#4 Miðvikudagur 18.08.2021

by Halldóra

Við lögðum af stað frá Niel La Gruba fjallahótelinu okkar til Gressoney. Vorum búin að vera tvær nætur á þessu fjallahóteli sem er á mjög fallegum stað og ágætis gisting.

Framundan var um 900 metra hækkun uppí OBER LOO sem er næsta drykkjarstöð, en þangað er 843 metra hækkun og 343 metra lækkun. Hæsti punktur var í 2.400 metra hæð, mjög fallegt skarð Calle Lazouney þar sem við stoppuðum og tókum íslenska fánamynda selfie af okkur þremenningunum.

Svo héldum við áfram að mestu niður á við, inní Ober Loo, þar sem við hittum, eldri mann, bónda ítalskan sem spurði hvort við værum að undirbúa fyrir TORinn og hann lofaði að taka vel á móti mér þegar ég kem aftur í næsta mánuði.

Fórum niður fallegan dal, tókum mikið af myndum og hittum þó nokkuð af fólki.

Þegar við vorum svo komin niður í bæ, sneri Stefán Bragi við þ.e. fór til baka, en hann ætlaði að finna leigubíl eða strætó til að komast aftur upp í LaGruba hótelið, til að sækja bílinn okkar.

Við Iðunn héldum áfram leið okkar til Gressoney. Þegar við komum í bæinn fundum við okkur kaffihús og fengum okkur ítalskan tvöfaldan espresso og samloku og eplaköku. Kíktum svo í búðir, þar sem ég var að leita að ítölsku SIM gsm korti, þar sem VODAFONE er ekki að virka hérna á Ítalíu. Iðunn og Stefán eru með NOVA og það þrælvirkar, ég er búin að taka nokkur símtöl á Vodafone út af þessu veseni og geri ráð fyrir að flytja mig til NOVA áður en ég fer í TORINN í næsta mánuði, ég nenni þessu ekki lengur.

Fundum ekkert ítalskt símkort en fundum fallegar fingurbjargir sem Iðunn er að safna. Eftir búðarleiðangur, fórum við í bakarí og keyptum okkur súkkulaðifyllt horn og kók handa Stefáni. Spjölluðum við stelpurnar í bakaríinu, sem ætla að vera sjálfboðaliðar í TOR-num. Önnur þeirra sú yngri var í UTMB bol, svo ég spurði hana hvort hún hefði hlaupið UTMB, en hún sagði svo ekki vera, vinkona hennar gaf henni hann, en þær ætla báðar að vera að aðstoða í TORNUM 🙂 á drykkjarstöðinni, sem er LIFBASE og íþróttahúsið í Gressoney, en við Iðunn skoðuðum það, þegar við komum í bæinn, þar er glæsileg innisundlaug, kannski fer maður bara og tekur sundsprett 🙂

Gistingin okkar er í Alpenzu Grande, sem er rétt undir staðnum, þar sem klifur morgundagsins byrjar.

Fengum þriggja manna herbergi, hentum dótinu okkar inn og fórum svo í bæinn og fengum okkur að borða.

Veitingastaðurinn sem við borðuðum á heitir 4634 sem er hæðin á Monta Rosa hótelinu, en þessi dalur sem við eru í, liggur að Monte Rosa fjallinu. Kaffihúsið sem við borðuðum á fyrr um daginn heitir Lyskamm sem er eitt af toppunum. Það tók mjög langan tíma að fá matinn, en hann var mjög góður.

Fórum svo á hótelið, og það brakaði svo hræðilega í rúminu, mínu að við urðum að setja handklæði undir dýnuna til að brakið hætti.

Sváfum öll frekar illa um nóttina, enn og aftur þurftum að galopna alla glugga því það er ekki AIRCONDITIONER í þessum fjallahótelum, svo við vorum öll að vakna reglulega alla nóttina. Stefán galopnaði út og það varla dugði til.

You may also like