Laugavegurinn á tveim dögum með NH

by Halldóra

Fór þessa helgina (23.-24. júní 2018) Laugaveginn (frá Landmannalaugum í Þórsmörk) á tveimur dögum með Náttúruhlaupurum.

Ferðin hófst í Reykjavík klukkan 08:00 þar sem við fórum 19 manna hópur saman í rútu inn í Landmannalaugar.

Við lögðum af stað rétt um hádegisbil, en þá vorum við búin að græja okkur taka hópmynd, fara á salernið og skila af okkur „trúss“ töskunni sem var keyrð í Hvanngil þar sem við gistum.

Veðrið inní Landmannalaugum var ágætt. Svo fór að rigna og kólna og leiðin upp að Hrafntinnuskeri var orðin ansi blaut og köld.

Verð að viðurkenna að það voru farnar að renna á mig tvær grímur, hvort við yrðum hreinlega að snúa við og láta sækja okkur aftur inn í Landmannalaugar, þar sem Gunnur hafði sagt við mig stuttu eftir að við lögðum af stað, að við yrðum að vera tilbúnar í það.

Þegar við komum í skálann að Hrafntinnuskeri var fremri hópurinn búinn að vera þar dágóða stund til að hlýja sér og ákvað að drífa sig út, þegar við í síðara hollinum komum þar inn, enda ekki mikið pláss fyrir marga í anddyrinu í skálanum.

Það var mikill snjót á leiðinni frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni og mikið rok, rigning og bara verulega kalt.

Eftir að við komum niður Jökultungurnar, minnkaði rokið og veðrið var mun skárra.

Þá var bara að koma sér að Álftavatni og svo þaðan að Hvanngili þar sem við gistum.

Elduðum hakk og spaghettí með fullt af grænmeti og Royal búðingur með mangói.

Á sunnudeginum fengum við bongóveður, meira að segja sól og þurrt.

Áttum því yndislegan dag frá Hvanngili niður í Þórsmörk og nutum hans alla leið.

Á leiðinni í bæinn frá Þórsmörk komum við – við í Miðgard á Hvolsvelli og fengum okkur frábæran hamborgara og smælki, allt virkilega gott.

Þakka frábærum ferðalöngum mínum fyrir yndislegar samverustundir í þessari tveggja daga ferð um Laugaveginn.

You may also like

Leave a Comment