D8 Inn til Parísar og í garðinn Prairie du Cercle Sud

by Halldóra

Við byrjuðum daginn á því að hjóla inn í París.

Eftir um 40 km rúlluðum við aðeins inná Champs-Elysees eitt vinsælasta breiðstræti Parísar. Champs-Elysees
var hönnuð með það í huga að sólin settist við enda hennar tvisvar á ári. Þegar við fórum af hliðargötu inná
Champs-Elysees og beygðum til vinstri var Sigurboginn á hægri hönd.

Sigurboginn sem er betur þekktur undir nafninu Arc de Triomphe stendur við enda götunnar Champs-Elysees. Napóleon lét reisa Sigurbogann eftir sigur sinn í bardaganum við Austerlitz árið 1805 og var hann tilbúinn 31 ári seinna, árið 1836. Hann var reistur til heiðurs þeim sem börðust fyrir Frakkland, sérstaklega í stríðum Napóleons.

Á Sigurboganum eru nöfn allra herforingjanna sem börðust og einnig eru nöfn á öllum stríðunum upptalin. Undir boganum
sjálfum er gröf hins óþekkta hermanns sem dó í fyrri heimstyrjöldinni. Hægt er að fara upp í Sigurbogann og
horfa yfir borgina. 12 breiðgötur liggja frá Sigurboganum, og margar af þeim heita í höfuðið á þekktum
herforingjum.


Næst lá leiðin að hinum 324 metra háa Eiffelturni. Hann var byggður á árunum 1887-89 fyrir heimssýninguna 1889 og eftir hana átti að taka hann niður aftur. Turninn var byggður til minnis um að þá voru 100 ár frá frönsku byltingunni. Eiffelturninn er nefndur eftir Gustave Eiffel en hann var hönnuður turnsins. Turninn er um 7300 tonn að þyngd og til að mála turninn þarf 60 tonn af málningu á 7 ára fresti. Á kvöldin er turninn lýstur upp á heila tímanum í 5 mínútur, algjörlega þess virði að sjá. Eiffelturninn er opinn almenningi og hægt að komast alla leið á toppinn og njóta útsýnisins um París. Það þarf að reikna með góðum tíma í að fara upp því oft eru langar biðraðir enda koma 25.000 manns daglega í Eiffelturninn.

Áður en við komum í garðinn sem öll liðin hittast í hjóluðum við eftir stíg við hliðina á síki og sáum fleiri lið sem voru á sömu leið.

Við komum í garðinn Prairie du Cercle Sud, á milli kl:13:00-14:00. Þar söfnuðust öll liðin og aðstoðarfólk saman.
Þangað voru ættingjar og vinir velkomnir að koma og taka móti okkur og fagna með okkur áfanganum.
Garðurinn er opinn fjölskyldum okkar og vinum frá kl: 12:00.

Þetta var algjörlega mögnuð stund að hjóla í garðinn. Ég hjólaði í garðinn með Víó, og ég fékk tár í hvarma og gæsahúð, stundin var það mögnuð. Svo var yndisleg og gaman að sjá fjölskyldumeðlimi taka á móti mökum sínum og börnum, algjörlega mögnuð og skemmtileg stund.

You may also like

Leave a Comment