Hvað eru náttúruhlaup ?

by Halldóra

Var á kynningarfundi fyrir næsta Náttúruhlaupanámskeið í kvöld. Það er svo gaman að fara aftur á kynningarfund núna nokkrum árum eftir að ég byrjaði sem aðstoðarmaður hjá Elísabetu í svarta hópnum.

Nokkru síðar stofnuðum við vínrauða hópinn sem ég fékk að leiða í upphafi og þetta ferðalag síðustu árin er búið að vera algjörlega einstakt.

Birkir framkvæmdastjóri og Elísabet kynntu námskeiðið og eftirfarandi puncta sem mig langar að deila með ykkur:

1. EIN BESTA LEIÐIN TIL AÐ SKOÐA NÁTTÚRUNA
Á náttúruhlaupaæfingunum löngu á laugardögum (og fimmtudögum á námskeiðinu) er alltaf farið á mismunandi staði og nýjar leiðir kynntar. Þetta er klárlega ein besta leiðin til að skoða náttúruna, því maður sér svo margt og kemst svo víða á mjög stuttum tíma.

2. NJÓTUM UMHVERFISINS OG HREYFINGARINNAR
Það er mikill munur að hlaupa á malbikinu eða í náttúrunni. Fyrir utan það hvað það fer mikið betur með mann að hlaupa á mjúku undirlagi. Auk þess gefur það manni mikla orku að hlaupa úti í náttúrunni.

3. RÖTUN OG UPPGÖTVUN
Á námskeiðinu höfum við lært að rata og höfum auk þess uppgötvað mikið og margar nýjar og skemmtilegar leiðir.

4. VILJUM HLAUPA SEM VÍÐAST
Við í Náttúruhlaupunum viljum hlaupa sem víðast og það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði í Náttúruhlaupunum er hvað það eru margar frábærar leiðir við bæjardyrnar. Nýir staðir sem ég hafði aldrei séð áður en hef nú uppgötvað, meira að segja í bakgarðinum heima hjá mér. 😊

5, KREFJANDI EN FJÖLBREYTT HREYFING
Náttúruhlaup eru krefjandi að því leiti að undirlag er mismunandi, stundum er grýtt, stundum rætur sem standa upp úr stígunum, oftast er undirlagið mjúkt, en stundum hart. Hreyfingin er því mjög fjölbreytt og skemmtileg.

6. GÓÐUR FÉLAGSSKAPUR
Góður félagsskapur er ómetanlegur og í dag eru bestu vinir mínir hlauparar. Við erum alltaf að njóta hreyfingarinnar, höfum gaman og erum stöðugt að læra. Náttúruhlaup eru frábær félagsskapur sem er algjörlega ómetanlegur.

7. FULLT AF SKEMMTILEGUM GRÆJUM
Þar sem ég er algjör græjufíkill, þá er mjög gaman að fá tækifæri til að eignast nýjar græjur t.d. í jólagjöf eða afmælisgjöf sem tengist þessu einstaka áhugamáli mínu og í raun lífsstíl, hlaupaskór, hlaupabakpoki, hlaupajakki, sokkar, hlaupastafir, höfuðljós eða hlaupaúr eru allt skemmtilegar græjur.

Tilgangurinn með Náttúruhlaupum er að bæta heilsu og auka hamingju fólks með því að leiða það inn í nýjan lífstíl og vera farvegur fyrir fólk til að stunda hlaup í náttúrunni í góðum félagsskap.

Náttúruhlaup er hlaupasamfélag þar sem pláss er fyrir alla getuhópa, allt frá algjörum byrjendum í vana, hraðskreiða hlaupara. Hvet þig til að taka þátt og vera með okkur í Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa með því að skrá þig á www.natturuhlaup.is

You may also like

Leave a Comment