La Palma – Dagur 2 – 02.12.2018

by Halldóra

Sváfum mjög vel á hótelinu. Vöknuðum í tæka tíð, til að gera okkur klárar í daginn og klára að pakka öllu niður í Duffel bag töskurnar, því það kom bílstjóri að sækja þær klukkan 09:00. Samkvæmt planinu sem við vorum með átti hann að sækja okkur líka og keyra okkur frá Santa Cruz de La Pama til Puntallana, þaðan sem við áttum að hlaupa/ganga til Los Sauces eða réttara sagt til San Andrés.

Við breyttum plönunum, sendum leigubílstjórann með töskurnar og bresku hjónin fóru með leigubílstjóranum til Puntallana, en við ákváðum að hlaupa alla leið.

Eftir að hafa loksins komið leigubílstjóranum í skilning um þetta, þá fórum við í morgunmat á hótelinu og lögðum svo í hann.

Maginn var ennþá ekki alveg nógu góður hjá mér, þó ég hafi ekki verið búin að drekka kaffi í heila viku, þá var ég ennþá með þessa niðurgangskveisu, sem er ekki gott í hlaupaferð.

Þá var eins gott að vera með nóg af Immodium, til að stoppa pestina, en þá líður manni samt ekkert sérstaklega vel á hlaupum, svo fyrstu kílómetrarnir og klukkutímarnir voru ekki góðir.

En fallegt umhverfi, sól og hiti breyttu líðaninni fljótt og upp úr hádegi var ég orðin mun betri.

Við stoppuðum og fengum okkur að drekka RedBull og fylltum á vatnsbirgðarnar í Puntallana og svo héldum við áfram

Þetta var alveg krefjandi leið en einstakleg fallegur dagur meðfram ströndinni. Við nutum fallegu blómanna, allra ávaxtatrjánna og yndslegs útsýnis út á hafið. Á tíma sáum við meira að segja til Teide á Tenerife.

Hlupum 26 km með um 1.200 metra hækkun.

Fengum flotta penthouse íbúð á gistiheimilinu í Charco Azul, mjög flott íbúð með risa svölum á efstu hæð. Útsýnið var stórkostlegt, en því miður var skýjað um daginn, svo við gátum ekki tekið sólbaðið á svölunum eins og okkur langaði til. Í staðinn hvíldum við lúin bein og fórum svo í göngutúr til San Andreas í kvöldmat.

You may also like

Leave a Comment