Takk LSH fyrir virkilega góða þjónustu

by Halldóra
Tölvupóstur sendur til Björns, forstjóra LSH, mánudaginn 16.09.2013

Sæll Björn

Ég heiti Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé og var lögð inn á LSH við Hringbraut deild 12 E – eftir að hafa dottið illa á reiðhjóli þann 18. ágúst sl. og brotið fimm rifbein og viðbein og fengið áverka á lunga og höfuð.

Á spítalanum var ég undir handleiðslu læknanna, Tómasar Guðbjartssonar vegna lungna og höfuðáverka og Brynjólfs Jónssonar vegna viðbeinsbrots sem þurfti að lagfæra.

Þjónustan sem ég fékk á spítalanum var algjörlega einstök, hvort sem var á slysavarðsstofunni, sem ég kom fyrst á, eða á skurðdeild og vöknun á Borgarspítala eða á deildinni minni á Hringbraut.  Allt starfsfólkið sem sinnti mér, læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraflutningamenn og aðrir starfsmenn voru algjörlega í sérflokki, þar sem umhyggja og þarfir sjúklingsins (mínar) voru algjörlega númer eitt.

Þegar ég lá á deildinni var mér oft hugsað til Florence Nightingale, því mér fannst hún oft komin þarna ljóslifandi.  Það eru einstakir starfsmenn á spítalanum, sem sýna manni mikla alúð og umhyggju og ég var alltaf umvafinn slíku fólki á meðan ég lá þar.

Eftir útskrift fór ég í eftirskoðun hjá læknunum upp á spítala sem gekk mjög vel og þar fékk ég góðar móttökur. Báðir læknarnir hafa hringt í mig heim til að kanna líðan mína og nú síðast hringdi Tómas í mig í kvöld til að athuga hvernig ég hefði það og fara yfir verkjalyfin með mér.  Þetta fór sko langt fram úr mínum væntingum.

Mig langaði bara að deila þessari upplifun og reynslu með þér Björn, því mér finnst allt of mikið um neikvæða umfjöllun í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum um starfsemi LSH.  Mín upplifun er einstaklega jákvæð og þú mátt skila kærri kveðju og þakklæti til  Tómasar og Brynjólfs og allra hjúkrunarfræðinganna og sjúkraliðanna á deildinni (Florence Nightingale´s í fleirtölu)

Með kærri kveðju og miklu þakklæti.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé
Kt: 200669-3209

p.s. ég var líka einstaklega ánægð með að hafa þráðlaust gestanet á spítalanum, takk fyrir það

You may also like

Leave a Comment