Road 2 Tor Des Geants 2021

by Halldóra

Næsta sunnudag, 12. september næstkomandi, tek ég þátt í lengsta utanvegahlaupi sem ég hef nokkrum sinnum tekið þátt í, bæði hvað varðar vegalengd, hækkun sem og klukkustundir. Hlaupið „Tor des Geants 330“ er 330 km hlaup, með 24.000 metra samanlagðri hækkun og hafa keppendur 150 klukkustundir til að ljúka hlaupinu og ráða sjálfir hversu mikið og lengi þeir sofa á leiðinni. Verð sem sagt að vera komin í mark, laugardaginn 18. september klukkan 18:00 að staðartíma (16.00 að íslenskum tíma).

Um er að ræða hlaup sem byrjar og endar í Courmayor á Ítalíu við Mt.Blanc og er hlaupið rangsælis hringinn í kringum Aosta Valley, eða Ávaxtadalinn, byrjar á AltaVia 2 leiðinni og fer svo AltaVia 1 leiðina.

Gula leiðin er 330 km leiðin byrjar og endar í Courmayeur.
Hæðarkort og drykkjarstöðvar og LIVEBASE á ca 50 km fresti, þar sem ég skipti um föt og kemst í töskuna mína.

UNDIRBÚNINGUR
Undirbúa þarf hlaup eins og þetta vel og æfa vel en svo eru ýmsar hindranir á leiðinni. Undirbúningur fyrir svona langt hlaup er jafnmikið andlega og líkamlega og vona ég að 10 ára keppnis- og æfingareynsla sé góður undirbúningur.

TÍU ÁRA UPPSÖFNUÐ REYNSLA
Það eru nákvæmlega 10 ár í sumar síðan ég tók þátt í mínu fyrsta alvöru utanvegahlaupi, Laugavegur Ultra árið 2011 og ég hljóp líka Jökulsárhlaupið í fyrsta skipti sama sumar. Ég fór líka í mitt fyrsta maraþon í Kaupmannahöfn sama vor. Síðan þá hef ég klárað átta maraþon, átta utanvegahlaup sem eru 100 km eða lengri, tvö 100 mílna hlaup, fimm Ironman keppnir, auk þess að klára íslenska Landvættinn tvisvar, Sænska Klassíkerinn einu sinni, tekið þátt í boðsundi yfir Ermasund, hjólað Jakobsstíginn á 9 dögum og klárað sex daga Bhutan stage race 200 km og gengið í grunnbúðir Everest. Sjá nánar hér að neðan:

Ég er einnig nýkomin úr frábærri æfingaferð með yndislegum vinahjónum okkar, þeim Iðunni og Stefáni Braga, þar sem við fórum langleiðina af Alta Via 1 leiðinni, þ.e. síðari helming hlaupsins. Stefán Bragi er einn af þremur Íslendingum sem hafa lokið þessu hlaupi og það var því dýrmæt reynsla að fá að vera með honum og þeim hjónum á Ítalíu á TOR slóðum. Endaði svo þetta æfingaferðalag með því að taka þátt í OCC hlaupinu 57 km í kjölfarið. Þessar tvær vikur eru klárlega frábær undirbúningur og félagsskapurinn úti í Chamonix var algjörlega einstakur. Náði að hlaupa/ganga samtals 209 km á þessum tveim vikum sem ég var úti.

AF HVERJU TOR DES GEANTS?
Maðurinn minn spurði mig einmitt í morgun af hverju ég væri að fara í þetta hlaup? Örugglega margir sem velta því fyrir sér af hverju 52 ára kona sem er búin að fá brjósklos og lenda í ýmsum hremmingum sé að fara að hlaupa 330 km hlaup, ein frá Íslandi og án þess að vera með aðstoðarmenn með sér. Það er góð og verðug spurning. Held að svarið sé að ég vilji vera stöðugt að skora á sjálfa mig. Ég man hvað mér fannst Laugavegur Ultra hræðilega löng og krefjandi leið fyrir 10 árum, þegar ég gekk Fimmvörðuháls með vinum mínum í Toppförum fyrr um sumarið, og skildi ekki hvernig hægt væri að hlaupa þessa vegalengd innan tímamarka. Svipuð tilfinning var í maganum (eða hausnum), þegar ég fór mitt fyrsta 100 km hlaup 2014, fannst þetta óraunveruleg vegalengd, tala nú ekki um þegar ég fór mitt fyrsta 100 mílna hlaup (169 km) þá farin að lenda í asma vandræðum þegar ég fór í brött fjöll og mikla hæð.

Þetta skref núna að fara 330 km á tveimur jafnhröðum er næsta skref í því að reyna á bæði líkamann og ekki síður „hausinn“, þ.e. hvor er sterkari. Oft kemur „neikvæði apinn“ á öxlina sem segir þetta fáránlega hugmynd, hver fékk hana eiginlega og hvað ég sé eiginlega að gera. Svo kemur hugrakka fallega og gáfaða Uglan á öxlina sem segir, „Halldóra, sjáðu fallegu blómin, sjáðu útsýnið, fallegu fjöllin, allt þetta yndislega fólk sem er að hvetja þig áfram. Sjáðu hvað þú ert öflug að vera komin hingað, sem er alls ekki sjálfsagt. Það eru margir að berjast við sjúkdóma og eða önnur veikindi sem myndu vilja vera í þínum sporum,“ og þá er ég þakklát. Uglan er skynsöm og ég lofa að vera skynsöm. Þetta verður því 10 ára afmælishlaupið mitt 🙂

STUÐNINGUR – ALPARNIR – SALOMON
Ég hef fengið frábæran stuðning frá Ölpunum með Salomon fatnað, hlaupavesti og skó. Salomon fötin, vestin og skórnir eru að mínu mati bestu trailföt, skór og búnaður og henta frábærlega í utanvegahlaupum. Ég er einstaklega þakklát fyrir þennan frábæra stuðning því það þarf mikinn búnað í svona ferðalag. Búin að prófa allan búnaðinn í æfingarferðinni sem reyndist einstaklega vel. Takk kærlega fyrir mig.

Takk elsku Beta (Elísabet Margeirsdóttir) fyrir planið og hvatninguna og aðstoðina við pökkun sem er alls ekki einfalt. Beta er eina íslenska konan sem hefur klárað þetta hlaup. Takk kæri Stefán Bragi fyrir að deila öllum þínum gögnum og viskubrunni og aðstoð og yndislegu æfingaferðina með ykkur Iðunni.

Hlaupið hefst næstkomandi sunnudag klukkan 12 að staðartíma, þ.e. 10 á íslenskum tíma og ég mun tryggja það að þeir sem vilja geti fylgst með mér .

AFREKSSKRÁ FRÁ 2011
Hér að neðan er að finna helstu íþróttaafrek síðustu 10 ára.

2021: UTMB OCC 57 km, Laugavegur Ultra 55 km, Súlur vertical 29 km, Þorvaldsdalsskokkið 26 km (allar Landvættaþrautirnar), Vatnajökull þveraður á gönguskíðum

2020: Laugavegur Ultra 55 km

2019: The Diagonale des Fous 166 km, Laugavegur Ultra 55 km, HongKong Ultra 100 km, Philadelpia maraþon og Reykjavíkur maraþon (Marglyttu-boðsund yfir Ermasundið)

2018: UT4M Xtreme 169 km, Laugavegur Ultra 55 km, Bhutan The Last Secret 200 km, HongKong Ultra 100 km, Ironman Texas og Grunnbúðir Everest

2017: Laugavegur Ultra 55 km, HongKong Ultra 100 km, Boston maraþon

2016: Lavaredo Ultra 119 km, Reykjavíkur maraþon (allar En Svensk Klassiker þrautirnar í Svíþjóð)

2015: UTMB CCC 101 km, Mt Esja Ultra 77 km, Ironman Florida, Sevilla maraþon, WOW Cyclothon, 10 manna lið.

2014: Sierra de Las Nieves 102 km, Ironman Kalmar Sweden

2013: Ironman Frankfurt Germany, Jakobsstígur hjólaður 800 km (allar Landvættaþrautirnar)

2012: Ironman Cozumel Mexíkó, Reykjavíkur maraþon, París maraþon, WOW Cyclothon 4ja manna lið.

2011: Laugavegur Ultra 55 km, Copenhagen maraþon

You may also like

Leave a Comment