Dagur 5: Gæsavötn – Nýidalur

by Halldóra

Planið: 38 km, hækkun +280 m, lækkun -393 m
RAUN: 38 km, 366 m hækkun

Skálinn í Gæsavötnum, er einstaklega fallegur og umhverfið þarna guðdómlegt. Vatnið við skálann heitir Gæsavötn og það voru margir sem tjölduðu þar, enda frábært veður. Ég ákvað að sofa sjálf inn í skálanum, í efri koju á móti Signe og svaf mjög vel.

Vekjaraklukkan var stillt klukkan 08:00 eins og venjulega, morgunmatur og svo brotfför klukkan 10.00. Það var ofboðslega gott og falleg veður þegar við vöknuðum og margir sem borðuðu morgunmatinn úti.

Leiðin frá Gæsavötnum í Nýjadal er mjög falleg. Örvar á afmæli i dag, en hann er 17 ára. Ég að sjálfsögðu söng fyrir hann afmælissönginn í morgunsárið.

Svo var hópsöngur sunginn fyrir hann í fyrsta stoppi. Þar komst ég að því að nestið mitt var orðið frekar mengað af bensíni, allt sem hafði verið opið í kæliboxinu og glæra boxinu hafði smitast af bensíni og bragðið var ekki gott, Gummi staðfesti það. Sólveig reddaði mér strax flatköku með osti og harðsoðnu eggi, sem þau höfðu soðið um morguninn. Allir Ísbirnir eru alltaf boðnir og búnir að aðstoða og ég fann það alla tímann, þar til Óli kom með meiri mat til mín á degi sjö.

Dagurinn var ekki langur í km, en hann var mjög krefjandi yfirferðar, það voru líka mörg vöð sem við þurftum að hjóla eða vaða yfir. Ég var mjög bólgin á vinstra fæti (ofan á ristinni) eftir gædaginn, þar sem ég hafði dottið þrisvar á vinstri hliðina í öllum sandinum. Meiddi mig ekkert við byltuna, en fann verulega fyrir á ristinni þarna um morguninn, svona eins og þegar maður misstígur sig. Tók bara bólgueyðandi töflu og ákvað að fara ekki í vetrar-hjólaskónum mínum með klítunum, heldur að fara bara í KEEEN sandölunum mínum. Þeir eru með lokaðri tá og bandi yfir hælinn svo þeir hentuðu mjög vel. Byrjaði að fara í sokkum í þeim, en endaði svo bara að hjóla eða ganga yfir allar árnar berfætt. Það var alls ekki kalt, en auðvitað mikill sandur sem fór ofan í skóna, en alls ekkert óþægilegt.

Svo var afmælisstopp fyrir Örvar afmælisbarn í Tómasarhaga. Þar bauð Sigrún upp á nýbakaða kökur sem hún hafði bakað í skálanum um morguninn. Hjónabandssæla með bláberjum og þeyttan rjóma og að sjálfsögðu var líka boðið uppá heitt kaffi. Lúxuskerra Sigrúnar, klikkaði ekki þennan daginn frekar en alla hina. En Sigrún er einstaklega umhyggjusöm kona og húnarnir (Ísbjarnarbörnin) spurði okkur hvort hún væri svona Yfir Ísbjörn 🙂

Rétt áður en maður kemur að skálnum í Nýjadal þá var nokkuð stórt vað, sem ég náði samt að hjóla yfir. Einhverjir fengu samt byltu og urðu gegnblautir.

Við vorum með næstum allan gamla skálann í Nýjadal, en það voru útlendingar sem voru með 6 pláss á efri hæðinni.

Við fórum flest í sturtu í Nýjadal sem var líka algjörlega frábært að komast í sturtu og hrein föt.

Gísli, Sigga Bryndís og Stefán voru með kvöldmatinn í Nýjadal, grillað Lasagne ásamt grilluðum ostastöngum sem var virkilega góður matur. Fyrsta skipti sem ég smakka grillað Lasagne og ég get algjörlega mælt með því 🙂

Tóti, Milla og Margrét bættust í hópinn og við hittum skíðavini okkar, Boggu, Jón Kr, Axel og Siggu líka fyrir utan skálana í Nýjadal, sem var skemmtileg tilviljun.

Sigga og Gísli stýrðu svo skemmtilegum leik um kvöldið, þar sem við fórum í stígvélakast. Tommi hans Óla, náði yfirburða árangri, en þetta var mjög skemmtileg keppni. Ég var í liði með Tóta, sem alltaf skemmtilegt, þar sem hann hefur mikið keppnisskap og við kepptum til úrslita. Kristinn var nú okkar besti liðsmaður, en Tommi tók þetta alla leið, svo við fengum silfrið 🙂 🙂

Það var virkilega fallegt kvöld í Nýjadal í kvöld og manni fannst ótrúlegt að spáin gæti gengið eftir, þ.e. gul viðvörun, um nóttina og daginn eftir, mikil rigning og rok.

You may also like

Leave a Comment