KEPPNISSAGA – VÄTTERNRUNDAN 2016

by Halldóra

Våtternrundan er 300 km hjólreiðakeppni þar sem hjólað er í kringum vatnið Vättern í Svíþjóð um miðjan júní ár hvert. Hjólaleiðin byrjar og endar í bænum Motala. Þátttakendur eru ræstir í 70 manna hópum, aðra hvora mínútu í hálfan sólarhring. Fyrsti hópurinn klukkan 19:30 á föstudagskvöldi og síðasti hópurinn klukkan 05:30 á laugardagsmorgni.

Árið 2012 var í fyrsta skipti boðið upp á ræsingu fyrir hjólreiðamenn sem vilja fara og þurfa þeir þá að klára keppni á innan við 9 klst og eru þeir ræstir um hádegisbil á laugardegi. Våtternrundan er ekki hefðbundin hjólreiðakeppni, þar sem almennt er ekki lögð áhersla á hraða og því ekki gefið upp í hvaða sæti þú lendir, heldur færðu bara þinn tíma, þar sem allir hjólreiðamenn eru með tímaflögu á hjálminum. Lögð er áhersla á að upplifunin sé ferðalag sem gengur út að hjólreiðamenn njóti og stoppi á einhverjum af þeim 9 drykkjar- og veitingastöðum sem eru í boði á leiðinni. Sjá mynd hér til hliðar, en hún stækkar ef smellt er á hana.Vatternrundtan

KEPPNISDAGUR 18. JÚNÍ 2016
Vekjaraklukkan í símanum hringdi klukkan 00.00 eins og til stóð. Gúa vaknaði eldhress og útsofin eftir 3 klst svefn, en ég var smá pirruð á að hafa ekki náð að sofa neitt en samt alveg eldhress og til í slaginn 😉

Við keyptum okkur morgunmat í 7/11 í gærkvöldi til að eiga áður en við lögðum í hann, en fengum svo þennan dýrindis morgunmat á hótelinu hérna klukkan 00.10. Flott þjónusta að bjóða uppá morgunmat rétt eftir miðnætti.

Hámarkshraði á veginum niður að Motala, var 50 km á klst, svo það var ágætt að við lögðum tímanlega af stað eða klukkan rétt rúmlega 00:30. Þegar við komum til Motala, kom það okkur á óvart, hversu auðvelt var að fá stæði, nóg af stæðum laus, þarna á norður stæðinu sem við vorum búin að ákveða að leggja á. Það var niða myrkur og þegar við vorum búin að græja hjólin og prófa þau aðeins í myrkrinu, sem betur fer með ljós, þá tóku við LOKA vangaveltur um í hvaða fatnaði við ætluðum að hjóla.

Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að fara í bláa vind-hjólajakkanum mínum eða gula regnjakkanum og Gúa var að velta fyrir sér hvort hún ætti að vera í legghlífunum eða bara stuttbuxunum. Yngvi þurfti ekki mikið að velta þessu fyrir sér, þar sem taskan hans var ekki ennþá komin á staðinn. Enginn valkvíði hjá honum 😉

Í bílnum á bílastæðinu fór ég í síðsta skipti á www.yr.no til að skoða veðurspána fyrir Motala og Jönköping og á þessum tímapunkti sýndi hún grenjandi rigningu, eldingar og læti, svo það var auðvelt að taka þá ákvörðun að skilja vindjakkann eftir og fara í 100% vatnsheldum regnjakka (hljómar eins og formúlan) ok var samt ekki með regndekk undir, heldur bara Grand Prix 4000 😉

Þegar klukkutími var í okkar rástíma (03:32), hjóluðum við af bílastæðinu niður í bæ, skelltum okkur á salernið niðri á torgi og skiluðum inn bakpokanum, sem átti að vera tilbúin fyrir okkur í Sederlunds skólanum þegar við kæmum í mark.

Við biðum í um 15 mín eftir að kæmi að okkur, en skipulagið í kringum keppnina er mjög glæsilegt. Það er 70 manna hópur ræstur á annarri hverri mínútu og það eru þrjú hlið og á númerinu okkar stóð að við yrðum ræst í miðju hliðinu. Á torginu var líka pumpu/loftþjónusta til að pumpa í slöngurnar á dekkjunum og “panic” verslun þar sem hægt var að gera “last minute” shopping ef eitthvað hefði gleymst heima.

Við hittum Ingu Dagmar og Helgu Garðars við hliðið (þær komu inn í okkar hóp í stað Siggu og Péturs). Við sungum afmælissönginn fyrir Ingu þar sem hún er 44 ára í dag, þ.e. 18. júní. Kynnirinn var mjög hress og óskaði Ingu frá Íslandi til hamingju með daginn í hljóðkerfinu.

Klukkan 03:32 vorum við ræst og gekk mjög vel fram að annarri beygju, en þá fór keðjan af hjólinu hjá Yngva svo við urðum að stoppa út í kanti, svo hann gæti hent keðjunni upp á aftur. En við vorum búin að ákveða fyrir keppni að hjóla þessa 300 km saman. Hann var fljótur að henda keðjunni á hjólið aftur, en við misstum af 70 manna hópnum okkar. Gáfum því svolítið í, til að byrja með, ekki góð hugmynd, og vorum að puða á rúmlega 35 km hraða á klst, þar sem við vorum að reyna að ná einhverjum til að hjóla með. Vorum samt frekar mikið ein, þar sem við fórum fram úr mörgum hægfara hjólurum og fundum ekki alveg neinn, sem var á sama róli og við.

Veðrið var blautt og það var eiginlega byrjað að birta áður en við lögðum af stað, enda margir í kringum okkur ekki með nein ljós á hjólunum, sem við héldum að væri skylda, höfðum reyndar lesið að þeir sem ræsa eftir klukkan 03:00 þyrftu kannski ekki að hafa þau, en vorum ekki að taka neina sénsa með það og vorum öll vel ljósum búin.

Við hjóluðum fram hjá fyrstu drykkjarstöðinni sem var í Ödeshog #1/9 (47 km/250 km eftir) og stoppuðum ekki.

ÖLMSTAD 83 KM – FYRSTA STOPP
Við vorum búin að ákveða að stoppa í fyrsta skipti eftir 83 km þ.e. á annarri drykkjarstöð af níu, í Ölmstad. Þá voru 214 km eftir. Það var rigning þegar við stoppuðum þar. Það voru mjög flottar hjólagrindur á staðnum þar sem við gátum lagt hjólin frá okkur.

Við Gúa hentum okkur á salernið, mjög snyrtilegir gámar og svo fylltum við brúsana okkar af vatni. Man ég fékk mér eina súru gúrku sem var í boði, en mig langaði ekki í bláberjasúpuna, né kaffi eða orkudrykk sem var í boði. Saknaði þess að fá ekki Grönsaksbullion, eða heita grænmetissoðið sem við fengum í Vasaloppet, smakkaði rúnstykkin, en finnst þau ekki góð. Þurfti svo að setja upp ermarnar undir regnjakkanum, því það var bara frekar kalt og hryssingslegt úti og við búin að hjóla í um 3 klst og 20 mín.

Næsta drykkjarstöð var í Jönköping #3/9 (102 km/195 km). Við stoppuðum ekki þar, heldur hjóluðum í gegnum bæinn. Það var grenjandi rigning þegar við hjóluðum þarna í gegn og rigningin var svo mikil að hún var eins og haglél á andlitinu á okkur. Var orðin holdvot á fótunum og það var hægt að vinda hanskana mína. Á þessum tímapunkti, þegar við hjóluðum í gegnum Jönköping ákvað ég að taka aftur þátt í Vätternrundan. Þetta er svo falleg leið og mikið að sjá og upplifa, sem væri svo miklu skemmtilegra í sól og blíðu. En ákvað samt að horfa fram hjá veðrinu og njóta ferðarinnar. Í Jönköping var boðið upp á sænskar kjötbollur en við vorum búin að ákveða áður en við lögðum af stað að við ætluðum frekar að stoppa í Hjo og fá okkur Lasagne sem var í boði þar. IMG_2750

Við hjóluðum því einnig fram hjá vatnsstöðinni í Fagerhult #4/9 (133 km/164 km), en stoppuðum reyndar einu sinni eða tvisvar út í kanti til að teygja aðeins úr okkur og fá okkur gel eða aðra orku. Stoppuðum líka við skiltið sem sagði 200 km eftir. Ég man vel eftir fyrsta skiltinu sem sagði 297 km stuttu eftir að við byrjuðum, en náðum ekki að taka mynd af því skilti.

HJO 171 KM – ANNAÐ STOPP
Við stoppuðum í annað skipti í bænum Hjo (5/9), sem var mjög stór matar- og drykkjarstöð. Vorum komin í Hjo klukkan 10:26 og þá búin að vera 6 klst og 54 mín á ferðinni.

Við lögðum hjólunum til vinstri þegar við komum í bæinn og þurftum svo að ganga nokkurn spöl að stóru matartjaldi, þar sem Lasagne var borið fram með rifnum gulrótum og súrum agúrkum. Hef nú smakkað betra Lasagne, en matur er bara matur þegar maður er að hjóla 300 km. Vissi að súru gúrkurnar voru mjög góðar fyrir mig þar sem þær eru fyrirbyggjandi við krömpum.

Eftir matinn fórum við í langa klósettröð á bryggjunni. Síðan fylltum við á brúsana og hentum okkur af stað. Þetta stopp tók samt frekar langan tíma, örugglega um 1 klst.

Nú var 171 km búinn og því “bara” 126 km eftir. Reyndi að þurrka bæði regnjakkann og hanskana með því að hengja það á hjólið á meðan ég borðaði en þegar ég kom til baka var þetta ennþá rennblautt. Það var samt loksins búið að stytta upp, enda búið að rigna alla nóttina. Velti fyrir mér hvort ég ætti að skilja regnjakkann þarna eftir, það var boðið upp á það, þ.e. þá hefði ég fengið hann þegar ég kæmi í mark eða daginn eftir, en ég bara treysti ekki á að það yrði ekki meiri úrkoma á leiðinni, svo ég hengdi bara jakkann utan á mig.

Næsta drykkjarstöð var í Karlsborg #6/9 (204 km/93 km) og við stoppuðum ekki þar. Hins vegar stoppuðum við, við 100 km skiltið til að taka ljósmynd, en það var rétt fyrir utan Karlsborg drykkjarstöðina, enda þá um 100 km eftir. Vorum þó nokkuð lengi að leita að þessu skilti 😉

BOVIKEN 225 KM – ÞRIÐJA STOPP
Við Gúa vorum orðnar frekar vatnslitlar rétt áður en við komum að Boviken (7/9), svo við ákváðum að stoppa þar í staðinn fyrir að bíða fram í Hammarsundet, enda 32 km í viðbót þangað. Það var líka aðeins farið að hitna og sólin farin að skína, svo við vorum alla vega farin að þorna aðeins. Þegar við komum í Boviken, voru 225 km búnar og þá bara 72 km eftir. Þar voru margir að hvíla sig í grasinu, sem var ekki blautt. Við skelltum okkur á salernið, fylltum á brúsana, en ég fékk mér ekkert að borða. Var eiginlega alveg sjálfri mér næg í þeim efnum, með snickers á mér, fullt af geli, hnetum og svo zero töflur sem ég setti í vatnsbrúsana.

Yngvi lét smyrja keðjuna hjá sér í Boviken, enda búið að ískra verulega í henni, eftir úrhellisrigninguna um morguninn.

Áttunda vatnsstöðin var í Hammarsundet #8/9 (257 km/40 km). Við vildum alls ekki stoppa þar, því stöðin var rétt eftir stóru brúna sem var niður brekku og þá værum við ekki að nýta brekkuna niður alla leið 😉

Hluti af leiðinni frá Askersund til Motala var lokuð fyrir umferð. Búið var að breyta leiðinni, kvöldið áður, þannig að við höfðum alveg eina akrein fyrir okkur. Hins vegar var hluti af þessari leið ekki lokuð og við að hjóla við hliðina á mikilli umferð og mörgum stórum trukkum. Sá hluti var leiðinlegasti hluti af þessari annars fallegu leið. Við vorum vitni að brjáluðum hjólreiðamönnum sem reyndu að taka fram úr þessari umferð vinstra megin, sem var alveg crazy. Mér finnst að það eigi að banna umferð svona stórra flutningabíla á þessum eina laugardegi á árinu, þar sem þetta er eiginlega stórhættulegt og virkilega slæm tilfinning að hjóla við hliðina á þessum stórum trukkum með stóra aftanívagna ;-(

Sem betur fer var tekinn smá hringur út af þessum umferðarvegi, farið nær vatninu og þar var níunda vatnsstöðin í Medevi #9/9 (274 km / 23 km) en við stoppuðum ekki heldur þar. Við vorum frekar gáttuð á því að fólk væri að hvíla sig þar, þar sem það voru nú bara 23 km eftir. En Vätternrundan gengur út á að njóta og það voru hjólreiðamenn klárlega að gera, setjast niður og fá sér að borða og njóta.

Við komum í mark í Motala eftir að hafa hjólað 297 km klukkan 16:34. Við vorum þá búin að hjóla í 13 klst og 2 mín,en vorum á ferðinni í 11 klst og 14 mín (hjólatími), svo við stoppuðum í 1 klst og 48 mínútur.

EFTIR TÚRINN
Við fórum beint með hjólin í geymslu og svo í biðröðina í nuddið, þar sem ég sofnaði á nuddbekk á meðan ég beið eftir að komast að 😉
Eftir nuddið fórum við í stóra tjaldið (ennþá í sveittum hjólafötum), hittum Íslendingana og horfðum á “Strákana okkar” á EM, ná jafntefli 1-1 við Ungverjaland í stóra hvíta tjaldinu. Eftir leikinn hentum við okkur upp í skóla í sturtu og leituðum svo að pizzastað til að fá okkur kvöldmat sem gekk brösulega, á einum stað voru allir pizzabotnar búnir 😉
Hjólaði svo upp í norður-stæði og sótti bílinn á meðan Gúa og Yngvi geymdu dótið. Það voru virkilega stoltir Vätternrundan farar sem lögðust til hvílu í Askersund þetta kvöldið.

ÞAKKIR
Elsku Gúa og Yngvi, takk kærlega fyrir virkilega skemmtilegar samverustundir í Svíþjóð. Við “snöppuðum” gjörsamlega á Þríkó snappinu, hlógum mikið, slökuðum á og nutum þessa yndislega ferðalags sem Vätternrundan er.
Algjörlega ógleymanleg ferð sem fer í stóra minningarbankann.

TÖLFRÆÐI UM VÄTTERNRUNDTAN 2016
23.176 sem voru skráðir
19.674 sem ræstu (slæm rigningar-veðurspá hefur klárlega haft áhrif)
18.362 sem kláruðu

You may also like

Leave a Comment