Ferðadagur til Genfar

by Halldóra
Fyrsta varðan á leiðinni

Óli skutlaði okkur upp á flugvöll klukkan 04:30. Ég svaf mjög lítið síðustu nótt, enda orðið langt síðan maður fór í flugvél. Þegar ég lá andvaka á koddanum í nótt, var mér hugsað til fyrstu utanlandsferðar minnar þegar ég var 6 eða 7 ára og fór með pabba og mömmu til Kanaríeyja og Jói var í pössun hjá Hlín og Ella spítu á Selfossi. Fyndið hvað minningarbrotin hellast yfir mann þegar maður liggur á koddanum og getur ekki sofnað. Hugsaði líka að þetta væri nú góð æfing fyrir TOR-inn þar sem ég mun ekki sofa mikið þá vikuna sem hlaupið fer fram.

Við Óli sóttum Stefán Braga og Iðunni og vorum komin upp á flugvöll fyrir 05:30, búðirnar voru ekki einu sinni opnar þegar við komum í gegn. Tollskoðunin gekk hratt og vel en það voru miklar raðir niðri, við vorum svo forsjál að fara í gærkvöldi út á flugvöll og tékka inn töskurnar. Hitti mikið af fólki sem ég þekkti út í Flugstöð, margir að fara í Mt.Blanc ferðirnar með Haraldi, Ella og Guðrúnu og Kollu og svo nokkrir að fara í fjallahjólakeppni í Sviss.

Flugið til Genf var frábært, ég datt ofan í tvær bíómyndir, svo ég svaf ekki neitt, en líka gaman að komast aftur í flugvél eftir um 2ja ára hlé.

Allt tékkið inn í Sviss og svo Frakkland gekk mjög vel, það vel að við þurftum ekki að sýna neitt af þessum útprentuðu gögnum sem við tókum með okkur og vorum búin að skrá okkur inn í öll löndin þrjú. Við leigðum svo bíl Frakklandsmegin og aðalvandamálið var að komast til Chamonix þ.e. án þess að fara yfir landamærin til Sviss og það var mesta baslið að eiga við Garmin græjurnar þ.e. sannfæra þær og finna leið til að komast hjá því að fara til Sviss.

Vorum komin til Chamonix um 17:30 þar hittum við Guðrúnu Hörpu og Ella – komu og kíktu á okkur þar sem við vorum að kíkja í Salomon búðina. Það er samt gaman að segja frá því að Salomon vöruúrvalið í Ölpunum heima er örugglega um 80% af úrvalinu í Salomon búðinni og verðið heima er algjörlega samkeppnisfært og stundu meira að segja ódýrara.

Kíktum svo í tvær aðrar stórar íþróttaverslanir, náðum ekki í fleiri búðir áður en það lokaði klukkan 19:30.

Þá hentum við okkur í gegnum Mt.Blanc göngin yfir til Courmayor þar sem við pöntuðum okkur pizzu og kók. Pizza á Ítalíu getur ekki klikkað. Eftir matinn tók við um klst akstur til Donnas í Aosta dalnum, þar sem við gistum núna fyrstu nóttina á Crabin hóteli í Point St.Martin og við munum byrja gönguna hér í fyrramálið.

Við erum búin að „skera aftur niður“ búnaðinn sem fer í bakpokann, en við göngum næstu 10 daga með allt á bakinu, þó nokkur niðurskurður fór á snyrtivörum og orkustykkjum, en að sjálfsögðu er ennþá fullt af CLINIQUE sólarvörn og gula kreminu sem dugar næstu 10 daga.

Hér er að finna nokkrar myndir af ævintýrum dagsins.

Það var mjög heitt hér í dag um 33 stiga hiti og sól og heiðskýrt.

You may also like

Leave a Comment