La Palma – Dagur 1 – 01.12.2018

by Halldóra

Við lentum á flugvellinum í Santa Cruz á Palma um hádegisbil. Þetta var ótrúlega þægilegt, að fljúga með EasyJet til London Gatwick á föstudagskvöldi, engin asi á flugvöllunum hvorki í Keflavík, né á Gatwick. Sváfum í litlu hótelherbergi á flugvallarhóteli og vöknuðum svo eldsnemma og tékkuðum okkur inn í flugið til La Palma.

Flugvöllurinn er mjög lítill og kósý, en það var löng röð í vegabréfaskoðunina. Þegar við komumst þar í gegn, voru töskurnar okkar komnar á brettið og hinum megin við tollhliðið beið okkur leigubílstjóri sem keyrði okkur á hótelið í Santa Cruz.

Með í för voru einnig bresk hjón sem voru i sömu vél og við og voru að fara að ganga um eyjuna, eftir svipuðu plani og við.

Eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið, og farið í súpermarkaðinn til að kaupa okkur vatn og orkudrykk. Reimuðum við á okkur hlaupaskóna og hentum okkur í smá skokktúr sem átti að vera um 90 mín en urðu 4 klst 🙂

Fórum í flotta ferð upp á fjall, svo það var vel bratt upp og svo var líka vel bratt niður, en yndislegt að geta byrjað strax fyrsta daginn á hlaupaferð upp á bæjarfjallið. Hlupum LP1032 hringinn, samtals 19,3 km og um 1.250 metra hækkun.

Um kvöldið fórum við svo í bæinn og borðuðum á mjög góðum veitingastað á göngugötunni. Þar var mikið stuð, allir að halda upp á aðventuna, kallaðist Hátíð Stjarnanna og alls staðar afslættir í öllum búðum sem voru opnar fram á miðnætti. Mikil og skemmtileg skúrðganga á göngugötunni og mjög mikið, skrautlegt og skemmtilegt mannlíf í bænum.

Það voru glaðar en þreyttar hlaupavinkonur sem lögðust á koddann þetta kvöld.

You may also like

Leave a Comment