Umsjón: Steingerður Steinarsdóttir
Myndir:
Sumir segja að besti mælikvarði á gæði samfélags sé hversu vel það heldur utan um sína viðkvæmustu þegna og það eru án efa eru börn. Á Íslandi hefur margt verið gert til að bæta stöðu þeirra undanfarin ár en auðvitað má alltaf gera betur. Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé er framkvæmdastjóri Keðjunnar, nýs úrræðis á velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem snýst um að styðja betur við börn og fjölskyldur.
Oft er engu líkara en að við höldum að nánast allar fjölskyldur séu eins og gleymum að gera ráð fyrir ýmsum frávikum. Rússneski rithöfundurinn Tolstoj hóf skáldsöguna um Önnu Karenínu á að fullyrða á að óhamingjusamar fjölskyldur væru óhamingjusamar hver á sinn hátt. Hvað telst óhamingja er hins vegar matsatriði og þótt erfitt sé að setja mælikvarða á hamingju er minnsta kosti alveg víst að margir gætu þegið stuðning og aðstoð þótt fjölskyldulífið sé gott. Keðjan er nýtt úrræði. Í hverju er starf ykkar helst fólgið?
„Keðjan veitir stuðningsþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra og heyrir undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar,“ segir Halldóra Gyða. „Um er að ræða uppeldisráðgjöf sem veitt er inni á heimilum, einstaklingsstarf með börnum, hópastarf, námskeið fyrir börn og/eða foreldra og dvöl hjá stuðningsfjölskyldum. Önnur úrræði sem heyra undir Keðjuna eru SkaHm (þjónusta fyrir börn með fjölþættan vanda), unglingasmiðjur og PMTO uppeldisráðgjöf/meðferð,“ segir Halldóra Gyða.
Ein ástæða þess að Keðjunni var komið á fót er að skapa betri yfirsýn. Að hvaða leyti er hagkvæmara og eða betra að hafa þessa starfsemi undir einum hatti?
„Við erum í náinni samvinnu og samstarfi við allar þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og Barnavernd Reykjavíkur þar sem málstjóri barnsins og fjölskyldunnar starfar. Með því að veita þjónustuna frá einum stað, þá tryggjum við jafnræði barna og fjölskyldna þeirra í borginni, allir eiga möguleika á sömu þjónustu óháð því hvar þeir búa í borginni.“
Hvað finnst þér skemmtilegast eða áhugaverðast við það sem þið eruð að gera?
„Ég er mjög árangursdrifin og mér finnst skemmtilegast að heyra af góðum árangri sem við náum, hvort sem er í fjölgun þjónustunotenda, fleiri forvarnarverkefnum eða niðurstöðum þjónustukannana. Einnig er yndislegt að fá hrós frá stuðningsfjölskyldum og þjónustunotendum til okkar frábæra starfsfólks,“ segir hún. „Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á málefnum barna og unglinga og tekið virkan þátt í foreldrastarfi hvort sem er í leikskóla eða grunnskólum. Ég hef mikla trú á komandi kynslóð, en við þurfum að vera til staðar fyrir börnin okkar og aðstoða þau sem þurfa á aðstoð að halda. Að heyra um jákvæðan árangur af okkar starfi er það sem gefur starfinu gildi. Við höfum til dæmis verið með millimenningamiðlara sem hafa verið að aðstoða innflytjendur með allt sem viðkemur því að búa í nýju landi og náð miklum árangri með þessar fjölskyldur.
Við höfum líka verið með tilraunaverkefni í samstarfi við Háskóla Íslands, PMTO SPARE (Strengthening, Parenting Among Refugees in Europe). Þar erum við að ýta undir bætta aðlögun og velgengni fjölskyldna úr hópi flóttafólks í nýju landi og draga úr eða koma í veg fyrir hegðunarerfiðleika og tilfinningalegan vanda barna.“
Máltækið segir að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn. Líklega eruð þið alltaf að læra og finna út leiðir til að bæta þjónustuna. Hver er þín sýn á framtíðar stuðning við börn og fjölskyldur í borginni?
„Óskastaðan er sú að að við getum veitt öllum börnum og fjölskyldum þeirra þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Oft er nóg að fá ráðgjafaviðtal, fara á námskeið eða fá annan stuðning í nærumhverfinu, svo sem í leikskólanum eða skólanum. Stundum þarf meiri stuðning, til dæmis vegna félagslegs vanda eða fötlunar, og þá veitum við hann. Mín framtíðarsýn er sú að fjölskyldur þurfi ekki að bíða mjög lengi á biðlistum, heldur fái einstaklingsmiðaða hágæða þjónustu sem fyrst.“
Við vitum að lengi býr að fyrstu gerð og best að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Þess vegna þarf eiginlega að stíga inn áður en vandamál skapast. Erum við að gera nóg núna?
„Ég held við höfum aldrei sett eins mikið fjármagn í velferðarmál eins og núna,“ segir Halldóra Gyða „Við erum að reyna að nýta fjármagnið eins vel og við getum t.d. með því að bjóða upp á hópastarf, litla teymishópa í staðinn fyrir að horfa einungis á einstaklingsstuðning og með því erum við líka að auka félagsfærni barnanna. Við erum líka að vinna í forvarnamálum með snemmtækri íhlutun t.d. í skólaforðunarmálum og í aðstoð við fjölskyldur tvítyngdra barna með málþroskunarverkefni sem við köllum TOM. Í öllum okkar verkefnum þá erum við með gildi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að leiðarljósi sem eru virðing, virkni og velferð. Við berum virðingu fyrir öllum okkur þjónustunotendum, leggjum áherslu á að auka virkni þeirra og þannig á sama tíma velferð þeirra og okkar allra.“
Hvert er að þínu mati gildi þess að sýna stuðning í verki við börn og fjölskyldur þeirra?
„Það er mjög mikilvægt og að mínu mati á hvert einasta barn rétt á því að fá stuðning, því foreldrar hafa misgóðan bakgrunn og/eða bakland til að fá aðstoð við uppeldi barna sinna. Ég fagna því Farsældarfrumvarpi félagsmálaráðherra og treysti því að frumvarpinu fylgi aukið fjármagn og ítarleg aðgerðaráætlun.
Við erum í okkar starfi bæði að vinna með börnunum með einstaklings- eða hópastarfs stuðningi og við erum líka að vinna með foreldrunum í foreldrafræðslu, uppeldisráðgjöf og í formi þjónustu eins og PMTO og námskeiða. Svo erum við með fjölmargar stuðningsfjölskyldur sem annast börn þegar fjölskyldur þurfa aðstoð til skemmri eða lengri tíma til að draga úr álagi.“
Þú ert framkvæmdastjóri og stýrir víðfeðmri starfsemi. Hver er þinn stjórnunarstíll?
„Ég hef lagt ríka áherslu á að vera hvetjandi og valdeflandi stjórnandi. Ég er ekki fagmenntuð á sviði velferðarmála svo ég er mjög dugleg að hlusta og spyrja spurninga og svo tökum við ákvarðanir saman. Við leggjum ríka áherslu á teymisvinnu og erum stöðugt tilbúin að skora á okkur sjálf, koma með nýjar hugmyndir og prófa nýjar leiðir. Ávallt með skýra framtíðarsýn og markmið að leiðarljósi. Við mælum líka reglulega árangur af starfinu. Öðruvísi er ekki hægt að gera betur á hverjum degi,“ segir hún ákveðin.
Undanfarið hafa verið gerðar margvíslegar rannsóknir á árangursríkum stjórnunaraðferðum. Það hefur heyrst að konur hafi annars konar stíl að þessu leyti og sumar kannanir styðja það. Eru konur öðruvísi stjórnendur en karlar að þínu mati?
„Ég held það sé ekki hægt að alhæfa „almennt“ um það. Kynin eru auðvitað ólík en við erum líka mjög ólík sem einstaklingar, höfum öll okkar styrkleika og veikleika. Það er mikilvægt að opna augun fyrir kostum okkar og göllum, byggja stjórnun á styrkleikunum og finna leiðir til að breyta veikleikum í styrkleika.“
Að lokum, telur þú að það sé öðruvísi að vera stjórnandi í opinbera geiranum en hjá einkafyrirtæki?
„Það er talsvert öðruvísi þó við séum alltaf að takast á við svipuð verkefni, eins og rekstur almennt sem og þjónustu við viðskiptavini (notendur) og að ráða og halda í góða starfsmenn og góða fyrirtækjamenningu. Hag- og hagsmunaaðilar eru auðvitað aðrir í opinbera geiranum en í almenna og kröfur öðruvísi. Lokamarkmiðið er samt alltaf það sama – að hámarka arðsemi fjárfestingarinnar. Í okkar tilfelli að ná sem mestum árangri af þeirri þjónustu sem við erum að veita hverju sinni,“ segir Halldóra Gyða en hún hvetur fólk til að kynna sér starf Keðjunnar og bendir á að það að gerast stuðningsforeldri sé bæði gefandi og áhugavert. Upplýsingar um Keðjuna er að finna á vef Reykjavíkurborgar.
Hafði samband við Margréti M formann Þríþrautardeildar Breiðabliks sl. mánudag og spurði hana hvað hún vildi að ég gerði varðandi Kópavogsþrautina. Átti ég að skrá mig sem sjálfboðaliða (eins og ég hef verið síðustu árin), taka að mér þá sem ekki ætluðu að keppa og hjóla með þeim (hef verið aðstoðarhjóla þjálfari á sunnudögum) eða átti ég að skrá mig sem þátttakanda í keppnina ?
Margrét var mjög fljót að svara mér og sagði mér að ég ætti að skrá mig sem þátttakanda, ég hélt hún myndi frekar segja mér að skrá mig sem sjálfboðaliða ha ha ha, en ég auðvitað tók áskoruninni og skráði mig.
Var samt í smá vanda með að skrá sundtíma, því ég hafði ekki alveg nógu mikla trú á mér og mínum sundtíma. Ætlaði fyrst að skrá á mig 8 mín, en ég endaði á að skrá 7 mín og 30 sek sem var nákvæmlega tíminn sem ég sinnti á, þegar búið er að taka frá tímann sem fór í að fara upp úr og hlaupa að tímamottunni.
Lenti á braut 7, þar sem við vorum 7 saman á braut. Haddý (Hrafnhildur) nafna mín, var á sömu braut og ég og kvöldið fyrir keppni höfðum við áhyggjur af því að það væru ansi margir á brautinni, því sums staðar voru bara 5, 6 og/eða 7 :- )
KEPPNISMORGUN
Var mætt á Rútstún með hjólið mitt, rétt rúmlega 7:30 en svæðið opnaði klukkan 7:30, fór í gegnum hjólatékk og hjálmurinn var líka skoðaður. Setti svo hjólið á rekka, ásamt hjólaskóm, hlaupaskóm, sokkum og númerabelti (sólgleraugum og ennisbandi).
Það var svo keppnisfundur klukkan 08:30 og sundlaugin opnaði klukkan 09:15, fór fyrst útí Krambúð og keypti mér banana, hafði gleymt að taka hann með mér, sem mér finnst mjög góð næring rétt fyrir keppni.
SUND
Keppnin var svo ræst klukkan 09:30, fór út í laug með tvenn sundgleraugu, þar sem ég var ekki viss hvor þeir leka, hef svolítið verið að lenda í því, fékk Þórdísi vinkonu, lækni til að geyma svo hin gleraugun. Ræddum aðeins fyrir ræsingu hver ætlaði að vera hvar í sundbrautinni, en lögðum svo öll af stað á sama tíma. Fegin að ég var ekki alveg aftast eins og ég ætlaði mér þar sem sú sem var síðust var þó nokkuð mikið fyrir aftan mig, en ég kom næstsíðustu upp úr lauginni. Sundtími að mottu: 7 mín 43 sek. 400 metra vegalengd.
T1
Var mjög lengi í skiptatímanum, þar sem ég þurrkaði fæturna, fór í flíspeysu sem er rennd (sá ekki eftir því), fór í sokka, hlaupaskóna, setti á mig keppnisbeltið og tók svo hjólið af rekkanum og hljóp með það yfir marklínuna og krítuðu línuna, þar sem við máttum fyrst fara á hjólið. T1 tími: 2 mín, sem er frekar lakur tími, en skiptir ekki máli þegar maður er bara að hafa gaman og vera með.
HJÓL
Fann ég var ekki örugg á hjólinu, þar sem ég var ekki búin að æfa mig neitt á TT hjólinu. Hafði lánað vinkonu minni hjólið í fyrrasumar og sótti það bara í gærkvöldi uppá háaloft, og reyndi að hækka aðeins sætið og færa það aðeins aftur. Ég ákvað að liggja ekkert á letistýrinu heldur bara taka hjólið frekar öruggt, sá að ég hefði kannski frekar átt að fara á racernum mínum, kassettan á því er léttari, það er með rafmagnsskiptum og ég er bara öruggari á því, en á sama tíma er SVARTI FOLINN geggjað flott TT hjól og með frábærum keppnisgjörðum. Hjólabrautin eru þrír hringir 10 km samtals, þ.e. þrisvar upp sömu brekkuna en á sama tíma mjög gaman að fara hratt niður brekkuna hinum megin. Ég var með drykk á hjólinu sem var mjög gott, en enga næringu. Það var ótrúlega kalt, vindur og skuggi á norðanverðu Kársnesi svo ég var mjög glöð að hafa gefið mér tíma og farið í flíspeysuna. Hjólatími: 23 mín (26,19 km klst meðalhraði)
T2
Hoppaði af hjólinu áður en ég nálgaðist hvítu línuna, hljóp svo á hjólaskónum með hjólið uppá rekkann. Losaði svo hjálminn, úr skónum, í hlaupaskóna, var í smá vandræðum að komast í þá, þó ég væri með skóhorn, greip sólgleraugun, eyrnabandið og sneri númerinu fram og hljóp af stað. T2 Tími: 1:44
HLAUP
Mér leið ótrúlega vel þegar ég byrjaði að hlaupa, kom sjálfri mér eiginlega á óvart þar sem ég hef ekki verið dugleg að æfa „brick“, þ.e. hlaup eftir hjól, kannski vegna þess að ég hef svo lítið verið að hjóla ha ha ha, tek bara eina rólega 100 km Gran Fondo æfingu á mánuði, þar sem við höfum reynt að velja flata braut 🙂 En alla vega mér leið vel, tók fram úr mörgum á leiðinni. Það var virkilega góð tilfinning að hafa ekki tekið of mikið úr sér bæði í sundinu og hjólinu að eiga fullt inni til að líða vel allan tímann á hlaupunum, líka upp brekkuna, en hlaupabrautin eru tveir hringir samtals 3,5 km. Tók enga næringu, hvorki á hlaupinu, né hjólinu, fyrir utan drykkinn sem ég var með á hjólinu. Heildar hlaupatími: 17 mín 28 sek eða 04:59 pace.
HEILDARTÍMI 52 mín 24 sek. Varð 11 konan í heildina og varð í 4 sæti í aldursflokki.
Náði að grafa upp gamla tíma, en ég keppti síðast í Kópavogsþrautinni 2014 á 47 mín og 6 sek. og árið 2013 var ég 47 mín og 38 sek. Fann ekki tímann minn 2012, en þá tók ég þátt í fyrsta skipti og var pottþétt lengur, því ég fékk refsistig frá Ásgeiri vini mínum sem var yfirdómari, þar sem ég var búin að taka hjólið af rekkanum áður en ég festi hjálminn 🙂 Það var fyrsta þríþrautarkeppnin mín, en það ár keppti ég í öllum þríþrautarkeppnum á Íslandi og mínum fyrsta Ironman (af fimm) þ.e. árið 2012.
Það sem stendur upp úr var hversu skemmtileg keppni Kópavogsþrautin er. Frábærir keppnishaldarar, mótstjóri, dómarar, sjálfboðaliðar allt saman eðalfólk. Ég var búin að gleyma hvað þríþrautin er ofboðslega skemmtileg íþrótt og að taka þátt í svona keppni er einstök upplifun og skemmtun, frá A-Ö, er svo glöð að hafa drifið mig aftur á stað, þó ég væri ALLS ekki í besta formi lífs míns. Þá var ég alltaf glöð og náði þar með markmiði mínu sem var að klára og hafa gaman alla leið. Takk kærlega fyrir mig.
Eftir að hafa pakkað tjaldinu niður og skíðað með púlkuna niður í bíl, skiptum við um skíði, þ.e. settum ferðaskíðin (utanbrautargönguskíð) í bílinn og fórum á fjallaskíðin þar sem við ætluðum að toppa Snæfellsjökul í góðra vina hópi.
Vinirnir voru komnir og í um 1000 m hæð settum við alla í 3 línur.
Það var svolítið mikil þoka á leiðinni upp, en svo létti til og við sáum toppana á jöklinum mjög skýrt og að sjálfsögðu spilaði ég og söng: „Top of the World“.
Það var æðislegt að skíða niður, frábært færi og brekkan er bara svo æðisleg alla leið niður í bíl.
Frábær helgi á jöklinum.
Eftir að hafa runnið niður jökulinn með gleðibros á öllu andlitinu, þá var farið í BUBBLUR og BURGER partý á æðislegum stað á Nesinu. Mikil stemning þar í þessum frábæra hóp.
Skelltum okkur í vetrarútilegu á Snæfellsjökli í dag. Spáin var ekkert sérstaklega vænleg eða um 12-14 m. a sek. en átti að lægja með kvöldinu. Lögðun af stað úr bænum rétt rúmlega 14. Stoppuðum í Borgarnesi og skelltum okkur svo á kaffifhúsið á Arnarstapa áður en við lögðum í hann.
Svo var bara að klæða sig vel, arka af stað á Ferðaskíðum með púlkurnar og finna gott tjaldstæði sem og við gerðum.
Bjuggum til góðan skjólvegg og tjölduðum PíPí tjaldinu hennar Ingu, þar sem það fór mjög vel um okkur um kvöldið og nóttina.
Síðasti dagurinn, eftir yndislegt Yoga og morgunmat komu Þyrlu leiðsögumenn og fóru með okkur yfir leiðbeiningar fyrir Heleski, en við bókuðum eina ferð þegar við hittum annan eigandann á Hótel Sigló í gær.
Vorum 12 af 14 sem ákváðum að fara, þ.e. þrír hópar. Fyrsti hópurinn flaug alla leið frá Sóta, en við hin frá veginum neðan við Siglufjarðarskarðið.
Frábær upplifun – vorum innan við 3 mín á leiðinni upp og 12 mínútur á leiðinni niður 🙂
Vöknuðum í sól og blíðu og skelltum okkur á fjallaskíði í nágrenni Sóta. Stefndum á Almenningshnakka (929 m), en fórum svo reyndar upp aðeins norðan við hnakkann. Stelpurnar fóru í kennslu og voru ennþá norðar en við, komust því strax í snjó, en við þurfum að ganga um 1 km með skíðin á bakinu.
Byrjuðum reyndar daginn á frábæru Yoga og morgunmat.
Áttum bókaða helgarferð í Sóta í mars sl. sem frestaðist út af C-19. Ákváðum að fá nýja helgi og þessi var upplögð þar sem fimmtudagur var frídagur, þ.e. sumardagurinn fyrsti.
Við stefndum á svigskíði á Tindastóli þar sem það var blíða og ennþá snjór í fjallinu. Það var mjög gaman að skíða þar þó það væri komið sumarfæri og því stundum eins og að skíða á lími. En þá var bara borið undir og þá skánaði þetta aðeins.
Hér eru myndir frá degi 1.