Halldóra óstöðvandi

by Halldóra

Hér að neðan er grein sem birtist í Morgunblaðinu 11. apríl síðastliðinn. Sjá hér á mbl.is

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé hefur verið óstöðvandi síðan hún komst á hlaupabragðið 2011 og að undanförnu hefur hún líka látið á sig reyna í skíðagöngu. „Ég er vel gift, æfi fyrir og eftir vinnu og æfingar og keppni eru mín skemmtun, minn félagsskapur, mitt líf. Ég elska að takast á við nýjar áskoranir.“


Ekki verður annað sagt en að skammt sé stórra höggva á milli hjá Halldóru. Í fyrrahaust setti hún persónulegt met þegar hún lauk 350 km fjallahlaupinu Tor des Géants á Ítalíu. Í árslok 2021 gekk hún 120 km í styrktarskíðagöngu fyrir Ljósið og er það sennilega Íslandsmet kvenna. Fyrir skömmu gerði hún gott betur, þegar hún var með í sænsku Vasagönguskíðakeppninni og gekk vegalengdina, sem er um 90 km, í þrígang á einni viku eða samtals 270 km. Í sumar ætlar hún síðan að hlaupa þrisvar umhverfis Mont Blanc, hæsta fjall Alpanna. Fyrst hleypur hún tvisvar sem leiðsögumaður á vegum Náttúruhlaupa og síðan sem þátttakandi í 100 mílna (167 km) keppninni Ultra-Trail du Mont Blanc (UTMB).


„UTMB hlaupið 26. ágúst er stærsta áskorunin í sumar en undirbúningurinn felst í mörgum hlaupum eins og Laugavegshlaupinu, Lavaredo hlaupinu og auðvitað Mt. Blanc ferðunum,“ segir Halldóra. „Ég náði ekki að klára hlaupið vegna tímamarka 2017, en stefni að því núna með gleðina að leiðarljósi.“

Í Vasagönguvikunni (Vasaloppet) er boðið upp á tólf mismunandi gönguskíðakeppnir, frá 10 km upp í 90 km göngu. Halldóra var búin að eiga miða í aðalkeppnina í tvö ár þar sem hún komst ekki vegna Covid 19. Hana langaði að prófa að fara í „Opið spor“ (Öppet spär) keppnina með góðum vinum, en það er sama vegalengd og í aðalkeppninni, þ.e. 90 km leiðin frá Sälen til Mora. Þá var hún minnt á að aðalkeppnin í ár væri 100 ára afmæliskeppni og hún hvött til að vera með. Þar sem hún hafi formlega átt eftir að ljúka næturkeppninni (Nattvasan), sem er líka sama vegalengd og leið, hafi hún ákveðið að vera með í öllum þremur keppnunum.

„Ég veit ekki um aðra Íslendinga sem hafa farið í þrjár 90 kílómetra langar göngur á einni viku,“ segir Halldóra. „Ég lauk fyrstu Vasagöngunni 2016 og ætlaði aldrei aftur að taka þátt í henni, því mér þótti hún svo erfið.“ Þá hafi hún því ákveðið að ljúka á sama ári sænsku fjögurra þrauta keppninni „En Svensk Klassiker“ sem svipar til Landvætta á Íslandi. „Ég var fljót að gleyma sársaukanum og fór árið eftir í næturkeppnina, sem ég náði reyndar ekki formlega að ljúka þá, og fór svo á ný í aðalkeppnina 2019.“

Halldóra segir að erfiðið hafi verið mikið en andlegi þátturinn hafi skipt mjög miklu máli. „Í fyrstu keppninni gekk ég með vinkonu minni og félagsskapurinn var mjög skemmtilegur. Í næturgöngunni var mjög kalt, allt að 20 stiga frost um nóttina, og freistingin því mikil að hætta og fara inn í heita rútu á drykkjarstöðvum. Maður kemst alltaf lengra en maður heldur og rétta hugarfarið skiptir öllu, að vera jákvæður og glaður. Ég er með möntru, „grjóthörð og jákvæð“, og mæti erfiðleikum eins og öðru mótlæti í daglegu lífi. Kuldinn var mikil áskorun í næturgöngunni, ég datt og týndi staf, bað til guðs og fann hann óbrotinn í niðamyrkrinu.“ Halldóra lagði þreytt af stað í aðalkeppnina en ákvað að taka þátt í gleðinni. „Ég er ekki besta skíðagöngukonan en ég hef gaman af þessu, rétt eins og ofurhlaupunum. Gangan fyrir Ljósið var góður grunnur að Vasagöngunum þremur.“

You may also like

Leave a Comment