Fór með Laugavegshópi Náttúruhlaupa til Vestmannaeyja í morgun. Veðurspáin alla vikuna var mjög góð, breyttist samt á síðustu stundu, í rigningu og þoku.
Sameinuðumst í bíla í Olís við Rauðavatn og fórum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og það gekk mjög vel.
Ferðin yfir tók bara um 35 mínútur. Þar tóku á móti okkur eðalhjónin Róbert Marshall og konan hans Brynhildur Ólafsdóttir, sem bæði eru fararstjórar hjá Ferðafélagi Íslands og hafa leitt Landvættahóp Ferðafélagsins.
Við byrjuðum svo á að hlaupa frá höfninni í gegnum bæinn og upp á Eldfell. Eftir það fórum við upp á Helgafell og Sæfjall. Eftir Sæfjall tókum við aukakrók upp á Stórhöfða. Síðan var hlaupið að golfvellinum og inn í Herjólfsdal.
Upp úr Herjólfsdal var farið upp á Dalfjall. Við slepptum Blátind i vegna veðurs, en héldum áfram eftir Eggjum, á Molda og niður um Sprönguna. Þar sýndi Róbert Marshall okkur hvernig á að spranga. Hlupum svo um hafnarsvæðið að Heimakletti sem var síðasta fjallið og ansi bratt.
Þegar við komum niður af Heimakletti, hlupum við í sund, þar sem sundtaskan beið okkar.
Eftir sund var kíkt á ölhús Vestmannaeyja og svo borðuðum við saman á Slippnum.
Fórum svo með bát til baka klukkan 19:30.
Frábær dagur í Vestmannaeyjum, en ég þarf klárlega að koma aftur til að upplifa þennan fallega og skemmtilega hring í betra veðri.