Laugavegshlaupið 2020

by Halldóra

Það var mjög kalt þegar ég vaknaði í FÍ skálanum í Landmannalaugum, fór út á salernið og svo að undirbúa kaffi, morgunmat og græja keppnisdótið. Það voru rétt rúmar 2 klst í fyrstu ræsingu klukkan 09:00, en ræst var út í fjórum hópum (gulur, rauður, grænn og blár). Fékk mér kaffi á fastandi maga og hafragraut, með bláberjum, musli og skar niður epli. Fékk mér svo einn banana rétt fyrir hlaup.

Ásta var svo yndisleg að flétta tvær fastafléttur í hárið sem dugðu alla helgina 🙂 Eftir að vera búin að græja mig og fara tvisvar á klósettið, þá fór ég með NorthFace duffel töskuna í rútuna. Þar hitti ég Helgu og við fórum (sem átti að vera síðasta klósettferðin) úti í náttúruna LOL 🙂 Fór svo aftur inní skála að sækja vestið mitt og tók svo þá ákvörðun að fara í fjórða skiptið á klósettið ha ha ha hvaða rugl er þetta með klósettferðir fyrir hlaup. En það gerði það að verkum að ég missti af hópmyndatökunni með Náttúruhlaupurunum 🙂

Gulir voru ræstir klukkan 09:00 á slaginu. Ákvað að vera frekar framarlega í rauða hópnum, þar sem ég hafði verið ALVEG AFTAST í gula í fyrra, og var ansi lengi að komast yfir fyrstu brúna. En ég hafði samt beðið um og reynt að fá mig færða yfir í græna hópinn, því ég vissi að ég yrði ekki á rauðum tíma, heldur frekar á grænum, eftir Hornstrandaferðina, en það gekk ekki, svo ég bara ákvað að fara með rauða hópnum. Ákvað bara að brosa og hvetja alla sem tóku fram úr mér. Það þarf líka að kunna að taka því og æfa það, því maður er ekki alltaf í besta formi lífs síns, þó ég hafi verið í góðu formi í fyrra, þá er þetta ekki alveg búið að vera árið mitt, enda ætlaði ég bara að taka því rólega.

Fór því af stað með þrjú markmið. Númer 1 að hafa gaman alla leið. Númer 2 að klára. Númer 3 að samfagna með öllum Náttúruhlaupavinum mínum sem voru að hlaupa og að sjálfsögðu að koma brosandi í mark. Ég vissi að ég átti ekki inni fyrir PB, enda mjög sátt við PB sem ég náði í fyrra, en ég var að hlaupa Laugavegshlaupið núna í fimmta skiptið.

LANDMANNALAUGAR
Eins og ég sagði var mjög kalt í ræsingunni, enda var spáð miklu roki og kulda, hér að neðan var þriðja og nýjasta spáin, sem var mun skárri heldur en þessi fyrsta, þar sem vindur var ekki eins mikill, en við erum samt að tala um 15 m/s. Því var aðalhöfuðverkurinn hversu mikið klæddur maður á að fara upp fyrstu brekkuna og hversu mikið af aukafatnaði maður á að bera með sér. En þar sem ég er vel upp alinn skáti, þá fór ég vel klædd af stað og með mikið af aukafatnaði og auka gelum og orku með mér. Mín hugsun er sú að ef ég lendi í einhverju, t.d. misstíg mig eða slasa mig alvarlega, þá getur liðið langur tími í aðstoð og þá dugar einn álpoki ekki mikið, þá er betra að vera með nóg af búnaði.

HRAFNTINNUSKER
Þar sem „skátinn“ var með nóg af vatni og orku á sér, þá var ekkert stoppað í Hrafntinnuskeri. Það var mjög gaman að fá hvatningu frá Ástu og Viggó, sem höfðu gengið þarna upp til að hvetja okkur. Það var mjög kalt þarna, þar sem það blés vel, svo ég vissi að þau gátu ekki einu sinni tekið myndir, þar sem kuldinn var það mikill.

Það var mjög mikill snjór í ár á bæði kaflanum fyrir Hrafntinnusker sem og kaflanum eftir og að Álftavatni. En snjórinn var mjög þéttur og þægilegur, en ég hugsaði til góðu æfingarinnar á Rauðasandi þegar ég hljóp berfætt í sandinum en núna var ég í skóm og með stafi sem hjálpuðu mikið.

Þó ég hafði farið fjórum sinnum á klósettið fyrir ræsingu, þá var mér orðið mjög mikið mál, og rétt áður en ég hljóp yfir fyrsta vaðið, sem var rétt eftir Jökultungurnar þá bara fór ég aðeins út af stígnum og lét vaða. Það var gaman að hitta Gísla fjármálastjóra RE í Jökultungunum, en hann var að stefna á sub 7, svo eftir Jökultungurnar stakk hann mig bara af 🙂

ÁLFTAVATN 02:53:45 (út skv. flögutíma)
þegar ég kom að Álftavatni, var mér orðið mjög hlýtt, svo ég ákvað að fara úr annarri peysunni. Til þess þurfti ég að taka af mér bakpokann. Ákvað því að finna asmapústið mitt, en fann það ekki í bakpokanum, svo ég hlaut að hafa gleymt því. Bætti á annan vatnsbrúsann og setti orku í hann fékk meir einn banana og hélt af stað. Fannst ég samt stoppa mjög lengi þarna.

Eftir Álftavatn er annað vað, og svo smá brekka áður en maður kemur að skálanum við Hvanngil. Svo er farið yfir Bláfjallakvíslina. Það var ekki mjög mikið í henni m.v. hvað maður átti von á, en það er alltaf gott að kæla fæturna þegar maður fer yfir ánna. Ég var með tösku í „drop-poka“ við Bláfjallakvísl, en þar sem ég vissi að þar var ekki asmapúst, bara aukafatnaður, samloka, epli, sódavatn og RedBull, ákvað ég bara að vera ekki að stoppa þar, heldur halda bara áfram, það var líka alltaf planið, átti bara að vera neyðarbúnaður.

Kosturinn við að hlaupa svona hlaup án þess að spá í tímann, er að allt er miklu auðveldara. Mér fannst sandarnir eftir Bláfjallakvísl miklu styttri en þeir eru vanalega sem og síðasti kaflinn að Emstrum. Vegalengdin var auðveldari og allt bara miklu auðveldara. Mæli með það hlaupa bara eftir tilfinningu, en ekki eftir einhverri pressu.

EMSTRUR 05:00:04 flögutími
Það er alltaf góð tilfinning að koma í Emstrur. Það er alltaf einstök stemning og gleði þar. Þar hitti ég Kjartan í ÍBR, sem gaf mér high-five og þar er bara svo frábært fólk að aðstoða og hvetja. Ég fyllti aftur á annan brúsann af vatni og bættu orku út í, fékk mér bara einn bananabita og hélt svo áfram.

Ég fór á SnapChat og Instagram Story eftir Bláfjallakvísl til að láta vita af mér og heyrði aðeins í Óla, því ég náði ekkert að tala við hann um morguninn áður en ég lagði af stað. Ætlaði svo að fara á Facebook Live í Emstrum, en þar var ekkert samband. Gilið eftir Emstrur er svo ofboðslega fallegt, ég stoppaði þar til að taka myndir en komst ekki á netið. Komst svo síðar á netið og setti inn skilaboð til vina minna. Þá hafði Ingveldur tekið fram úr mér, en hún var ræst út 25 mínútum á eftir mér. Hún var í fantaformi og leið vel og reyndi að draga mig með sér, en ég var bara ekki með hraðagírinn uppsettann og skipaði henni að fara á undan mér þar sem hún var í góðu formi og átti möguleika á að ná góðum tíma, vel undir 7 klst.

Á þessum tíma var ég samt einstaklega þakklát. Ég var svo þakklát fyrir að vera þarna, því rétt fyrir hlaupið, var ég á báðum áttum hvort ég ætti að fara. Eftir Hornstrandaferðina, haltraði ég alla vikuna, með mikinn verk í mjöðminni þegar ég gekk, svo vinnufélagar mínir voru ekki á því að ég væri að fara. En verkurinn var ekki eins mikill þegar ég hljóp, svo ég gerði grín að ég yrði bara að hlaupa alla leið, mætti ekki ganga 🙂 Því var ég full þakklætis. Ég er líka búin að vera mjög orkulaus allt þetta ár, eftir mjög ýkt og krefjandi ár 2019. Hef líka oft sagt það og segi því enn og aftur, það er ekki sjálfsagt að komast að ráslínu og það er ekki sjálfsagt að klára, því allt getur komið uppá. Það sem ég get haft áhrif á, er mitt eigið hugarfar og passað mig að vera skynsöm. Ég var farin að finna að það styttist í að ég myndi krampa, þá var líka mikilvægt að vera skynsöm og hægja frekar á mér, heldur en að lenda í vondum krömpum og þurfa þá að stoppa alveg. Ultrahlaup ganga út í það að vera skynsamur, því vegalengdin er löng bæði í kílómetrum og klukkustundum, það þekki ég af eigin reynslu eins og eftir 100 mílna hlaupin mín í Reúnion og Grenoble.

ÞÓRSMÖRK lokatími 07:21:09
Það var orðið mjög hlýtt þegar ég kom að Kápunni og þó eru innan við 5 km eftir. Þá var samt nauðsynlegt að taka inn síðasta gelið til að vera tilbúin upp Kápuna og allar litlu brekkurnar í Þórsmörkinni sjálfri. Eftir að hafa farið yfir síðasta vaðið, þ.e. Þröngá, var drykkjarstöð sem bauð uppá RedBull, en ég fattaði það ekki fyrr en ég var komin fram hjá 🙂 Ákvað að halda bara áfram. Það var gaman að hitta fullt af vinum á leiðinni og fá hvatningu, það er svo yndislegt.

Þegar komið er að síðustu beygjunni að markinu þá er mikið af fólki að hvetja. Ég þakkaði fyrir og hvatt alla til að hvetja okkur ennþá meira áfram og tók svo að sjálfsögðu „Haddýjar“ hoppið þegar ég kom í mark. Tók stóran séns þar sem ég var orðin ansi tæp í krömpum, en þar sem ég var komin í mark þá skipti það ekki neinu máli.

LOKATÍMI 7 klst 21 mín og 09 sek. sem er minn þriðji besti tími frá upphafi. Var í 15 sæti í aldursflokki. Er mjög ánægð með það, þar sem markmiðið var að spá ekkert í tímann og vera helst undir 8 klst og að hafa gaman, sem ég og gerði ALLA leið.

HAMINGJUÓSKIR OG ÞAKKIR:
Óska öllum hlaupfélögum mínum í Laugavegshópi Náttúruhlaupa innilega til hamingju með árangurinn. Margir voru að hlaupa Laugavegshlaupið í fyrsta skipti sem er mögnuð tilfinning. Einnig voru margir að ná að bæta tíma sinn (PB) í Laugavegshlaupinu og óska ég þeim líka innilega til hamingju. Það var frábær hópur sem tók þátt í námskeiðinu sem Elísabet Margeirsdóttir leiddi af mikilli snilld. Við Helga María aðstoðuðu hana í því verkefni sem var virkilega skemmtilegt og gefandi. Takk öll fyrir frábærar samverustundir á æfingatímabilinu öllu.

15257Halldóra Gyða Matthíasd Proppé1969Náttúruhlaup02:53:45 (Álftavatn)
03:35:29 (Bláfjallakvísl)
05:00:04 (Emstrur)
07:21:09+01:13:5807:21:07
15 sæti kvk af 35 (38 skráðar). 86 sæti af 175 (186 skráðar) konum overall.

TíMARNIR MÍNIR Í LAUGAVEGSHLAUPINU FRÁ 2011

201107:37: 444
201708:10:115
201807:01:122
201906:59:471
1202007:21:093

You may also like

Leave a Comment