Dagur 6: Nýidalur – Versalir (Sprengisandsleið)

by Halldóra

PLANIÐ: 56 km, hækkun +370 m, lækkun -568 m
RAUN: 56 km og 653 m hækkun.

Veðurspáin „gul viðvörun“ gekk eftir. Fór í nótt á klósettið bara rétt rúmlega eitt og þá var frábært veður, falleg kvöldsólin og þó nokkuð myrkur. Hins vegar vaknaði ég oft við brjálað veður síðar um nóttina, mikið rok og rigning, kviður yfir 20 m.á sek.

Tommi var sá eini sem tjaldaði í Nýjadal í gærkvöldi, en um klukkan fimm í morgun flúði hann inn, þar sem súlurnar voru orðnar beyglaðar í tjaldinu og svefnpokinn og allt orðið gegnblautt. Þurfti svo að fara aftur á klósettið í morgun og það var varla stætt að ganga þessa nokkra metra niður í klósetthúsið.

Ákveðið var að hópurinn yrði að bíða af sér versta veðrið, fyrst átti að bíða til klukkan 13:00 sem frestaðist svo til klukkan 14:00. Leifur hvatti alla foreldra til að fara með börnin í trússbílum í Versali, þar sem þetta veður bauð ekki upp á hjólaferð fyrir börn.

Margir tóku ákvörðun strax um að fá far með trússbílunum, en ég tók ákvörðun að ég ætlaði að reyna að bíða veðrið af mér með hópnum, þar sem ég ætlaði mér alltaf að hjóla alla leið, ég var persónulega alveg tilbúin að bíða fram á kvöld eða nótt, til að geta samt klárað að hjóla dagleiðina 🙂

Klukkan 14.00 er ákveðið að láta reyna á þetta. Gunni „bróðir“ aðaltrússarinn kom inn og sagðist eiga eitt sæti laust, fyrir hjólara og hjól í bílnum. Það var ennþá brjálað rok úti og rigning og mér leist eiginlega ekki á þetta, er með mjög létt hjól og hrædd um að fjúka bara á hjólinu. Leifur sagði svo við hópinn að það yrði ekki beðið eftir neinum, hópurinn færi af stað og sá sem yrði síðastur yrði að taka þetta sæti hjá Gunna. Ég bauð mig því bara strax fram og ákvað að taka sætið. Guðrún og Sigga Bryndís tóku svo líka ákvörðun um að fara í bíl og það voru tvö laus sæti hjá Sigrúnu hans Hilmars, nema taka þurfti dekkin af hjólinu hennar Guðrúnar og setja í kerruna.

Hjólararnir lögðu svo af stað, þurftu að reiða hjólin, upp fyrsta hlutann, þar sem rokið var svo mikið. Við lögðum svo af stað á bílunum, eftir um 3 km leið þá sáum við hvar Gísli og Leifur voru úti í kanti og biðu eftir okkur. Ég fékk strax í magann, hélt það væri eitthvað að, en NEI, þá voru skilaboðin þau að við ættum að koma út úr bílnum, því veðrið væri ekki eins slæmt. VIð fórum því öll út úr bílunum, Sigga Bryndís og Stefán sonur hennar, Guðrún, Ísabella og ég og ákváðum að hjóla með Leif og Gísla. Það gekk mjög vel, var mikill meðvindur sem hjálpað verulega upp brekkurnar og stundum var reyndar smá hliðarvindur.

Sprengisandur er eins og nafnið bendir til mikill sandur og eini gallinn við hann var að vegurinn er eins og þvottabretti og því erfitt að hjóla hann. Mikið álag fyrir axlir og hendur. Ég er mjög ánægð með fulldempaða TREK Superfly hjólið mitt. En þegar ég fer upp brekkur, sérstaklega í sandinum þá festi ég demparana svo það fari minni orka í dempunina og þægilegra að fara upp brekkurnar þannig. Því er líka frábært að geta fest demparana á ferð. Eina sem ég hefði viljað vera með á hjólinu var „Dropper-Seatpost“ þ.e. að geta hækkað og lækkað sætið á ferð. Var að spá í að kaupa svoleiðis fyrir ferðina, en fannst það ansi dýrt. Reyndar voru nokkrir í hópnum að lenda í vandræðum með drop-seatpostinn þar sem mikill sandur festist inná milli og þurftu þá að festa bara sætispóstinn.

Við hittum hópinn sem hafði lagt af stað á undan okkur fljótlega, þar sem þau voru í nestispásu. Við tókum stutta nestispásu með þeim og ég var aldrei síðustu þennan daginn:-) Hugsaði alltaf til þess að ég hefði þá fengið sætið ha ha ha 🙂 Fengum góðar móttökur í Versölum þegar við komum þangað. Signe, Halldóra, Guðrún og Arnar voru með kvöldmatinn, mjög góða kjötsúpu, rúgbrauð og annað brauð. Góðan brie ost í forrétt og súkkulagði og lakkrís í eftirrétt. Allt mjög gott.

Við sváfum öll í skálunum að Versölum, ég var í dömu-herberginu með Signe og Dóru nöfnu minni. Um kvöldið fór Sigrún með okkur í mjög skemmtilegan leik, þar sem við vorum látin svara spurningum með tannstöngul á milli tannanna í munninum, einn fulltrúi úr hverri fjölskyldu tók þetta. Virkilega skemmtilegur leikur. Alltaf gleði og gaman með Ísbjörnum á ferðalagi.

You may also like

Leave a Comment