Fimmvörðuháls júlí 2019

by Halldóra

Við skelltum okkur á fimmvörðuháls í dag. Við Hildur notuðum „styttinguna“ og hættum 13:30 og fórum út úr bænum með Ingu, Guðmundi Smára og Kristínu. Beta, Siggi og Hilmar höfðu farið úr bænum um morguninn, en þau ætluðu að hlaupa Fimmvörðuhálsinn fram og til baka, þ.e. frá Þórsmörk yfir í Skóga. Beta og Siggi ætluðu svo til baka með okkur, en Hilmar á bílnum með Guðmundi Smára á bílnum inní Þórsmörk.

Við lögðum af stað frá Skógum klukkan 16:08 (skv.Garmin), þá var Beta komin inní Skóga, en Siggi og Hilmar á leiðinni niður eftir. Við ákváðum ekki að bíða eftir þeim, heldur leggja af stað, vissum að þau myndu ná okkur.

Ferðin upp gekk ótrúlega vel, auðvitað mikið af ferðamönnum í tröppunum að skoða fossana. Veðrið var frábært, sól og hlýtt og ég bara á hlýrabolnum. Var samt bæði með hnéhlífar og bakbelti þar sem ég var slæm í bakinu. Dóri sjúkraþjálfari í fæðingarorlofi 🙂

Beta og Siggi náðu okkur svo áður en við vorum komin að Baldvinsskála, en Hildur hafði farið á undan okkur og við hittum hana þar. Ég var fegin að það var mjög snyrtilegur kamar þar. Hafði gert þau mistök að fá mér Chia graut á N1 á Hvolsvelli, sem mér leist svo vel á 🙂

Ferðin áfram gekk vel, það var ótrúlega lítill snjór uppá jöklunum (Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull) við Magna og Móða, og snjórinn bara þægilegur yfirferðar. Kom sjálfri mér á óvart hversu óhrædd ég var yfir heljarkamb og Kattarhryggirnir voru bara þægilegir og fallegir.

Við vorum komin inní Þórsmörk ca 19:45 en við vorum 3 klst og 36 mín á leiðinni, heildartími, en tími á ferð var 3 klst og 22 mín. Fór smá tími í að stoppa og taka myndir og njóta 🙂

Yndisleg ferð með frábæru fólki, takk Guðmundur Smári fyrir að skutla okkur að Skógum og sækja okkur í Þórsmörk, en hann hljóp á móti okkur upp að Magna og Móða.

You may also like

Leave a Comment