Stjórnendadagur Reykjavíkurborgar 2022

by Halldóra

Fékk þann heiður að hvetja stjórnendur á stjórnendadegi Rvk.borgar 2022 í Hörpu.

Hér að neðan er ávarpið:

Árið 2009 fór ég í Detox ferð til Póllands. Þar byrjaði ég að hreyfa mig, ganga um í skóginum og tók þá ákvörðun að breyta um lífsstíl bæði hvað varðar matarræði og hreyfingu.

Eftir að ég kom heim skráði ég mig í frábæran hlaupahóp sem hét „Bíddu aðeins“, byrjaði á að ganga og hlaupa á milli ljósastaura, setti mér markmið.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa skýr markmið í vinnunni og í einkalífi. Það að hafa skýra framtíðarsýn eins og við höfum hjá REYKJAVÍKURBORG skiptir megin máli. Við erum til dæmis nýbúin að setja okkur VELFERÐARSTEFNU sem við erum mjög stolt af.

EN það er ekki nóg að marka stefnu það þarf einnig aðgerðaráætlun (eins og við höfum gert) til að ná árangri.
Þegar ég breytti um lífsstíl var fjarlægur draumur að taka þátt í Laugavegshlaupinu (frá Landmannalaugum inn í Þórsmörk) 55 km og að hlaupa heilt maraþon 42,2 km.

Árið 2011 lét ég báða þessa drauma rætast, en til þess þurfti ég að brjóta verkefnið niður í fjölmargar æfingar og fór á námskeið.

Þegar einu markmiði er náð hvort sem er í starfi eða leik, þá þarf að setja nýtt . Ég skráði mig því í Ironman keppni haustið 2011 sem samanstendur af 3,8 km sundi, 180 km hjólreiðum og heilu maraþoni. Ég sem kunni ekki einu sinni að synda skriðsund😊

Ironman markmiðið náðist og ég fagnaði þeim árangri í nóvember 2012 í Cozumel í Mexíkó með yndislegum vinum.

Öll mín markmið tengjast útivist, hreyfingu, vináttu, jákvæðni og gleði.

Við glímum oft við erfið verkefni í störfum okkar og áskoranir.
Þetta getur tekið á og stundum langar okkur hreinlega að gefast upp.

Við höfum mörg upplifað það sama í einkalífinu, við förum af stað með krafti og svo koma einhverjar áskoranir jafnvel hindranir.

Ég þekki þetta af eigin raun, hef fengið brjósklos, handleggsbrotnað í Bláfjallagöngu, dottið af hjóli sem kostaði 10 daga spítalavist en ég hélt ótrauð áfram og gafst ALDREI upp.

VALIÐ ER OKKAR. Ætlum við að standa upp og koma til baka sterkari eða ætlum við að gefast upp, leggjast aftur upp í sófann.

Þegar mér bauðst að synda boðsund með Marglyttunum yfir Ermasundið 2019, þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um.
Þetta var MJÖG STÓR áskorun.

ÁSKORUNIN var sú að ég óttaðist KULDANN í sjónum VERULEGA.

Til að takast á við áskorunina leitaði ég að styrkleikum mínum og komst að því að ég ER GRJÓTHÖRÐ og JÁKVÆÐ.
Þegar ég gekk út í ískaldan sjóinn í Nauthólsvík á fyrstu æfingunni í maí 2019 þuldi ég möntruna mína: Ég er GRJÓTHÖRÐ, ég er JÁKVÆÐ, ég er GRJÓTHÖRÐ, ég er JÁKVÆÐ.

Þessa möntru hef ég einnig notað í starfi þegar ég er að takast á við erfið verkefni.

Eftir smá stund, langar mig að biðja ykkur um að standa upp og HUGSA HVERJIR ERU STYRKLEIKAR MÍNIR 2-3 LÝSINGARORÐ OG SVO AÐ DEILA ÞEIM MEÐ SESSUNAUTI YKKAR !!

Kæru samstarfsfélagar, það að vera stjórnandi á tímum heimsfaraldurs og stríðs í Evrópu er HEIL MIKIL ÁSKORUN, JAFN MIKIL ÁSKORUN og að takast á við ný og krefjandi verkefni í einkalífinu.

Hvet ykkur til að eignast ykkar eigin möntru og þið munið fagna árangri.

You may also like

Leave a Comment