stað uppí Bláfjöll rétt rúmlega átta, fannst ágætt að vera einu sinni komin tímalega, til að stilla upp hjólinu og prófa aftur skíðin. Auk þessi þurfti að merkja bæði skíðin, stafina og hjólið. Fékk merki númer tvö. Hafði tekið þá ákvörðun að fara á skinn skíðunum, en ekki keppnis(klísturs) skíðunum þar sem það er vorfæri og því stundum vesen með áburð eða klístur á keppnisskíðin, þar sem ég kann ekki mikið á þetta klístur 🙂 Hins vegar er yfirleitt rennslið mun betra á keppnisskíðunum og ég því hraðari á þeim. En þetta var bara gleðikeppni og hugsað til að styrkja afreksskíðafólk í Ulli. Prófaði þarna aftur skinnskíðin og þau runnu ágætlega.

Við vinkonurnar ég og Sigga Sig að leggja í hann.

GÖNGUSKÍÐI 1/3
(10,5 km = 53 mín 58 sek = 11,4 km á klst meðalhraði – hámarkshraði 32,4 km/klst)
Við vorum ræst út í 8 manna hópum, klukkan 10:00 með u.þ.b. 1 mín millibili. Við Sigga vorum saman í þriðja ráshópi og ég skíðaði í sporinu á eftir henni. Við fórum vel af stað í þó nokkrum mótvindi. Svo fór að snjóa og þá snjóaði í sporið og þá fundum við hvað það var lítið rennsli í sporinu. Svo kom hríð og rennslið hjá Siggu var ennþá verra en hjá mér svo hún sagði mér að fara á undan sér. Ég fór fram úr henni og sagði henni að „drafta“ mig, þar sem það var ennþá mótvindur og ég vissi að hún myndi svo ná mér niður fyrstu brekkuna. Sigga er algjör snillingur niður brekkur, á meðan ég fer í plóg, enda er minningin um það þegar ég tvíhandleggsbrotnaði í Bláfjallagöngunni um árið, ennþá í fersku minni. Brautin lá um 5 km inn á heiðina og svo til baka. Þetta er ekki sami 10 km hringurinn og var í fyrra og við vorum því í engu skjóli af vestanáttinni sem barði á okkur.

Að koma í mark á gönguskíðunum, eftir smá baráttu við vind, snjókomu og hríð, en það sá líka til sólar.

HJÓL 2/3
(25,5 km = 1 klst 6 mín 54 sek = 22, 9 km á klst meðahlraði – hámarkshraði 68,9 km/klst)
Eftir að hafa skíðað yfir marklínuna, þ.e. tímatökumottuna, þá skilur maður skíðin og stafina eftir og hleypur í átt að hjólinu. Þar skiptir maður um skó, þ.e. fór úr skíðaskónum og í hjólaskóna, ég skipti um hanska líka (sem var ágætt þessir orðnir frekar sveittir), setti á mig hjálminn, hjólahanskana og svo HOKA bakpokann sem var með hlaupaskónum í. T1 = 2 mín og 27 sek. Henti mér svo á hjólið og náði góðri siglingu niður malbikaða kaflann að beygjunni, tók fram úr tveim keppendum á leiðinni að gatnamótunum. Náði hámarkshraða þar um 69 km á klst skv Garmin. Malarkaflinn var mjög krefjandi en ég fór samt fram úr öllum á fjallahjólum, þar sem CX TREK hjólið er auðvitað mun hraðara en fjallahjól almennt. Fór síðan fram úr tveim keppendum sem var sprungið hjá og hægði á mér og bauð þeim aðstoð. En það voru komnir aðrir keppendur að aðstoða þá báða svo þau sögðu mér bara að halda áfram. Þetta var mjög krefjandi 11 km grófur utanvegakafli, þar sem það eru almennt ekki demparar á CX hjólum og ekki á mínu, svo þetta tók vel á hendur og axlir, en vegurinn var samt skárri en ég hélt að hann væri m.v. lýsingar Siggu frá laugardeginum. Meðalhraði hjá mér var um 21-22 km á þessum erfiða kafla skv. Garmin Fenix 6x úrinu mínu.
Eftir malarkaflann tók við malbikskafli alveg niður að gatnamótum Krísuvíkurvegar og vegarins að Hvaleyrarvatni, eða við Dúfnakofana í Krísuvík. Þar beið okkar sendibíll þ.e. í T2 sem tók hjólið, hjálminn og bakpokan með hjólaskónum og ég henti mér í hlaupaskóna og hljóp af stað.

Elska TREK BOONE CX hjólið mitt, en fyrsta skipti sem ég keppi á því.

HLAUP 3/3
(5,43 km 31 mín og 32 sek. Meðalhraði 5:48 pace eða 10,3 km/klst og hámarkshraði 13,6 km /klst.)
T2 tíminn var 2 mín 7 sek, sem er frekar langur tími m.v. þríþraut, en þetta átti hvort eð er bara að vera skemmtikeppni, þ.e. taka þátt og hafa gaman sem ég og gerði. Hlaupið er utanvega í byrjun og fer svo í gegnum Vellina á malbiki og þaðan inn að Ástjörn þar sem er farinn hringur í kringum tjörnina allt á utanvega stígum.
Var því mjög glöð að vera á HOKA SPEEDGOAT utanvega skónum mínum, en ekki HOKA malbiks skónum. Mér leið ótrúlega vel í hlaupinu, en var auðvitað allt of mikið klædd. Í SWIX gönguskíða undirfatnaði, þykkum hlaupabuxum, legghlífum og í SWIX rúllukragabol og jakka og með buff 🙂 Þannig að ég batt utan um mig jakkann á hlaupunum og renndi niður kraganum á bolnum. Þegar ég var komin á malbiksstíg hinum megin við vatnið og tók beygjuna inná malbikaðan göngustíg, þá sé ég hvar ein stelpa kemur á milljón á eftir mér. Ég gaf því svolítið í og náðu góðum niðurhlaupskafla niður brekkuna, en svo þegar við vorum komin hringinn í kringum Ástjörnina, þ.e. rétt áður en við komum að Haukahúsinu, þá náði hún mér og var rétt á undan mér í mark. Við villtumst reyndar báðar í hraunkaflanum á milli Haukahússins og sundlaugarinnar, sem var bara skemmtilegt 🙂

Haddýjar hopp að sjálfsögðu tekið í markinu.

LOKATÍMI = 2 klst 37 mín 2 sek skv. tímataka.net – 2 klst 36 mín 59 sek. skv. Garmin – næstum því á pari. Vegalengdin samtals: 41,29 km.
Þrátt fyrir að hafa misst Berglindi Gunnarsdóttur fram úr mér á lokasprettinum, þá náði ég 3 sæti kvk af öllum 24 konunum sem kláruðu keppnina. Var á eftir Karen Axelsdóttur, sem var í 2. sæti og Kristrúnu Guðnadóttur, gönguskíðadrottningu í Ulli sem var í 1 sæti.
Ég varð í 1 sæti í aldursflokki 50 ára og eldri og var í 12 sæti yfir alla keppendur af 40 sem kláruðu. Þessi niðurstaða kom mér skemmtilega á óvart, þar sem markmiðið var alltaf bara að fara og hafa gaman sem ég og gerði.

Óska ULLI til hamingju með glæsilega Bláfjallaþríþraut. Þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir þeirra frábæra starf og hvatningu. Þetta var einstaklega skemmtileg keppni og gaman að taka þátt í henni og styrkja frábært starf Ullar í Bláfjöllum.
#HOKAONEONE #TREK #ÖRNINN #SPORTÍS #FISCHER #GARMIN #FENIX6X

Konur 50 ára og eldri. Með Sæunni Gísladóttur til vinstri (2.sæti) og Guðrúnu Guðmundsdóttir (til hægri, 3.sæti)
maí 10, 2020 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífFjallahlaupFjallaskíðiGönguskíðiKeppnissagaSjósundSundÞríþraut

50 ÁRA AFMÆLISÁRIÐ 2019

by Halldóra desember 31, 2019

MARKMIÐ
Það var í lok árs 2018 sem við Siggi Kiernan grínuðumst með það að það væri gaman að gera eitthvað skemmtilegt eða út fyrir þægindahringinn í hverjum mánuði á árinu 2019, þar sem þá myndum við bæði fagna 50 ára eða hálfrar aldar afmæli. Þó þetta hafi byrjað sem grín, þá má segja að þetta hafi eiginlega orðið raunin og árið 2019 verður pottþétt eitt eftirminnilegasta ár ævi minnar og ólíklegt að ég muni einhvern tíma toppa það, nema kannski þegar ég verð 100 ára 🙂

Hér að neðan ætla ég að fara yfir árið eftir mánuðum og rifja upp allt það skemmtilega sem ég tók þátt í með yndislegum og skemmtilegum vinum, en það er það sem skiptir öllu máli. Ég var líka svo lánsöm að byrja í nýrri og skemmtilegri vinnu og eignaðist yndislega vinnufélaga, sem er líka algjörlega ómetanlegt.

JANÚAR 2019
Ég byrjaði þetta magnaða ár, með nýársgöngu á Esjuna ásamt frábærum vinum sjá hér. Það er alltaf einstaklega skemmtilegt og hátíðlegt. Annars var ég dugleg að hlaupa bæði með Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa, hljóp með vinum mínum nokkra ríkishringi og Digraneströppunar (himnastigann) þar sem við vorum að æfa fyrir HK100. Hlaupið í Hong Kong, þ.e. HK100 fór svo fram 19. janúar og það gekk mjög vel. Kláraði á 18 klst 43 mín og 56 sek, þessa 103 km og kom fyrst Íslendinganna í mark. Sjá nánar um HK100 keppnissöguna hér. Þetta var þriðja árið í röð sem ég tók þátt í HK100 og minn langbesti tími frá upphafi. Alltaf gaman að toppa sjálfan sig á 50 ára afmælisárinu 🙂
Annars þakka ég yndislegu vinkonum mínum í HK, þeim Huldu og Rebekku fyrir frábærar móttökur og aðstoð í HK100, þær eru einstakar heim að sækja og þær ásamt vinum mínum ástæðan fyrir því að ég hef tekið þrisvar sinnum þátt í þessu sama hlaupi.

Strax eftir heimkomu frá Hong Kong byrjuðu gönguskíðaæfingar og ég var ótrúlega heppin með veður. Fram að HK100 hafði verið ótrúlega snjólétt og þægilegt til að æfa fjallahlaup og strax eftir heimkomu fór að snjóa mikið og ég náði að æfa bæði í Bláfjöllum og í Heiðmörkinni gönguskíðin.

FEBRÚAR 2019
Náttúruhlaupa – hlaupasamfélagsæfingar héldu áfram í febrúar sem og gönguskíðaæfingar þegar færi og tími gafst. Við Óli fórum svo til Brighton aðra helgina í febrúar með Kjöthúsinu (vinnustaður Óla) en okkur var boðið í þessa glæsilegu árshátíðarferð Kjöthússins sem var mjög skemmtileg. Í lok febrúar fórum við svo til Trysil til að taka þátt í þriðja skiptið í Vasaloppet veislunni. Fórum 2017 í Nattvasan og 2016 í Vasaloppet keppnina sem er 90 km skíðaganga í sænsku dölunum.

MARS 2019
Vasaloppet 90 km skíðagangan með Ísbjörnunum vinum okkar var svo 3. mars. Þrátt fyrir mikið vesen á leiðinni með bindingarnar, sem voru alltaf að losna og ég þurfti á endanum að henda þeim og fá nýjar, þá var ég bara sátt við, í fyrsta lagi að hafa klárað gönguna og á allt í lagi tíma eða 10 klst 23 mín og 42 sek. Það fór mikill tími í að reyna að redda bindingunum. Gangan sjálf var líka mun betri hjá mér heldur en þegar ég tók þátt í fyrsta skipti. Sjá myndir frá Vasaloppet 2019 hér, en ég gleymdi að skrifa keppnissöguna 🙂

Þegar ég kom heim héldu skíðaæfingar áfram ásamt Náttúruhlaupaæfingum, þar sem næsta keppni var bara tveim vikum seinna eða 16. mars, Birkebeinerennet, sem er 50 km skíðaganga í Noregi. Keppnin er mjög skemmtileg, mjög ólík Vasa, að því leiti að fyrst er mjög löng brekka upp fjallið og svo eru margar hraðar brekkur niður. Vasaloppet er mun flatari og meiri lækkun en hækkun, öfugt við Birken. En keppnin var krefjandi en mjög skemmtileg og ég náði að klára á 5 klst 37 mín og 35 sek. Sjá nánar um Birkebeinerennet keppnina hér:

APRÍL 2019
Í byrjun apríl flugum við Óli til San Fransisco með Eddu og Eið vinum okkar. Við höfðum keypt þennan flugmiða fyrir punkta fyrir rúmlega ári síðan, eða þegar ég var í Ironman Texas, þá fékk ég póst frá Icelandair um að punktarnir okkar væru að renna út. Ég spurði þá Pétur, Sædísi og Irinu hvert við ættum að fara til Bandaríkjanna og þau mæltu með San Fransisco og Kaliforníu. Þegar við Edda vorum svo að plana ferðina þá kom í ljós að það var San Fransisco Rock and Roll 1/2 maraþon í SF á sama tíma og við vorum úti. Úr varð að ég skráði mig í hlaupið og hljóp það 7. apríl. Það var mjög skemmtilegt að hlaupa á Golden Gate brúnni, en við vorum líka búin að sigla undir hana svo það var skemmtileg upplifun að hlaupa líka yfir hana. Sjá nánar um hlaupið hér á Relive myndbandi, engin keppnissaga.

Í ferðinni okkar fórum við líka til Los Angeles og til Las Vegas en við keyrðum um 2.000 km í þessari ferð og það var mjög gaman að sjá þessar fallegu en ólíku borgir. Við sigldum líka útí Alcatras og skoðuðum fangelsið. Undir lok ferðarinnar þá manaði Eiður mig í að fara í fallhlífarstökk með honum. Það þurfti reyndar ekki mikið að mana mig, því fallhlífarstökk var alltaf „on my bucket list“ svo það var magnað að geta upplifað það þann 12. apríl. Sjá nánar um fallhlífarstökkið og myndband úr þeirri flugferð hér:

Mamma varð 70 ára 20. apríl 2019 og við vorum búnar að ákveða að fara saman til Bilbao og fagna því. Ívar Trausti bjó til ferð og hvatti mig til að bjóða öðrum að koma með mér og njóta fjallahlaupa í fjöllunum í kringum Bilbao. Það var einstakt ævintýri en leiðinlega við það, var að mamma komst ekki með (hún ætlaði nú ekki að hlaupa, heldur bara njóta borgarinnar), en ákvað á síðustu stundu að fara ekki út þar sem heilsan hans Helga (maðurinn hennar) hafði hrakað og hún hafði áhyggjur af honum. En ég fór í yndislega páskaferð með yndislegu fólki, fórum út á skírdag og heim á annan í páskum og ég get 100% mælt með fjallahlaupaferð til Bilbao á Spáni.
Í lok apríl eða 29. apríl byrjaði ég svo að þjálfa Hóp1 hjá Stjörnunni og fékk frábærar móttökur frá æfingafélögum.

MAÍ 2019
Maí verður eftirminnilegur fyrir það að ég fékk nýja vinnu og byrjaði 15. maí að vinna hjá Reykjavíkurborg á Velferðarsviði sem framkvæmdastjóri Samstarfsnetsins. Fékk yndislegar móttökur frá frábæru samstarfsfólki í Borgartúni og það er búið að vera virkilega skemmtilegt að vinna að undirbúningi að stofnun Samstarfsnetsins sem fer formlega í loftið núna 1. janúar næstkomandi.

Hvað hreyfingar varðar þá var ég dugleg að hlaupa bæði með Náttúruhlaupurum og þá sérstaklega með Laugavegshópi NH, svo byrjaði ég að synda í sjónum, þar sem ég hafði samþykkt að taka þátt í Marglyttuævintýri um haustið, þ.e. að synda boðsund (sex manna lið) yfir Ermasundið. Ég synti þó að mestu í galla í maí þar sem sjórinn var frekar kaldur. Stærstu verkefnin hvað hreyfingar varðar í maí voru fjallaskíðaferðir, á Snæfellsjökul með Guðmundi Smára og Guðmundi Tryggva 22. maí í gullfallegu veðri, gengum upp á stuttermabolum, bara eftir vinnu. Sjá nánar hér:

Fór svo líka á Hvannadalshnúk á gönguskíðum með Sigga Kiernan og Guðmundi Tryggva 30. apríl, líka í mjög góðu veðri, sjá nánar hér: Frábærar fjallaskíðaferðir báðar tvær.

Sjósund og fjallaskíði voru því ný verkefni, bæði þó nokkuð út fyrir þægindahringinn í maí.

JÚNÍ 2019
Ég hélt áfram að hlaupa utanvega með Laugavegshópi Náttúruhlaupa, hljóp með Hópi 1 í Stjörnunni og hjólað smá og synti í júní. Tók þátt í Hvítasunnuhlaupi Hauka 10. júní og náði 4 sæti í aldursflokki, 26 sæti overall kvk og náði PB í tíma.

Stærsta ævintýri JÚNÍ mánaðar var svo auðvitað á sjálfan afmælisdaginn 20. júní, 50-50-50. Fékk hugmyndina frá Siggu vinkonu sem hljóp 50 km (5*10 km hringi) þegar hún varð 50 ára fyrir nokkrum árum. Ákvað því að hjóla 50 km, hlaupa 50 km og synda 50 metra á sjálfan afmælisdaginn og bjóða vinum mínum að taka þátt með mér. Það komu 9 manns að hjóla með mér (um miðja nótt í miðri viku), en ég hafði ákveðið að leggja af stað í hjólið, á miðnætti og hjóla nokkra Álftaneshringi út á Bessastaði og svo Ásahring þar til ég næði þessum 50 km. Við þurfum bara að fara 3 hringi og ég fékk frábæran félagsskap yndislegra vina með mér. Bauð þeim svo uppá súkkulaðiköku, Hleðslu og banana um nóttina eftir hjólaævintýrið, en þetta var svo björt og falleg og yndisleg nótt.

Svo klukkan 06:30 byrjuðu morgunhlaupin, Fékk líka yndislega vini mína til að hlaupa með mér og var búin að teikna upp þennan 7,8 km hring og hljóp 4 hringi alltaf í frábærum félagsskap. Miðnæturhlaup Suzuki var 20. júní og það var hægt að hlaupa 10 km eða 21,1 km (hálft maraþon), ég ætlaði fyrst að hlaupa bara 10 km þar og 4 * 10 km hringi heima áður, en svo breytti ég planinu og hljóp 4 * 7,8 km um daginn og svo 21,1 km í Miðnæturhlaupi Suzuki. Það voru áfram frábærir vinir sem hlupu með mér um kvöldið þetta skemmtilega hlaup. Eftir hlaupið fór ég svo í Laugardalslaugina og þar beið mamma og fleiri vinir sem syntu með mér 50 metrana yfir laugina. Sjá nánar um 50-50-50 hér:

Á milli hlaupanna heima og Miðnæturhlaupsins var ég með opið hús (hamborgara-grillpartý) þar sem Óli minn grillaði fyrir fjölskyldu og vini og ég fékk Hrafnkel Pálmason til að koma og syngja fyrir okkur. Mikið var þetta var yndislegur dagur og ég er einstaklega þakklát Óla, fjölskyldunni og vinum sem gerðu þennan dag svona eftirminnilegan og einstakan.

JÚLÍ 2019
Æfingar fyrir Laugavegshlaupið héldu áfram í júlí og þetta skemmtilega æfingatímabil með skemmtilegum æfingafélögum var toppað með því að hlaupa sjálft Laugaveghslaupið 13. júlí. Ég kom sjálfri mér á óvart og náði mínum besta árangri í Laugavegshlaupinu, (PB), en þetta var í fjórða skiptið sem ég tek þátt. Sjá nánar hér:

Eftir Laugavegshlaupið tóku við fleiri sjósundsæfingar, því það styttist í 2 klst æfinguna, sem ég kveið verulega fyrir. Vissi að ég væri ekki að fara í Ermasundið nema ég myndi ná að klára þá þrekraun, þ.e. að vera 2 klst í einu í sjónum í Nauthólsvík. Ég var ekki alveg með nógu mikið sjálfstraust í þessum efnum, þar sem tilhugsunin um kuldann í sjónum var mín helsta hindrun, en ég notaði ávallt möntruna mína, #jákvæð og #grjóthörð til að hvetja mig áfram og komast fram hjá þessari hindrun sem var föst í huga mínum. Þann 22. júlí syntum við svo þetta 2 klst sund í Nauthólsvík. Hitastigið var 14 gráður. Sjá nánar um þetta sund, sem var LANGT ÚT fyrir minn þægindahring hér:

ÁGÚST 2019
Ágúst byrjaði hjá okkur Óla með mjög skemmtilegri fjallahjólaferð inná Fjallabak með vinum okkar, Ísbjörnunum um verslunarmannahelgina. Á frídegi verslunarmanna skutlaðist ég vestur í Grundarfjörð með Marglyttunum Þórey og Birnu, þar sem við hittum Marglyttuna Brynhildi. Syntum svo boðsund yfir Grundarfjörð og lentum í árshátíð alvöru Marglyttna sem brenndu okkur allar. Eftir á að hugsa var þetta fín æfing og þá sérstaklega að vera búin að lenda í alvöru Marglyttum, sjá nánar hér.

Fór svo með frábærum hópi utanvegahlaupara í fjallahlaupaferð í hringinn í kringum Mt. Blanc (Tour Mont Blanc TMB), en ég var farastjóri með Elísabetu Margeirsdóttur. Ferðin var frá 11.-16. ágúst og var algjörlega mögnuð, félagsskapurinn svo skemmtilegur og leiðin falleg. Við hlupum um 140 km á þessum 6 dögum.

Synti svo hið fræga Viðeyjarsund föstudaginn 23. ágúst með Marglyttunum mínum en við lögðum af stað í beinni útsendingu á Stöð 2, sjá nánar hér: Þetta var enn eitt ævintýrið sem var langt út fyrir minn þægindahring, enda sjórinn verulega kaldur, undir 10 gráður.

Daginn eftir Viðeyjarsundið tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þ.e. 24. ágúst og eftir maraþonið skokkaðu ég frá miðbæ Reykjavíkur heim í Garðabæinn til að ná 50 km, enda var ég með númerið 50 á þessu 50 ára afmælisári. Tók ákvörðun um að skrá mig í þetta maraþon með 3ja daga fyrirvara, sjá nánar hér:

Í lok ágúst flaug ég svo til Genfar í Sviss þar sem ég fór á fund á vegum Þríþrautarsambandsins og var auk þess fararstjóri íslenska hópsins sem tók þátt í aldursflokkakeppni í þríþraut í Lausanne í Sviss.

SEPTEMBER 2019
Þríþrautarkeppnin fór fram 1. september í Lausanne í Sviss, en ég tók þátt í Ólympískri vegalengd og gekk mjög vel. Virkilega skemmtilegt að fá að taka þátt og synda í Genfar vatni. Sjá nánar hér:

Flaug svo beint frá Sviss til Englands, þar sem ég hitti Marglyttur vinkonur mínar en til stóð að synda yfir Ermasundið þann 4. sepember. Vegna veðurs þá dróst það fram á síðasta dag, en þann 10. september náðum við Marglytturnar að synda yfir Ermasundið frá Dover í Englandi til Calais í Frakklandi, sjá nánar hér: Þetta var algjörlega magnað ævintýri og mjög eftirminnilegt.

EFtir að ég kom heim hélt ég áfram æfingum með Stjörnunni, Náttúrúhlaupunum og tók nokkrar Esjur með vinum mínum. Við Siggi og Viggó tókum svo magnaða næturæfingu, 27. september, þegar við fórum fimm ferðir upp að Steini á Esjunni, á ofboðslega fallegu Norðurljósakvöldi. Hins vegar var ég frekar óheppin á niðurleiðinni í fjórðu ferðinni, flaug ég á hausinn og brákaði á mér nokkur rifbein og gerði gat á hnén á buxunum og var líka blóðug á höndum. Eftir smá aðgerð, þ.e. hreinsun á sárum á bæði hnjám og höndum fór ég samt og kláraði fimmtu ferðina (reyndar mjög rólega).

OKTÓBER 2019
Þetta fall mitt í Esjunni, hafði smá áhrif á æfingar fram að keppni. Fann þó nokkuð fyrir rifbeinunum og æfði ekki mjög mikið í lok september eða fyrstu dagana í október. En það sem ekki drepur þig, herðir þig og því fór ég kokhraust í langt ferðalag til Reunion Island (frönsk eyja í S-Afríku, Indlandshafi) þann 14. október og lagði svo af stað í þetta 100 mílna fjallahlaup, eitt erfiðasta fjallahlaup í heimi þann 17. október. Kláraði hlaupið á 56 klst 34 mín og 14 sek sjá nánar hér: Þetta er klárlega lengsta og erfiðasta hlaup sem ég hef tekið þátt í og klárað.

NÓVEMBER 2019
Eftir Reunion hlaupið tóku bara við mjög þægilegar æfingar með Stjörnunni og Náttúruhlaupum. Fór til dæmis 14. nóvember í yndislegt Powerarde með einum Stjörnuhlaupara sem var að fara í fyrsta skipti í Powerade.

Árlegur fundur 100 km félaga og inntaka nýrra félaga fór fram 13. nóvember. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema þar hitti ég Rúnu Rut vinkonu og hlaupafyrirmyndina mína sem var að fara til Fíladelfíu að hlaupa maraþon 24. nóvember. Ég kastaði því svona fram eftir fundinn, meira í gamni, en alvöru, hvort ég ætti ekki að henda mér með henni í þetta maraþon. Fór á netið og sá að það var ennþá laust í hlaupið og í flug. Daginn eftir hringdi svo RRR í mig og spurði hvort mér væri alvara. Til að gera langa sögu stutta, þá skráði ég mig með viku fyrirvara í þetta hlaup og hljóp svo maraþon í Fíladelfíu með Rúnu Rut vinkonu minni þann 24. nóvember. Náði að sjálfsögðu ekki neinum sérstökum tíma, en kláraði með bros á vör sem var markmiðið. Sjá nánar hér:

Þann 30. nóvember fór ég svo í skemmtilega Rjúpnaveiðiferð með Óla og Sigga Kiernan. Sáum engan fugl, en gönguferðin var yndisleg. Hélt áfram æfingum með Stjörnunni og Náttúruhlaupum, bara mjög rólegar æfingar, enda þó nokkur þreyta í fótunum eftir langa Reunion hlaupið.

DESEMBER 2019
Fékk fleiri Stjörnur með mér í desemberhlaup Powerade og það voru þrjár Stjörnur að fara í fyrsta skipti í Powerade þann 12. desember. Synti svo Þorláksmessusund með mömmu að morgni Þorláksmessu og gaman að ná mínum besta árangri PB í þessu sundi frá upphafi, en ég hef tekið fimm sinnum þátt. Sjá nánar hér:

Þessu magnaða 50 ára afmælisári, var svo slúttað í frábærum félagsskap Stjörnuhlaupara sem „Ólafur“ á gamlársdag 31. desember. Hver er þessi Ólafur ? Það er von að þú spyrjir því ég spurði sömu spurningar, en hann er snjókarlinn í bíómyndini Frozen. Þar sem ég hafði ekki séð þessa mynd, ákvaðum við Óli að leigja hana núna um helgina og nú veit ég allt um Elsu, Önnu og Ólaf og ævintýri þeirra í Frozen og söng og spilaði lagið „Let it GO“ allt gamlárshlaupið og kom glöð í mark, síðust af öllum Stjörnunum.

AUÐMÝKT OG ÞAKKLÆTI
Ég er einstaklega þakklát fyrir að hafa heilsu til að gera allt það sem ég hef gert á þessu 50 ára afmælisári. Ég er einnig þakklát að eiga yndislega vini sem hafa tekið þátt með mér í þessum ævintýrum. Fjölskyldunni þakka ég líka fyrir þolinmæðina og hvatninguna, ef baklandið er ekki til staðar er ekki hægt að láta alla þessa drauma verða að veruleika.


desember 31, 2019 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnissagaÞríþraut

ITU Grand Final ólympísk þríþraut

by Halldóra september 1, 2019

Í ITU Grand Final keppnum er sundið ræst út eftir kyni og aldursflokkum. Yngsti hópurinn er ræstur út fyrst um morguninn, svo Sædís og Dagný voru ræstar út fyrstar og þurftu að mæta fyrstar niður eftir. Hitastigið á Genfar vatninu var 23 gráður, svo það mátti ekki keppa í „wet-suit“ eða sundgalla. Hafdís var líka ræst út á undan okkur og tók strætó á undan okkur í bæinn.

Við (Gúa, Hildur, Leifur, Finnbogi og Óskar, ásamt Gerði) tókum strætó saman klukkan rúmlega 07:00 eða tveim tímum fyrir ræsingu. Við þurftum fyrst að fara að skiptisvæðinu þ.e. hjólinu okkar, þó við hefðum skilið það eftir, til að setja vatn á brúsann, pumpa í hjólin og koma á það næringu. Átti líka eftir að skilja eftir hjálminn og bæði hjóla- og hlaupaskóna, númerabeltið og derhúfuna fyrir hlaupið.

Það var skemmtileg tilviljun að við sáum Sædísi koma upp úr sjónum og hlaupa að T1 og hún leit mjög vel út. Veðrið var líka svo súper gott, ekki of mikil sól og ekki of heitt.

Við gengum svo að sundsvæðinu sem var í um 1 km fjarlægð og fórum inn í hólfið og í klósettröðina. Hildur var svo fyrst af okkur, síðan Leifur og svo við Gúa og að lokum Finnbogi og Óskar.

SUND: 36 mín og 7 sek
Aldursflokkurinn minn (Konur 50-54 ára) voru með bláar sundhettur og við vorum ræstar klukkan 09:20. Ég hafði ákveðið að hita ekkert upp áður, nema bara með teygju upphitun, svo mér yrði ekki kalt áður en ég færi út í. Sundið gekk mjög vel, en það sem kom mest á óvart var hversu mikil alda var í sjónum. Gúa hafði reyndar nefnt það við mig áður en við fórum út í, en ég hélt þetta væri ekki neitt. Sundið er einn 1,5 km hringur og fyrst er synt beint út, komið að rauðri bauju, þar sem maður beygir til vinstri. Ég hugsaði með mér að eftir baujuna myndi þetta skána, en nei, aldan hélt áfram og var ekkert skárri. Við tók langur kafli fram hjá hvítri bauju, svo aftur að annarri rauðri. Maður átti að hafa rauðu baugjuna vinstra megin við sig, og hvítu baugjuna hægra megin. Eftir næstu rauðu, þá kom önnur vinstri beygja, svo beinn kafli, önnur rauð og beygt til vinstri. Þar var hvít baugja sem maður átti að hafa hægra megin við sig, en við höfðum séð keppendur taka short-cut þar. En núna var komin kajak ræðari, svo það gat enginn stytt sér leið þar í gegn.

Eftir síðustu hvítu baugjuna var appelsínugult mark framundan og sundið búið. Leið samt alveg vel og nokkuð ánægð með tímann 36 mín og 7 sek – en ég synti líka 1.683 metra (ekki 1500 M) (2:08/100 metra).

T1: 3 mín 40 sek. Vegalengdin í T1 var um 550 metrar, þ.e. frá sundinu, að hjólinu og með hjólið út. Hjólið mitt var staðsett á milli F og G rekka og ég sem betur fer fann það strax. Þrátt fyrir að þetta væri bara ólympísk vegalengd, þá vildi ég fara í sokka, svo ég fengi ekki sár á fæturna fyrir Ermasundið. Þar sem ekki var synt í wet-suit var maður bara fljótur að klæða sig í sokka og skó, festa á sig hjálminn og taka svo hjólið af rekkanum og hlaupa með það út fyrir svæðið og út fyrir línuna, þar sem þú mátt fara á hjólið. En ég viðurkenni að ég hljóp nú ekkert hratt með hjólið smá sýra ennþá í fótunum eftir maraþonið síðustu helgi.

HJÓL: 1 klst 26 mín 01 sek. Ég vissi að hjólaleiðin væri erfið, en vegalengdin er 40 km, þ.e. tveir 20 km hringir. Við vorum búin að fara mestan hluta af leiðinni og vissum að það væri brött brekka sem var með um 7% halla upp. Í hjólabrautinni var líka hræðilega brekka niður sem var með um 12% halla. Þegar við fórum og fylgdumst með sprettþrautinni og Tómasi í gær, þá voru bara 5 hjólarar sem fóru á vegginn, þar sem þeir fóru allt of hratt niður þessa brekku. Við vorum öll ákveðin í því að lenda ekki í því.

Hjólaleggurinn byrjar upp brekku hjá Mövenpick hótelinu, þessi 7% halli og ég fann að ég var með sýru í lærunum, svo ég fór ekki hratt upp brekkuna, en ég alla vega gekk hana ekki. Sá svolítið eftir að hafa ekki farið út frekar með racerinn minn, heldur en TT hjólið, því hann er bæði með léttari kassettu og rafmagnsskiptum og það hefði hentað mun betur. En þetta hafðist. Svo tók smá sléttur kafli og niður aðra brekku, snúningur á hringtorgi og aftur upp brekku, sem var ekki eins brött en löng og aflíðandi. Ég tók eitt gel á leiðinni upp þessa brekku og fann strax hvernig orkan skilaði sér í líkamann. Svo var komið að því að fara niður bröttu brekkuna og ég bara fór strax á bremsurnar – ætlaði sko ekki að hitta „VEGGINN“. Við lékum okkur skemmtilega að þessum orðaleikjum, eins og að hitta vegginn, að dansa á línunni, þegar við fylgdumst með sprettþrautinni í gær, þar sem næstum allir Mexíkanarnir hlíddu ekki skipunum að fara af hjólinu áður en þeir komu að línunni, þegar þeir hlaupa með hjólið inn í T2. Þeir dönsuðu ekki á línunni, heldur fóru eiginlega alltaf yfir hana.

Brekkan niður gekk vel hjá mér og svo tók við smá beinn kafli, svo reyndar nokkrar krappar beygjur, til vinstri og til hægri og svo tekin undirgöng og farið í gegnum garðinn, aftur mjög bratta brekku, sem við vorum ekki búin að hjóla. Þá var ekkert annað að gera, en að standa bara hjólið og koma sér upp þessa bröttu brekku. Það hafðist líka og svo var hægri beygja og aftur snúningur til baka og þá kom langur hraður kafli frekar mikið niður. Sá ég náði þar hámarkshraða yfir 50 km á klst. Hugsaði alveg með mér, að ég myndi ekki vilja detta eða að það myndi springja hjá mér núna 🙂 En síðan hjóluðum við fram hjá hótelinu okkar og áfram í austur. Við höfðum farið þennan kafla tvisvar áður sem var gott og þarna hittum við Tómas og Mæju sem hvöttu mig áfram, sem var mjög gaman. Svo var snúið við, smá brekka upp og síðan langur beinn kafli, áður en við þurftum að fara nokkrar beygjur og hæga kafla niður í bæinn aftur og þá búin með fyrri hringinn.

Síðari hringurinn gekk mjög vel, nema þegar ég kom að hraða hraða kaflanum, sem ég hafði náð 50 km hámarkshraða þá fékk ég flugu í augað, var ekki búin að setja skyggnið fyrir augun og það var mjög óþægilegt að berjast við hana og reyna að ná henni úr auganu á mér, en hafðist að lokum.

T2: 3 mín 16 sek.
Ég passaði mig vel þegar kom að línunni, að fara ekki yfir hana eins og Mexíkanarnir höfðu gert í gær 🙂 Hljóp svo á hjólaskónum með hjólið að rekkanum mínum, hengdi upp hjólið, losaði hjálminn, fór úr hjólaskónum og í hlaupaskóna og setti á mig númerabeltið og derhúfuna og greip tvö gel sem lágu hjá skónum. Velti fyrir mér hvort ég ætti að drekka RedBull dósina sem ég var með, en ákvað svo að gera það ekki 🙂

HLAUP: 55 mín og 59 sek.
Það var orðið frekar heitt þegar ég hljóp af stað, sólin skein og ég var fegin að hafa tekið derhúfuna hvítu. Meðalhitastig í hlaupinu voru 27°C. Það voru drykkjarstöðvar á 2 km fresti og ég tók alltaf fullt glas af vatni og helti yfir derhúfuna mína og yfir mig sjálfa. Það voru miklar brekkur í hlaupinu, ég vissi af brekkunni sem var mjög brött við hliðna á Ólympíusafninu, en vissi ekki af hinum tveimur 🙂 Notaði tímann þegar ég gekk upp brekkuna að fá mér gel, og drakk svo bara vatn með. Það voru ótrúlega margir sem hvöttu mann áfram, sáu ISL og kölluðu áfram Ísland. Hitti líka nokkra vini mína úr þríþrautarsamfélaginu sem hvöttu mig áfram.
Hlaupaleiðin voru tveir 5 km hringir (5,2+4,8 km) og þrjár brekkur í hvorum hring. En falleg og skemmtileg leið.

LOKATÍMI: 3 klst 5 mín og 4 sek.
Ég var með úrið stillt á þríþrautarstillingu, svo ég var ekkert að spá í tímanum. Var búin að ákveða fyrir keppnina að vera skynsöm og passa að taka ekki of mikið úr mér, þar sem Ermasundið er áætlað bara rétt rúmum tveim dögum eftir þríþrautina. Það var yndislegt að sjá stelpurnar Sædísi, Hafdísi og Dagnýju hvetja mig áður en maður hljóp inn á bláa dregilinn í markið. Að sjálfsögðu tók ég Haddýjar hoppið í markinu. Lokatími 3 klst 5 mín og 4 sek.
(60 kona í aldursflokki kvk 50-54 ára)

ÞAKKIR
Kæru ferðafélagar takk fyrir yndislegar og skemmtilegar samverustundur í Lausanne. Innilega til hamingju öll með ykkar frábæra árangur. Gaman að kynnast ykkur öllum og hópurinn var einstaklega vel samstilttur.
Það var virkilega leiðinlegt að Guðlaug Edda náði ekki að klára, því það var mjög gaman að hvetja hana, bæði á hjóla- og hlaupaleggnum. Svo biðum við Hildur lengi eftir henni við markið með fánann.

september 1, 2019 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
Daglegt lífKeppnisKeppnissagaÞríþraut

Ironman Texas 2018

by Halldóra apríl 28, 2018

Vaknaði klukkan 04:00 og fór í sturtu og fékk mér morgumat, kaffi á fastandi maga og ristað brauð með osti og sultu. Aðalmálið eins og alltaf að ná að gera númer 2 😉  Pétur keyrði okkur svo niður í bæ, þar sem við höfðum komið hjólunum okkar fyrir. Var mjög fegin að hann skutlaði okkur, því þá þurftum við ekki að hafa áhyggjur af því hvar við fyndum bílastæði fyrir bílinn, enda bannað að leggja á mörgum stöðum, eins og við verslunarmiðstöðina og annars staðar.

Pumpaði í dekkin á hjólinu, maður verður að passa sig að setja ekki of mikið, þar sem þrýstingurinn eykst þegar sólin kemur upp og hitastigið eykst. Setti svo vatnsbrúsana á hjólið, gelin í hnakktöskuna og allt ready. Fór svo bæði í Running pokan og Hjóla pokann, og setti fanta dós og redbull dós í pokana og kom líka auka fötum fyrir ef ég myndi vilja skipta um föt og ef eitthvað kæmi fyrir. Hjálparsveitar Halldóra er alltaf með í undirmeðvitundinni.

Hittum Breiðabliks strákana á skiptisvæðinu og löbbuðum með þeim yfir að sundsvæðinu. Funduð gáma-klósett á leiðinni sem var ekki eins mikil röð við og hentum okkur í það. Þegar við komum að sundstartinu, var ennþá myrkur og ágætis tími til að fara enn og aftur á klósettið og svo var ekkert annað að gera, en að body-glæda sig og koma sér í wet-suitið.  Svo bara að koma skónum, úlpunni og öðrum fötum sem við vorum í utanyfir í hvíta pokann sem maður fær þegar maður kemur í mark. Þá var maður ready í wet-suiti með sundgleraugu, sundhettu og eyrnatappa og vatnsbrúsa sem ég myndi svo henda á leiðinni út í vatnið. Framundan 3,8 km sund.

SUND = 3,8 km Tími 1 klst 23 mín og 23 sek.
Ræsingin í sundið var svokölluð fljótandi ræsing. Þú raðaðir þér í þann hóp sem þú taldir að þu myndir ráða við. Við fórum inn í hópinn á milli 1 klst og 20 mín og 1 klst og 25 mín.  Fyrsti hópur ræsti klukkan 06:40 og svo var stöðugt verið að ræsa til klukkan 07:00. Það var búið að vera mikil umræða síðustu daga um hvort vatnið yrði of heitt til að mega synda í því, en svo var ákvörðun tekin um að það mætti. Það voru samt mjög margir sem syntu í ermalausu wet-suiti. Ég er nú svo mikil kuldaskræfa og fannst þetta ekkert sérstakleag heitt, enda mun kaldara en sundlaugin 🙂  Vatnið var auk þess mjög brúnt, mikill leir og drulla í því og ekki bragðgott. Ég var samt fegin að hafa mætt á æfinguna sem var í gær, en á ákveðnum tima máttum við synda í vatninu, ákveðinn hluta leiðarinnar.  Var einnig frekar stressuð yfir því að fá krampa, því ég hef verið að fá krampa í vinstri fætinum á sundæfingum, þar sem leiðnin var, eftir brjósklosið og þar sem dofnu tærnar eru.

Sundið gekk nokkuð vel framan af. Sama baráttan svo sem og alltaf og slagsmálin, en ég er orðin vön því, ef ég fæ á hann þá bara olnbogast ég á móti og ef einhver vogar sér að toga í fæturna á mér, þá sparka ég á móti. Komst fram hjá fyrstu snúningsbaugunni og svo var bara að halda áfram til baka. Rétt áður en ég kom svo að beygjunni til hægri þá byrjaði ég að krampa. Sá hvar einn keppandinn var við bakkann og stóð þar og var að laga sundgleraugun sín, svo ég synti til hans og náði að botna þar og lemja fætinum nokkrum sinnum niður í drulluna, eins og ég var vön að gera í sundlauginni og þá leið mér betur og hélt áfram.

Kom svo að beygjunni þar sem synt var inn kanalinn. Það var gaman að sjá húsin og fólkið á bakkanum og svo var síðasta snúningsbaugjan og að bryggjunni. Sundið búið, „thank God“ hugsaði ég en ég synti 4.070 m. skv Strava og kláraði á 1 klst 23 mín og 23 sek. og var bara mjög sátt við það. Var í 40 sæti í aldursflokki eftir sundið, kona númer 298 og 1370 af öllum þátttakendum.

 

T1 = 6 mín og 16 sek.
Fékk aðstoð við að komast upp úr vatninu, svo settist maður bara á grasið og fékk aðstoð við að toga mann út úr gallanum. Varð í staðinn fallega brún á rassinum ha ha ha, sá marga svoleiðis líka á undan mér.  Hljóp og tók hjólapokann minn, fór inn í tjaldið og fékk mér að drekka, þurrkaði fæturnar, fór í sokka og skó (fékk enga aðstoð, allir aðstoðarmenn uppteknir), en það var allt í lagi, tók hjálminn minn, henti wet-suitinu, sundgleraugun og sundhettu í pokann og skilaði honum til næsta aðstoðarmanns. Fékk svo sólarvörn á hendurnar og fæturnar á leiðinni út.  Hljóp að hjólinu, greip það og kveikti á garmin græjunni og hljóp með það út fyrir línuna, þar sem maður má fyrst fara á hjólið. T1 tími samanlagður 6 mín og 16 sek.

HJÓL = 5 klst 51 mín 23 sek. (ath Garmin Sagan ??)
Það var yndislegt að komast á hjólið, en skrítið að þekkja ekki leiðina. Höfðum hvorki keyrt hana né hjólað, svo ég vissi ekkert hvert ég ætti að fara, hef alltaf kynnt mér leiðina áður, en ekki núna, en það var allt mjög vel merkt, svo ég vissi að ég myndi ekki týnast 🙂  Það var yndislegt að hjóla í þessu góða veðri, þó það væri mjög heitt, þá er góð vindkæling á hjólinu. Mér leið mjög vel og passaði mig alltaf að halda góðu bili í næsta hjólara og þurfti því oft að hægja á mér þegar stórir hópar komu fram hjá mér.  Fyrstu hjólaði maður einhvern hring þarna inn í bænum og svo fór maður út á hraðbraut í áttina að flugvellinum. Þegar ég var komin þangað og komin aðeins upp eftir, fór maður að sjá fyrstu hjólarana koma á móti manni og það sem kom mér á óvart var að þeir voru allir í stórum hópum og enginn að dæma „draft“ á þá. Man ég hugsaði hvað þetta var skrítið.   Ég var stöðugt að hægja á mér þegar hraðari hjólarar komu og tóku fram úr mér, því ég ætlaði sko alls ekki að láta dræma drafting á mig, samt sá ég aldrei mótorhjól, man ég hugsaði að þau hlutu að fara að koma fram úr mér.

Rétt við flugvöllinn er snúið við á keilu.  Á leiðinni er maður oft að fara yfir svona stórkostlegar brýr og það var hækkun í þeim. Það var kannski það sem kom mest á óvart, að hjólaleiðin væri ekki marflöt, því það var búið að tala um það að hún væri algjörlega flöt.  Svo kom snúningspunktur eftir 45 km, fjórðungur búinn, nú var að hjóla alla leið niður eftir til baka, og svo aftur upp að keilu og snúa aftur við.  Það var gaman að sjá að það voru hjólarar á eftir mér, þegar ég hjólaði niður eftir. En það voru tveir hjólarar sem vöktu mestu athygli, en þeir voru að hjóla leiðina á svokölluðu „fatbike“ hjóli, sem er ekkert smá afrek að mínu mati.  Bakið á mér var alveg að finna fyrir hjólinu, svo ég var bara dugleg að rétta úr mér og hjóla frekar upprétt, hélt þá bara í letingjana og náði að rétta vel úr mér, en fékk bara vindinn í fangið í staðinn.  Þegar ég var kominn x km þá varð ég að stoppa og henda mér á klósettið. Það eru margir sem geta pissað á sig á hjólinu, en ég er ekki ein af þeim. Ég hef reynt að æfa það, en algjörlega án árangurs. Mér var farið að líða það illa, og mikið mál að ég vissi að það væri betra að eyða nokkrum mínútum í að stoppa og pissa, heldur en að bíða þar til ég væri komin í T2.  Það var líka rétt, mér leið mun betur eftir pissustoppið sem skilaði sér í betri líðan á hjólinu. Ég var ekki að borða mikið, en ég var með tvo brúsa með orkudrykk í á mér og greip banana á leiðinni og tók inn 2 gel allt hjólið.

Kláraði hjólið á 5 klst 51 mín og 23 sek, með pissustoppinu, samkvæmt Strava var ég xxx.  Eftir hjólið var ég komin í 35 sæti í aldursflokki, þ.e. búin að vinna mig upp um 5 sæti. Var í 248 sæti af öllum konum (upp um 50 sæti frá sundinu) og 1.267 overall.

T2 = 10 mín og 34 sek.
Steig af hjólinu áður en ég kom að línunni og aðstoðarmaður kom og tók við hjólinu og fór með það, frekar næs, því oftast þarf maður að hlaupa sjálfur með hjólið og skila því á rekkann. Ég sá Pétur og Sædísi þar sem ég kom inn og hljóp til þeirra og knúsaði og gaf „high-five“. Hljóp svo á hjólaskónum (ekki beint þægilegt) í gegnum allt hjólasvæðið að hlaupapokunum. Greip pokann minn og hljóp inn í tjald. Fór úr hjólaskónum í hlaupaskóna, skilaði hjálminn setti upp derhúfu og meira af sólarvörn á mig og fékk mér Fanta að drekka. Fór svo á klósettið áður en ég skilaði pokanum af mér.  Tími í T2 var því 10 mínútur og 34 sek. sem er frekar langur tími.  (eftir hjól hugsar maður gott nú get ég bara klikkað ekki hjólið hahah)

HLAUP = 4 klst 43 mín 38 sek. 

Svo byrjaði hlaupið, þá fyrst byrjaði ballið. Það var ógeðslega heitt, vægt til orða tekið, svo planið var að stoppa bara á hverri einustu drykkjarstöð og þar var derhúfan fyllt af klökum, fenginn nýr ískaldur svampur sem var settur inn á bringu og einnig var troðið klökum inn á bak og bringu. Drakk RedBull á hverri drykkjarstöð, sem og vatn og kók eftir þörfum.

Reyndi að halda samt stöðugt áfram að hlaupa, þó ég fór ekki hratt, því ég vissi að ef ég myndi byrja að ganga þá væri erfitt að byrja að hlaupa aftur.  Þegar ég var komin rúmlega helming með minn fyrsta hring þá kom Viðar Bragi fram úr mér en hann var að klára þriðja og síðasta hringinn sinn. Það var gaman að hitta hann, en Guð hvað ég öfundaði hann, og vildi að ég væri að klára.  En þetta var fjölbreytt og skemmtileg hlaupaleið en þvílíkur hiti og sólinn voru að steikja mig. Man ég bað til Guðs um að skýin færu nú fyrir sólina, en varð ekki að ósk minni allt hlaupið. Eftir að hafa klárað fyrsta hring, hitti ég Pétur og Sædísi, wow hvað það var gaman að ná að gefa þeim high-five og fá hvatninguna. Það kom mér áfram. Fór svo á salernið enn og aftur þegar ég kom að sundstaðnum, en þurfti svo ekkert að pissa þegar til kom, þurfti greinilega bara að taka inn meira salt, en ég var samt að reyna að vera dugleg að taka inn salt.  Kom samt bara niður einu geli í mig í þessu maraþoni, en tók inn banana, og sítrónur og appelsínur með klökunum á drykkjarstöðvunum og RedBull og ennþá meira RedBull var bara málið í þessum geðveika hita.

Það var góð tilfinning að leggja af stað í þriðja og síðasta hringinn í hlaupinu, en það hafði fækkað verulega áhorfendum við gangstéttirnar, og fólk minna að bera virðingu fyrir því að halda þeim auðum fyrir hlauparana 🙂  Síðasti snúningspunkturinn og ég hringdi bjöllunni og sá sem stóð vaktina, þar vissi áður en ég kom að ég væri á síðasta hring, veit ekki hvernig eða af hverju hann mundi eftir mér,  en maður fær ekki svona teygjur á hendurnar þarna eins og í Evrópu, en það eru auðvitað tímatökumottur um allt, svo það er ekkert hægt að stytta sér leið.  En já hann gaf mér high-five, ég hringdi bjöllunni og nú var lítið eftir.  Úrið sagði 200 metrar, en samt var ég ekkert farin að sjá í marklínuna. Endaði svo reyndar á að hlaupa 4 x…. km  Hitti Pétur og fékk hjá honum íslenska fánann minn. Og þá byrjaði endorfínið að kikka inn. Náði að hlaupa meðfram áhorfendum fyrst niðureftir með íslenska fánann og ég hélt ég væri að koma í mark, nei þá var þar snúningspunktur og hlaupið aftur uppeftir, wow hvað þetta var gaman, ég öskraði og leyfði íslenska fánanum að blakta.

Tók svo að sjálfsögðu Haddýjar stökkið þegar ég kom í mark og þulurinn kallaði „Halldora from Israel – You are an Ironman“ 😉 Var sko alveg saman þetta var svo yndisleg tilfinning að koma í mark. Hljóp maraþonið á 4 klst 43 mín og 38 sek. og samanlagður tími var 12 klst 15 mín og 14 sek.

Var í 25 sæti í aldursflokki (upp um 15 sæti frá sundi), 200 sæti af öllum konum (upp um 98 sæti frá sundinu) og 992 sæti overall (upp um 378 sæti overall frá sundinu) og er bara nokkuð ánægð með það.

ÞAKKIR

Keppni eins og Ironman er bara punkturinn yfir i-ið á löngu og skemmtilegu ferðalagi. Elsku Irina takk kærlega fyrir allar skemmtilegu og yndislegu æfingarnar okkar sem og ferðlagið allt saman, það var virkilega gaman að vera með þér. Elsku Sædís og Pétur, takk fyrir að taka svona vel á móti okkur og fyrir allan stuðninginn allan keppnisdaginn, þið eruð yndisleg og einstök, takk kærlega fyrir okkur vinkonurnar, þið eruð þvílíkir höfðingjar heim að sækja <3 <3 <3

MYNDBAND HÉR:

 

apríl 28, 2018 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnisÞríþraut

KEPPNISSAGA Sprettþraut 3N 2016

by Halldóra ágúst 27, 2016

Tók þátt í dag í frábærri Sprettraut 3N í Reykjanesbæ.

Sprettþraut gengur út á að synda 400 metra hjóla 10 km og hlaupa 2,5 km.

Við syntum í innisundlauginni í Vatnaveröld, hjóluðum svo 4 * 2,5 km hringi og hlupum svo einna 2,5 km hring.

Keppnin var ræst í tveim hollum, þar sem um metþátttöku var að ræða.

SUND 00:08.27
Ég synti á braut númer 6 í síðara hollinu. Sundið gekk mjög vel, en við vorum 7 á brautinni.

T1 = 00:01:12
Ég ákvað að fara í peysu yfir þríþrautargallann og var því frekar lengi í T1 eða rúmlega 1 mínútu, sem er ekki góður tími 😉

HJÓL = 00:19:51 (30,23 km á klst)
Hjólið gekk mjög vel, mér leið vel allan tímann og tók fram úr tveim hjólurum á leiðinni.
T2 = 00:01:19
Var aftur allt of lengi á skiptisvæðinu, lenti í vandræðum að komast í skóna, þó ég væri með skóhorn, og fór úr jakkanum, verð að velja þægilegri og einfaldari skó næst, en skó með reimum 😉

HLAUP = 00:11:56 (pace 4,46)
Hlaupið gekk mjög vel, mér leið vel allan tímann og tók fram úr nokkrum á leiðinni. Var samt alltaf undir 180 í púls svo ég hefði örugglega getað hlaupið hraðar, næg orka allan tímann. Enda tók ég góðan endasprett í lokin.

SAMTALS = 00:42:58
Heildartími var 42 mínútur og 58 sek sem er bara ágætis tími held ég, sérstaklega í ljósi þess að ég á klárlega inni rúmlega 1 mínútu samtals í T1 og T2 því ekki hægt að kvarta. Varð í 40 sæti í heildina og í 9 sæti af öllum konum og 5 sæti af konum í aldursflokki 40-49 ára.

ÞRÍKÓ gekk mjög vel í dag og náðum við flestum stigunum þó við hefðum tapað með 14 stigamun fyrir 3SH í heildarstiga-keppninni. Ætlum okkur klárlega að ná þeim á næsta ári.

ágúst 27, 2016 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnisÞríþraut

KEPPNISSAGA – CHALLENGE ICELAND 2016

by Halldóra júlí 23, 2016

Vekjaraklukkan hringdi klukkan 06:45 en ég kom mér ekki á fætur fyrr en klukkan 07:00. Það var svo sem allt tilbúið, nema henda dótinu í pokana (hjóla-, hlaupa- og eftir keppnispokana), fá sér kaffi á fastandi maga, morgunmat og síðan að henda sér í þríþrautarfötin. Samt tekur þetta alltaf aðeins lengri tíma en maður ætlar sér svo við Óli vorum komin út klukkan 08:00 – ætluðum að leggja af stað 07:45.

Það var GRENJANDI rigning á leiðinni upp eftir og ástandið minnti mig ískyggilega á 1/2 grenjandi rigningjárnmanninn sem ég tók þátt í hjá 3SH í Hafnarfirði árið 2012, fyrsta árið mitt í þríþrautinni, þegar það rigndi eldi og brennisteini. Varð líka hugsað til þess að hafa sagst ekki ætla að taka þátt, nema það yrði þokkalegt veður. ,,Nenni ekki að fara að hjóla í Hvalfirði 90 km í grenjandi rigningu og roki”. OK – það var ekki mikið rok.

Þegar við komum upp í Kjós, við Meðalfellsvatn, voru stelpurnar komnar, búnar að taka hjólin úr bílnum og pokana og voru á leiðinni niður að skiptisvæði með hjólin og pokana, þ.e. bæði hjólapokann og hlaupapokann. Ég rölti svo með þeim niður eftir, lét skoða hjálminn og bremsurnar á hjólinu, allt OK, og kom svo hjólinu fyrir á réttum stað, #44. Allt vel merkt og vel skipulagt og skiptisvæðið mjög flott með rauðum dregli og borðum og tjöldum, allt merkt CHALLENGE family, en allt líka orðið vel blautt.

Fór síðan í klósettröðina, sem var að verða þó nokkuð löng og kom mér svo fyrir uppi í veitingatjaldi til að klæða mig í wet-suit gallann. Svo var bara að koma sér niður að vatni.

SUND 1,9 km = 00:41:47
Pro-karlar voru ræstir klukkan 10:00. Pro-konurnar nokkrum mínútum á eftir og við öll hin í aldursflokki klukkan 10:05. Vatnið var kalt eða um 14 gráður, hafði kólnað um eina gráðu frá deginum á undan. Það var samt ágætt að fara aðeins fyrr í vatnið, fór og synti aðeins og fann eins og alltaf í þessum kulda mikið fyrir kuldanum í lungunum, svona eins og oföndunareinkenni, þar sem það tekur þau smá tíma að venjast kuldanum. Gleraugun láku ekki eins og í Svíþjóð svo ég tók þau ekkert af mér, var allan tímann með þau á mér, líka á meðan við biðum eftir að vera ræst út.sundid

Leið ágætlega um leið og það var ræst og mér fundust lungun lagast. Eftir að hafa synt í smásund, sé ég hvar vatnið var orðið mjög gruggugt og allt í einu er bara fullt af fólki í kringum mig farið að labba eða hlaupa á grynningunum. Ég reyndi að standa upp en fannst það bara óþægilegt svo ég hélt bara áfram á sundi. Kom þá að stórum stein sem ég varð að synda fram hjá.

Loksins kom ég svo að fyrstu bauju en það var mjög erfitt að sjá baujurnar úr fjarska, kannski líka því móða var komin í gleraugun mín þar sem ég vildi ekki taka þau af mér á meðan ég beið eftir ræsingunni. Náði ekki að drafta neinn, þar sem mér fannst bara allir langt á undan mér. Eftir að hafa beygt til vinstri við fyrri baujuna, sé ég hvar einn sundmaður kemur syndandi beint á móti okkur, í alveg kolranga átt, þessi sundmaður var rammviltur. Ég hélt áfram að næstu bauju og þá voru tveir menn við hliðina á mér, annar synti nú bara yfir mig við baujuna en hinn var aðeins á undan mér. Sá sem synti yfir mig fannst mér stefna ansi mikið að landi og hinn lengra út á vatnið svo ég ákvað að synda þó nokkuð langt á milli þeirra þ.e. í þá átt sem ég hélt að tjaldið væri í landi. Sá samt aldrei tjaldið vegna móðu, synti því meira eftir minni.13833419_10155102139689778_2100584924_o

Ég man að ég hugaði á þessum tímapunkti að ég hefði kannski átt að prófa hjólið og hjóla smávegis áður en ég kom því fyrir á skiptisvæðinu, man ekki í hvaða gír það var, og vissi ekki yfir höfuð hvort það væri í lagi 😉 😉 Óli hafði samt pumpað í það um morguninn 😉 Fyndið hvað maður fer að hugsa mikið þegar maður hefur nægan tíma.

Sundið gekk vel og ég var farin að sjá til lands, elti þennan sem hafði verið vinstra megin við mig og sá að hann fór vinstra megin við síðustu baujuna. Það var aðeins umræðuefni fyrir sundið hvort maður ætti að fara hægra megin eða vinstra megin við þessa síðustu bauju en ég ákvað bara að elta þennan og fara þá örugglega lengri leiðina þ.e. vinstra megin við baujuna, svo það væri ekkert short-cut.

T1 skiptitíminn er 00:04:48 – samtals tími 00:46:36
Það var virkilega flott þjónusta hjá sjálfboðaliðunum þegar maður kom í land. Númerið t1manns var kallað upp, svo pokinn var tilbúinn þegar ég kom að skiptitjaldinu. Ég fékk aðstoð hjá Sigrúnu Árna að koma mér úr gallanum sem var frábært því ég var frekar loppin á höndunum. Fór í sokka og hjólaskó (festi samt ekki smelluna), fór í langermapeysu og setti á mig bakbeltið, setti aftur á mig úrið (sem maður verður að taka af sér áður en maður fer úr wet-suitinu), setti buff um hálsið og annað um höfuðið og hljóp svo að hjólinu með hjólagrifflurnar þar sem hjálmurinn minn og númerabeltið var.

Það voru algjör mistök að fara ekki í hjólagrifflurnar og fá aðstoð við það í tjaldinu því ég var örugglega í 2 mínútur að reyna að komast í grifflurnar þar sem ég stóð við hjólið. Svo var ég líka að rembast við að reyna að festa smellurnar á skóna mína, sem er svona snúið uppá, en það er mjög erfitt þegar maður er ískaldur og blautur. Eftir þennan langa tíma fóru hjólagrifflurnar á endanum upp á fingurna og hjálmurinn á hausinn og númerabeltið á sinn stað (setti það fyrst á mig á hvolfi) og svo var hlaupið af stað upp brekkuna með hjólið og yfir ráslínuna áður en ég henti mér upp á það.

HJÓL 90 km = 03:17:08 – samtals: 04:05:56
Magga Páls og Rafn fóru á sama tíma og ég af stað og tóku bæði fljótlega fram úr mér. Ég t13sá samt að eina leiðin til að koma hita í skrokkinn var að reyna að taka á því á hjólinu. Hugsaði samt líka, hey það eru 90 km framundan og svo hálft maraþon og maður má ekki taka of mikið úr sér. Margrét er mjög öflugur hjólari svo bilið á milli okkar jókst strax. Vorum samt ekki komnar langt þegar ég sá Margréti útí kanti en hún hafði þá misst keðjuna og þurfti að stoppa til að laga það. Ég hægði á mér og spurði hvort hún væri ekki OK, og fékk jú svo ég hélt bara áfram. Skömmu síðar kom hún svo aftur á fljúgandi ferð fram úr mér.

Svo sá ég að Ranna var í vandræðum en það var komin þjónustubíll að aðstoða hana en þá hafði sprungið hjá henni og hún ekki með nein verkfæri á sér til að skipta um slöngu.

Ég hélt áfram og þegar ég var alveg að koma inn að botni, sá ég Gúu, þekkti gulu sokkaskóna sem hún keypti í sumar í Svíþjóð, og kastaði á hana kveðju þegar ég fór fram úr henni.

Hélt svo áfram og fór fram hjá vatnsstöðinni án þess að taka brúsa, var ennþá með nógan vökva og gel en spurði um banana sem voru ekki til þarna. Hélt svo áfram inn að Ferstiklu og fór þá fram úr fleirum sem voru í vandræðum, þ.e. sá viðgerðarbílinn, veit ekki hvort þetta var sá sami eða annar að aðstoða einhvern útí kanti.

Brekkurnar tóku vel á en það var gaman þegar ég var farin að mæta PRO-hjólurunum sem voru á leið til baka og gat hvatt þá áfram, “GO GO GO !!!” það var skemmtilegt.

Það var líka yndislegt að komast inn að snúningskeilunni eftir 45 km og vita þá að maður var hálfnaður, það er alltaf góð tilfinning, man ég fékk hana líka þegar sundið var hálfnað. Alltaf gott fyrir hausinn að hugsa, innan við 50% eftir 😉

Fékk mér vatnsbrúsa á stöðinni en gleymdi að spyrja um banana, sem ég var búin að ákveða að ég ætlaði að fá mér 😉 Ekkert við því að gera, ekki snýr maður við 😉

Náði svo Birnu rétt eftir drykkjarstöðina og svo stelpu númer 32 sem varð svo vinkona mín á hlaupunum, Cecilia Dan Hartmeyer en hún er dönsk og varð 3. í sínum aldursflokki, 30-34 ára.

Sá svo Pétur hennar Siggu út í kanti þar sem hann var að taka myndir, gaman að veifa honum og fá hvatningu og það upp bratta brekkuna. Hafði reyndar séð hann á leiðinni inn úr líka en hann fattaði ekki hver ég var, fyrr en ég var komin fram hjá.

Eftir að ég er komin inn í Hvalfjarðarbotn og á leið til baka í Kjósina, missti ég eitthvað orkuna eða “zónaði” út, eins og ég geri stundum. Þá kom Cecilia aftur fram úr mér og Rafn líka, veit ekki alveg hvar ég tók fram úr honum, en alla vega fóru þau bæði fram úr mér. Í einni bröttu brekkunni tók ég aftur fram úr Ceciliu fannst hún hafa hægt á sér og vildi ekki hægja á mér, því ég var alltaf að passa þetta 12 metra bil, sem verður að vera á milli hjólara. Þegar við vorum alveg að koma upp þessa síðustu brekku tók hún aftur fram úr mér og var á undan mér, ekki samt nema þessa 15 metra þangað til við komum í mark. Var samtals 3:17.08 á hjólinu.

T2 skiptitími er 00:02:11 – heildartími 04:05:56
Sá Óla og Irinu á skiptisvæðinu og var voða glöð að vera búin að hjóla, sérstaklega þar sem t14ég sá að margir höfðu lent í vandræðum. Í öllum svona þríþrautarkeppnum hef ég alltaf krossað fingur og þakkað fyrir að lenda ekki í því að sprengja eða þaðan af verri vandræðum, því það getur allt gerst í hjólaleggnum, sem maður hefur enga stjórn á.

Henti hjólinu á næsta rekka og hljóp í átt að skiptitjaldinu. Þar tók Sigrún á móti mér, brosandi og alltaf jafn yndisleg, rétti mér pokann og hvolfdi úr honum. Spurði hvað ég vildi fá og ég man ég sagði bara hlaupaskóna og derið. Henti svo hjálminum ofan í pokann og fór í skóna og setti á mig derið. Þá sagði Sigrún viltu ekkert gel, jú auðvitað ætlaði ég að taka gelið með mér en maður er orðinn svolítið steiktur í hausnum, þannig að ég þakkaði henni kærlega fyrir, tók gelið og orkugúmmíhlaupapokana og henti mér svo af stað. Fínn skiptitími þar eða rétt rúmar 2 mín.

HLAUP 21:1 km = 02:08:18
Lagði svo af stað í hlaupið. Kom út úr skiptisvæðinu á svipuðum tíma og vinkona mín #32 t15sem ég hafði verið að taka fram úr og sem tók fram úr mér á hjólinu. Ég var fyrst aðeins á undan henni, svo tók hún fram úr mér og var aðeins á undan mér. Það var alveg logn og orðið frekar hlýtt á þessum tíma og það hafði stytt upp þannig að það var fínt hlaupaveður. Hún stoppaði og fékk sér að drekka á fyrstu vatnsstöðinni en ég hélt bara áfram svo ég var á undan henni inn meðfram vatninu. Mætti Önnu, Telmu og Margréti á þessum kafla og þær litu allar mjög vel út. Mér leið ágætlega, púlsinn var ekki hár en fæturnir einhvern veginn hlupu bara ekki hraðar.

Ég var ennþá með bakbeltið og var stöðugt að toga það niður á mjaðmir, því ég fann að ég var aum í hægri mjöðminni og þar sem brjósklosið er á milli 4. og 5. frekar neðarlega, þá fannst mér best að hafa stuðninginn yfir mjaðmirnar frekar en í mittinu. Ég var því stöðugt að ýta því niður en gat ekki hlaupið mjög hratt. Púlsinn var hins vegar frekar lágur, eða um 160 – sem er ekki hátt hjá mér, hefði mátt hlaupa á um 170-180 en hámarkspúlsinn minn er 200.

Mér leið samt alveg ágætlega, tók eitt gel eftir um 3 km, þegar ég var búin að fara yfir fyrstu mottuna. Vinkonan var ennþá á eftir mér en hún stoppaði aftur á næstu vatns-drykkjarstöð. Mér leið ágætlega að hlaupa svo upp brekkuna en fann að ég var komin í ansi mikinn spreng að komast á klósett. Ég spurði því starfsfólkið á næstu stöð og maður fékk fyrstu teygjuna, þ.e. gula teygju hvort ég mætti pissa við bílinn. Jú, þau gáfu grænt ljós á það – svo ég skellti mér bara upp við dekkið og settist á hækjur mér, fékk meira að segja lánaðan klósettpappír hjá yndislegum sjálfboðaliða sem var þarna.

Var ég búin að segja ykkur hvað sjálfboðaliðarnir voru einstakir í þessari keppni ?

Þegar ég er búin að pissa er Cecilia komin og ég næ að hanga á eftir henni niður eftir, sem var ágætt, því það var smá rok þarna á móti. Hékk í henni alveg fram að því að við kláruðum þennan fyrsta hring. Á þessum tímapunkti var Siggi Nikk að klára, ég man hvað ég öfundaði hann að vera búinn en hann flaug þarna fram hjá okkur niður brekkuna og hvatti mig til að halda áfram að brosa 😉

Kláraði fyrri helminginn af hlaupinu á 1 klst 3 mín og 59 sek. Fékk þá aðra teygju þ.e. rauða og svo var haldið áfram. Fór aðeins að spjalla við Ceciliu sem reyndar vildi svo stoppa á næstu drykkjarstöð og ætlaði að labba. Ég hvatti hana til að halda áfram og elta mig en hún vildi hvíla. Hitti Hákon sundþjálfara áður en ég kom að bóndabænum og hann sagði gefðu í og náðu mér 😉 Ha ha ha var ekki alveg á þeim buxunum. Svo var bara að fara út að bóndabænum og yfir tímamottuna þar og svo til baka.

Stoppaði samt sjálf á næstu drykkjarstöð og fékk mér bæði vatnsglas og kókglas, fyrsta kókglasið síðan ég byrjaði að hlaupa, var reyndar nýbúin að taka þriðja gelið í hlaupinu. Svo var bara að hendast upp brekkuna, hitti þá Hákon aftur og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að bíða eftir mér. Hann sagðist myndu bíða eftir næstu brekku ha ha ha (þá komin í mark). Það var ekkert annað að gera en að sækja síðustu teygjuna, þ.e. bláu og fá frábæra hvatningu eins og alltaf þar og hendast svo niður og klára þetta hlaup.

Mér leið alveg ágætlega, hugsaði þetta eru bara 3 km eftir, eins og einn lítill Ásahringur og það var gott að fá mótvindinn og kælinguna á leiðinni niður eftir. Man ég hugsaði að í fyrra var ég farin að hlaupa og ganga til skiptis á þessum tímapunkti, var alls ekki í jafn slæmu ásigkomulagi núna, þótt ég færi ekki hratt yfir og væri í raun með lakari tíma nú en í fyrra, en það skiptir ekki máli, þegar gleðin er annars vegar.

Kláraði hlaupið á 2 klst 8 mín og 18 sek. og þar með keppnina á 6 klst 14 mín og 15 sek. kominimark3Náði 2. sæti í aldursflokki 45-49 ára (af 2 keppendum). Ég var alltaf mjög sátt við það þar sem ég hef ekki æft mikið þríþraut þetta árið þar sem áherslan var á gönguskíðin síðasta vetur fyrir Vasaloppet og svo var áherslan á fjallahlaupin í allt sumar fyrir Lavaredo. Maður uppsker alltaf eins og maður sáir (í jákvæðri merkingu þess orðs) og því var ég virkilega ánægð með að ná markmiðum mínum fyrir þessa keppni sem var í fyrsta lagi að klára og í öðru lagi að hafa gaman af.

ÞAKKIR
Það er auðvitað alveg frábært að eiga yndislegan maka sem styður mann og styrkir í öllu því sem maður er að gera og Óli var með mér í Kjósinni allan daginn sem var alveg frábær stuðningur. Takk fyrir það, elsku Óli. Svo hafa Dóri sjúkraþjálfari og Bjössi einkaþjálfari í Laugum haldið bakinu á mér gangandi. Ég ákvað til dæmis að vera með bakbeltið á mér allan tímann, þ.e. bæði á hjólinu og í hlaupinu og það kom sér mjög vel. Hjólið er mjög krefjandi að liggja frammi á því í 3 klst, þegar maður er með brjósklos og tæpt bak sem þarf stöðugt að halda í lagi. Ákvað þar að fórna LOOKINU og vera með beltið, en það hjálpaði mikið, auk þess sem ég hef ekki æft langt hjól í allt sumar svo bakið er heldur ekki vant því að vera í þessari stellingu svona lengi. Takk kæru félagar.

Í Þríkó á ég líka bestu æfingafélaga í heimi og frábæra þjálfara, þá Hákon Jóns, Viðar Braga og Ívar. Takk kæru æfingafélagar og þjálfarar.

SAMANBURÐUR
Hér að neðan er samanburður við tímana mína í sömu keppni í fyrra. Þá var reyndar synt frá öðrum stað og reyndar var bæði hjóla- og hlaupabrautin aðeins öðruvísi. Var samt á 20 mínútna lakari tíma núna. Í fyrra æfði ég þríþrautina meira með fjallahlaupunum, þar sem ég fór í Ironman í Flórída í nóvember og reyndar stóra fjallahlaupið í Mt.Blanc í lok ágúst í fyrra. Þetta árið var stóra 120 km fjallahlaupið mitt A keppnin mín og veturinn fór að mestu í gönguskíðaæfingar fyrir Vasaloppet. Er því mjög sátt við árangurinn og veit að ég á alltaf inni, því maður uppsker alltaf eins og maður sáir.

júlí 23, 2016 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
KeppnisÞríþraut

KEPPNISSAGA IM FLORIDA 2015

by Halldóra nóvember 7, 2015

Hér að neðan er ítarleg keppnissaga eftir Ironman Flórída keppnina sem ég tók þátt í með Þríkó vinkonum mínum, þeim Sjönu, Siggu, Irinu, Möggu og Gúu, en við kölluðum okkur Sexurnar.  Þetta er fjórða Ironman keppnin sem ég tek þátt í á innan við þremur árum, en við Sjana og Ásgeir fórum í Ironman í Cozumel í lok nóvember 2012 sem var fyrsti IM hjá okkur Sjönu. Við Sigga fórum með Ásgeiri í Ironman í Frankfurt í júlí 2013 og við Sjana og Irina fórum ásamt Ásgeiri með mörgum Þríkó félögum í Ironman Kalmar í ágúst 2014.

Við vöknuðum klukkan 04.00 á keppnisdegi, laugardagur 7. nóvember 2015. Skilaboðin sem við sáum á Facebook síðu Ironman keppenda  – sjórinn of heitur til að teljast löglegur og þá má ekki synda í galla. Ef sjórinn er frá 24-28 gráðum á Celsíus þá má synda í galla en þá getur þú hvorki unnið til verðlauna né fengið Kona sæti. Ef sjórinn fer yfir 28 gráður þá má enginn synda í galla.  Ég spurði Viðar Braga Kona-fara og þjálfara ráða, hvað við ættum að gera, ef þessi staða kæmi upp. Hann sagði að ef þessi staða kæmi upp þá myndi hann sjálfur ekki synda í galla, nema það væru líkur á því að hann næði ekki innan tímamarka annað hvort í sundinu eða keppninni í heild sinni.

Við Sjana ákváðum  að fara að ráðum Viðars, enda vissum við að við gætum alveg synt án galla, gerðum það í Cozumel, þó að sjálfsögðu taki það meiri orku. Ég nota fæturna meira þegar ég syndi ekki í galla og auk þess flýtur maður ekki eins vel og í gallanum. Hinar fjórar af Sexunum ákváðu að synda í gallanum, sem var alls ekki óskynsamlegt, svona eftir á að hyggja. Það var enginn greinarmunur gerður á því hvort þú syntir í galla eða ekki þegar úrslitin liggja fyrir.

Eftir léttan morgunmat, þ.e. ristað brauð og kaffi,var lagt í hann. Ætluðum að leggja af stað klukkan 04:45 en fórum ekki fyrr en um klukkan 05:00. Við vorum því ekki komin á skiptisvæðið fyrr en 05:15 sem hefði átt að vera nægur tími þar sem ræsa átti sundið klukkan 06:15.  Henti af mér „special needs bags“ bæði hjóla og hlaupa, en ég set alltaf eitt epli og samloku í hvorn pokann. Var líka með gamlan bol í hjólapokanum, ef mér yrði kalt, en búið var að ráðleggja okkur það. Þetta var bolur sem ég var til í að fórna, þar sem  maður fær þessa poka ekkert aftur.

Næst var að pumpa í dekkin á hjólinu og setja næringu og drykki á hjólið. Sjana var með mína pumpu svo ég náði að hitta á hjón á svæðinu hjá mér sem voru búin að pumpa í sín hjól. Ég fékk þau til að aðstoða mig því það þarf að halda vel í ventilinn á disknum og setja ákveðið stykki (sjá mynd hér að neðan)  á pumpuna til að komast að honum. Það gekk allt vel en um leið og ég er að kveðja hjólið, búin að koma drykkjum og gelum fyrir, uppgötva ég að maðurinn með pumpuna tók stykkið sem ég þarf til að geta bætt lofti eða kvoðu í dekkið. PÚFF – Þarna var ég í slæmum málum.

zipp-adapter-zoom

Fékk eiginlega vægt sjokk svo nú var bara að krossa fingur og vona að ekki myndi springa.  Fann að þetta stressaði mig mikið, var ekkert að spá í sundinu, eða að ná að hita upp í sjónum, náði ekki að hitta Sjönu með pumpuna mína og hittum ekki Óla og Atla en ég ætlaði að koma til hans wetsuit gallanum sem ég hafði tekið með mér í poka, ef ég hefði skipt um skoðun með að synda í honum. Hvíti pokinn með morgunfötunum var orðinn úttroðinn og slitnaði svo ég þurfti að fá annan yfir.

Það var mikið verið að pressa okkur þarna á svæðinu og við vorum kölluð á ströndina klukkan 05:45, voru að loka svæðinu, svo ég rétt náði að henda af mér kaldri kók í T1 pokann og  bætti aukahlaupafatnaði í T2 pokann, var með slæman niðurgang um morguninn og þorði ekki öðru en að hafa auka föt þar ef ég myndi lenda í einhverju slæmu niðurgangsslysi á leiðinni.   Líðanin þarna rétt fyrir keppni var alls ekki góð, komst ekki á klósettið og allt í stressi út af þessu pumpudæmi. Þegar ég kom svo á ströndina, búin að skila af mér hvíta pokanum, hitti ég loksins á Sjönu sem hafði reynt að finna mig og hún komst ekki í T2 pokann sinn og lét svo bara einhvern starfsmann geyma fyrir sig pumpuna mína. Við sáum  Atla og Óla á ströndinni þar sem þeir voru með íslenska fánann og þar gat ég deilt áhyggjum mínum af þessu stykki með Óla. Lærdómur dagsins, við komum allt of seint á svæðið, allt of mikið stress, mun ekki gerast aftur. Það er nokkuð ljóst.

Það var ekkert annað að gera en að setja upp Pollýönnubrosið og henda sér í kaldann sjóinn án þess að hafa hitað upp, eins og ég ætlaði að gera, hafði hvorki hlaupið, né dýft tánum í sjóinn, eða prófað sundgleraugun. Þátttakendur voru almennt að því, hefði gert það, ef ég hefði haft meiri tíma.

Fatlaðir þátttakendur voru ræstir fyrstir, þ.e. klukkan 06:00 og við án galla 06:15 svo átti að ræsa hópinn þar sem þátttakendur voru í gallanum 15-20 mínútum síðar.12188968_10154382894569778_1454957856032282637_n

SUND  (1:23:39 – 27. sæti eftir sundið – allir í sama flokki)
Var ótrúlega lítið stressuð fyrir sundinu, kannski þar sem hausinn var bara að hugsa um stykkið sem ég var svo klaufsk að gleyma að taka af pumpunni hjá almennilega manninum sem aðstoðaði  mig. Við Kristjana gengum saman inn að staðnum þar sem við vorum svo látin bíða.  Finnst samt alveg ótrúlegt og í raun fáránlegt að stressa okkur svona upp og senda okkur á ströndina klukkan 05:45 þegar fyrsta ræsing var ekki fyrr en klukkan 06:00. Þannig biðum við í raun heillengi á ströndinni. Náði ekkert að hitta Siggu og Gúu fyrir keppni en hitti Irinu og Möggu en þær voru allar fjórar ræstar um 15-20 mínútum á eftir okkur.

Skipulagið á þessari sundræsingu var ekki eins gott og í Kalmar í fyrra. Fannst hlutirnir miklu skipulagðari þar og ekki eins margir sem fóru út í einu, eins og þarna, svo kraðakið var miklu meira. Auk þess var auðvitað engin alda í Kalmar en hún var þó nokkur þarna, þegar maður var að fara út i sjóinn.

Sundið er 3,8 km og farnir eru tveir hringir, þ.e. komið í land á milli.  Það koma mér líka á óvart, hversu margir syntu ekki réttu megin við rauðu baujuna t.d. á bakaleiðinni en við áttum alltaf að synda hægra megin við baujurnar, þ.e. hafa þær á vinstri hönd en meirihlutinn gerði það ekki.  Fyrri hringurinn gekk mjög vel og mér leið mjög vel þótt ég væri ekki í galla og það var þó nokkur alda sem þurfti að brjóta. Svo fór ég í land á milli, labbaði bara rólega, vinkaði Óla og Atla og fékk  mér vatnsglas áður en ég henti mér í seinni hringinn.

Þá var heldur betur alda og mér fannst ansi erfitt að koma mér útí aftur. Reyndi samt að gera sama og aðrir, þ.e. að stinga mér til sunds undir hana, en hafði svo sem ekki æft þetta. Lenti svo illa í einni öldunni. Það fór ekki betur en svo að hún snéri mér alveg á botninn og ég fékk tognun aftan á hægra lærið, sem var mjög óþægilegt. Ég man að ég ég hugsaði á þessum tímapunkti, er keppnin OFF, mun ég þurfa að hætta eftir sundið, vegna tognunar, sem varð vegna baráttu við öldu, eða hvernig fer þetta eiginlega?  En ég hélt áfram, gat alveg synt þótt ég væri með stöðugan verk. Reyndi bara að nota fæturna minna, sem er erfiðara án galla. Seinni hringurinn gekk vel á endanum og verkurinn minnkaði þegar leið á sundið.  Hjúkk it 😉

Sundtíminn var 1 klst 23 mín og 39 sek sem er ágætt miðað við öldur og að synda ekki í galla. Sundið í Kalmar hjá mér var 1:17:45 í galla í sjó, sundið í Frankfurt 1:13:50 í galla í vatni og sundið í Cozumel  1:31 ekki í galla og í sjó. Bara nokkuð sátt við þennan tíma, þ.e. 1:23:39 m.v. sjó og ekki í galla.

Vegalengdin sem ég synti skv. Garmin var 4.160 metrar, á að vera 3.800 m.

T1 (7:45)
Ég sá aftur Óla og Atla þegar ég kom í land, veifaði þeim og hljóp svo áfram, fékk aðstoð við að renna niður „swimskinninu“ sem ég var í yfir þríþrautargallann á leið á skiptisvæðið, en það var þó nokkuð langt skokk, fyrst að bláu pokunum, þ.e. með hjólafatnaði og svo inn í hús, sem er skiptisvæðið.
Þar henti ég mér í hjólaskóna, setti á mig legghlífar, það mátti nefnilega ekki synda í legghlífum eða bol með ermum, ef maður ákvað að synda ekki í galla. Svo var ég í smá vandræðum að troða mér blaut í legghlífarnar, svo bara sokka, skó og hjálminn. Varð að bera aftan á hálsinn á mér græðandi krem, því ég fékk slæm nuddsár eftir swimskinnið sem sveið undan. Svo fékk maður sólbaðsáburð borinn á sig (það var ekki í Frankfurt, né Kalmar) og vatn að drekka á leiðinni út og við tók hlaup að hjólinu. Á leiðinni að hjólinu sá ég Óla, stoppaði aðeins að tala við hann, en hann sagði mér að kanna hvort stykkið væri ekki komið á hjólið, einhver tilfinning sem hann fékk.  Viti menn þegar ég kem að hjólinu þá er það fyrsta sem ég sé stykkið, komið í hjóla-töskuna á stönginni sem var með nestinu. Þessi  frábæri maður hefur skilað því þegar hann uppgötvaði að hann væri með það. Þvílíkur léttir að vita að ég væri komin með stykkið aftur, eftir allt stressið í kringum það.

T1 tíminn var 7 mínútur og 45 sekúndur sem er bara ágætur tími m.v. hversu löng vegalengd þetta var skv. Garmin var hún um 700 metrar og það er fyrir utan búningsklefann sem var inni á hótelinu.

HJÓL (5:51:09 – 25. sæti eftir hjólið)
Það var glöð og sæl Halldóra sem lagði af stað í hjólið með stykkið í nestistöskunni 😉 Það var mjög gaman að hjóla út úr bænum á Front Beach Rd, um 10 km leið, en svolítið mikið af hjólreiðamönnum, svo ég var mikið að taka fram úr. Sá að ég var samt að hjóla of hratt fyrstu 5 km á 32,1 km meðalhraða og næstu 5 km á 33, 8 km og púlsinn var of hár (164-169 slög á mínútu)ætlaði alls ekki yfir 160 og í raun ætlaði ég að taka fyrri helminginn á 150-155 og síðari á 155-160. En ég ætlaði að hægja á mér um leið og það myndi dreifast úr hópnum.

Svo erum við komin rétt út af aðalgötunni inn á S Arnold Rd, búin að hjóla nokkra kílómetra upp eftir, þegar það kemur hópur á eftir mér sem ég reyni að taka fram úr en kemst ekki til hægri, þ.e. til hliðar, þar sem það var mjög mikið af hjólurum. Þá kemur dómari á mótorhjóli sem gaf mér bláa spjaldið, sem er „drafting“ refsing, þ.e. ef hjólreiðamaður er viljandi að hanga í næsta hjólreiðamanni en þú átt að vera með 10 metra í næsta hjólreiðamann. Ég var alls ekki sátt við þetta, þar sem ég var alls ekki að drafta, heldur lenti í þessu kraðaki og sat föst, hef alltaf passað mig mjög vel á að halda þessu bili og hægja á mér, svo mér fannst ég fá virkilega óverðskuldað spjald. En það þýðir ekki að deila við dómarana svo ég varð bara að stoppa í fyrsta penalty boxinu og taka út mína refsingu sem var 5 mín, eftir að ég stoppaði.  Ég fékk skeiðklukku í hendurnar og fékk ekki að fara af stað fyrr en eftir 5 mín á henni. Það mátti ekkert nota þessa refsingu, þ.e. til að fara á salernið eða slíkt. Ég bara stóð á hjólinu og fékk mér jú eitt gel. Tók út þessa refsingu á eftir 42,75 km (1 klst 8 mín).

Eftir að hafa tekið út refsinguna hægðist meðalhraðinn verulega hjá mér, því í hvert skipti sem einhver tók fram úr mér eða hópur sem kom fram úr mér, þá sló ég strax af, ekki ætlaði ég að fá aðra refsingu. Því eftir 3 refsingar ertu rekin úr keppni. Meðalhraðinn var því nær 30 km á klst næstu kílómetrana.

Undirlagið á hjólaleiðinni var alveg ágætt og sem betur fer var ekki mikil sól, því það var samt vel heitt og mikill raki og við fengum líka kafla með þó nokkrum mótvindi.  Sérstaklega kaflinn þegar við vorum búin að taka hringinn og vorum að hjóla aftur upp Dog Track Rd. En þegar komið var að þeim snúningspósti var bara að hjóla aftur beint suður eftir í meðvindi og svo taka þessa 10 km til baka á Front Beach Rd.  Náði ágætis hraða þarna niður eftir á um 35 km meðalhraða, þurfti reyndar að stoppa eftir 141 km samtals (4 klst. 28 mín) og laga keðjuna sem datt af hjá mér í einni skiptingunni, en gekk sem betur fer vel að koma henni á aftur. Svo var mjög mikið af hjólreiðamönnum á Front Beach Rd. svo þar hægði ég á mér enn og aftur til að passa 10 metra draft-vegalengdina eins og ég geri alltaf – svo ég var þar í kringum 30 km meðalhraða.

Garmin segir hitastigið hafa verið 22,2 gráður og 94% raka og vind 10 km á klst af aust-norðaustri.

Heildarhjólatíminn var 5:51:09 ( skv Garmin Edge 540 – 5:46:19 þá er refsingin ekki inni).
Þessi hjólatími er PB í Ironman hjá mér – því ég var 6:03:29 í Kalmar, 06:04:53 í Frankfurt og 6:34:19 í Cozumel.

1177_066215

T2 (6:06)
Það var aðstoðamaður sem tók við hjólinu, hljóp reyndar á eftir honum til að stoppa Garmin Edge græjuna. Hljóp svo og sótti rauða T2 pokann og svo var hlaupið inn með hann í búningsklefa. Losaði hjálminn og fór úr hjólaskónum. Í hlaupaskóna og setti á mig derið og tók með mér magnesíum spreyið, og saltið, því ég var farin að finna fyrir krömpum í lok hjólsins mest á innanverðum lærunum.  Endaði á að setja á mig númerabeltið. Svolítið sérstakt í Flórída að maður hjólar ekki með númerabeltið, heldur setur það upp í T2 og það er stranglega bannað að synda með það undir blautbúningi ef hann hefði verið leyfður. Fyrsta skipti sem ég upplifi það. Svo var að láta setja á sig sólarvörn og hlaupa af stað. Fór reyndar strax á klósettið áður en ég fór út af skiptisvæðinu.  Í fyrsta skipti í þessum Ironman sem ég upplifði ekki endalausar klósettferðir, sem var skemmtileg tilbreyting 😉

Tíminn í T2 var 6 mín 6 sek með klósettferðinni sem er bara mjög fínn. Lengdin skv. Garmin um 400 metrar.

HLAUP (4:44:28 – 15. sæti eftir hlaupið)
Leið ekkert allt of vel þegar ég lagði af stað í hlaupið. Var byrjuð að fá krampa í lokin á hjólinu og hitinn var að aukast mikið í hlaupinu. Sólin var búin að ryðjast fram undan skýjunum og því orðið ansi léttskýjað og mjög heitt. Ég reyndi að taka inn gel og vera dugleg að taka saltið (nýja saltið sem er stórsniðugt og ég keypti á Expoinu, ekki í hylkjum, heldur fer inntakan beint í gegnum tunguna og munninn). Mér leið alls ekki vel.  Hlaupið í IM Flórída eru 2 hringir 42,2 km. Það er mikið af beygjum og farið í gegnum nokkur íbúðarhverfi og endað á að fara hring inn í einhverjum garði. Það var djókað með það að ef þú sleppur við hákarlana í sjónum í IM Flórida og krókódílana á hjólaleiðinni, þá gætirðu lent í stingandi flugum í hlaupinu, sem við sluppum við en lentum í staðinn í stingandi sól, hita og miklum raka 😉

Í þessu hlaupi er ekkert svona teygjusystem eins og í Frankfurt og Karlmar, þannig að maður gat ekki séð hvort fólk var að fara fyrri eða seinni hring. Hins vegar voru hjólreiðamenn á undan fyrstu 4 körlunum og fyrstu 4 konunum, svo ég sá að það voru flestir á fyrri hring eins og ég, því ég mætti ekki þessum fyrstu mönnum fyrr en ég var byrjuð á síðari hring, en þá áttu þeir nú ekki mikið eftir. Meðalhraði fyrstu kílómetrana var í kringum 6 en fór svo hækkandi (þ.e. varð hægari) þegar á leið.  Í hausnum á mér glumdu síðustu skilaboð frá Viðari þjálfara, ekki ganga í hlaupinu, nema í gegnum vatnsstöðvar. Ég var hins vegar farin að ganga allt of mikið, setti mér nú samt upp ákveðið kerfi í því, þ.e. hljóp 100 skref og gekk 20 skref, fann að kramparnir í fótunum löguðust við að fá svona reglulega göngu.  Man ég hugsaði líka að maður á ekki að sleppa kvöldmatnum, þ.e. pastanu kvöldið fyrir Ironman, en við Sjana nenntum ekki að fara og fá okkur að borða og borðuðum bara eitthvað snakk og léttmeti, þó Atli frændi hafi verið að hvetja okkur til að fara og fá okkur pasta.

1177_060862

Mætti öllum stelpunum tvisvar og Rafnkeli líka, það var virkilega gaman. Man hvað ég var glöð að við værum öll komin í hlaupið, því þá var ég fullviss um að við myndum öll klára.  Það var ágætis stemning á staðnum sérstaklega í fyrri hringnum, en mun minni í seinni. Það sem kom mér líka á óvart var að eftir að myrkrið skall á, sem gerðist hjá mér þegar ég var að koma út í enda í seinni hringnum, þá var bara eiginlega engin lýsing allan hringinn. Það voru einhverjir rafmagnskastarar þarna í garðinum útí enda, annars hljóp maður bara í myrkrinu og sá ekkert fram fyrir sig. Þetta var mjög furðulegt, en allir starfsmenn á öllum drykkjarstöðvum sem maður stoppaði á voru mjög almennilegir og ég stoppaði á öllum drykkjarstöðvum, þar sem ég tók nýja blauta svampa og klaka sem ég setti inn á bringuna á mér og inn á bakið og bleytti á mér höfðuð, því hitinn og rakinn var rosalegur.  Drakk mikið af vatni og gatorade, tók sítrónu og saltið mitt, en borðaði ekki mikið, aðeins gelin mín, en kláraði þau samt ekki.  Ég tók mun minni orku í þessum Ironman, bæði í hlaupinu og hjólinu en ég er vön, en var mjög dugleg að taka inn salt.

Meðalhitastig í hlaupinu skv. Garmin 27,8 gráður á Celsíus (feels like 31,1 og 74% raki 10 km á klst nnv)– svo það hefur verið vel yfir 30 gráður í fyrri hringnum, þegar það var alveg orðið heiðskírt því svo var komið myrkur í síðari hluta seinni hringsins.

Tíminn í hlaupinu var 4 klst 44 mín og 28 sek. sem er næst lakasti tími í IM hjá mér. Var 5:04:44 í Cozumel, 4:27:43 í Frankfurt og 4:15:55 í Kalmar.  Hefði viljað sjá betri tíma í hlaupinu, þá hefði ég þurft að hlaupa allt hlaupið, en ekki ganga það og kannski vera skynsamari á hjólinu.  Alla vega átti ég ekkert inni í lokasprett í þessu hlaupi eins og ég á oft svo ég er bara mjög sátt.1177_020206

SAMTALS TÍMI (12:13:07 – 15. sæti í aldursflokki allir, með og án wetsuit)

Heildartíminn var 12 klst 13 mín og 7 sek. Árangurinn er 15. sæti af 159 konum í aldursflokki, topp 9,4% en það voru 115 sem kláruðu. Þetta er í fyrsta skipti sem árangurinn minn er innan við topp 10% svo ég get vel við unað.

Sjá til samanburðar árangurinn í eldri Ironman keppnum hjá mér, þó það sé ekki samanburðarhæft að bera saman mismunandi keppnir né keppnir milli ára. Bæði eru brautir mismunandi sem og veðuraðstæður. Eina sem er sambærilegt er vegalengdin.

2014 Kalmar = 11:44:11 – 8. sæti af 45 konum í aldursflokki (42 sem klára) topp 17,7%
2013 Frankfurt = 11:54:40 – 22. sæti af 64 konum í aldursflokki (50 sem klára) topp 34,37
2012 Cozumel = 13:24:33 –  34. sæti af 127 konum í aldursflokki (85 sem klára) topp 26,7%
1177_021845

LOKAORÐ
Ironman er þríþraut, sund, hjól og hlaup og það þýðir ekkert að ná góðum árangri í einni greininni, ef maður tekur of mikið úr sér og tapar á því í þeirri næstu eða síðustu. Maður verður að vera skynsamur alla leið og passa að halda púlsinum vel innan mjólkursýrumarka í öllum þremur greinunum. Einnig er mjög mikilvægt að passa næringuna og taka hana skipulega og reglulega inn.

Ef maður ætlar að ná framúrskarandi árangri þá verður maður líka að æfa skipulega og í mínu tilviki tóku fjallahlaupaæfingar frá mér mikið af hjólaæfingum í sumar. Það var að sjálfsögðu mitt val og ég sé alls ekki eftir því, því Mt. Esja Ultra, 11 Esjur í júní 77 km og Mt.Blanc CCC hlaupið 102 km í lok ágúst eru ógleymanleg fjallahlaup sem ég hefði alls ekki viljað fórna.

Markmiðið hjá mér í Ironman Flórída 2015 var alltaf #1 að klára og #2 að hafa gaman af því og þessi markmið náðust að fullu. Markmið #3 var að bæta eigin tíma sem náðist ekki.

1177_076249

Elsku vinkonur, það eru algjör forréttindi að komast allar að ráslínu og  algjörlega einstakt og frábært að við náðum allar að klára sem er alls ekki sjálfsagt, því það voru margir sem urðu að hætta keppni.

Langar að óska Gúu og Möggu innilega til hamingju þar sem þær voru að klára sinn fyrsta Ironman og gerðu það með stæl.

20151108_170058

Óska einnig Rafnkeli Jónssyni innilega til hamingju með frábæran árangur í Ironman Flórida 2015.

Kæru samferðarmenn, Óli og Atli frændi takk fyrir yndislegar tíma og samverustundir og elsku Sjana, Sigga, Irina, Gúa og Magga takk enn og aftur fyrir þetta yndislega ferðalag, frá
skráningu til keppni,

LUV JU ALL 😉

—————————————-

Myndband frá keppnishöldurum hér:
(Halldóru og íslenska fánann er að finna á mínútu 9:07)
Myndir frá IM Flórída 2015 keppninni í heild hér:
Myndir frá FINISHER PIX frá keppninni hér:

Sjá ÞAKKIR EFTIR IM FLÓRÍDA 2015 hér:

11215878_10153806650449558_264707767272679334_n

nóvember 7, 2015 0 comment
0 FacebookTwitterPinterestEmail
  • 1
  • 2

Nýlegar færslur

  • Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025
  • Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025
  • Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025
  • Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025
  • Grænland D2 föstudagur 25. apríl 2025

Nýlegar athugasemdir

  • Björk Ólafsdóttir um Vasavikan 2024
  • Sif Helgad. um Langjökull þveraður 17.júní 2020
  • Helga Bryndís um New York City maraþon 2023
  • Ingvar Þóroddsson um Free to Run Ambassador í New York maraþoninu 2023

Færslusafn

  • apríl 2025
  • júlí 2024
  • maí 2024
  • apríl 2024
  • mars 2024
  • nóvember 2023
  • október 2023
  • september 2023
  • ágúst 2023
  • júlí 2023
  • apríl 2023
  • janúar 2023
  • desember 2022
  • nóvember 2022
  • september 2022
  • ágúst 2022
  • júlí 2022
  • júní 2022
  • maí 2022
  • apríl 2022
  • mars 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • desember 2021
  • október 2021
  • september 2021
  • ágúst 2021
  • júlí 2021
  • maí 2021
  • apríl 2021
  • mars 2021
  • febrúar 2021
  • janúar 2021
  • nóvember 2020
  • október 2020
  • september 2020
  • ágúst 2020
  • júlí 2020
  • júní 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • mars 2020
  • janúar 2020
  • desember 2019
  • nóvember 2019
  • október 2019
  • september 2019
  • ágúst 2019
  • júlí 2019
  • júní 2019
  • maí 2019
  • apríl 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • janúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • október 2018
  • september 2018
  • ágúst 2018
  • júlí 2018
  • júní 2018
  • maí 2018
  • apríl 2018
  • janúar 2018
  • janúar 2017
  • september 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • júní 2016
  • mars 2016
  • nóvember 2015
  • ágúst 2015
  • júní 2015
  • febrúar 2015
  • nóvember 2014
  • ágúst 2014
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013

Flokkar

  • Daglegt líf
  • Fjallahlaup
  • Fjallaskíði
  • Fjallgöngur
  • Gönguskíði
  • Hjól
  • Hlaup
  • Ísklifur
  • Kajak
  • Keppnis
  • Keppnissaga
  • Sjósund
  • Skíði
  • Sund
  • Veiðar
  • Þríþraut

Um mig

Um mig

Halldóra Gyða

Halldóra hefur mjög gaman af því að fara út að leika. Markmiðið hjá henni er að njóta lífsins hvern einasta dag, brosa, hafa gaman og hún er þakklát fyrir góða heilsu.

Verum í sambandi

Facebook Twitter Instagram Pinterest Tumblr Youtube Bloglovin Snapchat

Nýlegar færslur

  • Grænland D6 þriðjudagur 29. apríl 2025

    apríl 29, 2025
  • Grænland D5 mánudagur 28. apríl 2025

    apríl 28, 2025
  • Grænland D4 sunnudagur 27. apríl 2025

    apríl 27, 2025
  • Grænland D3 laugardagur 26. apríl 2025

    apríl 26, 2025
  • Grænland D2 föstudagur 25. apríl 2025

    apríl 25, 2025

Um mig

banner
Halldóra Gyða elskar að vera úti að leika. Hér er hún í Dólómítunum í Lavaredo fjallahlaupinu 2016.

Vinsæl innlegg

  • 1

    Eco Trail Reykjavík – 22 km

    júlí 6, 2018
  • 2

    Ironman Texas 2018

    apríl 28, 2018
  • 3

    Buthan – dagur 1 – hæðaraðlögun og skoðunarferð

    maí 26, 2018

Síðustu æfingar

  • Evening Ride
    On maí 8, 2025 6:13 e.h. went 6,97 km during 00:43:20 hours climbing 18,00 meters burning 484 calories.
  • Afternoon Ride
    On maí 8, 2025 3:49 e.h. went 7,36 km during 00:44:30 hours climbing 17,00 meters burning 361 calories.
  • Afternoon Walk
    On maí 8, 2025 2:00 e.h. went 1,35 km during 00:19:03 hours climbing 2,00 meters burning 109 calories.
  • Hjóluðum til Millu og Tóta með Dóru og Grétari/
    On maí 4, 2025 10:27 f.h. went 21,05 km during 02:00:15 hours climbing 274,00 meters burning 566 calories.
  • NH 🧡 appelsínugulir 🧡 yndislegur dagur 🙏
    On maí 3, 2025 8:55 f.h. went 8,51 km during 01:20:13 hours climbing 168,00 meters burning 790 calories.
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram
  • Linkedin
  • Snapchat
  • Vimeo

@2017 - PenciDesign. All Right Reserved. Designed and Developed by PenciDesign


Back To Top