#1 Sunnudagur 15.08. 2021

by Halldóra

Svaf eins og engill á Hotel Crabun í Point St. Martin, borðuðum morgunmat á hótelinu, sem var virkilega góður og kaffið var æðislegt, ekta ítalskur americiano sem Iðunn færði okkur upp í herbergi. Fékk svo þessar fínu fastafléttur í hárið, frábært að ferðast með fimleikamömmu sem kann sko vel til verka 🙂

Við lögðum í hann frá hótelinu klukkan 10.00 skv áætlun, allt á plani hjá Stefáni, sem er frábær skipuleggjandi og búin að skipuleggja ferðina einstaklega vel.

Það var strax mjög heitt þegar við lögðum af stað, stoppuðum á „bar“ og keytum okkur vatn og hentum okkur svo upp í fjallið.

Ofboðslega fallega leið upp fjöllin. Hádegisstoppið var í Perloz þar fundum við veitingastað, sem var reyndar fullbókaður, en við gátum pantað okkur kaffi, kók og fanta og setið fyrir utan þennan fallega stað. Stefán Bragi sýndi mér hvar drykkjarstöðin var á leiðinni alveg frá Point St. Martin og alla leið upp í Sassa.

Næsta stopp var í Remondin fyrir utan fallega kirkju þar sem við sátum af okkur mesta hitann, þ.e. í skugga.

Þaðan er mjög bratt leið upp í Hotel Etoile du Berger í Sassa sem er næturstaðurinn okkar.

Vorum að koma úr þríréttaðri máltíð, með rauðvíni, bjór og Fanta og það er ennþá mikill hiti og við í um 1700 metra hæð.

Heildarvegalengd dagsins var 15 km og um 1700 metra hækkun. Hér er ofboðslega fallegt og það var gaman að ganga í Aosta dalnum í dag og sjá alla ávextina, við sáum í dag vínber, epli, sítrónur, tómata bara á gönguleiðinni auk þess sem mikið var af kolbrjáuluðum hundum og eitthvað af hönum og hænum. Frábær dagur að kveldi kominn og það verður yndislegt að leggjast á koddann hér á Hotel Etoile du Berger.

You may also like