Dagurinn fyrir hlaup #TOR2021

by Halldóra

Svaf ótrúlega vel síðustu nótt, vaknaði um 8 leytið og píndi mig til að sofa til 9. Fór svo í morgunmat. Var ég búin að segja ykkur frá því hversu frábær hóteleigendurnir eru. Dóttir þeirra er einmitt stödd á Íslandi núna og hann ætlar að koma til Íslands næsta sumar. Þau eru bæði yndisleg, alltaf boðin og búin til að sjóða handa mér vatn sem ég hef notað í kaffi og magnesíum kvöldbollann minn. Í morgunmatnum sagðist hann svo ætla að vera með partý þegar ég kæmi í mark og hann er bara algjörlega einstakur, bað líka um að fá að taka mynd af mér á morgun þegar ég er tilbúin að legga af stað.

Eftir morgunmat fór ég að græja mig og gera, hlaða niður kortunum í símann og fattaði þá að ég er ekki með inná þessum kortun, allt það sem Stefán var búin að skrifa inn, eins og hæðarupplýsingar og tímamörk, svo ég sendi á Stefán og hann er búin að senda á mig myndir af öllum kortunum, sem ég er búin að hlaða niður í símann minn.

Ákvað svo að fara nokkuð snemma, 3ja daginn í röð, í sporhöllina til að sækja töskuna gulu, sem ég fæ og er keyrð á milli „LIVE-BASE“ stöðva, þ.e. á 50 km fresti ca. Þegar ég kom var mjög löng röð en þeir voru mjög skipulagðir, skönnuðu inn bólusetningarvottorð hjá öllum og gáfu þér númer og svo vefslóð í símann, þar sem ég gat séð hversu langt var í að röðin kæmi að mér. Fór á meðan bara á salernið. Í röðinni fyrir framan mig var maður í alveg eins skóm og ég, þ.a. nýju Salomon Ultra Glide skóm, fallega gráum. Hann heitir Richard Newey og er breti, býr rétt fyrir utan London. Við hittumst svo aftur, þegar við fórum að sækja dótið okkar. Við gengum svo til baka saman og spjölluðum og þá komst ég að því að Richard er fyrrum þríþrautarmaður, búin að fara til Kona, þrisvar eða fjórum sinnum og hann var í IM Frankfurt sama ár og ég, þ.e. 2013 í þvílíkri hitabylgju. Önnur skemmtileg tilviljun sem við komumst að var að hann er á hóteli við hliðina á mínu.

Við ákváðum því að fara saman og skila gulu töskunum og mæltum okkur mót klukkan 16:30. Ég hafði því þrjár klukkutstundir til að koma dótinu mínu fyrir í þessa tösku. Hvaða dót er ég að tala um, ég er með nokkur auka sett af hlaupafötum, þ.e. buxum, bolum, toppum, nærbuxum, buffi, vettlinga, eyrnabönd o.s.frv. Er líka með auka USB hleðslubanka, auka rafhlöður í höfuðljósið mitt, auka skó, auka næringu og auka stafi. Er auk þess með þykkan Goretex jakka og úlpu, mjög léttan svefnpoka, upplásinn kodda, ullarföt og minnstu mögulegu snyrtivörur. Þurfti að skera vel niður, fækkaði buffum, vettlingum, sokkum, buxum, peysum og kom ekki inniskónum mínum fyrir, svo lenti íslenski fáninn líka í niðurskurði 😉 Skaust svo út í súpermarkað klukkan 15:00 til að fá mér ost og skinku, kaupa annan tannbursta, því ég þurfti að pakka mínum og kom þá við í túristabúð og keypti mér þunna ALPA innskó, sem ég gat troðið í töskuna í staðinn fyrir plássfreku inniskóna mína 🙂

Ég var ótrúlega að heppin að Beta hringdi í mig og aðstoðaði mig verulega við niðurskurðinn, henni að þakka að ég er ennþá með aukastafi og prímaloft úlpuna, en þetta var mikill hausverkur, þar sem ég er auðvitað ekki með neina aðstoð, ef maður hefur aðstoðarmenn sem keyra á milli þá er þetta miklu einfaldara, þar sem þeir eru þá með það sem vantar og í gulu töskunni er bara það allra nauðsynlegasta ef fólk lendir t.d. í því að aðstoðarmönnum seikar. Richard var í sömu sporum og ég, ekki með neina aðstoð, en held hann hafi verið með mun minna af fötum en þeim mun meir af einhverjum mat, sem ég var búin að skera verulega niður hjá mér, nú verð ég bara að treysta á ítalska matinn í tjöldunum á leiðinni 🙂

Við hentumst með töskuna niður eftir, frekar þung byrði, svo ég var fegin að klára þetta í dag. Ákváðum svo að borða bara saman, fengum okkur pastarétt á veitingastað á göngugötunni. Þar fundum við út hvernig hægt er að fylgjast með okkur og hvernig setja má fólk í favorite. Vorum svo bæði í vandræðum að setja upp TELEGRAM veðurspána, svo ég spjallaði við annan breta sem var líka á veitingastaðnum og við ungan strák frá Belgíu, sem er líka að fara í hlaupið. En okkur tókst á endanum með aðstoð Bretans að setja þetta upp hjá okkur, sem ég held að geti skipt máli að sjá hvernig veðrið er framundan, því það er t.d. spáð mjög mikilli rigningu á miðvikudag og þá getur snjóað uppí fjöllunum, svo broddarnir mínir eru ennþá með í gulu töskunni.

Þegar við svo komum uppá hótel eftir matinn, þá hjálpaði Richard mér að græja GPS græjuna og loftnetið á Salomon vestið mitt, þar sem það þarf að festa það á öxlina og hann teipaði það niður með Kenesina teipi, en með þessum græjum, þá er hægt að fylgjast með okkur LIVE hverja mínútu allt hlaupið, en já ég veit þetta verður eins og að horfa á málningu þorna … 🙂

Nú er ég komin uppí rúm að hlusta á fréttir á Stöð2 og Rúv, og er svo að fara að sofa.

Takk öll kærlega fyrir allar frábæru kveðjurnar og hvatninguna sem ég er búin að fá frá ykkur, þykir óendanlega vænt um þær og veit að ég mun fá mikla orku frá ykkur allt hlaupi. TAKK ÖLL KÆRU VINIR.

You may also like

Leave a Comment