#3 Þriðjudagur 17.08.2021

by Halldóra

Frábært gistihúsið í La Gruba í Niel, ekta timburhús, þar sem maður heyrir ef fólkið labbar í herberginu fyrir ofan okkur. En við erum á 2.hæð í fjögurra manna fjölskylduherbergi. Tók mig smá stund að sofna í gærkvöldi, en þegar ég sofnaði loksins þá svaf ég eins og engill þar til að fjölskyldan á 3 hæðinni vöknuðu og þá voru mikil læti 🙂 🙂 En svo sem ágætt að koma sér á fætur. En við vorum samt bara róleg fórum í morgunmat 8:20 og fórum svo að hafa okkur til

Iðunn ákvað að taka aðeins rólegri dag og við Stefán héldum til baka í áttina að Della Balma, þar sem við hefðum átt að gista síðustu nótt, en breyttum planinu til að hafa bílinn, sem er algjör snilld. Miklu betra að hlaupa léttari, þ.e. ekki með allan farangurinn á bakinu 🙂

Við Stefán vorum því að fara öfuga TOR leið og því mun meiri hækkun frekar en lækkun, þar sem við fórum alla leið upp í Crenna Dou Leui skarðið sem er 2.340 metra hæð. Á hluta af leiðinni upp eftir er stígur sem er gamall hleðslustígur sem var gerður á tímum Rómverja, ótrúlega flott og mikil vinna og virkilega gaman að hlaupa þarna niður. Við endann á stígnum vorum við komin í skarðið Calle della Vecchia sem er í 2.185 metra hæð, þar var varða í Nepölskum stíl. Þar var líka mikið útsýni yfir til Sviss.

Planið var sem sagt að hlaupa/ganga upp eftir í 3 klst og hlaupa svo til baka. Þegar 3 klst voru komnar þá var ansi stutt eftir í skarðið svo við ákváðum að fara aðeins lengra, en vorum komin upp eftir á um 3 klst og 10 mín. Í skarðinu er mikið og fallegt útsýni yfir fjöllin og uppí Monte Rosa.

Áður en við byrjuðum að hlaupa til baka, þ.e. rómarstíginn og í gegnum skóginn, þá kveiktum við á JBL hátalaranum og ég valdi góða tónlist. Hlaupið niður gekk mjög vel hjá okkur Stefáni, þangað til að ég rak tána í einhvern stein og flaug á hausinn … ha ha ha -Halldóra klaufabárður 🙂 En fall er faraheill og vonandi eru byltur ferðarinnar bara búnar. Ég lenti ágætlega þ.e. tók kornhnísinn og endaði á öxlinni og reyndar báðum kálfum, sem urðu svolítið blóðugir og fengu smá sár og kúlu 🙂 En sem betur fer slapp hægra hnéð, sem ég er ennþá að reyna að ná mér góðri af eftir síðustu byltu LOL LOL 🙂

Skellti mér í sturtu eftir hlaup og svo áttum við yndislega stund hérna úti í kvöldsólinni á þessum fallega stað.

Fengum mjög góðan kvöldmat, ég fékk pasta með sveppum í forrétti og andalæri í aðalrétt.

Búið að ákveða að fara snemma að sofa og vakna snemma, morgunmatur klukkan 07:00 og leggja af stað klukkan 08:00.

Enn einn frábær dagur að kvöldi kominn 🙂

You may also like