La Palma – Dagur 4 – 04.12.2018

by Halldóra

Fengum mjög góðan morgunmat á rómantíska hótelinu í Barlovento en héldum svo leiðar okkar.

Dagleiðin átti að vera til Franceses en við vorum búnar að ákveða að hlaupa alla leið á vesturströndina þ.e. til Santo Domingo.

Sú leið var um 30 km og við ætluðum svo að taka bara strætó til baka til Franceses sem við og gerðum.

Dagleiðin var mjög falleg eins og á austurströndinni, miklar lækkanir og hækkanir, farið inn og í gegnum mörg gil og dali.

Undirlagið var líka mjög misjafnt, en alltaf krefjandi en góðir stígar inn á milli.

Dagleiðin var 30 km og um 1800 metra hækkun, mjög heitur og krefjandi dagur, en ofboðslega falleg leið. Stoppuðum í hádeginu á fallegu kaffihúsi í litlum bæ og fengum okkar sódavatn og orkudrykk að drekka með nestinu okkar, sem var Chia bar 🙂

Vorum komnar til Santo Domingo klukkan 15:30. Spar búðin var lokuð, en við fórum á bar og fengum okkur Fanta og kók og íspinna sem rann ljúflega niður.

Við tókum svo strætó klukkan 16:00 til baka til Franceses en þurftum þá að ganga um 1,5 km leið frá stoppistöðinni á gistiheimilið, fyrst niður og svo upp brekkur, en falleg leið og sem betur fer var ennþá bjart.

Fengum svo frábærar móttökur á gistiheimilinu. Það eru bresk hjón, hún Ann og maður hennar sem ég man ekki hvað heitir, enda lá hann að mestu í veikindum á meðan við vorum þarna. En þau hafa búið og rekið þetta gistiheimili í 16 ár.

Við bjuggum í yndislegu hobbita herbergi, þar sem við höfðum okkar eigin sturtu og klósett. Í hobbita herberginu okkar var lítil húsamús, sem kíkti reglulega á okkur og sturtubotninn fylltist af svörtum margfætlum um nóttina.

Í eldhúsinu okkar sem var bara fyrir gisti, þar sem við gátum hitað upp mat sem var í frystinum og Ann búin að elda fyrir okkur, voru grænar eðlur sem kíktu á okkur.

Ann er svona kattakona, sem átti nokkra ketti og flottar LandRover jeppa. En hún var ekki með hænsni, þar sem minkarnir átu hænsins sem hún átti.

Merkileg kona hún Ann og ævintýri að gista hjá henni.

You may also like

Leave a Comment