Ísbirnir í grunnbúðir Everest – komudagur í Kathmandu = (20.okt)

by Halldóra

Lentum á flugvellinum í Kathmandu klukkan 09 um morguninn á staðartíma, eða um klukkan 03:30 á íslenskum tíma, næstum sólarhringsferðalagi lokið.  Við Óli flugum fyrst til Osló klukkan 07:20 (föstudaginn 19.okt), stoppuðum þar í um 2 klst (2 klst munur þar), flugum svo frá Osló til Dubai klukkan 14:30 lentum í Dubai klukkan 23.20 á staðartíma (þá búin að tapa 2,3 klst í viðbót).  Á flugvellinum í Dubai hittum við aftur ferðafélaga okkar sem höfðu flogið í gegnum Köben í stað Osló og flugum svo með þeim til Kathmandu, klukkan 02:50 og lentum eins og fyrr segir um klukkan 09:00 að morgni (töpuðum þar 1 klst í viðbót). Þannig að tímamunur er nú 5,3 kls, þ.e. sem við erum á undan Íslandi.

Leifur kom og tók á móti okkur á flugvellinum, en það tók sinni tíma að komast í gegnum hann. Á flugvellinum í Nepal, þarftu að kaupa ferðamannapassa, kostar 40 USD á mann fyrir 30 daga. Það voru kioskar sem var hægt að nota til að sækja um, en mjög margir bilaðir. Önnur leið var að fara með mynd af sér og útfylla sérstakt eyðublað.  Okkur tókst að klára að sækja um í þriðja kioskinum sem við komumst í 🙂  Eftir það tók við önnur löng röð, þ.e. fyrri röðin var til að greiða fyrir og hin síðari var til að komast svo inn í landið og þetta tók allt um 2 klst. Þannig að allur farangurinn var löngu kominn þegar við loksins komum í gegn.

Fórum svo með rútu frá flugvellinum inn í borg. Áður en við fórum í rútuna, fengum við fallegan „velkomin“ silkiklút um hálsinn, eins og við fengum í Bhutan, skemmtilegur siður. Við tók svo um 30 mín ferð á hótelið okkar. Það er margt líkt með Nepal og Bhutan, nema hér eru engir karlmenn í pilsum og krakkarnir ekki í skólabúningi, en þess í stað eru allar konur hérna í virkilega fallegum kjólum í skærum litum.

Fyrstu dagana stóð yfir allra heilagasta hátíð Hindúa í Nepal, Dashian.  Mikil hátíðarhöld hafa verið í landinu og má segja að þessi hátíðarhöld séu eins og jólin hér í Nepal.  Kathmandu er höfuðborg Nepal og hér búa um 1,5 milljón íbúa en í landinu öllu um 30 milljónir., sjá nánar hér:

Við komum á hótelið okkar,  Gokarna Reosort um klukkan 12:00. Eftir að hafa þegið móttökudrykk, þá fórum við á útibarinn og fengum okkur hádegismat og drykk. Fengum svo herbergin okkar rúmlega eitt og náðum mjög stuttum lúr, áður en við hentum okkur í skoðunferð með Leifi, klukkan 14:00.

Ferðinni var heitið í Bouddhanath Stuppa (e.Bouddha Stupa) sem er á heimsminjaskrá Unesco, er „Monestaries of Four tradition“, sjá nánar hér:  Margar byggingar fóru illa út úr jarðsjálftanum 2015 og ennþá er verið að gera mikið við hérna.

Eftir að hafa skoðað „stúpuna“, þeirra Guðshús, þá  fengum við okkur kaffi og öl uppá þaki á fallegu veitingahúsi, síðan var ekið heim.

Vorum komin heim rúmlega fjögur. Sumir fóru í Spa og sund, aðrir í göngutúr, eða leggja sig, en ég ákvað að skokka um svæðið, sem er mjög lokað. Á öllum endum þess eru vopnaðir verðir, svo það var eiginlega ekki hægt að skokka mikið eða langt. Ég fór samt upp og niður nokkra tröppustíga sem ég fann og skokkaði svo götuna niður að aðalgötu, þar sem er mikil umferð og mengum og mig langaði ekki að hlaupa hana, ómalbikuð og því mikið ryk.  En með því að fara tvo hringi náði ég 5 km skokki – sem var bara yndislegt.

Við borðuðum svo kvöldmat á hótelinu, fórum í hlaðborð á veitingastaðnum niðri. Maturinn minnti mjög á matinn í Bhutan, kjúklingurinn allur í beini, eins og hann hefði bara verið settur í hakkavél (það var verið að selja lifandi hænur á götunni sem við keyrðum í dag) og nautakjötið frekar seigt. En sósurnar voru sterkar og góðar og pastað var fínt og desertinn mjög góður.

Fórum snemma að sofa, enda orðin mjög þreytt eftir að hafa ferðast í um sólarhring og lítið sofið á leiðinni.

En hótelherbergið er mjög fínt stórt og rúmgott.

You may also like

Leave a Comment