KEPPNISSAGA – CCC Mt. Blanc 2015

by Halldóra

Við fengum far frá Chamonix til Courmayeur með Tobba (Þorbergur Ingi Jónsson) og Begga (Ágúst Bergur Kárason) aðstoðarmanni hans. Ég var búin að vera í Facebook sambandi við Gunnar Júlísson og hann kom með okkur líka. Við lögðum í hann rétt rúmlega sjö frá Chamonix en hlaupið var ræst klukkan 09:00. Það var smá biðröð í göngin í gegnum Mont Blanc en okkur gekk vel að komast yfir og fengum strax bílastæði í Courmayeur á Ítalíu.

Það var mjög löng röð á klósettið svo við fórum bara strax í röðina þegar við komum, en ég náði að fara tvisvar í röðina og þ.e. tvisvar á kvenna klósettið á meðan strákarnir voru ekki búnir að ná að fara einu sinni, enda voru konur í þessu hlaupi um 13% þátttakenda. Talandi um klósettferðir þá setti ég örugglega met í þeim en ég fór sjö sinnum á klósettið þennan morguninn, þrisvar heima, tvisvar hjá Tobba og tvisvar í Courmayeur fyrir ræsingu hahah – talandi um smá fiðring í maganum 😉

Sólin var að koma upp og við vissum að þetta yrði mjög heitur og sólríkur dagur og má segja að það hafi valdið manni mestum áhyggjum, enda höfðu hlauparar í TDS hlaupinu lent í vandræðum vegna mikils hita og ég hafði smá áhyggjur af því.

#1 COURMAYEUR 1200 m hæð
Ferðin hófst í ítalska bænum Courmayeur. Ræsingin var fljótandi, þ.e. ræst í hollum eftir númerum. Fyrstu hlauparar fóru af stað rétt rúmlega níu og var Tobbi í þeim hópi. Númer 5000-5999 var í síðasta hollinu og ég með númer 5108 því þar. Var því ræst klukkan 09:20. Rétt fyrir ræsingu sá ég að Gunnar var aðeins aftar en ég í hólfinu okkar. Ég kallaði á hann og spurði hann hvort við ættum ekki að fara saman upp fyrstu brekkuna, því ég vissi að hún yrði löng og hægfarin og því örugglega skemmtilegra að hafa félagsskap. Gunnar var til í það og við lögðum af stað saman.

Það var einstök tilfinning að hlaupa í gegnum þennan fallega ítalska bæ og fá alla hvatninguna og stemninguna beint í æð. Ótrúlegur fjöldi hlaupara sem fóru af stað eða 2.129. Courmayeur er í 1210 m hæð og næsta tímatökustöð er í 2.548 m hæð og 10,4 km fjarlægð. Okkar beið því um 1400 metra klifur á þessum 10 km kafla.

Courmayour

#2 TETE DE LA TRONCHE 2.571 m hæð 10,3 km
Ferðin upp á Tete de La Tronche gekk mjög hægt. Þó við Gunnar hefðum hlaupið nokkuð hratt í gegnum bæinn til að vera ekki alveg síðust í þessum hópi, þá var mikil biðröð upp fjallið. Svo komum við að þurrum árfarvegi, þar sem stígurinn þéttist, þá varð algjört kraðak. Þar voru um 50-70 manns að reyna að troðast inn á einn lítinn stíg. Okkur Gunnari gekk sem betur fer ágætlega að komast þarna áfram en svo hélt bara í raun gangan hægt og rólega og einstíga upp á fjallið, ekkert hlaupið.

Mikil örtröð við Colleretto Giacosa

Hitinn jókst stöðugt eftir að sólin kom upp, fór vel yfir 30 gráðurnar, örugglega um 35 gráður og það tók vel á að upplifa bæði þynnra loft eftir því sem við komum ofar sem og hitinn og sólin voru alveg að að steikja okkur Íslendingana sem eru nú ekki vön svona miklum hita.

Landslagið á leiðinni upp var algjörlega guðdómlegt og að sjálfsögðu gaf maður sér tíma til að taka nokkrar myndir á leiðinni. Eftirminnileg er einnig Asna-fjölskylda sem lét sko ekki ýta sér af stígnum, svo við urðum að fara vel út fyrir stíginn til að komast fram hjá fjölskyldunni.

Við komum á toppinn á Tete de la Tronche klukkan 12:28, þ.e. höfðum verið 3 klst og 7 mín að klífa þessa 10,4 km leið og vorum komin upp í 2.548 m. hæð, þ.e. hækkun frá byrjun var 1462 m.

Þegar við komum á toppinn var boðið upp á vatn, sem var ekki skv. plani, þ.e. ekki hefðbundin drykkjarstöð. Ástæðan fyrir því var sú að það var svo heitt að starfsmenn höfðu áhyggjur af hlaupurum. Tveim dögum fyrir keppni fengum við tölvupóst og SMS skilaboð um að spár gerðu ráð fyrir miklum og vaxandi hita og því var orðin skylda að vera með mun meira magn af vatni á okkur eða 2 lítra. Ég var með vatnsblöðru í hlaupavestinu mínu sem tekur 1,5 lítra af vatni og svo var ég með tvær 500 ml. skvísur, svo ég var mjög vel birg en á sama tíma var vestið mitt mjög þungt. Ég var auk þess með allan skyldubúnað í vestinu, regnjakka, regnbuxur, vettlinga, vatnshelda vetlinga, tvö höfuðljós, auka rafhlöðu, buff og orku, bæði í duftformi, zerotöflur, mikið af gelum, súkkulaði, hnetur og orkubör.

Tronche

#3 REFUGE BERTONE 1.989 m hæð 14,7 km – fyrsta drykkjarstöð
Af toppnum Tete de la Tronche lá leiðin niður í Refuge Bertone og það var yndislegt að geta loksins hlaupið aðeins, þarna hljópum við Gunnar fram úr mjög mörgum. Það var gott að hafa hann á undan mér, því hann var duglegur að hlaupa fram úr fólki sem er oft erfitt á þessum mjóu stígum. Ég var mjög varkár þegar ég var komin utanstíga, því ég var búin að lenda mikið í því að misstíga mig á síðustu æfingum fyrir hlaupið. Halldór sjúkraþjálfari teipaði mig því nokkuð fasta til að minnka líkur á því að misstíga mig, því hægri ökklinn var frekar tæpur.

Fyrsta formlega drykkjarstöðin var í Refuge Bertone. Þegar við vorum komin þangað vorum við komin 14,7 km frá ræsingu og 4,3 km frá toppnum. Hraðinn á kaflanum frá Bertone til Bonatti var ágætur eða 5,55 km/klst og ég var í 1665 sæti. Vorum búin að vera í um 4 klst á ferðinni (3:53:59)

Á drykkjarstöðinni var sama margmennið og kraðakið og áður og allir að fá sér vatn og kók og fylla á brúsa og blöðrur. Ég fékk mér eitt sódavatnsglas og fyllti svo bara vel af vatni á blöðruna og brúsana, fór úr stuttermabolnum, því ég var algjörlega að kafna úr hita svo ég var bara komin á íþróttatoppinn.

Talandi um fatnað þá er það skemmtilegt hvað fyrirfram ákveðin plön geta farið algjörlega út í sandinn. Ég var búin að ákveða að vera í dökkbláu ICELAND legghlífunum mínum, svörtum compression bol, svörtum buxum og bláum hlírabol með íslenska fánanum og nafninu mínu sem Bros-bolir höfðu merkt fyrir mig fyrir ferðina. Þegar svo veðurspár lágu fyrir og viðvaranir bárust vegna mikils hita, þá varð að búa til plan B. Ég fór og keypti mér hvítan stuttermabol (mjög lítið orðið eftir af þeim), notaði hvítu gömlu compression legghlífarnar sem ég hafði sem betur fer tekið með mér og keypti mér hvíta eyðimerkur derhúfu, með vörn fyrir axlinar. Mikilvægt að geta verið sveigjanlegur á svona stundum 😉

Bakpokinn var því vel þungur þegar við lögðum af stað aftur, fullur af vatni, en ég fékk mér ekkert að borða á drykkjarstöðinni, þar sem ég var með gel á skvísu-brúsa og hafði verið dugleg að drekka það á um klukkutímafresti frá því að við lögðum af stað.

Bertone
#4 REFUGE BONATTI 2.010 m. hæð 22,1 km – önnur drykkjarstöð

Frá Bertoni til Bonatti var 7,4 km frekar sléttur kafli eða um 283 m hækkun, en við áttum í miklum erfiðleikum með að komast áfram, þar sem hitinn var mikill og sólin skein svo það var mikil lognmolla þarna í dalnum, við kominn á heitasta tímann eftir hádegi. Hlauparar voru almennt að ganga þessa leið og oft erfitt að komast fram úr þeim á þröngum stígnum. Franskir karlmenn eru ekki ánægðir með að konur séu að hlaupa fram úr þeim, svo þetta var svolítið strögl á köflum. Við komum að Bonatti klukkan 14:29 og hraðinn var 5,86 km á klst á þessum kafla. Þarna var ég komin í 1595 sæti, hafði unnið mig upp um 70 sæti frá stöðinni á undan og 101 sæti frá byrjun.

Bonatti
ARNUVA 1.769 m. hæð – 27,3 km – fyrsta matarstöð – STOP 16:30

Eftir Refuge Bonatti er fyrsta matar-drykkjarstöðin, þ.e. Arnuva. Þar settumst við Gunnar niður í fyrsta skipti og fengum okkur gómsæta kjúklingasúpu, Maggi súpu, sem var vel söltuð og með spaghetti. Þrátt fyrir allan hitann, var heit súpan mjög kærkomin og gómsæt. Tímatökukerfið var bilað þegar við komum í Arnuva svo við eigum ekki upplýsingar um tímann þar (en myndirnar eru teknar klukkan 15:31).

Við vorum búin með 27,3 km á þessum tíma og við Gunnar vorum ennþá á sama reiki. Ég lét Gunnar vita að Óli ætlaði að hitta á mig í Champex- Lac, þar sem aðstoðarmenn mega hitta hlaupara og við ákváðum að tengja Siggu (konuna hans Gunnars) og Óla saman, ef hún vildi fara með honum.

Eftir Arnuva beið okkur aftur hækkun upp á Grand Col Ferret um 889 m, eins og rúmlega ein Esja, þá komin aftur yfir 2500 m hæð. Við Gunnar notuðum Esjuna mikið í samanburði við vegalengdirnar, og töluðum um “bara” eina Esju, eða tvær o.s.frv. til að gera eins lítið úr þessum miklu og bröttu fjöllum sem við vorum í raun að klífa. Það er hins vegar mjög erfitt að lýsa með orðum þessum bröttu og mögnuðu fjöllum sem við vorum að klífa því við eigum engin svona fjöll á Íslandi.

Beta (Elísabet Margeirsdóttir) hafði sagt mér að fylla vel á vatnið í Arnuva, en ég var ekki alveg á því að fylla alla brúsa fyrir klifið, svo ég fyllti á, en fyllti ekki að fullu, sem var kannski ekki alveg skynsamleg ákvörðun (hefði betur hlustað á Betu ;-)).

Á leiðinni upp fjallið sáum við mikið af hlaupurum, sem voru algjörlega búnir á því, lágu í hlíðunum, voru að kasta upp og litu bara mjög illa út, enda ennþá mikill hiti, sól og blankalogn. Við Gunnar ákváðum að vera skynsöm og tókum þetta fjall “mjög” rólega, bara eitt skref í einu. Sáum að það borgaði sig ekki að keyra sig út svo ég passaði bara púlsinn og við héldum takti, stoppuðum aldrei á leiðinni upp, en vorum heldur ekki að fara of hratt. Við náðum mörgum á leiðinni upp sem höfðu hlaupið fram úr okkur og sprengt sig á leiðinni. Þetta var langhlaup ekki spretthlaup, þ.e. rúmlega 70 km eftir, svo við vorum skynsöm.

#5 GRAND COL FERRET 2.537 m hæð 31,8 km
Þegar við komum á toppinn á Grand Col Ferret, var klukkan 17:11 og við aftur komin upp yfir 2500 metra hæð, búin að hlaupa 31,8 km á 7 klst og 51 mín. Meðalhraðinn á þessum 9,6 km kafla þ.e.bæði sléttu og upp fjallið var 3,58 km/klst.

Það var hins vegar ekkert vatn í boði á toppnum. Man eftir að það var verið að sækja hjálp fyrir fólk sem hafði gefist upp á leiðinni uppá fjallið og það kom maður hlaupandi með vatn niður til að aðstoða þessa hlaupara. Ég var eiginlega frekar hissa að það skildi ekki vera neitt vatn í boði þarna á toppnum, en við bara rétt stoppuðum til að pissa og svo var haldið áfram og nú hlaupið niður.

Eftir að hafa toppað Grand Col Ferret lá leiðin niður sem var fín tilbreyting, eftir að hafa núna klifið tvö hæstu fjöllin á CCC leiðinni. Því reyndum við Gunnar að hlaupa aðeins, en við vorum orðin ansi vatnslítil bæði. Beta hafði eins og komið hefur fram sagt mér að fylla vel á vatnsbirgðir í Arnuva, en ég ekki verið alveg nógu skynsöm að gera það. Það kom svo sem ekki að sök, því maður þarf ekki eins mikinn vökva á niðurhlaupi eins og göngunni upp, en það var samt ennþá vel heitt.

Næsta stoppistöð var La Peule . í 2082 m hæð og þá yrði 35,4 km búnir, en það var ekki vatnsstöð þar og ekki heldur tímataka.

Ferret
#6 LA FOULY 1.598 m.hæð 41,5 km – 4 drykkjarstöð – 2 matarstöð STOP 20:15

Við vorum komin í La Fouly klukkan 18:40 og þá búin að hlaupa 41,7 km. Hraðinn á okkur niður eftir var ágætur eða 6,73 km/klst. Við stoppuðum og nærðum okkur vel í matarstöðinni í Foully. Á þessum tímapunkti vorum við farin að telja niður kílómetrana, þ.e. að ekki væru ”nema” rétt rúmlega 50 km eftir, þ.e. við næstum hálfnuð það virkar alltaf vel fyrir hausinn 😉 Þarna var ég komin í 1412 sæti upp um 284 sæti frá ræsingu.

Í Praz de Fort 1.161 m hæð vorum við búin með 49,9 km, þar fengum við frábærar móttökur íbúa og mikið ofboðslega er það fallegur bær. Mig langar virkilega til að fara þangað aftur.

Fouly
#7 CHAMPEX-LAC 1.477 m hæð 55,5 km – 5 drykkjarstöð, 3 matarstöð

STOP 23:15
Við vorum í ágætis gír eftir Fouly og spennt að komast í næstu stoppustöð, þ.e. Champex Lac þar sem við vissum að Óli og Sigga biðu okkar Gunnars. Við hlupum í gegnum mörg falleg þorp, eins og Praz de Fort, þar sem íbúar voru alveg yndislegir, búnir að setja drykki og veitinga á borð út á göturnar. Það var aðeins farið að kólna, en við vorum samt ennþá bara á bolunum. Rétt eftir að við byrjuðum að klífa þessa 604 m (eina Esju) upp að Champex-Lac þá urðum við að kveikja á höfuðljósunum, þar sem þá var orðið dimmt.

Myrkrið hægði auðvitað á okkur, en náðum samt ágætis hröðum kafla þarna, eða 5,80 km klst meðalhraðinn þó við gengum að mestu upp fjallið. Þegar við komum inn að stöðinni sáum við íslenska fánann á hægri hönd og fengum flottar móttökur frá Siggu og Óla þegar við komum inn á stöðina klukkan 21:33.

Stoppuðum í 30 mínútur þarna með baklandinu okkar og fórum út aftur klukkan 22:05. Þá búin að hlaupa 55,7 km, nú var bara hægt að telja niður enda við rúmlega hálfnuð. Það var samt alltaf jafn gaman hjá okkur, vantaði ekkert upp á gleðina, okkur leið mjög vel og við bara í góðum gír.

Champec Lac
#8 LA GIETE 1.884 m hæð – 67,2 km

Við vorum ekki bara farin að telja niður kílómetrana, heldur vorum við líka farina ð telja niður fjöllin sem voru eftir. Það voru “bara” þrjú fjöll eftir. Fjallið upp La Giete var í 1883 m hæð og klifrið því um 865 m, sem var bara rétt rúm ein Esja. Þetta fjall og klifur var samt mjög erfitt. Það var bæði bratt og mikið príl, virkilega stórir steinar á leiðinni og það var til dæmis frekar skrefstutt stelpa á undan mér þarna á kafla sem átti bara í mestu vandræðum að komast áfram.

Við hittum franskt par þarna á leiðinni sem sagði okkur einmitt að þetta fjall væri mjög bratt, eiginlega bara beint upp. Svo ég átti von á miklum bratta, en átti alls ekki vona á svona miklu príli og það í niðarmyrkri. En af því við vorum alltaf svo jákvæð og bjartsýn, þá fannst okkur þetta bara skemmtileg tilbreyting frá því að hlaupa yfir allar ræturnar og á stígunum, svo þetta var bara skemmtileg upplifun.

Þegar við vorum komin í la Giete vorum við búin með 66,8 km, bara 34,2 km eftir og ég var komin í 1196 sæti, eða upp um 496 sæti frá ræsingu.

La gIETE
#9 TRIENT 1300 m hæð 72,1 km – 6 vatnsstöðin, 4 matarstöðin, STOP 03:45
Leiðin frá La Giete til Trient var frekar brött niður og mikið af trjárótum á stígunum og í myrkrinu var mjög erfitt að fóta sig og fara hratt, en það gekk samt mjög vel hjá okkur, vorum á 4,47 km klst.

Það voru frábærar móttökur sem við fengum þegar við komum í Trient. Guðrún Harpa vinkona mín hafði bæst í Íslendinga hópinn sem beið okkar og köllin og gleðin og knúsið sem við fengum voru algjörlega yndislegt. Guðrún Harpa var að ganga UTMB hringinn í annað skiptið þennan mánuðinn með hóp frá Mondo og þessi yndislega vinkona mín vakti eftir mér (klukkan orðin 01:50) til að gefa mér stórt og mikið knús, það var algjörlega yndislegt.

Við stoppuðum í 30 mínútur á Trient með Óla og Siggu og ég fann að ég var ekki eins hress og í Champex-Lac, þetta bratta fjall og klöngur og klifur hafði tekið aðeins á mann. Gat heldur ekki komið ofan í mig fleiri gelum, var búin með 14 stk á þessum tímapunkti og fannst það orðið gott. Reyndi því að fá mér brauð með súpunni, en var líka eiginlega orðin smá leið á henni, en langaði samt ekki í neitt annað. En allt í kringum okkur í Trient voru hlauparar sem voru búnir að gefast upp, komnir með rauða pokann sinn og bara hættir. Það hvarflaði ALDREI að okkur að hætta, við ætluðum að klára þetta hlaup og sækja vestin okkar. Gunnar var með góðan útreikning og skipulag á tímanum og við vorum alltaf vel innan tímamarka, þó við værum að stoppa lengi á þessum stöðvum sem við máttum hitta aðstoðarmennina okkar. Við stoppuðum í 30 mínútur í Trient áður en við héldum á næstsíðasta fjallið. En ég viðurkenni að það var alveg “töff” þarna í myrkrinu að horfa á línuna, með höfuðljósunum, sem var nú ansi brött upp fjallið.

Trient
#10 CATOGNE 2.027 m hæð – 77,3 km

Þegar við vorum komin upp á toppinn á Catogne vorum við komin í 2.027 m hæð og 77,3 km búnir. Klifrið eftir Trient var svo ekkert brjálæðislega erfitt, þar sem við forum bara rólega, eins og sjá má 3,23 km á klst. þessa 5,4 km. En góða við að vera búin með 77,3 km var að nú voru bara 23,7 km eftir. Hvað rétt rúmlega hálft maraþon og bara eitt “bratt” fjall, hvað er það á milli vina.

Við Gunnar sáum samt mest eftir því að hafa ekki sent Óla og Siggu bara heim að sofa, klukkan orðin 04.00 um morgun, en þau ætluðu að hitta okkur á næstu drykkjar- og matarstöð, þ.e. síðustu stöðinni sem aðstandendur máttu hitta okkur, en við vorum ákveðin í því að stoppa bara stutt þar, engar 30 mínútur þar, þó við værum ennþá alveg vel innan tímamarka.

Catogne
#11 VALLORCINE 1.260 m hæð 82,6 km – 7 vatnsstöðin, 5 matarstöðin

STOP 07:00
Við komum í Vallorcine klukkan 05:13 um morguninn. Hittum Siggu og Óla fyrir utan tjaldið, þau voru bara nývöknuð, höfðu lagt sig í bílnum. Við vorum 15 mín á undan þeirri áætlun sem tölvan hafði áætlað á okkur, en við áttum að vera komin í Vallorcine 05:30, svo okkur gekk bara vel niður eftir, vorum á 4,15 km klst hraða, þennan 5,1 km leið.

Það var ótrúlega þægilegt og skemmtilegt að þekkja leiðina niður að Vallorcine, þ.e. ég hafði hlaupið þennan síðasta kafla í sumar, með Sissel norsku vinkonu minni, sem ég kynntist á Spáni, en hún á hús í Chamonix og var að hlaupa langa UTMB hlaupið í ár. Það er ótrúlega þægileg tilfinning að vita nokkurn veginn hvað er framundan, en á sama tíma var mikið myrkur svo ég sé ekki mikið. Það var auðvitað engin drykkjarstöð í sumar, þegar við hlupum þarna fram hjá svo ég áttaði mig ekki alveg á því í myrkrinu hvað þeir höfðu sett hana niður og þegar við hlupum út úr drykkjarstöðinni þá fannst mér við hlaupa til baka áður en við forum með fram ánni út dalinn í áttina að Chamonix og þá var bara síðasta bratta fjallið eftir, þ.e. 84 S beygjur sem biðu okkar þar og smá klifur og klöngur 😉
Stoppið var bara stutt á þessari síðustu stöð sem við máttum hitta aðstandendur eða 17 mínútur og svo var haldið áfram.

Vallorcine
#12 LA TETE AUX VENTS 2.130 m hæð 90,3 km

Við komum á toppinn á Tete Aux Vents klukkan 08:02 um morguninn. Þá komin aftur upp í 2.130 m.hæð og búin með 90,3 km. Við slökktum á höfuðljósunum þegar við vorum rétt nýbyrjuð að telja S-in, en það var markmið hjá okkur Gunnari að telja S-in þetta síðasta fjall. Ástæðan fyrir því var sú að Sissel vinkona hafði sagt mér að hún hefði einu sinni talið þau og þau voru 84 😉 Við náðum að telja upp í 44 og þá vorum við farin að ruglast í ríminu, héldum að þau væru búin, en svo héldu þau áfram, svo við ætlum bara að treysta á talninguna hjá Sissel.

Meðalhraðinn upp síðasta fjallið var 3,04 km á klst og hækkunin frá Vallorcine var 873 m á 7,7 km kafla. Það var yndisleg tilfinning að vera komin á toppinn. Nú vorum bara rétt rúmir 10 km eftir. Vorum farina ð sjá fyrir endann á þessu yndislega hlaupi. Sólin var að koma, svo nú var ekkert annað að gera en að fara aftur úr langermabolnum og vera á toppnum, enda hitinn mikill með sólinni. Það var svo fallegt að sjá sólina koma upp og fallegt að horfa á Mt.Blanc þar sem fjallið blakti við, þannig að sjálfsögðu gáfum við okkur tíma til að taka myndir og láta taka af okkur myndir á þessum einstaklega fallega stað.

La tete aux veints
#13 LA FLÉGÉRE 1.877 m hæð 93,2 km – 8 og síðasta vatnsstöð STOP 10:30
La Flégére er síðasta stoppistöðin áður en hlaupið er niður að Chamonix og í mark. Við vorum komin þangað klukkan 08:54, þá búin með 93,3 km. Ég hef alltaf sagt það og stend við það að í svona löngum keppnum, þá er það hausinn sem kemur manni 80% af leiðinni og þarna sannaðist það. Það voru tvær ótrúlega litlar brekkur sem við þurftum að hlaupa upp að þessari síðustu stöð, í La Flégére, sem ég lét fara í pirrurnar á mér, þar sem Sissel hafði ekki sagt mér að ég yrði að fara upp þessar brekkur hahaha – en auðvitað voru þær bara “peanuts” í ljósi alls þess sem við höfðum farið.

Flegere
#14 CHAMONIX 1.035 m hæð 101,1 km – STOP 12:00
Það voru bara 7,2 km frá La Flégére til Chamonix og allt niður á við. Undirlagið var samt frekar erfitt, þ.e. rætur og frekar brattar brekkur svo við urðum að fara mjög varlega. Samanlögð hækkun frá byrjun 6166 m. Við náðum samt ágætis hraða þarna niður eftir, eða 5,06 km á klst.

Þegar við vorum að koma inn í bæinn kom Börkur Árnason á móti okkur og tók af okkur skemmtilegt myndband, wow hvað það var gaman, takk Börkur kærlega. Svo þegar við komum inn á göngugötuna, fengum við frábærar móttökur og Óli, Sigga, Guðmundur Smári, Sigrún, Raggi og Benoit biðu okkar og auðvitað Börkur sem hafði hlaupið með okkur, þetta var algjörlega yndislegt og mjög mikið af áhorfendum um allan bæ. Við fengum fánana hjá Óla og Siggu og hlupum saman hringinn í kringum bæinn og svo í markið, þvílík tilfinning, það var algjörlega einstakt og skemmtileg upplifun. Takk öll fyrir hvatninguna.

Við Gunnar komum í mark klukkan 10:20, nákvæmlega 2 klst innan tímamarka, þar sem við vorum ræst klukkan 09:20. Við vorum í 1114 og 1115 sæti, á tímanum 24 klst 59 mín og 32 sek. sem er ótrúlega fyndið, því við vorum ekki að reyna að ná undir 25 klst 😉 Meðalhraði var 4,02 km á klst og ég var í 49 sæti í mínum aldursflokki.

Það er alls ekki sjálfsagt að klára svona langt hlaup, tala nú ekki um þegar aðstæður voru jafn erfiðar, þ.e. heitar og raun bar vitni. Enda voru 661 hlaupari sem kláraði ekki eða 30,95% þátttakenda, og hlutfallið var nákvæmlega jafnt á milli karla og kvenna.
Við Gunnar vorum virkilega ánægð með okkar árangur og vorum glöð og þakklát þegar við komum í mark.

Chamonix
11953082_10153668949594558_957767992244627856_n

SMÁ TÖLFRÆÐI Í LOKIN
2129 þátttakendur hófu CCC hlaupið 2015, þar af voru 278 konur, eða 13,06% þátttakenda.
1470 þátttakendur klára CCC hlaupið 2015, þar af voru 192 konur eða 13,06% þátttakenda.
659 þátttakendur hætta keppni (30,95%), þar af 86 konur.

You may also like

Leave a Comment