Halldóra
Árið sem er senn á enda var mjög viðburðarríkt og skemmtilegt. Ég er þakklátust fyrir, eftir tveggja ára Covid tímabil, að hafi haldið heilsu eftir að hafa fengið vírusinn, enda er það alls ekki sjálfsagt. Vonandi er þetta lokunartímabil C-19 búið.
Ég lagði af stað með það markmið fyrir hreyfiárið 2022 að hreyfa mig eitthvað smá á hverjum einasta degi, hvort sem það var bara léttur göngutúr, eða styrktaræfingar. Kannski frekar háleitt markmið þar sem ég átti ennþá eftir að fá Covid, sem varð líka raunin.
JANÚAR var vel nýttur í skíðaæfingar, gæðaæfingar með Náttúruhlaupunum, hlaupaæfingar sem þjálfari með Stjörnunni, ásamt Arnari P. Var þjálfari á hjólaæfingum hjá ÞRÍKÓ í WC á fimmtudagskvöldum og stundaði sundæfingar.
Í FEBRÚAR fórum við Óli til Ítalíu á skíði (svigskíði) með Siggu og Pétri. Við gistum í Canazei og skíðuðum Sella Ronda, réttsælis og rangsælis og ég fór í fyrsta skipti og skoðaði bæinn Selva og skíðasvæðið þar í kring. Við komumst örlítið á gönguskíði, en ekki mikið þar sem það var lítill snjór í bænum. Æðisleg skíðaferð með yndislegum vinum. Verst var að Óli fór eiginlega lasin út (flensan) svo hann lá í rúminu á hótelherberginu helminginn af ferðinni.
Í lok febrúar flugum við Sigga svo til Osló með Brynju, Hrefnu og Óla hennar og keyrðum til Svíþjóðar til Sälen þar sem við bjuggum hjá Hrefnu og Óla og vorum með þeim ásamt Hörpu, Jimmy, Fjólu og stelpunum í heila viku. Yndislegur tími.
Í lok FEBRÚAR byrjun MARS tók ég þrisvar sinnum þátt í 90 km skíðagöngu. Fyrsta keppnin var Opið Spor (Oppet Spår) 28. febrúar, með Hrefnu og Siggu. Síðan fór ég í Næturvasakeppnina (Nattvasan) 90 km föstudagskvöldið 4. mars alein og að endingu í Vasagönguna sjálfa 90 km þann 6. mars með Siggu og Jimmy. Allar þrjár keppnirnar voru ólíkar en mjög skemmtilegar. Það tók alveg á, að fara þrisvar sinnum 90 km skíðagöngu á einni viku. Síðasta keppnin var erfiðust þar sem ég datt í Næturvasa keppninni og var líka komin með slæma blöðru á stóru tána á hægri fæti. Er því mjög stolt af mér að hafa klárað allar keppnirnar. Þess á milli vorum við að njóta þessa fallega svæðis Lindvallen þar sem Hrefna og Óli eiga fallega íbúð. Frábær ferð með yndislegum félögum.
Þann 18. mars fékk ég Covid-19 og með því fór að sjálfsögðu markmiðið um skráða æfingu í Strava á hverjum degi. Ég gat ekki æft neitt nokkra daga í mars þar sem heilsan var mjög slæm. Ég var með síðustu æfinguna sem þjálfari Stjörnunnar þann 30. mars, þar sem ég ákvað að einblína á Náttúruhlaupin. Markmið sumarsins í utanvegahlaupum voru mjög háleit og því þurfti ég að leggja megináherslu á þau.
Í APRÍL fór námskeiðið Laugvegshópur Náttúruhlaupa af stað þar sem ég var einn af þjálfurum. Ég var ennþá að glíma við rifbeinin sem brotnuðu við byltuna í Næturvasakeppninni. Við Óli vorum samt mjög dugleg að skíða í apríl. Við tókum fram fjallaskíðin og fórum á Snæfellsjökul. Fórum líka í frábæra ferðaskíða- og fjallaskíðaferð í kringum og uppá Snæfell með Millu og Krillu-ferðum og frábærum félögum.
Gæðaæfing í Laugavegsnámskeiðinu í Heiðmörk þann 18. apríl var afdrifarík þar sem ég missti út úr mér, að ég þyrfti að komast í Yoga kennaranám þar sem ég væri eins stirð og Solla stirða. Nafna hennar, Sigga Lára, tók mig á orðinu og bauð mér með sér í morguntíma í Iceland Power Yoga daginn eftir, þ.e. 19. apríl. Eftir tímann varð ekki aftur snúið. Ég keypti mér 3ja mánaða kort og skráði mig í Baptiste Power Yoga námið sem átti að byrja um haustið.
Í apríl tók ég líka þátt í ÍR-hlaupinu á sumardaginn fyrsta þann 21. apríl.
Ég tók þátt í IMOC 2022, Íslandsmóti í sundi, með mömmu í Ásvallalaug í Hafnarfirði 6. og 7. MAÍ. Ég var með nýliðanámskeið á vegum Náttúruhlaupa og Stjörnunnar í maí og tók þátt í Stjörnuhlaupinu 10 km 21. maí. Ég hljóp nokkrar Esjur og fór aftur á fjallaskíðum á Snæfellsjökul sem var einstaklega skemmtilegt. Ég prófaði líka hjólaskíði í fyrsta skipti með Ferðahópnum Ísbjörnunum.
Í JÚNÍ var ég dugleg að gera styrktaræfingar frá Styrktarþjálfun Bigga (Coach Birgir). Ég hélt áfram Náttúruhlaupa-Laugavegsæfingum með hópnum mínum, sem bar heitið Hrafntinnusker. Ég hljóp Hengil Ultra 26 km miðnæturhlaupið 3. júní og fór á nokkurra daga utanvegahlaupanámskeið á vegum FRÍ hjá ÍSÍ sömu helgi og endaði á að hlaupa Hvítasunnuhlaup Hauka 17 km þann 6. júní. Ég var líka dugleg að mæta í Power Yoga tíma hjá Iceland Power Yoga með utavegahlaupunum og Esjuhlaupunum og styrknum. Við Helga María stofnuðum skemmtilegan stelpuhóp „Girls Who Love to Run“ og fyrsti hittingurinn var á afmælinu mínu 20. júní, sem var tilviljun, ekki skipulagt sem afmælishlaup, en mjög skemmtilegur dagur. Ég skellti mér síðan í einnar nætur flug og gistingu með Kristófer (syni okkar) til Chicago 24. júní og hljóp með Kristó í Chicago um 15 km.
Í JÚLÍ voru Laugavegsæfingar reglulegar sem og styrkur hjá Bigga og nokkrar sund- og hjólaæfingar. Ég kláraði Laugavegshlaupið í sjöunda skiptið þann 16. júlí. Ég var mjög lasin í hlaupinu og á mánudaginn eftir hlaupið fór ég til læknis og fékk uppáskrifað pensilín, þar sem ég var komin með lungnabólgu. Hann sagði að ég væri alls ekki að fara í Alpana fimm dögum síðar. En ég hvíldi alla þá viku (þar með fór markmið algjörlega um Strava æfingu á hverjum degi) og flaug svo til Genfar laugardaginn 23. júlí með fyrri hópnum sem hljóp TMB (Tour Mont Blanc) hringinn með okkur Sigga Kiernan á vegum Náttúruhlaupa.
Ég var mjög lánsöm hversu fljót ég var að ná heilsu þannig að ég treysti mér til að fljúga út og hljóp hringinn með þessum frábæra hópi. Viku seinna eða 30. júlí kom Óli út til Chamonix og var með mér yfir verslunarmannahelgina. Því miður veiktist ég af Nora vírus síðustu nóttina, þ.e. nóttina áður en Óli kom út, svo ég var hálfmeðvitundarlaus þegar Óli kom og daginn eftir. Við náðum einum góðum degi saman áður en að hann veiktist líka.
Þannig að 1. ÁGÚST hjóluðum við Óli saman frábæran e-bike hjólatúr um Chamonix. Síðari hópurinn kom út til Genfar 4. ágúst með sömu vél og Óli og Siggi K. og fjlsk. flugu heim. Seinni hópurinn lagði af stað 5. ágúst og gekk sú ferð líka mjög vel. Báðir hóparnir voru algjörlega frábærir, yndislegir vinir manns. Seinni hópurinn var samt heppnari með veður, að því leiti að það var ekki eins ofboðslega heitt og fyrri vikuna. Eftir heimkomuna náðum við Óli að hjóla að eldgosinu að Merardölum sem var frábært því það gos var ekki í marga daga. Ég hljóp einnig með skemmtilegum samstarfskonum 10 km í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Ég æfði áfram utanvegahlaup með því að hlaupa nokkrar Esjur og létt utanvegahlaup fyrir UTMB sem var aðalmarkmið ársins 2022. Ég hafði reynt við þetta hlaup þ.e. UTMB árið 2017 en varð að hætta þar sem ég fékk astmakast í fyrsta skipti (áreynsluastmi) og var ekki með neitt púst og því náði ég ekki til Courmayeur innan tímamarka. Í ár flaug mamma með mér til Genfar og var með mér í Chamonix þessa viku og það var yndislegt að vera með henni úti sem og að hitta hana á drykkjarstöðvum í keppninni sem og þegar ég kom í mark.
Ég kláraði þetta „mekkahlaup“ utanvegahlaupara, UTMB 100 mílur, eða 176,6 km. með 10.167 metra hækkun skv. Strava, á 45 klst. Náði öllum markmiðum mínum, þ.e. að komast að ráslínu, klára og hafa gaman alla leið. Mér gekk mjög vel fyrstu tvö fjöllin, svo bankaði gamli astminn uppá, en þá er bara að hægja á sér upp fjöllin og reyna að ná næstu drykkjarstöð innan tímamarka. Eina sem skyggði á gleði mína var að vinir mínir þeir Siggi og Börkur náðu ekki að klára, Siggi var lasinn svo hann lagði ekki af stað og Börkur var veikur á leiðinni og þurfti að hætta keppni.
Fyrri hluti SEPTEMBER var „recovery“ tími eftir UTMB. Mikið af sundæfingum, léttar gæðaæfingar en áframhaldandi styrkur, skv. plani frá Bigga. Um miðjan september fór ég samt að æfa hlaup aðeins á malbiki þar sem ég var bókuð í Berlínarmaraþonið 25. september og var fararstjóri með hóp á vegum Bændaferða. Ég náði lengst 18 km og einni 16 km æfingu fyrir maraþonið sem er kannski ekki alveg nógu mikið né gott.
Markmiðið með Berlínarmaraþoninu var því alltaf að fara, taka þátt og hafa gaman og fá medalíuna. Það gekk eftir og ég hljóp það á 4 klst. og 20 mín, mjög skynsamlega. Berlínarmaraþonhópurinn var alveg frábær og mjög gaman að upplifa borgina á hlaupum og kynnast nýju, yndislegu fólki. Eftir maraþonið lagði ég að mestu áherslu á Jóga og styrk, þar sem Jóga kennaranámið byrjaði fimmtudaginn 29. september en fyrsta helgin var í byrjun október.
OKTÓBER mánuður var því að mestu tileinkaður Jóga. Kennaranámið Baptiste Power Yoga á vegum Iceland Power Yoga, var kennt fyrstu tvær helgarnar í október, síðan komu tvær fríhelgar, aftur tvær Jóga helgar, aðrar tvær fríhelgar og að lokum þrjár Jóga helgar í desember. Hver kennsluhelgi var eftir vinnu á fimmtudögum og föstudögum fram á kvöld og svo allan laugardag og sunnudag. Við lærðum mjög mikið í Jóga fræðunum og ég heillaðist gjörsamlega af Yin Yoga sem ég held að allir hlauparar hefðu gott af því að stunda. Beinþynningin mín er ekki að hjálpa mér svo ég lenti í því að gamla rifbeinsbrotið frá því í Næturvasakeppninni brákaðist aftur í Power Yoga tíma, aðra kennsluhelgina. Ég heyrði þegar það brotnaði og það er ekki gott að hreyfa sig; hlaupa, synda, skíða eða stunda Jóga rifbeinsbrotin. Þá er bara að aðlaga hreyfingarnar eftir því sem maður getur. Ég fór líka á sérstakt hand- og höfuðstöðunámskeið hjá Ingu í Iceland Power Yoga (IPY), enda alltaf verið draumur hjá mé r að geta staðið á haus og að mér fannst mjög fjarlægur draumur. Reynslan hefur kennt mér að maður á aldrei að segja aldrei eða að maður geti ekki eitthvað.
NÓVEMBER fór þannig að mestu eins og október, í Jóga. Ég fór líka á sérstakt Asana kvöldnámskeið hjá Ingu í IPY. Jógatímar, jógakennsla og hugleiðsla, ásamt jú nokkrum hlaupaæfingum, NH gæðaæfingum, Esjum og jú svo nokkrum sundæfingum sem voru teknar í nóvember. Styrkur að hætti Bigga (Coach Birgir) var líka á dagskrá, en hefði mátt taka það fastari tökum. Náði að mæta í einn tíma í Sporthúsinu með Team Rynkeby. Það er markmiðið á nýju ári að vera duglegri að hjóla, bæði sjálf sem og með félögum mínum í Team Rynkeby.
DESEMBER var líka að mestu tileinkaður jóga, æfingum og náminu, enda kláraði ég Jóga námið og fékk „Certified 200 klst jógaréttindi“ þann 11. desember í formlegri útskrift. Ég hélt að sjálfsögðu áfram að mæta á jógaæfingar og stundaði hugleiðslu heima, hélt einnig áfram að þjálfa NH gæðaæfingar á þriðjudögum, þótt það væri kominn bæði mikill snjór og frost. Ég er mjög stolt af öllum þeim sem héldu áfram að mæta. Það er árlegur viðburður að taka þátt í Þorláksmessusundi Breiðabliks og Gamlaárshlaupi ÍR sem ég að sjálfsögðu gerði. Þess á milli fórum við Óli á gönguskíði og ferðaskíði á vötnum höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Rauðavatni, Elliðaárvatni og Hvaleyrarvatni.
Á næstsíðasta degi ársins, náði ég markmiði mínu að safna 1000$ fyrir „Free to Run“ samtökin, en ég er mjög stolt af því að vera sendiherra (e.ambassador) Free to Run á Íslandi. Það er ennþá hægt að heilta á þessu frábæru samtök sem eru að hjálpa konum í stríðshrjáðum löndum að mennta sig, fá að hreyfa sig og auka sjálfstæði þeirra og styrkja þær á allan hátt. Þakka öllum þeim sem hafa heitið á mig og styrktu þannig samtökin. Mér finnst mikilvægt að geta gefið af mér til góðs í allri þessari hreyfingu minni.
STRAVA ÁRIÐ 2022 Í HNOTSKURN
324 virkir dagar
106.826 hæðarmetrar sem ég kleif.
4.183 km sem voru farnir.
Hlaup var algengasta sportið.
Í topp1% af virkustu meðlimum Strava á árinu 2022 (fjöldi daga sem voru 324).
Lengsta æfingin var 176,6 km UTMB hlaupið.
KEPPNIR ÁRSINS (samandregið)
Oppet spor 90 km
Nattvasan 90 km
Vasaloppet 90 km
ÍR hlaupið sumardaginn fyrsta 5 km
IMOC Íslandsmeistaramót í ýmsum sundgreinum
(50m 100m og 800 m skriðsund, 100 m og 200 m bringusund og skrið í tveimur boðsundssveitum)
Stjörnuhlaupið 10 km
Hengill Ultra 26 km
Hvítasunnuhlaup Hauka 17 km
Laugavegshlaupið 55 km
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 10 km
Ultra Trail du Mont Blanc UTMB 100 mílur /176 km
Berlínarmaraþonið 42,2 km
Þorláksmessusund Breiðabliks 1.500 m
Gamlaárshlaup ÍR 10 km
ÞAKKIR:
Takk elsku Beta (Elísabet Margeirsdóttir) fyrir frábært hlaupaplan sem ég fékk fyrir UTMB hlaupið sem var A-markmið ársins .
Takk Biggi (Coach Birgir/Birgir þjálfari) fyrir að halda mér við efnið með mjög góðum styrktaræfingum og plönum.
Takk Alparnir fyrir frábæra skó, Salomon Ultra Glide sem ég hljóp í, í allt sumar og frábæran Salomon hlaupafatnað og hlaupavesti.
Takk Telma og Bætiefnabúllan fyrir ykkar frábæra stuðning með frábærum vörum, bæði orku, prótein og recovery drykkjum.
Takk kæru gönguskíða/sundvinir mínir, fyrir yndislega samveru hvort sem er í lauginni eða á sporinu.
Takk kæru vinir úr Jóganáminu, yndislegt að kynnast ykkur og fara með ykkur í þetta magnaða ferðalag.
Takk frábæru æfingafélagar í Náttúruhlaupunum, Stjörnunni, Þríþrautardeild Breiðabliks og allir sem komu með okkur í frábæru námskeiðin og ferðirnar okkar, þ.e. báðar TMB ferðirnar og Berlínarmaraþonið.
Takk elsku Óli fyrir allan stuðninginn og þolinmæðina fyrir öllu þessa íþróttabrölti mínu, elska þig og takk mamma fyrir að koma með mér til Chamonix í sumar <3
Það sem stendur upp úr eftir þetta ár, er þakklæti. Ég er þakklát fyrir að eiga frábæra fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Einnig er ég auðmjúk og þakklát að hafa heilsu andlega og líkamlega til að geta verið úti að leika mér, bæði á æfingum og í keppnum.
Ferðalagið í frábærum félagsskap vina er það sem skiptir öllu máli, keppnin sjálf er einungis toppurinn á ísjakanum <3 < 3 <3
TAKK ÖLL KÆRU VINIR, ÞIÐ VITIÐ HVER ÞIÐ ERUÐ <3 <3 <3
Alltaf gaman í gamlárshlaupi ÍR. Fór með Stjörnunum í frekar einföldum búningi, þ.e. svartklædd með áramótaspöng.
En náði að hlaupa 10 km undir 1 klst sem ég er bara nokkuð ánægð með, þar sem ég hef lítið hlaupið uppá síðkastið.
Jógaæfingar skila sér alveg inní hlaupin 🙂
Sjá myndir frá hlaupinu hér:
Tók að sjálfsögðu þátt í Þorláksmessusundinu 1500 metra 2022. Er svo þakklát og glöð hversu mamma er orðin öflug í sundinu en hún synti líka í ár. Við Rúna Rut vinkona vorum bara tvær saman á braut. Við áttum að vera fimm á brautinni, en það voru þrír sem mættu ekki. Það var spáð mjög köldu veðri. Ég var ræst 10 sek á undan RRR, lenti í vandræðum með úrið mitt rétt fyrir ræsingu þar sem það fraus og var að vesenast með það rétt fyrir ræsingu. Þegar ég ræsti þá fór það ekki af stað og ég var voða mikið að vesenast með það fyrstu ferðirnar. Svo RRR tók fram úr mér í ferð 2 svo ég hékk í henni næstu 13 ferðir. Við kláruðum á rétt rúmum 30 mín. Hún á 30 mín 27 sek og ég á 30 mín 37 sek.
Nú mega jólin koma, þegar Þorláksmessusundið er búið.
Það var á einni af fyrstu æfingunum fyrir Laugavegshlaupið, að ég er að teygja með hópnum eftir æfingu að ég sagði við hópinn að ég væri svo stirð, ég væri eins og Solla stirða og þyrfti að koma mér í Yoga kennara nám.
Vinkona mín, Sigga Lára, segir þá við mig: „Mæli með Iceland Power Yoga, ég var í kennarnámi þar og er að fara í tíma í fyrramálið klukkan 06:00 viltu ekki bara koma með mér ?“
Úr varð að ég fór í einn prufutíma með Siggu Láru, keypti mér 3ja mánaða kort í framhaldinu og skráði mig strax í kennaranám Iceland Power Yoga, sem er 200 klst certified nám.
Í dag 11. desember úskrifaðist ég úr náminu og þvílíkt ferðalag, sem þetta nám var Journey Into Power, í orðsins fyllstu merkingu. Það var svo magnað að ég á eiginlega ekki orð til að lýsa því. En ég finn það og veit að ég er önnur og betri manneskja eftir ferðalagið og ég er mun þakklátari fyrir allt það sem lífið hefur gefið mér, heilsuna, fjölskylduna, vinnuna, vinina, vinnufélaga og tala nú ekki um minn besta betri helming <3
Óska félögum mínum innilega til hamingju með útskriftina og þakka þeim fyrir samveruna í þessu magnaða ferðalagi.
Takk elsku Alice og Inga fyrir frábæra kennslu og takk elsku Sigga Lára fyrir að bjóða mér á þessa einu örlagaríku æfingu <3 <3 <3
Við Óli skelltum okkur til New York í tvær nætur núna í lok nóvember með Kristófer sem var í 2 nátta stoppi í borginni.
Við Óli höfðum ekki farið til New York síðan 2007.
Við tókum menningarvinkilinn á ferðina, þ.e. fórum í leikhús á Harry Potter á Broadway og við fórum á 9/11 sýninguna á Ground Zero og svo að sjálfsögðu gengum við upp og niður 5th Street og skoðuðum ljósaskilti og auglýsingar á Times Square. Kíktum líka aðeins í Central Park garðinn.
Get 100% mælt með Harry Potter sýningunni sem og 9/11 safninu, mjög áhrifaríkt.
Frábær 3ja daga/2ja nótta ferð í yndislegum félagsskap Óla og Kristó.
Fékk það skemmtilega verkefni að vera hópstjóri á vegum Bændaferða í Berlínarmaraþonið í september 2022.
Hópurinn fór út á mismunandi tímum, sumir með Icelandair, aðrir með Play og enn aðrir komu annars staðar frá eins og frá Svíþjóð og Noregi.
Ég fór sjálf með Play, föstudaginn 23. september. Hitti strax nokkra úr hópnum á flugvellinum eldsnemma um morguninn, það var ekki búið að opna tollaskoðun, veitingar og verslanir þegar ég mætti út á flugvöll, þar sem flugið er svo snemma og ég var komin til Keflavíkur klukkan 03:30.
Flugið sjálft var mjög fínt, þar sem ég svaf að mestu alla leiðina. Svo hitti ég fleiri úr hópnum við farangursbeltið á flugvellinum í Berlin og við tókum lestina saman að hótelinu okkar, MODEL ONE, sem er mjög vel staðsett við Alexanderplatz.
Við vorum orðin frekar svöng þegar við komum á hótelið, svo við fengum okkur að borða á veitingastað fyrir framan hótelið en fengum svo herbergin strax.
Ákváðum samt að drífa okkur á EXPOIÐ – sem er á gamla flugvellinum í Berlín (Flughafen Templehof), um 30 mín ferðalag í lest, sem gekk samt mjög vel. Smá gangur var frá lestarstöðinni Tempelhof að Expoinu.
Það var ótrúlega mikill fjöldi fólks á EXPOINU, metfjöldi í ár 45.527 sem voru skráðir Berlínarmarþonið (34.879 sem kláruðu frá 157 löndum), auk þess sem rúmlega 5000 taka þátt á skautum (Roller Blades) á laugardeginum. Helmingur Exposins er því undir „rollerblades“ lagður, mjög áhugavert, ein íþrótt sem ég hef ekki prófað að stunda 😉 😉
Adidas er aðal styrktar aðili hlaupsins og framleiddi bæði mjög flotta BMW Berlínarmaraþons jakka og líka ekki eins fallega 😉 Flottu jakkarnir voru því miður uppseldir þegar við komum, en nóg til af þessum síðri, sem enginn vildi kaupa, enda ekki einu sinni búnir til úr hlaupaefni.
Fyrir þá sem eru að fara á næsta ári, þá borgar sig að panta jakka / boli áður en farið er út, enda hægt að sækja það á expoinu, sem er fyrirfram pantað. Við vorum frekar svekkt að geta ekki keypt okkur flotta jakkann, en maður á svo sem nóg af hlaupajökkum, hefði bara farið í safnið 🙂
Eftir göngu á expoinu fórum við með neðanjarðarlestum aftur til baka á hótelið. Komum við í matarbúið, til að kaupa vatn, gos og banana á leiðinni heim.
Náðum stuttri hvíld áður en við fórum út að borða, fengum okkur mjög góðan þýskan Svínasnitzel á veitingastað eiginlega við hliðina á hótelinu. Var svo lánsöm að kynnast Rikka (kallaður Óli fyrir norðan) tækninörd sem hjálpaði mér að tengja STRYD græjuna mína, sem ég fékk endurnýjaða á expoinu, þar sem mín var orðin ónýt, en þeir létu mig hafa nýja (sama árs módel) ekki splunku nýja módelið.
LAUGARDAGUR 24. SEPTEMBER 2022
Við Guðrún og Matta (vinkonur frá Höfn) bókuðum okkur í skoðunarferð á hjóli um Berlin klukkan 10:30 á laugardagsmorgninum. Við fórum því í morgunmat klukkan 9 og tókum svo Uber að hjólastöðinni. Ferðin tók 3,5 klst og var á ensku og mjög áhugaverð. Við hjóluðum að mestu í gömlu Austur Berlín en ég fræddist mjög mikið um margt sem ég vissi ekki, enda að fara til Berlínar í fyrsta skipti. Sjá nánar hér:
Um kvöldið borðuðum við nokkur saman klukkan 18:30 á veitingastað fyrir framan hótelið, þar sem ég fékk mér Lasagne sem var mjög gott. Fór svo upp á herbergi eftir matinn og fór að græja mig fyrir hlaupið, fór í fötin og setti gelin í mittistöskuna, skrifaði upplýsingar sem var óskað aftan á númerið og græjaði og gerði. Fór svo að sofa um klukkan 23:00.
SUNNUDAGUR 25. SEPTEMBER 2022
Vaknaði 5:45 nokkrum mínútum áður en klukkan hringdi. Fór í morgunmat klukkan 06:00 og svo lögðum við af stað frá hótelinu 07:30, þeir sem voru í ráshópum, A-F, en ég var í ráshóp F og átti að ræsa klukkan 09:35.
Við ákváðum að ganga að rásmarkinu við Brandenburgarhliðið, sem var um 3 km frá hótelinu. Ferðin tók okkur samt um 1 klst, þar sem við fórum í gegnum öryggishlið. Við Guðrún vorum lengi að leita að stað þar sem við áttum að geyma pokana okkar og svo að finna rétt hólf, biðum í klósettröð sem er þetta klassíska. Var fegin að hafa ekki lagt seinna af stað.
Ég ákvað svo að fara aftur í klósettröð fyrir utan hólfið mitt, svo ég var eiginlega ennþá á salerninu, þegar hólfið mitt var opnað og við fengum að ganga að ráslínunni. Ég var því alveg öftust í hólfinu mínu af stað, sem útskýrir að ég var með 11 mínútna mun á byssutíma og flögutíma þegar ég kom í mark. Það skipti mig engu máli, þar sem markmiðið var alltaf að hlaupa þetta maraþon á gleðinni, „njóta en ekki þjóta“, þar sem ég var í 100 mílna UTMB hlaupinu fyrir 4 vikum síðan.
Síðast þegar ég gerði þetta, þ.e. fór í götumaraþon 2019, til Fíladelfíu með Rúnu Rut vinkonu, ákveðið með mjög stuttum fyrirvara, þá voru 6 vikur liðnar frá því ég var í 100 mílna hlaupi, þ.a. í Grand Raid Reunion. Núna voru bara 4 vikur frá síðasta langa hlaupi. Veit þetta er ekki skynsamlegt og ekki til eftirbreytni ;-(
Hlaupið gekk mjög vel framan af. Fyrrri helmingurinn, þ.e. hálft maraþon var nokkuð gott, mér leið vel og púlsinn var bara eðlilegur. Svo eftir um 25 km fann ég að ég hafði ekki æft nóg á malbiki (fór lengst 18 km) sem er ekki alveg nógu langt fyrir maraþon. Flestir fara lengst í kringum 30 km. En ég vissi að ég hafði ekki æft nóg og þetta yrði alveg krefjandi, svo þá var ekkert annað að gera, en að hægja á sér, halda áfram að taka inn orku á 5 km fresti. Ég stoppaði og gekk í gegnum ALLAR drykkjastöðvar og drakk vatn og hellti yfir mig. Þó það væri ekki mjög heitt, þá var ég orðin vön því eftir allan hitann í Ölpunum í sumar að hella yfir höfuðið á mér sem og inn á bakið og á hendurnar og mér finnst það mjög gott.
Ég ákvað að njóta líka, svo ég tók mikið af myndum og myndböndum á leiðinni, sérstaklega af skrítnum fígúrum 😊 Fannst verst að ná ekki mynd af manninum sem hljóp berfættur fram úr mér, en hann hljóp svo hratt 😊
Þegar um 37 km voru búnir sá ég svæði þar sem var búið að setja upp mikið af bekkjum og þar voru nuddarar að aðstoða hlaupara sem voru komnir með krampa eða önnur meiðsli. Þar lágu líka maraþonhlauparar á börum og á leið í sjúrkabíl.
Þá hugsaði ég: „Ég ætla bara að klára – ég ætla EKKI að lenda í sjúkrabíl.“ Var líka hugsað til þeirra vina minna sem hafa lent í þessum heima, þ.e. að komast rétt yfir rásmarkmið og lenda á börum eða ná ekki að klára síðustu metrana í mark. Þessar hugsanir gerðu mig ennþá skynsamari og ég ákvað að hægja ennþá meira á mér.
EINA MARKMIÐIÐ mitt VAR AÐ KLÁRA, KOMAST BROSANDI GLÖÐ Í MARK OG SÆKJA FLOTTU MEDALÍUNA.
Síðasti kílómeterinn í hlaupinu er algjörlega magnaður, að hlaupa undir Brandenburgarhliðið og allir áhorfendurnir að fagna, báðum megin við götuna. Þetta er svo stórkostlegt. Svo hleypur maður áfram hinum megin við hliðin og kemur í mark og fer beint inní garðinn (Tiergarten).
FRÁBÆR UMGJÖRÐ, SKIPULAG OG STEMNING
Ég get 100% mælt með Berlínarmarþoninu. Allt skipulag er svo flott og yndislegir sjálfboðaliðar allan hringinn. Ég fékk medalíuna mína, sá að Eliud Kipchoge hafði slegið sitt eigið „World Record“, heimsmet á tímanum 02:01:09, þá var ég rétt búin með hálft maraþon. Ég hringdi í Óla minn, sem var heima að horfa á maraþonið í sjónvarpinu og sagði honum að ég væri komin í mark.
Tíminn minn var 04:20:42 – 20.981 sæti – 5.220 af konum – 542 í aldursflokki.
Gekk svo í gegnum allt svæðið, fékk poka með veitingum, sótti pokann minn með fötunum mínum og fékk einn óáfengan bjór sem var mjög góður.
Fór svo við „Treffen punk“ eða „meeting point“ stað þar sem við vorum búin að ákveða að hittast við „i-ið“ . Þar hitti ég Edda og Jórunni og svo Guðrúnu og Möttu. Lilja, Reynir, Bjarki, Rikki og Guðrún voru löngu komin í mark og farin upp á hótel.
Við biðum smá stund á þessum stað við I-ið, en svo fór að kólna þegar sólin fór og þá ákváðum við bara að skella okkur uppá hótel, tókum neðanjarðarlestina þangað sem er mjög einfalt og þægilegt. Þátttökumiðanum í maraþonið fylgir fjögurra daga lestarpassi.
Eftir sturtu og smá hvíld þá hittumst við á ROOF Bar klukkan 18:00 á hótelinu og fórum svo saman út að borða á Hofbraeu Wirtshaus.
Á maraþon matseðlinum var þríréttað ekta þýskt hlaðborð. Virkilega skemmtileg lifandi tónlist, skemmtilegir slagarar eins og Sweet Caroline og við tjúttuðum heilmikið á dansgólfinu um kvöldið.
MÁNUDAGUR 26. SEPTEMBER 2022
Flugið heim var klukkan 12, svo við borðuðum morgunmat klukkan 8, tókum lestina út á flugvöll klukkan 9 en svo var smá seinkun á fluginu út frá Íslandi um morguninn. Svo fluginu seinkaði um 1 klst.
En það voru sælir og glaðir ferðalangar, margir með medalíuna um hálsinn, aðrir í FINISHER bolum, en allir stoltir eftir flottan árangur í Berlínarmaraþoninu.
ÞAÐ SEM STENDUR UPP ÚR
Það var eitt sem ég myndi gera öðruvísi ef ég væri að fara í maraþon um næstu helgi. Það er að vera í gamla hlýrabolnum mínum sem er með nafninu mínu framan á og íslenska fánanum. Maður fær svo mikla hvatningu og orku frá áhorfendum sem eru að hvetja allan hringinn. Ég ákvað hins vegar að vera í FREE TO RUN hlýrabolnum mínum þar sem ég er að safna fyrir þessi frábæru samtök, sjá nánar hér.
Það sem stendur upp úr eftir helgina, er hvað það er skemmtilegt að kynnast nýju fólki og eignast nýja vini. Hópurinn (sem var mikið saman) náði virkilega vel saman og það var einstaklega gaman að kynnast þeim og vera með þeim.
Mig langar að þakka þeim kærlega fyrir skemmtilega helgi í Berlín og óska öllum hlaupurum innilega til hamingju með glæsilegt maraþon.
Fór í dag í skoðunarferð um Berlín á hjóli með vinkonunum Matthildi og Guðrúnu frá Höfn í Hornafirði, yndislegar stelpur sem ég kynntist hér í Berlínar-maraþonferðinni.
Við hjóluðum að mestu í gömlu Austur Berlín, en fórum líka yfir til Vestur Berlín, en ferðin var mjög áhugaverð og margt sem ég komst að um Berlínarmúrinn sem ég vissi ekki af.
Berlín er virkilega falleg borg og ég get 100% mælt með skoðunarferð um borgina á hjóli. Á ferð okkar rákust við á íslenskan fararstjóra sem var með íslenskan hóp, ég held það gæti verið ennþá skemmtilegri nálgun. En við vissum ekki af honum þegar við bókuðum okkur.
Hér eru myndir úr skoðunarferðinni:
Eftirfarandi viðtal birtist í Fréttablaðinu í dag, 07.09.2022 sjá hér:
Sigurvegari í eigin huga
Í lok ágústmánaðar tók Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé þátt í UTMB hlaupinu í Ultra Trail du Mont Blanc hlaupaseríunni, þar sem hlaupið er hringinn í kringum Mt. Blanc fjallið sem liggur við landamæri Frakklands, Ítalíu og Sviss. Hlaupið er oft kallað „mekka fjallahlaupanna“ en það er 100 mílur (172 km) með rúmlega 10.000 metra samanlagðri hækkun. Hlaupið byrjar í Frakklandi í bænum Chamonix og fer í gegnum Ítalíu og Sviss og þaðan aftur til Frakklands.
„Ég reyndi við þetta hlaup árið 2017 en náði ekki að klára þar sem ég fékk áreynsluastma, sem ég vissi ekki að ég væri með og þurfti því að hætta eftir rúmlega 80 km. Síðan þá hef ég glímt áfram við astmann, en er núna með astmalyf sem hjálpa mér þegar köstin koma. Ég æfði mjög vel fyrir hlaupið og fór auk þess út sem annar tveggja fararstjóra á vegum Náttúruhlaupa með tvo hlaupahópa sem hlupu á sex dögum hluta af hring sem kallast TMB (Tour du Mont Blanc), samtals um 130 km. Ég náði því samtals 300 km fjallahlaupa æfingum í Ölpunum í sumar með rúmlega 20.000 metra hækkun.“
Ógleymanleg tilfinning
Það eru krefjandi tímamörk í UTMB og í ár var 32% brottfall hjá þátttakendum, þar af 43% brottfall hjá konum segir hún. „Ég var aldrei buguð í hlaupinu, var alltaf glöð og ákveðin að klára, þótt ég hefði áhyggjur af astmanum sem tafði mig í bröttustu brekkunum og ég fékk aðeins í magann eins og algengt er í fjallahlaupum.“
Hún segir tilfinninguna að klára þetta hlaup vera einstaka og eiginlega ólýsanlega. „Ég er alltaf með þrjú til fjögur markmið þegar ég fer í krefjandi hlaup. Númer eitt er að komast að ráslínu, sem er ekki sjálfsagt. Það var einstök tilfinning að vera við ráslínuna fyrir framan kirkjuna í Chamonix þegar lagið Conquest of Paradise eftir Vangelis var spilað. Þá komu tár á hvarma. Að vera þarna ásamt rúmlega 2.600 öðrum hlaupurum, þar sem konur voru einungis um 9% hlaupara, var algjörlega magnþrungið.“ Markmið númer tvö er að hafa gaman alla leið sem hún gerði svo sannarlega. „Enda er það hugarfar sem þú stjórnar þrátt fyrir áföll. Markmið númer þrjú er að komast í mark, sem er alls ekki sjálfsagt, enda mikið brottfall og það var stórkostlegt að klára hlaupið.“
Hún segist hafa liðið eins og sigurvegara á lokametrunum þegar hún hlustaði á fagnaðarlæti og hvatningu allra sem tóku á móti henni á göngugötunni í Chamonix um miðjan dag á sunnudeginum. „Ég var svo sem sigurvegari í mínum huga þar sem ég hafði náð öllum markmiðum mínum og þetta var þvílíkur sigur. Svo var skálað í ísköldu Egils appelsíni í markinu og ég knúsaði mömmu og alla vini mína.“
Leiddist út í þríþrautina
Halldóra starfaði á árum áður hjá Íslandsbanka þar sem starfsfólk var hvatt til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og styðja um leið gott málefni. „Ég byrjaði að hlaupa 2009 meðan ég starfaði þar og hljóp mitt fyrsta maraþon og Laugavegshlaup árið 2011. Síðan þá hef ég hlaupið átta maraþon og sjö Laugavegshlaup. Hlaupin þróuðust svo í þríþrautina, þar sem ég keppti fimm sinnum í Ironman keppnum í Evrópu og Bandaríkjunum.“
Samhliða þríþrautinni færði hún sig meira yfir í utanvegahlaupin og hefur verið þjálfari hjá Náttúruhlaupum frá 2014. „Ég lauk fyrsta 100 km hlaupinu mínu 2014 en ég hef klárað tíu hlaup sem eru 100 km eða lengri. Árið 2018 kláraði ég fyrsta 100 mílna (170 km) hlaupið mitt en ég hef hlaupið fjögur hlaup sem eru lengri en 100 mílur. Í ágúst á síðasta ári hljóp ég svo 330 km hlaup sem heitir Tor des Geants 330, en þá hljóp ég í 145 klst og 55 mínútur á Ítalíu hringinn í kringum Ávaxtadalinn.“
Veita gleði og orku
Hún segir hlaupin færa sér mikla gleði og orku. „Það er fátt sem toppar það að hlaupa úti í náttúrunni í góðum félagsskap yndislegra félaga og vina. Að upplifa fegurðina, jörðina, sólina, tunglið, lyktina og fuglasönginn á hlaupum er svo magnað. Maður kemst líka yfir ótrúlega langa vegalengd og líðanin eftir hlaupin er góð. Það er notalega tilfinning að vera þreytt líkamlega en úthvíld andlega og með aukna orku til að njóta vinnudagsins eða kvöldsins,“ en Halldóra starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Styður konur í fjarlægum löndum
Halldóra er einnig sendiherra fyrir samtök sem heita Free to Run og ganga út á að gera konum kleift að fá að fara út og hreyfa sig sem og styðja þær til menntunar og sjálfstyrkingar. „Okkur finnst sjálfsagt að geta farið út að hlaupa en á mörgum stöðum í heiminum er það alls ekki sjálfsagt eins og t.d. í stríðshrjáðum löndum eins og Írak og Afganistan. Þar mega konur ekki fara út að hlaupa og eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Það er hægt að fá frekari upplýsingar um samtökin á freetorun.org og heita á mig og styðja þannig þetta góða málefni.“ ÁHEITA SÍÐA HÉR:
Viðburðarríkt ár framundan
Það er ekki langt í næstu keppni hjá Halldóru en hún er að fara sem hópstjóri með hóp á vegum Bændaferða í Berlínarmaraþonið í lok þessa mánaðar. „Á næsta ári erum við í Náttúruhlaupunum að fara með hóp til Nepal, þar sem við ætlum að hlaupa hæsta maraþon í heimi. Þá er hlaupið frá grunnbúðum Everest niður til Namche Bazaar. Maraþonið byrjar í 5.356 metra hæð og endar í 3.440 metra hæð. Einnig ætlum við að fara með hóp á vegum Náttúruhlaupa í Landvættaferðalag sem er alltaf mjög skemmtilegt.“
Það voru 2.627 sem hófu hlaupið, þ.e. 100 mílna (170 km) hlaup í kringum Mt.Blanc. Af þessum 2.627 hlaupurum voru 9% konur (244) og 91% karlmenn (2.383). Það voru 38 konur sem hófu keppni í mínum flokki (50-54 F).
Það voru 1.789 sem kláruðu 8% konur og 92% karlar, þar af leiðandi 838 sem hætta keppni eða 32% allra þátttakenda.
Af þessum 838 sem hættu keppni voru 106 konur (13%) og 732 karlar (87%).
Það klára því einungis 138 konur af 244 sem hefja keppni (43% brottfall) og 1.651 karl af 2.383 sem byrja (31% brottfall).
Hér eru tímarnir mínir skv https://live.utmb.world/utmb/runners/1056
Ég vann mig upp um 933 sæti samtals.