La Palma – Dagur 3 – 03.12.2018

by Halldóra

Við lögðum af stað um klukkan 09 frá gistiheimilinu, búnar að skila Duffel Bags í lobbýinu og svo var farið strax upp brekkuna. Áttum bókaðan morgunmat á Miami Bar sem við vorum báðar viss um að væri í Los Sauces. Þegar þangað kom þá komumst við að því að barinn var í Sanandreas um 2,5 km neðar (beint niður), vorum sem sagt bara búnar að klífa upp brekku, þessa 2,5 km og datt ekki í hug að snúa við.

Því fundum við bara næsta kaffihús, þar sem við gátum fengið rúnstykki með osti og kaffi og keyptum svo djús og banana í SPAR búðinni, þar sem það var ekki til á kaffihúsinu 🙂

Héldum svo áfram upp fjöllin upp í Los Tilos og svo upp í Laguna de Barlovento mjög falleg en krefjandi leið. Fórum svo aðeins til baka áður en við héldum áfram til Barlovento, þar sem okkur beið gisting á Rómantíska hótelinu.

Hlupum 23 km með um 1.500 metra hækkun.

Náðum mjög stuttu sólbaði við sundlaugina áður en sólin settist, en sólin sest auðvitað fyrr á austurströndinni.

Við fengum mjög góðan kvöldmat á hótelinu og flotta þjónustu og vorum með mjög fínt hótelherbergi. Bresku hjónin voru þarna líka og þau ætluðu að gista þrjár nætur þarna á hótelinu.

En ég svaf ekki vel þar, það var svo mikill hiti og raki í herberginu að ég endaði á aukarúminu sem var í herberginu, var svo hrædd um að allar byltunar mínar myndu vekja Betu.

You may also like

Leave a Comment