Tók þátt í Dyrfjallahlaupinu í dag í yndislegu veðri og skemmtilegum félagsskap. Hlaupið gekk mjög vel en ég kláraði það á 3:17:55 og var 10 konan í mark og 44 samtals. Leiðin er ofboðslega falleg og ég að sjálfsögðu stoppaði nokkrum sinnum til að taka myndir, sjá nánar í myndbandinu hér að neðan.
Fjallahlaup
Fór með Laugavegshópi Náttúruhlaupa til Vestmannaeyja í morgun. Veðurspáin alla vikuna var mjög góð, breyttist samt á síðustu stundu, í rigningu og þoku.
Sameinuðumst í bíla í Olís við Rauðavatn og fórum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og það gekk mjög vel.
Ferðin yfir tók bara um 35 mínútur. Þar tóku á móti okkur eðalhjónin Róbert Marshall og konan hans Brynhildur Ólafsdóttir, sem bæði eru fararstjórar hjá Ferðafélagi Íslands og hafa leitt Landvættahóp Ferðafélagsins.
Við byrjuðum svo á að hlaupa frá höfninni í gegnum bæinn og upp á Eldfell. Eftir það fórum við upp á Helgafell og Sæfjall. Eftir Sæfjall tókum við aukakrók upp á Stórhöfða. Síðan var hlaupið að golfvellinum og inn í Herjólfsdal.
Upp úr Herjólfsdal var farið upp á Dalfjall. Við slepptum Blátind i vegna veðurs, en héldum áfram eftir Eggjum, á Molda og niður um Sprönguna. Þar sýndi Róbert Marshall okkur hvernig á að spranga. Hlupum svo um hafnarsvæðið að Heimakletti sem var síðasta fjallið og ansi bratt.
Þegar við komum niður af Heimakletti, hlupum við í sund, þar sem sundtaskan beið okkar.
Eftir sund var kíkt á ölhús Vestmannaeyja og svo borðuðum við saman á Slippnum.
Fórum svo með bát til baka klukkan 19:30.
Frábær dagur í Vestmannaeyjum, en ég þarf klárlega að koma aftur til að upplifa þennan fallega og skemmtilega hring í betra veðri.
Fór þessa helgina (23.-24. júní 2018) Laugaveginn (frá Landmannalaugum í Þórsmörk) á tveimur dögum með Náttúruhlaupurum.
Ferðin hófst í Reykjavík klukkan 08:00 þar sem við fórum 19 manna hópur saman í rútu inn í Landmannalaugar.
Við lögðum af stað rétt um hádegisbil, en þá vorum við búin að græja okkur taka hópmynd, fara á salernið og skila af okkur „trúss“ töskunni sem var keyrð í Hvanngil þar sem við gistum.
Veðrið inní Landmannalaugum var ágætt. Svo fór að rigna og kólna og leiðin upp að Hrafntinnuskeri var orðin ansi blaut og köld.
Verð að viðurkenna að það voru farnar að renna á mig tvær grímur, hvort við yrðum hreinlega að snúa við og láta sækja okkur aftur inn í Landmannalaugar, þar sem Gunnur hafði sagt við mig stuttu eftir að við lögðum af stað, að við yrðum að vera tilbúnar í það.
Þegar við komum í skálann að Hrafntinnuskeri var fremri hópurinn búinn að vera þar dágóða stund til að hlýja sér og ákvað að drífa sig út, þegar við í síðara hollinum komum þar inn, enda ekki mikið pláss fyrir marga í anddyrinu í skálanum.
Það var mikill snjót á leiðinni frá Hrafntinnuskeri að Álftavatni og mikið rok, rigning og bara verulega kalt.
Eftir að við komum niður Jökultungurnar, minnkaði rokið og veðrið var mun skárra.
Þá var bara að koma sér að Álftavatni og svo þaðan að Hvanngili þar sem við gistum.
Elduðum hakk og spaghettí með fullt af grænmeti og Royal búðingur með mangói.
Á sunnudeginum fengum við bongóveður, meira að segja sól og þurrt.
Áttum því yndislegan dag frá Hvanngili niður í Þórsmörk og nutum hans alla leið.
Á leiðinni í bæinn frá Þórsmörk komum við – við í Miðgard á Hvolsvelli og fengum okkur frábæran hamborgara og smælki, allt virkilega gott.
Þakka frábærum ferðalöngum mínum fyrir yndislegar samverustundir í þessari tveggja daga ferð um Laugaveginn.
Fór í frábæra æfingu með Laugavegshópi Náttúruhlaupa í kvöld. Það var „þurrt“ til tilbreytingar, en mikið rok og blés vel á móti okkur á leiðinni upp. Mikið er gott og gaman að æfa með fólki sem er í betra hlaupaformi en maður sjálfur, því þá tekur maður aðeins á því og ég átti mjög góðan tíma upp að Steini í kvöld og sólin skein á okkur.
Fór mjög varlega niður og hljóp eiginlega bara á vinstri fæti niður, þar sem hægra hnéð er ennþá hálf laskað eftir byltuna á laugardaginn. Skilaboðin frá Halldóri sjúkraþjálfara í morgun voru að hvíla svolítið hlaupin, alla vega fram að helgi, þar sem Laugavegurinn á 2 dögum er framundan. En hann setti lazer á bólgurnar á hnéð í morgun. Freystingin fyrir hreyfíkilinn að fara Esjuna var samt meiri en skynsemin og því var bara niðurhlaupið tekið af skynsemi 😉
Það var yndislegt að komast á æfingu með Laugavegshópi Náttúruhlaupa í morgun.
Beta var búin að bjóða okkur Gunni og Ingvari að koma þegar námskeiðið okkar væri búið og æfa og taka þátt í leiðsögn með hópnum fram að Laugavegi, en við ásamt Gunnari erum öll að fara í Laugavegshlaupið.

Laugavegshópur Náttúruhlaupa fyrir utan Ásvallalaug
Æfingin hófst í morgun í Ásvallarlaug í Hafnarfirði og við hlupum upp að og í kringum Helgafellið virkilega skemmtilega leið.

Við gleymum því aldrei að njóta og ná tengslum við náttúruna eins og sjá má á þessari mynd.
Eins og svo oft áður þetta vorið, þá rigndi aðeins á okkur og eins og hefur komið fyrir áður, þá flaug ég á hausinn og lenti illa á hnjánum og maganum og höndunum. Gerði gat á buxurnar og jakkann og blæddi mikið úr sárum víða á höndunum á mér. Hefði verið sniðugt að vera með grifflurnar sem Ívar var að sýna mér um daginn með púðum 🙂
Ég var heppinn að Gunnur var með first-aid kit á sér svo við gátum hreinsað sárið og sett á það plástur og svo héldum við áfram.
Þetta var fallegur morgun. Fórum um 27 km leið.
Var sjálfboðaliði í Mt. Esja Ultra 2018. Á föstudagskvöldinu tók ég þátt í að setja upp rás- og endamarkið og tjaldið fyrir þátttakendurna sem voru að fara 11 Esjur. Svo tók ég líka þátt í að merkja leiðina, þ.e. dalinn sem farið er upp eftir að komið er niður Kerhólakamb. Þegar ég fór þessa leið í fyrra í Mt. Esja Ultra maraþoninu, þá tókst mér ásamt mörgum öðrum að villast á leiðinni, þar sem það var mikil þoka og ég var ekki með leiðina í úrinu hjá mér. Merktum því leiðina alveg upp að skífu á Þverfellshorni. Veðrið var yndislegt þetta kvöld, svo það var gaman að merkja þessa leið og njóta kvöldsins.
Á laugardeginum, eftir lokaæfingu Náttúruhlaupanámskeiðsins þetta vor, tók ég að mér 2 klst vakt að Steini. Það var grenjandi rigning, rok, kalt og mikil þoka, ekki alveg sama fallega veðrið og var á föstudagskvöldinu. Ég var sem betur fer vel búin í þrem buxum og þrem peysum, goretex jakka og buxum og primaloft úlpu, húfu og skíðalúffur, enda veitti ekki af.
Það var virkilega gaman að hvetja þátttakendur og þess á milli dansaði ég og hoppaði „París“ 🙂
Tók svo að mér að bera rúmlega 10 kg tímatökubúnaðar tösku niður frá Steini, svo ég náði að eiga PW göngu niður, en þetta var klárlega besta æfing dagsins, að fara niður í gönguskóm með þessa aukaþyngd á öxlunum 🙂
Lokaæfing Náttúruhlaupa þetta vorið fór fram á Nesjavallasvæðinu þ.e. byrjuðum hlaupið við Ion hótelið.
Svæðið í kringum Ion hótelið er ofboðslega fallegt og þarna eru margar frábærar gönguleiðir. Þær eru vel merktar. Um er að ræða svartar, bláar, grænar og rauðar leiðir, allt eftir erfiðleikastigi.
Við vorum búin að fara í þrjá könnunarleiðangra um svæðið til að velja réttu leiðarnar fyrir mismunandi hópa. Á þriðjudeginum í síðustu viku fórum við grænu leiðina, en hún var bara 9 km. Á fimmtudeginum tókum við því bláu og svörtu leiðina, sem var um 16 km, en mjög krefjandi, bæði brött og snjór á henni. Í morgun fyrir lokaæfinguna, hlupum við auka grænan hring, sem við vildum bæta við grænu leiðina frá því á þriðjudag.
Það er ekki hægt að segja að veðrið hafi leikið við okkur í dag, en hins vegar er alltaf yndislegt að fara út að hlaupa þegar maður er búinn að klæða sig vel þá verður manni ekkert kalt.
Við lentum því miður í því að ein úr mínum hópi datt og fékk skurð á ennið, en þá kom í ljós hversu samheldinn og yndislegur þessi hópur er. Allir voru boðnir og búnir til að aðstoða og það gekk mjög vel að koma sjúklingnum niður á veg og í bíl til að komast sem fyrst á slysó. Fór betur en á horfðist.
Flestir fóru svo í heita pottinn og mat í Grímsborgum, en ég var búin að lofa mér í vinnu í Mt. Esja Ultra maraþoninu, svo ég varð að drífa mig í bæinn.

Stolt af því að tilheyra þessum flotta þjálfarahópi Náttúruhlaupa
LOKAATHÖFN BHUTAN THE LAST SECRET
Við vorum keyrð á lúxushótelið Zhiwa Ling Hotel í Paro í Buthan. Hótelið er skráð sem „Unique Lodges of the World“ í National Geographic, enda einstaklega fallegt. Bekka sagði okkur Betu að hringja strax og panta nudd, sem var einstaklega gott ráð, því það varð uppbókað á svipstundu. Það var starfsmaður sem fylgdi okkur Betu á herbergið og við fengum hana til að aðstoða okkur og hún bókaði bæði heilnudd og „body scrub“ fyrir okkur, samtals 90 mín tíma.
Camp 6: Drukyal Dzong (2.582 m hæð – gistum hjá munkunum/bóndabær)
Stage 6: 14,6 km / hækkun 1.205 m / lækkun 691 m
YFIRLIT = SÍÐASTA DAGLEIÐIN
Síðasta dagleiðin, um 14,6 km voru frá Drukyal virkinu (2.582 m) að Tiger’s Nest. Farið var í gegnum fallega dali og meðfram ánni, áður en komið var að rótum Tiger’s Nest. Eina drykkjarstöðin var þar, eftir 10,7 km og þá tók við mjög mikið og bratt klifur 3,9 km upp í Tigers Nest.
Camp5: Paro (2.280 m hæð – gistum í bóndabæ)
Stage 5: 53,5 km / hækkun 2.048 m / lækkun 1.745 m
YFIRLIT YFIR STAGE 5
Stage 5 er lengsta leiðin í kílómetrum eða 54 km og í raun líka lengsta dagleiðin fyrir flesta í klukkustundum og mínútum. Hlaupið er í gegnum dalinn í Paro (2.280 m). Hópnum var skipt í tvennt. Átján fremstu hlaupararnir eftir fyrstu fjórar dagleiðirnar voru ræstir klukkan sjö en hinir klukkan sex. Farið er fram hjá virkilega fallegu virki í Paro „The Paro fortress“, flugvellinum og vænum hrísgrjónaökrum, auk þess að fara fram hjá, fótspori Tiger’s Nest. Endamark dagsins er við Drukyal virkið (2.582 m). Virkið var byggt til að fagna sigri Bhutan á innrásarher þeirra, en það er verið að gera það upp núna. Drykkjarstöð 1= 10,7 km. Drykkjarstöð 2 eftir 10,3. Drykkjarstöð 3 eftir 10 km. Drykkjarstöð 4 eftir 10 km. Lokamarkið eftir 11.7 km.