Dagur 7: Versalir – Landmannahellir

by Halldóra

ÁÆTLAÐ: 80 km, hækkun +900 m, lækkun -785 m
RAUN: 80 km og 892 m hækkun

Skálinn í Versölum er í eigu 4×4 félagsins. Við vorum með allan skálann svo það sváfu allir inni, nema Milla, Tóti og Margrét, en það var samt alveg pláss fyrir þau inni. Skálinn er mjög stór og auðvelt fyrir alla að borða inni á sama tíma. Það var morgunmatur klukkan 08:00 og brottför klukkan 10:00, mjög hefðbundið.

Leiðin er um Sprengisand, er ágætlega þjappaður vegur en hins vegar minnir vegurinn mest á „þvottabretti“. Því er mjög erfitt að hjóla þennan veg og maður reynir að halda sér sem mest úti í kanti, en þá er sandurinn oft mjög mjúkur, sem er erfitt að hjóla, sérstakleg fyrir mig, þar sem ég var með mjórri dekk en flestir aðrir.

Ferðin gekk samt mjög vel og leiðin mjög falleg. Við hjóluðum fram hjá Þórisvatni. Á þeirri leið hittum við Óla minn og fleiri Ísbirni eða Húna sem voru að bætast í hópinn í dag, en Sóley Ólafs kom með Óla úr bænum. Fleiri bættust því í hjólahópinn á leiðinni. Tókum svo stutt stopp við Sigöldu virkjunina og svo aftur við Krókslónið, áin var mjög vatnsmikil þar sem við stoppuðum við mörkin inná Friðland að Fjallabaki.

Leifur fararstjóri er mjög sniðugur að skipta leiðinni upp, eins og í dag. Þegar um 45 km voru búnir sagði hann einmitt, næsta stopp eftir 10 km og svo aftur 10 km og svo síðustu 15-16 km eftir það. Svona skipulag virkaði mjög vel á mig. Eins og þegar 70 km dagurinn var, þá var planið að stoppa stutt á 7 km fresti, þ.e. þegar 10% var búið, svo 20% o.s.frv. það brýtur leiðina vel upp og styttir daginn og maður veit hvenær næsta stopp er, sem er mjög gott. Leifur er líka mikill reynslubolti.

Sandurinn inn á Friðlandi var aðeins erfiðari þar sem hann var oft aðeins mýkri.

Þegar við komum inn að Landmannahelli, þá tjölduðum við NorthFace tjaldinu okkar, það var reyndar ennþá mikil rigning og hafði rignt á okkur mikið allan daginn. Svo ég hjólaði bara í 66north Goretex jakkanum mínum. Það kom mér á óvart hversu gott var að hjóla í þessum jakka, en þar sem hann er úr Goretex þá andar hann mjög vel, mun betur en hefðbundnir hjólaregnjakkar.

Við, þ.e. ég, Bryndís og Jónsi áttum kvöldmatinn þetta kvöldið. Á matseðlinum var Dale Brie ostur með kexi, ólífum og vínberjum í forrétt. Svínahnakki, kartöflur og ferskt salat með bláberjum, jarðarberjum, fetaosti og hnetum í aðalrétt og Brownies, appolló lakkrís og rjómasúkkulaði í desert. Við vorum svo heppin að Óli var að vinna alla vikuna, svo hann fór bara með mér norður síðustu helgi í heimsóknina til Sjönu og Atla og fylgdist með okkur þegar við hófum ferðalagið. Svo kom hann aftur hingað þ.e. á suðurlandið og var með okkur, laugardag til mánudags. En það var mjög gaman að fá hann aftur í hópinn og frábært að fá nýjan og ferskan mat, bæði í grillveislu kvöldsins sem og bara nesti.

Fyrir kvöldmat fóru Gísli og Leifur með bílinn hans Gísla um 30 km hluta af leiðinni og tóku þá ákvörðun um hvaða leið ætti að fara daginn eftir. En það voru tveir möguleikar í boði.

Við Óli sváfum svo í tjaldinu um nóttina, en það rigndi mikið og tjaldið lak, þ.e. voru pollar inni þegar við fórum að sofa, svo ég get ekki sagt að ég hafi sofið vel þessa nóttina 🙂 🙂

You may also like

Leave a Comment