Fréttablaðið 07.09.2022

by Halldóra

Eftirfarandi viðtal birtist í Fréttablaðinu í dag, 07.09.2022 sjá hér:

Sigurvegari í eigin huga

Í lok ágústmánaðar tók Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé þátt í UTMB hlaupinu í Ultra Trail du Mont Blanc hlaupaseríunni, þar sem hlaupið er hringinn í kringum Mt. Blanc fjallið sem liggur við landamæri Frakklands, Ítalíu og Sviss. Hlaupið er oft kallað „mekka fjallahlaupanna“ en það er 100 mílur (172 km) með rúmlega 10.000 metra samanlagðri hækkun. Hlaupið byrjar í Frakklandi í bænum Chamonix og fer í gegnum Ítalíu og Sviss og þaðan aftur til Frakklands. 

„Ég reyndi við þetta hlaup árið 2017 en náði ekki að klára þar sem ég fékk áreynsluastma, sem ég vissi ekki að ég væri með og þurfti því að hætta eftir rúmlega 80 km. Síðan þá hef ég glímt áfram við astmann, en er núna með astmalyf sem hjálpa mér þegar köstin koma. Ég æfði mjög vel fyrir hlaupið og fór auk þess út sem annar tveggja fararstjóra á vegum Náttúruhlaupa með tvo hlaupahópa sem hlupu á sex dögum hluta af hring sem kallast TMB (Tour du Mont Blanc), samtals um 130 km. Ég náði því samtals 300 km fjallahlaupa æfingum í Ölpunum í sumar með rúmlega 20.000 metra hækkun.“

Ógleymanleg tilfinning

Það eru krefjandi tímamörk í UTMB og í ár var 32% brottfall hjá þátttakendum, þar af 43% brottfall hjá konum segir hún. „Ég var aldrei buguð í hlaupinu, var alltaf glöð og ákveðin að klára, þótt ég hefði áhyggjur af astmanum sem tafði mig í bröttustu brekkunum og ég fékk aðeins í magann eins og algengt er í fjallahlaupum.“

Hún segir tilfinninguna að klára þetta hlaup vera einstaka og eiginlega ólýsanlega. „Ég er alltaf með þrjú til fjögur markmið þegar ég fer í krefjandi hlaup. Númer eitt er að komast að ráslínu, sem er ekki sjálfsagt. Það var einstök tilfinning að vera við ráslínuna fyrir framan kirkjuna í Chamonix þegar lagið Conquest of Paradise eftir Vangelis var spilað. Þá komu tár á hvarma. Að vera þarna ásamt rúmlega 2.600 öðrum hlaupurum, þar sem konur voru einungis um 9% hlaupara, var algjörlega magnþrungið.“ Markmið númer tvö er að hafa gaman alla leið sem hún gerði svo sannarlega. „Enda er það hugarfar sem þú stjórnar þrátt fyrir áföll. Markmið númer þrjú er að komast í mark, sem er alls ekki sjálfsagt, enda mikið brottfall og það var stórkostlegt að klára hlaupið.“

Hún segist hafa liðið eins og sigurvegara á lokametrunum þegar hún hlustaði á fagnaðarlæti og hvatningu allra sem tóku á móti henni á göngugötunni í Chamonix um miðjan dag á sunnudeginum. „Ég var svo sem sigurvegari í mínum huga þar sem ég hafði náð öllum markmiðum mínum og þetta var þvílíkur sigur. Svo var skálað í ísköldu Egils appelsíni í markinu og ég knúsaði mömmu og alla vini mína.“

Leiddist út í þríþrautina

Halldóra starfaði á árum áður hjá Íslandsbanka þar sem starfsfólk var hvatt til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og styðja um leið gott málefni. „Ég byrjaði að hlaupa 2009 meðan ég starfaði þar og hljóp mitt fyrsta maraþon og Laugavegshlaup árið 2011. Síðan þá hef ég hlaupið átta maraþon og sjö Laugavegshlaup. Hlaupin þróuðust svo í þríþrautina, þar sem ég keppti fimm sinnum í Ironman keppnum í Evrópu og Bandaríkjunum.“ 

Samhliða þríþrautinni færði hún sig meira yfir í utanvegahlaupin og hefur verið þjálfari hjá  Náttúruhlaupum frá 2014. „Ég lauk fyrsta 100 km hlaupinu mínu 2014 en ég hef klárað tíu hlaup sem eru 100 km eða lengri. Árið 2018 kláraði ég fyrsta 100 mílna (170 km) hlaupið mitt en ég hef hlaupið fjögur hlaup sem eru lengri en 100 mílur. Í ágúst á síðasta ári hljóp ég svo 330 km hlaup sem heitir Tor des Geants 330, en þá hljóp ég í 145 klst og 55 mínútur á Ítalíu hringinn í kringum Ávaxtadalinn.“

Veita gleði og orku

Hún segir hlaupin færa sér mikla gleði og orku. „Það er fátt sem toppar það að hlaupa úti í náttúrunni í góðum félagsskap yndislegra félaga og vina. Að upplifa fegurðina, jörðina, sólina, tunglið, lyktina og fuglasönginn á hlaupum er svo magnað. Maður kemst líka yfir ótrúlega langa vegalengd og líðanin eftir hlaupin er góð. Það er notalega tilfinning að vera þreytt líkamlega en úthvíld andlega og með aukna orku til að njóta vinnudagsins eða kvöldsins,“ en Halldóra starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Styður konur í fjarlægum löndum

Halldóra er einnig sendiherra fyrir samtök sem heita Free to Run og ganga út á að gera konum kleift að fá að fara út og hreyfa sig sem og styðja þær til menntunar og sjálfstyrkingar. „Okkur finnst sjálfsagt að geta farið út að hlaupa en á mörgum stöðum í heiminum er það alls ekki sjálfsagt eins og t.d. í stríðshrjáðum löndum eins og Írak og Afganistan. Þar mega konur ekki fara út að hlaupa og eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Það er hægt að fá frekari upplýsingar um samtökin á freetorun.org og heita á mig og styðja þannig þetta góða málefni.“ ÁHEITA SÍÐA HÉR:

Viðburðarríkt ár framundan

Það er ekki langt í næstu keppni hjá Halldóru en hún er að fara sem hópstjóri með hóp á vegum Bændaferða í Berlínarmaraþonið í lok þessa mánaðar. „Á næsta ári erum við í Náttúruhlaupunum að fara með hóp til Nepal, þar sem við ætlum að hlaupa hæsta maraþon í heimi. Þá er hlaupið frá grunnbúðum Everest niður til Namche Bazaar. Maraþonið byrjar í 5.356 metra hæð og endar í 3.440 metra hæð. Einnig ætlum við að fara með hóp á vegum Náttúruhlaupa í Landvættaferðalag sem er alltaf mjög skemmtilegt.“

You may also like

Leave a Comment