KEPPNISSAGA – Mt. Esja Ultra XI 2015

by Halldóra

Þessi afmælisdagur 20. júní 2015 verður klárlega einn af eftirminnilegustu afmælisdögum lífs míns þar sem ég hljóp í Mt. Esja Ultra hlaupinu í dag og kláraði hlaupið á 17 klst og 16 mín, en hlaupið var alls 77 km (alltaf farinn 700 m hringur niðri) og samanlögð hækkun var 6600 metrar.

Þetta er líka örugglega fyrsti afmælisdagurinn minn sem ég vaki allan sólarhringinn eða 24 klst, þar sem hlaupið var ræst klukkan 00:00 og ég kláraði ekki fyrr en klukkan 17:16, fór svo í matarboð og kíkti í útskriftarveislu svo ég var ekki farin að sofa fyrr en eftir miðnætti 21. júní.

Til í slaginn við Esjustofu rétt fyrir klukkan 00:00.

Hlaupið var ræst við Esjustofu klukkan 00:00, var komin þangað klukkan rétt rúmlega ellefu. Var búin að græja mikinn aukabúnað, ég var með tvö aukasett af hlaupafatnaði, ég var með mikið af mat og drykkjum. Óli spurði mig hvort ég hefði boðist til að vera með mat fyrir alla þátttakendur í hlaupinu, en ég hefði sko klárlega getað gert það.  Það var gaman að hitta í Esjustofu aðra hlaupara í Mt.Esja Ultra hlaupinu, þá Friðleif Friðleifsson (við unnum reyndar saman í rúmt ár hjá Íslenskum sjávarafurðum), Ágúst Kvaran (við kynntumst eftir að hafa lent saman í árekstri í fyrra), Stefán Bragi Bjarnason (hitti hann í fyrsta skipti í skráningunni í Cintamani búðinni í Bankastræti á föstudeginum) og svo Höskuld Kristvinsson sem er nú þekktastur fyrir að veri eini Íslendingurinn sem hefur klárað þrefaldan Ironman (NB !!! það er EKKI on my bucket list 😉 ;-)).

Verið að fara yfir reglurnar, allt á hreinu hjá Betu.

Myndband, viðtal sem Beta tók við okkur Friðleif fyrir keppni hér:

Ræst var stundvíslega klukkan 00:00. sjá myndband af ræsingunni hér:

Við byrjuðum á að hlaupa hring í kringum Skógræktina um 700 m áður en við héldum á fjallið.  Farið var ansi hressilega af stað, ætli Friðleifur hafi ekki pace-að hópinn, sá ég var komin í um 5 pace strax í byrjun og hugsaði þetta er nú ekki alveg rétta upphitunin fyrir 11 Esjur, svo ég hægði á mér og Höskuldur gerði það líka, en hinir fóru hraðar.  Eftir að komið var á fjallið ákvað ég bara eins og venjulega að ganga upp fjallið, ég er ekki að hlaupa það, en gekk samt rösklega og hélt í við öftustu strákana, var bara rétt á eftir Stefáni yfir tímatökumottuna sem var við Steininn.

Leiðin er þannig að farið er upp mýrina að Steini (tímatökumotta þar) og niður gönguleiðina austari. Það var mikið rok um 9-10 metrar á sek. að austan, það mikið rok að ég tók enga “selfie” mynd við Steininn eins og ég er vön að gera á æfingum, stoppaði ekki neitt heldur hljóp bara á móti rokinu beint niður þ.e. gönguleiðina austari.  Ég náði góðum tíma skv. tímatökukerfinu var ég 45:08 upp að Steini, NB!!  það er með þessum 700 m hring, og 22:48 niður = samtals 1 klst 07 mín (Strava segir þessa ferð PR hjá mér 39:34, þá er ekki hringurinn með) sem er kannski full hratt, endaði skammaði Ásgeir mig eftir að hafa sungið fyrir mig afmælissönginn þegar ég kom niður eftir fyrstu ferð.

Það var mjög stutt stopp, bara rétt fyllti á orkubrúsann og bætti á mig 2 gelum og 1/2 banani svo var haldið upp í 2 ferð, sjá myndband hér:

Fór aðeins rólegra í næstu ferðir – flögutímar:
FERÐ 2
00:51:31 (2: Steinn)
00:27:27 (2: Esjustofa)
FERÐ 3
00:59:45 (3: Steinn)
00:31:56 (3: Esjustofa)
Myndband sem Beta tók á leið í 4 ferð, sjá hér:
FERÐ 4
00:59:45 (4: Steinn)
00:30:31 (4: Esjustofa)

Eftir 4 ferðir, klukkan ca  05:30 – var skv. plani tekin stutt pása. Þá settist ég niður í fyrsta skipti, fékk með frábæra kjúklingasúpu (Maggi uppáhaldssúpan mín sem krakki) og fór á salernið. Stoppið var í um 10 mín, sem telst með inn í ferð 5, sem er ástæðan fyrir því að hún er lengri, ætti að vera nákvæmlega þá 57 mín ef ég dreg þessar 10 mín frá.

FERÐ 5
01:07:48 (5: Steinn)
00:31:00 (5: Esjustofa)

Það var orðið mikið stuð við Esjustofu áður en ég fór í 6 ferðina (klukkan ca 7:20), þar sem hlauparar sem voru að taka þátt í Maraþoninu voru komnir á staðinn, ræsing hjá þeim klukkan 08:00. Fékk mörg afmælisknús frá frábærum hlaupavinum í þeim hópi, sem var yndislegt og fékk góðar kveðjur og hvatningu um allt fjall, þegar ég hitti þessa ofurhlaupara.

Fékk líka óvænt skemmtilegan félagsskap í ferð #6, þegar Rúna Rut vinkona kom á mót mér, reyndar niður ferð 5 og fór svo með mér upp í 6 ferðina. Hún hafði fengið leyfi hjá Elísabetu og fór upp með Höskuldi að brú í ferð 5 og kom svo á móti mér gönguleiðina. Það var virkilega gaman að sjá hana og spjalla við hana og svo kom hún færandi hendi með RedBull og Snickers, sem kom sér mjög vel.
FERÐ 6
01:03:54 (6: Steinn)
00:32:23 (6: Esjustofa)


Með Rúnu Rut vinkonu eftir ferð 6.

FERÐ 7
01:07:46 (7: Steinn)
00:35:25 (7: Esjustofa)
FERÐ 8
01:04:45 (8: Steinn)
00:36:55 (8: Esjustofa)

Þegar ég var að koma að Esjustofu niður 8 ferðina mætti ég öllum hlaupurunum sem voru að fara í 2 Esjur, ræsing hjá þeim klukkan 12:00. Mikið var það gaman að fá fullt af afmælisknúsum og afmæliskveðjum frá öllum, yndislegt og ómetanleg.

Eftir að hafa klárað hringinn niðri eftir 8 ferðina var samkvæmt plani, alvöru hlé númer 2. Þarna settist ég í annað og síðara skiptið niður í hlaupinu og fékk mér aftur súpu og reyndi að troða í mig ristuðu brauði samkvæmt skipun frá Ásgeiri aðstoðarmanni, sem ég hafði verið ristað kvöldið áður, ekki mjög girnilegt, en ég borðaði það samt. Lagðist líka út af á bekk á bakið, því ég var aðeins farin að fá í bakið, fór líka í fyrsta skipti úr skónum og tæmdi af grjót sem ég hafði tekið mér ofan í skóna úr Esjunni.  Það var gaman að Halldór sjúkraþjálfari var kominn á staðinn og var hann bara nokkuð ánægður með stöðuna á nöfnu sinni eftir 8 ferðir. Ákvað að setja núna á mig bak-stuðningsbeltið og losaði mig við vetrarhlaupajakkann. Hugsa að ég hafi stoppað með salernispásu í rúmar 10 mín, sem eru þá inn í tímanum í ferð 9.

FERÐ 9
01:12:13 (9: Steinn)
00:32:11 (9: Esjustofa)
FERÐ 10
01:08:14 (10: Steinn)
00:35:27 (10: Esjustofa)

Óli kom svo með mér síðustu ferðina, þ.e. ferð 11. Ég var stöðugt að biðja hann um hægja á sér á leiðinni upp. Það var frekar fyndið, þar sem hann var spurður að því eftir á, hvort hann hafi getað haldið í við mig hahaha 😉

Ferðin upp gekk vel, það var aðeins farið að hvessa aftur, í ferðum 9-11 blés að norðan. Ég gaf mér samt tíma fyrir myndatöku í 11 og síðustu ferðinni upp að Steini og spjallaði við útlendinga sem skildu ekkert hvað væri eiginlega í gangi.  Sólin var þarna farin að skína og Esjan og útsýnið yfir höfuðborgina skartaði sínu fegursta á sumarsólstöðum. Maður má aldrei gleyma að njóta á svona tímum.

FERÐ 11
01:07:05 (11: Steinn)
00:33:05 (11: Esjustofa)


Með Óla í síðustu ferðina, þ.e. númer 11.

Að koma í mark eftir 17 klst hlaup, 77 km og 6100 metra hækkun og hlusta á afmælissönginn, klappið og fá öll faðmlögin er algjörlega ólýsanleg tilfinning (fór samt ekki að gráta 😉 😉 ). Eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum og því frábært að geta sýnt myndbönd sem voru tekin á þessum tímapunkti.  Takk kæru vinir.

Komin í mark á 17 klst 16 mín og 53 sek.

Myndband sem Guðrún Harpa tók þegar ég kom í mark hér:
Myndband sem mamma tók þegar ég kom í mark hér:
Myndband sem Beta tók þegar ég kom í mark hér:
Stutt viðtal eftir að ég kom í mark hér:

Komin í FINISHER flíspeysuna og með fallegu verðlaunagripina.

ÞAKKIR
Það er ekki hægt að klára svona hlaup án þess að hafa mikinn og góðan stuðning og stuðningsnet í kringum sig. Ásgeir Elíasson (hennar Bibbu í Bíddu aðeins) var aðstoðarmaður minn í hlaupinu og stóð sig súper vel.  Það var sko formlegur undirbúningsfundur bókaður með mér og Viggó sem var hinn aðstoðarmaðurinn (breyttist svo reyndar í það að hann varð starfsmaður í hlaupinu). Ásgeir lét mig plana alla hluti, fór yfir  dótið sem ég var með mér, reddaði mér tjaldi (prinsessu-tjaldið svokallaða) sem var tjaldað á staðnum undir allt dótið og bæði hvatti mig áfram fyrir hlaup, þ.e. skipulagði æfingar sem voru á tímum ekki alveg nógu planaðar hjá mér (var eiginlega ekki með neitt plan), hvatti mig í hlaupinu og var með góða stjórn á öllu. Takk kærlega fyrir kæri vinur, vona að ég geti stutt þig jafn vel þegar þú munt synda fram og til baka Ermasundið í byrjun september.


Viggó, HM og Ásgeir.

Ég vil einnig þakka Guðmundi Smára sem fór með mér í Trail de Sierra hlaupið á Spáni sl. haust. Það var Guðmundur sem hvatti mig til að byrja að hlaupa Esjuna í apríl, hann dró mig með sér og vinum sínum í langar æfingar á laugardögum (þó ég væri hægari, en þeir var bara farið hægar svo ég gæti verið með) og svo dróg hann mið með í styttri sprettæfingar í Öskjuhlíðinni og Úlfarsfelli (sjá upplýsingar um allar ferðinar hérna á heimasíðunni).  Ég er viss um að ég hefði ekki komið mér af stað, ef Guðmundur Smári hefði ekki ýtt þarna við mér. Esju hlaupið var alltaf á markmiðalistanum, en ég kom mér ekki af stað fyrr en hann fór að reka á eftir mér að hlaupa og mæta í fjallið.  Takk kærlega fyrir það Guðmundur.

Viggó er líka algjörlega einstakur hlaupafélagi og var mjög duglegur og viljugur að fara með mér  Esjuna stundum svo viljugur að maður þurfti að minna hann á sitt markmið, þ.e að hann væri að fara að keppa í götuhlaupi, þ.e. Köben maraþoninu, en um leið og það var búið var hann komin aftur upp í fjall með mér. Frábær félagi hann Viggó og virkilega öflugur hlaupari og frábær starfsmaður fyrir hlaupið, þar sem hann hljóp um fjallið með Sigga í nótt að undirbúa maraþonið. Takk kæri Viggó.

Sigga Sig vinkona var líka duglega að hvetja mig og fór með mér nokkrar ferðir í Esjuna, við fórum t.d. saman í fyrstu ferðina mína sem var í mars og lentum í óvæntum ævintýrum.  Sjana vinkona er líka búin að vera einstaklega dugleg að fylgjast með mér þó hún sé búin að vera fyrir norðan og hún er búin að blása reglulega í mig sjálfstraustið og hvetja mig áfram. Takk elsku vinkonur 😉

Ívar Trausti hlaupaþjálfari Bíddu aðeins, kom með góða punkta inn í lokaplanið, varðandi næringu og fleira, takk kærlega fyrir það sem og fínar æfingar í vetur.

Elsku Óli og Kristófer takk fyrir ykkar stuðning, það eru ansi margir klukkutímar sem fara í svona æfingabrölt og þolinmæði ykkar og hvatning er algjörlega ómetanleg. LUV JU 😉

Halldór Víglundsson sjúkraþjálfari í Garðabænum og Bjössi (Hilmar Björn Harðarson) einkaþjálfari í World Class Laugum héldu svo skrokknum gangandi. Í byrjun mars var ég nefnilega greind með afgerandi brjósklos á milli 4 og 5 eftir Segulómun. Var mjög slæm á þessum tíma í bakinu með mikinn doða niður hægri fót, ekki mikið æft þá.  Ég er búin að vera tvisvar í viku hjá Halldóri síðan og er tvisvar í viku að lyfta hjá Bjössa og ég hef náð góðum árangri og finn mikinn mun á mér. Ótrúlegt hvað fagmenn geta gert og ég er mjög ánægð að hafa ekki þurft að fara í aðgerð.   Takk Halldór og takk Bjössi – þið eruð frábærir fagmenn sem ég get mælt 100% með.

Vegna þessa sem og að hafa svo fengið slæmt kvef fyrir rúmum tveim vikum, alveg niður í lungu með hálsbólgu og hósta (endaði á pensilíni), þá var það ekki sjálfsagt í mínum huga að ég myndi klára þetta hlaup. Enda þarf ekki mikið að koma uppá, bara að misstíga sig, detta og að fá högg á bakið, þá er þetta búið. En sem betur fer gekk allt mjög vel og fyrir það er ég einstaklega auðmjúk og þakklát.

Mt.ESJA ULTRA ÞAKKIR
Að lokum vil ég þakka Betu (Elísabetu Margeirsdóttur) og Sigga (Sigurður Hrafn Kiernan) fyrir frábært hlaup. Öll umgjörðin í kringum hlaupið var algjörlega til fyrirmyndar. Allar upplýsingar voru góðar bæði á heimasíðu og FB síðu hlaupsins. Allt skipulag á keppnisstað algjörlega til fyrirmyndar. Frábærar veitingar við drykkjarstöðina og eftir keppni og glæsileg verðlaun. Það sem skiptir mestu og stendur upp úr var umhyggjusemi ykkar og allra starfsmanna, maður fann það var stöðugt verið að kanna og tryggja hvort maður væri ekki pottþétt í lagi í hausnum og kanna hvernig manni liði. Svo fékk maður góða hvatningu bæði frá öllum starfsmönnum, öðrum þátttakendum og gestum. Ég get 100% mælt með Mt. Esja Ultra og er mjög stolt af því að vera fyrsta konan til að klára þetta hlaup.

Óska samkeppendum mínum innilega til hamingju með glæsilegt hlaup, sérstaklega Friðleifi fyrir ótrúlegan tíma, en það sem skiptir mestu máli var að við kláruðum öll og vel innan 19 klst tímamark.

Takk fyrir mig 😉 😉

Heimasíða hlaupsins hér:
Facebook síða hlaupsins hér:
Fleiri myndir hér:

You may also like

Leave a Comment